desember 18, 2007

Fimmti stormurinn og ekkert fokið enn

Er ég að telja rétt? Var þetta ekki fimmti "stormurinn" á einni viku í gær? Ég tók inn garðhúsgögnin fyrir föstudaginn þar sem sá átti að vera stærstur. Það var líklegast rétt hjá mér að gera en ekkert fauk af því sem eftir lá í garðinum.

Ólína Þorvarðadóttir(ég vísa ekki á moggablogg) kvabbar eitthvað yfir ritdómi föður míns á heimasíðunni sinni þann 28.11.2007. Þar kallar hún pabba minn karlrembusvín óbeint með því að halda því fram að hann telji að margra barna mæður eigi ekki að vera að sýsla og basla við að gefa út ljlóðabækur. Þessar ásakanir Ólínu urðu til þess að ég renndi yfir bókina Vestanvindar og verð ég eiginlega að segja að hún má prísa sig sæla yfir því að pabbi minn, en ekki ég, skrifaði þennan dóm.

Kurteisari mann og siðlegri er erfitt að finna en föður minn. Ég hefði aldrei látið verðskulduð gífuryrðin liggja ósnert, er kannski öfgafyllri í tjáningu minna meininga. Bókin er sneysafull af líkingum sem eru í hróplegri mótsögn við sjálfa sig, þar sem ekki er hægt að grípa til þess vopns að kalla slíkt skáldaleyfi. Ólína birtir dæmi um ljóð úr bókinni og leyfi ég mér að vísa í það hér:

Í hafdjúpum hugans

leitar vitundin landa

um útsæ og innhöf

ferðast hún um þangskóg

í sjávardölum

úr logndýpi drauma

sækir hún í strauminn

streitist á móti

brýst um

og byltist

í þungu róti

Á grunnsævi vökunnar

spriklar hún að kveldi

- þar lagði dagurinn netin

að morgni

þéttriðin net

troðfull að kveldi ...

Fær Ólína fyrir þetta kvæði lofkór moggabloggsins til að mæra sig og þar, á þeim vettvangi, er upphefð hennar mikil. Ég fæ ekki skilið þörfina til að verja sig eftir bókadóm sem í rauninni var ekki það harður. Ég myndi segja að pabbi hafi verið að gefa bókinni tvær stjörnur af fimm, líklegast fær Ólína meira að segja heila stjörnu fyrir að búa fyrir vestan. Aldrei lýsir faðir minn því yfir í dómnum að konur eigi ekki að skrifa eða að gefa út bækur. Slíkt er langt frá því vera hans skoðun. Ég sé líka móður mína í anda bregðast við slíku frá kallinum. Pönnur og pottar hola haus.

Staðreyndin er sú að eftir liggur að Ólína skrifaði kléna ljóðabók sem verðskuldaði ekki góðan dóm. Að persónugera fagmannlegan dóm um ljóðabók og það að láta gamminn geysa um persónu þess sem dóminn skrifar er hvorki fagmannlegt né líklegt til vinsælda.

p.s. Ég vil bæta því við að ég er ekki menntaður bókmenntafræðingur og hef ekki unnið við bókmenntagagnrýni. Hins vegar er ég víðlesin og sæmilega skýr í kollinum og tel mig geta dæmt um hvort að ein skitin ljóðabók sé verðug þess pappírs sem hún er prentuð á.

Bragi reit 01:11 EH | Comments (1)

desember 14, 2007

Lífeyrissjóðir og sterkur vindur

Nú sit ég við lestur og skriftir. Mér verður oft starsýnt út um gluggann og þar sé ég tré hallast í 45° halla. Það er stormur úti ef ekki ofsaveður. Af einhverjum ástæðum finnst mér það gífurlega notalegt ástand. Það er hlýtt inni og ég sit með mjólk og kexkökur og les með hjalið í Þorra í bakgrunninum. Stundum er gott að vera ég.

