Frjálslyndir: Maður veit eiginlega ekki hvað maður á að segja um Frjálslynda. Þeir hafa aldrei komið með neitt nýtt inn í íslensk stjórnmál, voru stofnaðir í kringum persónufylgi tveggja manna sem lögðu upp með eitt kosningamál, fiskveiðistjórnun. Núna er þetta hópur manna sem getur ekki eytt kvöldstund í sama herbergi. Engum líkar við hvorn annan allir eru ósammála og flokkurinn lítur ekki út fyrir að auka við trúverðugleika við málstað sinn á næstu árum. Ég lít til þessa flokks sem verðandi gróðrarstíu fyrir öfgaþjóðernishyggju sem mun án efa rísa hér á næstu árum. Þetta mun gerast í kjölfar þess að flokkurinn nái ekki inn einum einasta þingmanni í næstu kosningum.
Vinstri Grænir: Ég tel mikla nauðsyn hjá Vinstri Grænum að endurnýja mannskapinn hjá sér, einfaldlega til þess að flokkurinn verði vel stjórntækur eftir kosningar. Ekki býst ég nú samt við miklum breytingum hjá þeim þar sem ég get ekki með nokkru móti séð að flokkurinn beri mikla ábyrgð á því sem gerst hefur, nema kannski þá að hafa ekki verið nægilega öflugt mótvægi við valdaöflin. Sú endurnýjun sem mun eiga sér þarna stað mun koma í gegnum nýtt fólk sem mun setjast á Alþingi, ekki með því að skipta fólki út. Þetta er frekar augljóst þar sem líkur eru á því að flokkurinn nái jafnvel að tvöfalda þingmannafjöldann frá því sem nú er.
Framsóknarflokkurinn: Sú mikla breyting sem við höfum séð hjá Framsóknarflokknum á síðasta mánuði mun skila sér í gríðarlegri endurnýjun á fólki inni á Alþingi. Ég sé ekki marga af þeim þingmönnum sem kosnir voru inn á þing í síðustu kosningum sitja áfram og margir þeirra hafa nú þegar staðið upp úr stólum sínum. Ungt fólk hefur tekið við sem á allt eftir að sanna sig með sínum verkum. Mér finnst ekki raunhæft að flokkurinn setjist í ríkisstjórn með svona ungan og óreyndan þingflokk. Í hreinskilni sagt þá hef ég líka efasemdir um það fólk sem raðast á þessa lista þar sem ekki virðist vera erfitt að ná frama í þessum flokki í dag. Þetta þarf ekki að vera ókostur og gæti jafnvel verið kostur umfram endalausa mótun ungpólitíkusa í hinum flokkunum. Hún er nú samt til staðar í Framsókn en ég er hræddur um að flokkseigendafélagið muni fjótt ná vopnum sínum á ný og fyrirgreiðslan muni verða ríkjandi hvati innan flokksins. Vonum að Sigmundur afsanni hrakspár mínar.
Samfylkingin: Þingmenn Samfylkingarinnar eru að mínu mati ekki nógu duglegir að losa um tökin af þingsætunum. Ég vil sjá u.þ.b. 30-50% nýliðun fyrir utan nýja þingmenn ef vel gengur hjá flokknum. Ég hef samt fulla trú á því að ef þingmenn losa ekki sjálfir tökin þá muni flokksmenn gera það fyrir þá.
Sjálfstæðisflokkurinn: Ég held að talan sé ekki langt frá fjórum sem hafa tilkynnt að þau ætli að hætta fyrir næstu kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórn í 18 ár og forystumenn flokksins eru arkitektar þessa kerfis sem féll með tilheyrandi látum. Að ekki fleiri en fjórir einstaklinga skuli átta sig á raunveruleikanum(og þar af ein manneskja sem ég met mikils og finnst leitt að sjá af þingi.) er ekkert annað en ótrúlegt. Það sem þetta þýðir í raun er að það verður líklegast engin nýliðun í þingflokki Sjálfstæðismanna eftir þessar snemmbúnu kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að missa 5-8 þingsæti í kosningunum, jafnvel meira og þeir þingmenn sem eftir munu standa munu líklegast allir hafa setið þar áður. Nema flokksmenn kjósi þingmennina í burt, sem gerist ekki.
