febrúar 18, 2009

Nýliðun í næstu kosningum - engin hjá Sjálfstæðisflokki

Mikið er kallið um nýliðun í þingflokkum stjórnmálaflokkanna þessa dagana. Mér sýnist að endurnýjunin verði mikil, nánast algjör í Framsóknarflokknum, einhverjir gamlir jaxlar detta út hjá Samfylkingunni en VG og Sjálfstæðisflokkurinn standa nánast í stað. Mér finnst nánast óþarfi að ræða Frjálslynda þar sem afskaplega mikil óvissa ríkir um tilveru þess flokks, en byrjum samt á þeim.

Frjálslyndir: Maður veit eiginlega ekki hvað maður á að segja um Frjálslynda. Þeir hafa aldrei komið með neitt nýtt inn í íslensk stjórnmál, voru stofnaðir í kringum persónufylgi tveggja manna sem lögðu upp með eitt kosningamál, fiskveiðistjórnun. Núna er þetta hópur manna sem getur ekki eytt kvöldstund í sama herbergi. Engum líkar við hvorn annan allir eru ósammála og flokkurinn lítur ekki út fyrir að auka við trúverðugleika við málstað sinn á næstu árum. Ég lít til þessa flokks sem verðandi gróðrarstíu fyrir öfgaþjóðernishyggju sem mun án efa rísa hér á næstu árum. Þetta mun gerast í kjölfar þess að flokkurinn nái ekki inn einum einasta þingmanni í næstu kosningum.

Vinstri Grænir: Ég tel mikla nauðsyn hjá Vinstri Grænum að endurnýja mannskapinn hjá sér, einfaldlega til þess að flokkurinn verði vel stjórntækur eftir kosningar. Ekki býst ég nú samt við miklum breytingum hjá þeim þar sem ég get ekki með nokkru móti séð að flokkurinn beri mikla ábyrgð á því sem gerst hefur, nema kannski þá að hafa ekki verið nægilega öflugt mótvægi við valdaöflin. Sú endurnýjun sem mun eiga sér þarna stað mun koma í gegnum nýtt fólk sem mun setjast á Alþingi, ekki með því að skipta fólki út. Þetta er frekar augljóst þar sem líkur eru á því að flokkurinn nái jafnvel að tvöfalda þingmannafjöldann frá því sem nú er.

Framsóknarflokkurinn: Sú mikla breyting sem við höfum séð hjá Framsóknarflokknum á síðasta mánuði mun skila sér í gríðarlegri endurnýjun á fólki inni á Alþingi. Ég sé ekki marga af þeim þingmönnum sem kosnir voru inn á þing í síðustu kosningum sitja áfram og margir þeirra hafa nú þegar staðið upp úr stólum sínum. Ungt fólk hefur tekið við sem á allt eftir að sanna sig með sínum verkum. Mér finnst ekki raunhæft að flokkurinn setjist í ríkisstjórn með svona ungan og óreyndan þingflokk. Í hreinskilni sagt þá hef ég líka efasemdir um það fólk sem raðast á þessa lista þar sem ekki virðist vera erfitt að ná frama í þessum flokki í dag. Þetta þarf ekki að vera ókostur og gæti jafnvel verið kostur umfram endalausa mótun ungpólitíkusa í hinum flokkunum. Hún er nú samt til staðar í Framsókn en ég er hræddur um að flokkseigendafélagið muni fjótt ná vopnum sínum á ný og fyrirgreiðslan muni verða ríkjandi hvati innan flokksins. Vonum að Sigmundur afsanni hrakspár mínar.

Samfylkingin: Þingmenn Samfylkingarinnar eru að mínu mati ekki nógu duglegir að losa um tökin af þingsætunum. Ég vil sjá u.þ.b. 30-50% nýliðun fyrir utan nýja þingmenn ef vel gengur hjá flokknum. Ég hef samt fulla trú á því að ef þingmenn losa ekki sjálfir tökin þá muni flokksmenn gera það fyrir þá.

Sjálfstæðisflokkurinn: Ég held að talan sé ekki langt frá fjórum sem hafa tilkynnt að þau ætli að hætta fyrir næstu kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórn í 18 ár og forystumenn flokksins eru arkitektar þessa kerfis sem féll með tilheyrandi látum. Að ekki fleiri en fjórir einstaklinga skuli átta sig á raunveruleikanum(og þar af ein manneskja sem ég met mikils og finnst leitt að sjá af þingi.) er ekkert annað en ótrúlegt. Það sem þetta þýðir í raun er að það verður líklegast engin nýliðun í þingflokki Sjálfstæðismanna eftir þessar snemmbúnu kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að missa 5-8 þingsæti í kosningunum, jafnvel meira og þeir þingmenn sem eftir munu standa munu líklegast allir hafa setið þar áður. Nema flokksmenn kjósi þingmennina í burt, sem gerist ekki.

Bragi reit 10:47 FH | Comments (1)