Annars eru lífeyrissjóðirnir búnir að gera upp á bak að undanförnu. Ég hef talsverða þekkingu á lífeyrissjóðakerfinu þar sem ég hef unnið á því sviði talsvert. Lífeyrissjóðirnir voru að enda við að skerða örorkugreiðslur til gríðarmargra bótaþega. Ástæðan fyrir skerðingunni eru samþykktir sjóðanna sem hafa ákveðin viðmiðunarmörk um tekjur öryrkja og hvað þær megi vera háar áður en lífeyrir þeirra er skertur. Þessum reglum hefur ekki verið beitt í langan tíma. Líklega vegna þess að um það hefur verið þegjandi samkomulag að viðmiðunarmörkin eru of lág. Hins vegar er núna verið að halda því fram að greiðslur vegna örorku séu byrjaðar að valda skerðingu á hreinni lífeyriseign sjóðanna og því þurfi að grípa til þessara aðgerða. Þarna er semsagt verið að taka ákvörðun um að fara eftir samþykktum sjóðanna. Eða þannig virðist þetta vera í fyrstu.

Skoðum þetta mál samt nánar. Þar hafa stjórnir lífeyrissjóðanna tekið þá ákvörðun í lengri tíma að virða ekki viðmiðunarreglur varðandi tekjur öryrkja og þannig brotið gegn samþykktum sjóðanna. Þarna hafa stjórnir lífeyrissjóðanna ekki bara brotið gegn því vinnulagi sem vinna á með innan lífeyrissjóðanna heldur hafa þeir einnig gert þá mannlega, bætt við mannlegri skynsemi í stjórn lífeyrissjóða. Nú ætla ég ekki að reyna að halda því fram að það sé til eftirbreytni að haga sér á þann hátt sem lífeyrissjóðirnir hafa hagað sér, en er kannski möguleiki á því að þetta sé í fyrsta lagi það sem sjóðsfélagarnir vilji, einfaldlega til að tryggja að sinn hagur verði sem vænstur ef viðkomandi lendir í því að örkumlast? Í öðru lagi, er þetta kannski sjóðnum til góða? Gerir hann samkeppnishæfari gagnvart öðrum sjóðum þar sem verið er að hygla þeim sem minna mega sín og þarmeð að laða til sín fleiri sjóðsfélaga.

Líklegast er aææt svona tal nú einföld óskhyggja. Ég, af öllum mönnum, veit nákvæmlega hvað fær fólk til að greiða í eða að skipta yfir í tiltekna lífeyrissjóði og það eru þrír hlutir. Umsýslukostnaður, ávöxtun og svo tryggingafræðilega staða sjóðsins, þ.e. hversu vel er sjóðurinn staddur til að geta staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar. Stór partur af þessu er einmitt að halda örorkugreiðslum í lágmarki til að geta sýnt fram á betri stöðu. Þess vegna hafa skráningar í hina svokölluðu frjálsu lífeyrissjóði aukist til muna á síðustu árum. Þar hefur örorka verið lág í gegnum tíðina, aðallega vegna eðlis starfa sjóðsfélaga. Fæstir eru í áhættustörfum, þetta er oftast hátekjufólk í skrifstofuvinnu. Það þýðir að þeir sem starfa í mikilli áhættu safnast saman á fáeinum stöðum og það skekkir verulega stöðu tiltekinna lífeyrissjóða. Nú er ávallt talað um lífeyrissjóðakerfið sem eitt batterí en raunin er sú að þarna er um að ræða gríðarlega marga sjóði sem eru í mismunandi stöðu. Munurinn á t.d. Frjálsa Lífeyrissjóðnum og Lífeyrissjóðs Austurlands er gríðarlegur. Frjálsi er með tryggingafræðilega stöðu sem er líklega hvað best hér á landi á meðan sjóðsfélagar LífAu eru sjómenn, fiskverkafólk og verkafólk annað að miklu leyti. Flestir í áhættusömum störfum sem valda oft mikilli örorku.