]]>1. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er tilbúin til þess að fórna vinsældum Samfylkingarinnar til þess að ástandið hérna fari ekki í enn meiri vitleysu. Stjórnarslit núna myndi leiða til afskaplega alvarlegra hluta. Þeir sem krefjast slíks eru annaðhvort örvæntingarfullir vegna persónulegra ástæðna eða í einhvers konar upphafningarstarfsemi á sjálfum sér og sínum skoðunum. Slíkt er gott og vel á velsældartímum en núna er ekki tíminn til þess að slíta þingi. Ef Ingibjörg Sólrún segist vilja flýta kosningum þá þýðir það að Sjálfstæðisflokkurinn myndi slíta stjórn og líklegast reyna að komast í stjórn með Framsókn eða VG og ekki myndi ég né nokkur heilvita maður vilja sjá það gerast. Trúiði mér, Framsókn myndi stökkva á það tækifæri að stjórna í ástandi eins og nú er uppi. Það myndi þýða að engar yrðu kosningarnar og það er staðan sem Ingibjörg situr uppi með.
2. Mótmælin sem fara fram núna hvern laugardag eru góð og blessuð, þar fær fólk tækifæri á að sýna reiði sýna og meiningar, en í guðanna bænum, allar hótanir um byltingu á Íslandi eru barnarlegar í besta falli, hættulegar lífi og limum manna í versta falli. Það er nefnilega stór meirihluti fólks hér á landi sem er ekki sammála slíkum aðferðum og þeir sem hvetja til slíks, gengisfella sjálfa sig og þá sem í kringum þá standa.
3. Lýðræði er nauðsyn. En þvingað lýðræði er það ekki. Í raun er um form kúgunar að ræða. Ég hef enn ekki séð merki um að meirihluti landsmanna vilji slíta þingi í dag. Fleiri fullorðnir einstaklingar taka þátt í gleðigöngu samkynhneigðra á haustin en samanlagt á þessum mótmælum til þessa.
4. Þeir alvarlegu hlutir sem ég vísa í, í fyrstu málsgrein væru að við stjórnarslit myndi skapast enn meiri óvissa en nú þegar er uppi um bæði ríkisfjármál og hag almennings. Engar bindandi ákvarðanir myndu verða teknar á þeim tveim mánuðum sem líða myndi fram að næstu stjórnarmyndun. Slík eru skilin á Alþingi að engin minnhlutastjórn myndi haldast þar sem hlutleysi annarra flokka er í besta falli ólíklegt í versta falli sviksamlegt.
5. Ingibjörg er búin að gagnrýna Davíð Oddsson opinberlega og les ég í það sem að hún hefur nú þegar lagt fram þá kröfu að hann víki. Ég tel að Geir H. Haarde sé nú að finna leið til losa sig við Davíð án þess að kljúfa flokkinn. Ef ég les rétt í spilin þá er um einhver tímamörk að ræða og búið verður að skipta Seðlabankastjórunum öllum út áður en IMF láninu verður ráðstafað.
6. Ég tel að almenningur sé að beina reiði sinni að röngum aðilum. Misbeiting laga, brask og siðlausar viðskiptaákvarðanir sem stefna heilindum og framtíð heillar þjóðar í hættu er refsivert í mínum huga. Ábyrgðin er þeirra manna sem keyrðu landið í þrot, þeirra er að taka sinni ábyrgð af karlmennsku en ekki að hlaupast á brott, slíkt er aumingjaskapur.
Meira síðar.
