okt. 10, 2008

Ástandið og óvissan

Ég er í klípu. Ég er nefnilega Íslendingur. Fyrstu þrjátíu ár ævi minnar stöngluðust allir á því við mig hvað ég væri heppinn að fæðast hér á þessu landi. Ýkt heppinn. Sko það er ekkert stríð og enginn her og það eina sem ég þyrfti að passa mig á væri að klæða mig í ull á veturna, nógu mikla ull, þá yrði ég ekki veikur. Sem reyndist svo kjaftæði, hef oft fengið kvef. Ég hef þó hingað til ekkert kvartað yfir þessum örlögum mínum. Fundist þetta bara allt í lagi. Ísland er fallegt og það hefur boðið mér upp á þjónustu og lífsstíl sem bara hinir ríkustu í þessum heimi hafa fengið að njóta. Hér álpaðist ég til að stofna fjölskyldu og fyrir ári síðan ákváðum við, rétt tæplega þrítug, bæði í góðri vinnu, að fjárfesta í íbúðinni sem við bjuggum í. Við veðsettum íbúðina í kringum sextíu til sjötíu prósent og töldum okkur vera að gera rétt í því að taka erlent lán þar sem að til framtíðar myndum við ekki borga jafn mikið af því og af verðtryggðu láni. Töldum okkur vel geta ráðið við miklar sveiflur á láninu og vorum bara vel sett í það heila.

En ég er Íslendingur og skítur skeður, býsna hratt reyndar í þetta sinn. Ísland orðið gjaldþrota og ég hef ekki hugmynd um hvað ég skulda í raun og veru. Gjaldmiðillinn sem ég þarf að nota til að kaupa mér brauð og mjólk er orðinn svo verðlaus að bankagjaldkerar í öðrum löndum bjóðast til að henda honum fyrir fólk sem reynir að skipta honum í evrur og pund. Ég fæ greitt í þessum gjaldmiðli og ég hef í raun ekki hugmynd um hvað ég hef lækkað mikið í launum á síðasta mánuði. Ætli það nálgist ekki þrjátíu prósentin í samanburði við gengið, án þess að ég hafi vitneskju um það. Fæ samt ennþá sömu tölu útborgaða. Ég veit ekki hvort bankinn minn ætli að rukka mig um lánið mitt á næsta gjalddaga og ég veit ekki hversu mikið. Ég veit ekki hvort Ríkisstjórnin er búin að redda flæði gjaldeyris og ég veit ekki hversu margir vinir mínir og skyldmenni missa vinnuna á næstunni. Ég botna ekkert í því hversu háar skuldirnar eru sem ráðamenn þjóðarinnar eru að hneppa okkur í og ég hef ekki hugmynd um hverjir bera ábyrgð á ástandinu sem við búum við núna í dag.

Samt les ég manna mest, skoða fréttir, fylgist með, tala við fólk í innstu hringjum.

Það er eitt sem ég er hægt og hægt að komast að um íslenskt samfélag. Við erum leynisamfélag. Almenningi er ekki treyst fyrir upplýsingum sem varðar hag hans sjálfs. Stjórnvöld virðast laumupokast með hinn myrka sannleik eins lengi og hægt er. Hvað er verið að fela?

Ef menn fara ekki bráðlega að upplýsa fólk um raunverulegt ástand held ég að íslensk þjóð muni bregðast við. Hvernig? Jú með því að bölva mönnum í hljóði og halda áfram að vinna... ef menn halda vinnunni.

Háttvirtur Bragi reit 22.10.08 11:05
Háttvirtir rituðu:

AomUKL avblryykvlzx, [url=http://tnfxxvhhimyr.com/]tnfxxvhhimyr[/url], [link=http://rnnvzoevtvzu.com/]rnnvzoevtvzu[/link], http://hhdzseqwtlxu.com/

Athugasemd eftir qtwnzvwdc reit 03.03.09 07:08
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003