Það sem veldur þessum mikla mun á samsetningu sjóðsfélaga er það að verkalýðsfélög hafa í gegnum tíðina gert samninga við lífeyrissjóði og múlbundið einstaklinga við ákveðinn lífeyrissjóð og með því gert möguleika á því að sá hinn sami geti bætt og tryggt öryggi sitt betur með því að færa sig yfir í sjóð með betri tryggingafræðilegri stöðu. Ef frelsið til þessa hluta hefði verið meira hér áður fyrr værum við kannski ekki í þessari stöðu núna að átta af 38 lífeyrissjóðum þurfa að skerða lífeyri til öryrkja. Þá hefðu sjóðsfélagar líklegast dreift sér á þá sjóði sem hagstæðast væri að greiða í og stjórnir lífeyrissjóðanna væru í samkeppnisumhverfi og þyrftu að standa sig betur en þeir gera í dag. Einnig eru margir sjóðir bundnir við tiltekið landsvæði, í þeim tilvikum er rétt að benda á tiltölulega fébreytta atvinnustarfsemi í heilu landsfjórðungunum.

Vandinn í kerfinu er því að mínu mati þessi. Lífeyrissjóðakerfið er ekki að sinna upphaflegum tilgang sínum. Ekki vegna þess að sjálfir sjóðirnir og stjórnendur sjóðanna séu að bregðast skyldum sínum heldur vegna samsetningar sjóðsfélaga. Eina leiðin til að leiðrétta þetta kerfi virðist vera með auknum sameiningum lífeyrissjóða í skyldulífeyriskerfinu. Það er lögboðið réttindakerfi og ekkert sem kemur í veg fyrir íhlutun ríkisins í að rétta hlut almennings gagnvart lífeyrissjóðunum. Sameiningarferli er nú þegar komið af stað og fagna ég þeirri þróun. Vonandi sjáum við ekki fleiri en fimm svipað sterka lífeyrissjóði á Íslandi árið 2015(leiðrétt var 1915).

Bragi reit 09:29 FH | Comments (4)

desember 06, 2007

Mandarínur eða klementínur

Nú er tíminn þar sem kassarnir troðfullir af safaríkum mandarínum/klementínum bíða okkar í verslunum. Þeir eru keyptir og étnir af áfergju enda eru fáir ávextir bragðbetri og skemmtilegri til átu en þessar appelsínugulu dvergappelsínur. En hvort á maður að kalla ær mandarínur eða klementínur og hver eru orðsifjar þessara orða. Ég get ómögulega munað hvort þetta sem við almennt köllum mandarínur séu raunverulega mandarínur eða hvort um einn stóran misskilning sé að ræða hjá íslensku þjóðinni... eða bara mér. Þetta finnst mér miklu mikilvægara að fá born í en hvort hvítvoðungar eigi að klæðast bleiku eða bláu.
Tók enginn nema ég eftir því að fólk notaði litinn blátt á undan bleiku í orðræðunni um fötin. Gæti það verið til að forðast tenginguna við víxlorðað en samnefnt tímarit.

Bragi reit 11:28 FH | Comments (1)

desember 04, 2007

Uppivöðslusamur hálfviti snýr aftur

Ég hef ákveðið að endurvekja þetta blogg. Ég hef fylgst með moggablogginu og vísisblogginu nánast eyðileggja þetta form samskipta á undanförnu ári. Hvernig þeir blogghringir virka hugnast mér ekki og ég fór í nánast tveggja ára bloggpásu eftir að þessir blogghringir komu fram. Ég er hins vegar kannski ekki einn af þeim fyrstu en samt með þeim fyrstu 200-300 sem byrja að blogga á Íslandi og finnst röddin mín alveg mega heyrast meira.

Nafn síðunnar er fyrir marga mikið undrunarefni og ég mun því bjóða þeim sem rekst hingað inn og giskar á rétt nafn upp á kalt popp og brakandi kók. Nafnið er skrifað japönskum stöfum hér á toppi síðunnar til hægri. Ekki styðja öll forrit þessa stafagerð en flestar ættu að vera farnar að gera það með nýrri vöfrum.