]]>En ég er Íslendingur og skítur skeður, býsna hratt reyndar í þetta sinn. Ísland orðið gjaldþrota og ég hef ekki hugmynd um hvað ég skulda í raun og veru. Gjaldmiðillinn sem ég þarf að nota til að kaupa mér brauð og mjólk er orðinn svo verðlaus að bankagjaldkerar í öðrum löndum bjóðast til að henda honum fyrir fólk sem reynir að skipta honum í evrur og pund. Ég fæ greitt í þessum gjaldmiðli og ég hef í raun ekki hugmynd um hvað ég hef lækkað mikið í launum á síðasta mánuði. Ætli það nálgist ekki þrjátíu prósentin í samanburði við gengið, án þess að ég hafi vitneskju um það. Fæ samt ennþá sömu tölu útborgaða. Ég veit ekki hvort bankinn minn ætli að rukka mig um lánið mitt á næsta gjalddaga og ég veit ekki hversu mikið. Ég veit ekki hvort Ríkisstjórnin er búin að redda flæði gjaldeyris og ég veit ekki hversu margir vinir mínir og skyldmenni missa vinnuna á næstunni. Ég botna ekkert í því hversu háar skuldirnar eru sem ráðamenn þjóðarinnar eru að hneppa okkur í og ég hef ekki hugmynd um hverjir bera ábyrgð á ástandinu sem við búum við núna í dag.
Samt les ég manna mest, skoða fréttir, fylgist með, tala við fólk í innstu hringjum.
Það er eitt sem ég er hægt og hægt að komast að um íslenskt samfélag. Við erum leynisamfélag. Almenningi er ekki treyst fyrir upplýsingum sem varðar hag hans sjálfs. Stjórnvöld virðast laumupokast með hinn myrka sannleik eins lengi og hægt er. Hvað er verið að fela?
Ef menn fara ekki bráðlega að upplýsa fólk um raunverulegt ástand held ég að íslensk þjóð muni bregðast við. Hvernig? Jú með því að bölva mönnum í hljóði og halda áfram að vinna... ef menn halda vinnunni.
]]>Fyrir utan að hafa áhyggjur af fjármálum heimilisins og hvernig ég muni getað borgað af þeim skuldbindingum sem ég hef gengist við, þá er ég aðallega búinn að vera að hugsa um kreppumat og hvernig ég get hagrætt matarinnkaupum mínum í samræmi við samdrátt í veskinu mínu.
Ég hef á undanförnum árum komist að nokkrum sannleik um matvælaverslanir á Íslandi. T.d. er hér engin lágvöruverðsverslun. Hér eru eingöngu verslanir sem selja sama hlutinn, eini munurinn er að í sumum er hann nálægt því að vera útrunninn, í hinum ekki. Þú borgar sem sagt aðeins lægra verð fyrir að borða næstum skemmdan mat. Hér þurfa að koma alvöru lágvöruverðsverslanir þannig að Íslendingar geti verslað á alvöru ódýran máta líkt og aðrar þjóðir í kreppunni. Krónan og Bónus eru ekki alvöru lágvöruverðsverslanir. Í rauninni gera þær grín að hugtakinu, með því að selja okkur merkjavöru á tíu til tuttuguprósent afslætti frá dýrari verslununum sem, ótrúlegt en satt, eru í eigu sömu aðila þannig að viðmiðunarverðið verður alltaf sett af sama aðilanum. Þegar ég segi merkjavöru þá meina ég að þið getið fundið sama Cheeriosið, sama Homeblestið, sama Fructis sjampóið í öllum þessum verslunum. Það eina sem ég hef séð frá þessum verslunum sem er eitthvað í takt við hvað lágvöruverslanir annars staðar í heiminum gera er að gera samning við Euroshopper og selja frá því merki nokkur vörunúmer.
Í lágvöruverðsverslun eru ekki til nein merki, það er varla til Coca Cola. Það ætti með réttu að heita Bónus kóla. Þetta á að vera valkostur fyrir hina efnaminni en ekki gildra eða blekking fyrir þá.
