« West Ham v Man Utd | Main | Orðrómar á orðróma ofan »

desember 18, 2006

West Ham 1 - Man Utd 0

Mér er meinilla við að vera sannspár en einhvern tíma hlaut United að tapa og þá var kannski ágætt að það yrði til að hækka hlutabréfin í Landsbankanum og Frón. Hamrarnir spiluðu eins og þetta væri úrslitaleikur í meistaradeild. Þeir voru fastir fyrir og hver einasti maður var að spila fyrir stöðunni sinni. Þar sem lent hafa í yfirmannaskiptum í samkeppnisumhverfi vita að vikurnar eftir skiptin er markið sett hátt og menn reyna að standa sig á hvern þann veg sem menn geta. Nákvæmlega þetta gerðist á sunnudaginn. Leikmennirnir bættu í og náðu markmiðum sínum og gott betur.

Man Utd var ekki að að spila illa, leikur þeirra félaga, Saha og Rooney frammi var reyndar ekki upp á marga fiska, en Ronaldo sá um að hrista vel upp í hlutunum og olli Konchesky og félögum síendurteknum vandræðum.

Phil Dowd iðkaði þá venju að segja við West Ham leikmenn aftur og aftur að þetta yrði síðasta brot viðkomandi þrátt fyrir alvarleika brotanna sem flest verðskulduðu beint gult í stað þess að verðlauna þá með handauppréttingu. Þetta er orðið hálfpirrandi og þess væri óskandi að Dowd og vinir hans myndu byrja að vernda þá leikmenn sem halda áhorfendum límdum við skjáinn. Ef áfram heldur sem horfir munum við missa þessa leikmenn til staða sem taka á grófum leikmönnum á annan hátt og þar sem leiknir snillingar eins og Ronaldo eru verndaðir.

Þrátt fyrir að Man Utd væri ekki að spila illa þá tók West Ham á móti þeim eins og alvöru harðir naglar. Nigel Reo Coker blés í herlúðra, barðist eins og ljón og hafði Carrick undir í miðjubaráttunni. Collins, appelsínuhærði gemlingurinn við hlið Antons "litla bró" Ferdinands var þó maður leiksins. Hann var settur í vonlausa stöðu að taka á Rooney og gerði það með glæsibrag. Sumir vilja halda því fram að þeim hafi jafnvel virst Rooney vera óléttur, svo hægur var hann á tíðum. Er það til hróss um dugnað Collins.

Markið sem United fékk á sig var frábrugðið þeim mörkum sem hafa verið skoruð gegn liðinu að undanförnu. Þetta hafa verið bombur utan af velli og flest haft einhvern óstöðvanleika í för með sér. Þetta mark sagði mér bara einn hlut, einbeitingarleysi í vörninni. Þegar varnir eins og okkar sýna einbeitingarleysi en að múnu mati bara eitt í gangi, það er þreyta. Í fyrsta sinn í nokkur ár velur vörnin sig sjálf hjá United. Þetta þýðir að varnarmennirnir spila fleiri leiki en áður og fleiri leikir merkir þreyttari varnarmenn. Nú fáum við hins vegar sex dag hvíld fram að jólatörninni og vona ég að menn komi endurnærðir í baráttuna um jólin.

Á laugardaginn lýkur fyrri umferðinni með leik gegn Aston Villa. Ég hef fulla trú á því að við endum þessa umferð með forystu á Chelsea. Hveru stórt forskotið verður kemur bara í ljós á laugardaginn en eitt er víst. Þessi tapleikur mun ekki verða ráðandi þáttur á leiktíðinni.

Posted by Bragi at 18.12.06 13:51

Comments

Post a comment
Remember Me?

(you may use HTML tags for style)