október 22, 2008

Ástandið og óvissan

Ég er í klípu. Ég er nefnilega Íslendingur. Fyrstu þrjátíu ár ævi minnar stöngluðust allir á því við mig hvað ég væri heppinn að fæðast hér á þessu landi. Ýkt heppinn. Sko það er ekkert stríð og enginn her og það eina sem ég þyrfti að passa mig á væri að klæða mig í ull á veturna, nógu mikla ull, þá yrði ég ekki veikur. Sem reyndist svo kjaftæði, hef oft fengið kvef. Ég hef þó hingað til ekkert kvartað yfir þessum örlögum mínum. Fundist þetta bara allt í lagi. Ísland er fallegt og það hefur boðið mér upp á þjónustu og lífsstíl sem bara hinir ríkustu í þessum heimi hafa fengið að njóta. Hér álpaðist ég til að stofna fjölskyldu og fyrir ári síðan ákváðum við, rétt tæplega þrítug, bæði í góðri vinnu, að fjárfesta í íbúðinni sem við bjuggum í. Við veðsettum íbúðina í kringum sextíu til sjötíu prósent og töldum okkur vera að gera rétt í því að taka erlent lán þar sem að til framtíðar myndum við ekki borga jafn mikið af því og af verðtryggðu láni. Töldum okkur vel geta ráðið við miklar sveiflur á láninu og vorum bara vel sett í það heila.

En ég er Íslendingur og skítur skeður, býsna hratt reyndar í þetta sinn. Ísland orðið gjaldþrota og ég hef ekki hugmynd um hvað ég skulda í raun og veru. Gjaldmiðillinn sem ég þarf að nota til að kaupa mér brauð og mjólk er orðinn svo verðlaus að bankagjaldkerar í öðrum löndum bjóðast til að henda honum fyrir fólk sem reynir að skipta honum í evrur og pund. Ég fæ greitt í þessum gjaldmiðli og ég hef í raun ekki hugmynd um hvað ég hef lækkað mikið í launum á síðasta mánuði. Ætli það nálgist ekki þrjátíu prósentin í samanburði við gengið, án þess að ég hafi vitneskju um það. Fæ samt ennþá sömu tölu útborgaða. Ég veit ekki hvort bankinn minn ætli að rukka mig um lánið mitt á næsta gjalddaga og ég veit ekki hversu mikið. Ég veit ekki hvort Ríkisstjórnin er búin að redda flæði gjaldeyris og ég veit ekki hversu margir vinir mínir og skyldmenni missa vinnuna á næstunni. Ég botna ekkert í því hversu háar skuldirnar eru sem ráðamenn þjóðarinnar eru að hneppa okkur í og ég hef ekki hugmynd um hverjir bera ábyrgð á ástandinu sem við búum við núna í dag.

Samt les ég manna mest, skoða fréttir, fylgist með, tala við fólk í innstu hringjum.

Það er eitt sem ég er hægt og hægt að komast að um íslenskt samfélag. Við erum leynisamfélag. Almenningi er ekki treyst fyrir upplýsingum sem varðar hag hans sjálfs. Stjórnvöld virðast laumupokast með hinn myrka sannleik eins lengi og hægt er. Hvað er verið að fela?

Ef menn fara ekki bráðlega að upplýsa fólk um raunverulegt ástand held ég að íslensk þjóð muni bregðast við. Hvernig? Jú með því að bölva mönnum í hljóði og halda áfram að vinna... ef menn halda vinnunni.

Bragi reit 11:05 FH | Comments (1)

október 03, 2008

Glitnir - Ríkið- Bubbi

Ef Glitnir keypti öll lögin hans Bubba... og Glitnir er svo seldur Ríkinu, er þá Bubbi ekki orðinn RíkisBubbi?

Bragi reit 04:10 EH | Comments (1)

október 02, 2008

Kreppumatur

Þá sitjum við öll í súpunni. Hér er skollin á kreppa sem enginn hefði getað spáð fyrir um. Gengið er orðið þannig að allar boltaferðir sem eiginmenn þessa lands munu ekki verða lengri en á næsta pöbb. Jólagjafir þessa árs verða kannski hlýlegt bros og fallegt handmálað kort eða mynd af fjölskyldumeðlimum. Fólk á eftir að ganga í vinnuna eða taka strætó(guð forði okkur frá því). Jafnvel hjóla. Gamla góða kjötsúpan, vellingurinn og slátrið verður að hversdagsmat landans á ný. Eða verður þetta kreppa núðlusúpunnar og pastaréttanna eða jafnvel heimabökuðu pizzanna?

Fyrir utan að hafa áhyggjur af fjármálum heimilisins og hvernig ég muni getað borgað af þeim skuldbindingum sem ég hef gengist við, þá er ég aðallega búinn að vera að hugsa um kreppumat og hvernig ég get hagrætt matarinnkaupum mínum í samræmi við samdrátt í veskinu mínu.

Ég hef á undanförnum árum komist að nokkrum sannleik um matvælaverslanir á Íslandi. T.d. er hér engin lágvöruverðsverslun. Hér eru eingöngu verslanir sem selja sama hlutinn, eini munurinn er að í sumum er hann nálægt því að vera útrunninn, í hinum ekki. Þú borgar sem sagt aðeins lægra verð fyrir að borða næstum skemmdan mat. Hér þurfa að koma alvöru lágvöruverðsverslanir þannig að Íslendingar geti verslað á alvöru ódýran máta líkt og aðrar þjóðir í kreppunni. Krónan og Bónus eru ekki alvöru lágvöruverðsverslanir. Í rauninni gera þær grín að hugtakinu, með því að selja okkur merkjavöru á tíu til tuttuguprósent afslætti frá dýrari verslununum sem, ótrúlegt en satt, eru í eigu sömu aðila þannig að viðmiðunarverðið verður alltaf sett af sama aðilanum. Þegar ég segi merkjavöru þá meina ég að þið getið fundið sama Cheeriosið, sama Homeblestið, sama Fructis sjampóið í öllum þessum verslunum. Það eina sem ég hef séð frá þessum verslunum sem er eitthvað í takt við hvað lágvöruverslanir annars staðar í heiminum gera er að gera samning við Euroshopper og selja frá því merki nokkur vörunúmer.

Í lágvöruverðsverslun eru ekki til nein merki, það er varla til Coca Cola. Það ætti með réttu að heita Bónus kóla. Þetta á að vera valkostur fyrir hina efnaminni en ekki gildra eða blekking fyrir þá.

Hluti ætti að fá ódyrari með því að kaupa þá í miklu magni í stað þess að kaupa í stykkjatali. Þannig gætu jafnvel stórfjölskyldur farið saman í búðina á laugardagsmorgnum og klárað vikuinnkaupin saman og komist ódýrara frá þeim.

Ég geri mér grein fyrir því að í svona búð er ekki hægt að vera með alla þá ferskvöru sem hægt er að fá. En ég hef bara eftir hollenskum grænmetisræktanda sem sagði þetta um grænmetið sem flutt er inn til í Íslands. "Það er annaðhvort að fljúga þessu til Íslands eða í svínafóður. Fólkið hér lítur ekki við þessu.".

Bragi reit 04:00 EH | Comments (3)