Hluti ætti að fá ódyrari með því að kaupa þá í miklu magni í stað þess að kaupa í stykkjatali. Þannig gætu jafnvel stórfjölskyldur farið saman í búðina á laugardagsmorgnum og klárað vikuinnkaupin saman og komist ódýrara frá þeim.
Ég geri mér grein fyrir því að í svona búð er ekki hægt að vera með alla þá ferskvöru sem hægt er að fá. En ég hef bara eftir hollenskum grænmetisræktanda sem sagði þetta um grænmetið sem flutt er inn til í Íslands. "Það er annaðhvort að fljúga þessu til Íslands eða í svínafóður. Fólkið hér lítur ekki við þessu.".
]]>Annars er það af okkur að frétta að leigjandinn okkar er farinn til Venesúela og nýr leigjandi er á leiðinni. Ég hef góða tilfinningu fyrir því að fá nýtt blóð í húsið.
Þorri fór í tíu mánaða skoðun í dag og mældist tíu og hálft kíló og sjötíu og sjö og hálfur sentimetri.
Ég þurfti að útskýra fyrir hópi unglinga hvað þetta senti og milli þýddi í lengdareiningum. Fyrir ykkur sem ekki vita það þá merkir sent eða cent, hundrað og milli eða mille þúsund. Útleggst þá sentimetri sem einn hundraðasti úr metra og millimetri sem einn þúsundasti úr metra. Þetta eins og margt annað úr okkar menningu er upprunnið úr latínu. Munið það einfaldlega næst þegar þið sjáið ártal í lok sjónvarpsþátta. MCM stendur þá fyrir þúsund og hundrað dregið af þúsundi sem verður þá 1900.
Þetta segir sig kannski sjálft en alltaf er gott að skerpa á þekkingunni. Ef ég fer rangt með þá biðst ég afsökunar og vona að viðkomandi besservisser athugasemdist.
]]>Við lentum í ýmsu yfir páskana. Hæst ber að nefna þegar við urðum vitni að dýfingum með frjálsri aðferð hjá fjórum hraustum ungmennum á Ford pick-up ofan í pollinn á Ísafirði. Sem betur fer komust allir upp úr lauginni lifandi en ansi margir brostu út í annað þegar bíllinn var á endanum dreginn upp úr og nokkrar bjórdósir hrundu úr bílnum. Veit ekki hvað...
Það var ansi mikið af skemmtilegu fólki fyrir vestan og helst ber að nefna hressa bandið Hraun! sem bar af í glæsileik. Við kíktum á tónleika með strákunum í Edinborg á Skírdag. Nokkuð hresst.
Bessa frænka kom með frábæra hugmynd um hvað mætti gera til að hressa upp á atvinnulífið á Flateyri. Henda bara íbúunum í burtu og gera þorpið að einu kvikmyndaveri. Hlýtur að vera markaður fyrir þetta. Skilur alla vegana ekki eftir sig olíubrák á stærð við Texas...
Útsýnið var fullkomið í tvo daga. Það var skafrenningur hina dagana.
Heimferðin var svo löng og leiðinleg. Skafrenningur frá Ísafirði og niður Hrútafjörð. Ófært yfir Hestkleif þannig að við þurftum að fara Reykjanesið hvers vegir voru hrikalega slæmir. 7 1/2 tími í heimferð án teljanlegra stoppa.
Hægt er að sjá myndir hér.
]]>Ekkert áfengi.
Ekkert gos.
Engar kartöflur.
Ekkert pasta eða núðlur.
Ekkert brauð eða það minnsta sem ég kemst upp með.
Engin hrísgrjón.
Enginn sykur.
Engar fitandi sósur.
Ekkert rautt kjöt nema á laugardögum.
Hreyfing í það minnsta fimm sinnum í viku.
Djöfull er maður klikkaður.
]]>
Smellið á franska heitið til að fara aftur í tímann og upplifa nostalgíuna.
Mér hefur klæjað síðan starrahópurinn flökti en ég mun áfram standa keikur og berjast fyrir bættum réttindum innhringjara á Útvarpi Sögu.
Mér leiðist.
]]>