Smá vísbending: nafnið er vísun í eitthvað tengt tónlist.

Þá er bara að vona að einhverjir aðrir en Halli droppi hérna við, við og við. Þó það sé náttúrulega ekkert að því að Halli kíkji á mig. Hann er drengur góður.

Bragi reit 03:49 EH | Comments (4)

desember 03, 2007

Hraun að gera það gott

Vinir mínir í Hljómsveitinni Hraun er komnir í úrslit hljómsveitarkeppni sem BBC heldur á hverju ári. The Next Big Thing heitir keppnin og er hægt að finna hér. Sagt er að um 2000 hljómsveitir víðs vegar að úr heiminum hafi tekið þátt. Hraun er eitt fimm banda sem standa eftir. Þetta kemur mér ekkert á óvart. Ég hef vitað af snilligáfu þessarra manna í lengri tíma en flestir og ég hef einhvern veginn aldrei efast um að þeir næðu langt, þetta var bara spurningin um að halda það út. Nú fara Íslendingar kannski að taka eftir þeim og kaupa diskinn þeirra. On sale now!

Ég vil óska Svabba og strákunum til innilega til hamingju með árangurinn.

Bragi reit 05:06 EH | Comments (0)

Trúboð í skólum og vanraka þjóðkirkja

Ég var að enda við að horfa á kunningja minn, hann Matthías Ásgeirsson í Silfri Egils. Þar varði hann sjónarmið trúlausra manna varðandi trúboð í skólum og leikskólum. Andmælandi hans var Jón Magnússon(þarna var Matthíasi greiði gerður). Eitt skein í gegnum allan málatilbúnað Jóns. Það var að hann gat ekki hugsað sér að sýna öðrum mönnum það umburðarlyndi að leyfa þeim að vera öðruvísi. Hann ásamt mörgum trúuðum einstaklingum neita að leyfa börnum að alast upp án þess að þau lendi í aðkasti og einelti vegna trúarlegrar útskúfunar.

Þetta hljómar afskaplega róttækt en svona er þetta í raun og veru. Prestar koma inn í leikskóla með sitt trúboð og þau börn sem eiga foreldra sem ekki eru annaðhvort í annarri kirkju en þjóðkirkjunni eða trúlausir eru teknir til hliðar á meðan messunni stendur. Hvað þýðir það í raun? Börnunum finnst þau vera útundan og verða sár og leið. Hvernig er þetta annað en eitt einkenni eineltis, að finnast það ekki vera af sama stalli og æðsta formlega yfirvaldið sem það hefur kynnst, leikskólinn. Í mínum huga eru kirkjunnar menn níðingar á meðan að þeir leyfa þessu að viðgangast og halda þessarri trúboðsstefnu áfram.

Í raun er ekki mikið sem verið er að fara fram á. Einfaldlega það að prestar láti leikskólann í friði og stundi ekki trúboð í grunnskólum. Að mínu mati á fermingarfræðslan ekki að fara fram í skólum en mér finnst í fínu lagi að krakkar fari á skólatíma í hana ef að hinir fá að gera það sem þeim sýnist á meðan. Kristinfræðslunni á náttúrulega að breyta yfir í trúarbragðafræði en í fínu lagi er að leggja áherslu á kristna trú vegna sögulegra tengsla okkar við hana. Einnig finnst mér mikilvægt að leggja mikla áherslu á ásatrú þar sem hún hefur líka mikið sögulegt gildi.

Stóri vandinn er bara að kirkjunnar menn líta ekki á þetta sem hugmyndafræðilega baráttu. Þetta er baráttan um völdin, baráttan um það að lifa af næstu öldina. Þeir vita nefnilega sem er að fjöldi þeirra sem trúa á þann hátt sem kirkjan boðar fer lækkandi með hverju árinu. Þetta er sem sagt spennandi barátta sem ég hef sterkar skoðanir á en ætla að halda mér í þögla meirihlutanum í smá tíma.

Bragi reit 12:44 FH | Comments (2)