júlí 21, 2007

365 miðlar styðja við bakið á verðbólgunni

Svo virðist sem sjónvarpstöðin Sýn hafi tekið þá einhliða ákvörðun að styðja dyggilega við bakið á verðbólgunni í hraðri framrás á undanförnum árum. Sýn var hlutskörpust í útboði um enska boltann og mun núna í næstu þrjá vetur sýna enskan fótbolta á Sýn2. Ég hef verið áskrifandi að Skjásporti (sem hefur sýnt enska boltann undanfarin ár) og borgað fyrir það rúmar tvöþúsund krónur á mánuði. Mér hefur ekki fundist það mikill peningur fyrir metnaðarfulla dagskrárgerð og alla þá leiki sem ég hef viljað sjá. Þar sem ég er stuðningsmaður Manchester United þá reyni ég að skammta mér eingöngu þeirra leiki og ég man ekki í svipinn að Skjásportið hafi klikkað á því að sýna leik með núverandi Englandsmeisturunum. Semsagt ég borgaði sanngjarnan pening fyrir góða vöru, eitthvað sem kemur sjaldan fyrir á Íslandi.

Nú hafa 365 miðlar með Sýn og Sýn 2 í fararbroddi hinsvegar ákveðið að tvöþúsundkallinn minn sé lítils virði og upphæðin sem þau fyrirtæki ætla að rukka mig um er 4.390,- íslenskar nýkrónur! Þetta er verðbólga upp á rúm 100 prósentustig. Ekki gerði ég mér grein fyrir þessari óðaverðbólgu á landinu fagra. Þessa verðhækkun reyna fyrirtækin svo að fela með gríðarflókinni verðskrá þar sem verðið á enska boltanum er tengt við kaup á einhverjum handónýtum sjónvarpsstöðvum og reynt að fá mann til að bindast kaupmála um það að vera áskrifandi að stöðinni í 12 mánuði á ári! Enski boltinn er bara í gangi í tíu... á þá að rukka fyrir snjókomu eða er kannski ætlunin að láta mann borga fyrir hina þrælskemmtilegu Friðarkeppni sem haldin er í Fjarskanistan þar sem taka þátt varalið knattspyrnurisanna Bolton og Redding.

Þeir reyna að bera blak af sér með því að bæta ensku fyrstu deildinni við pakkann og lofa að sýna mörkin sem voru skoruð í leikjunum fyrr um daginn sama kvöld en ekki daginn eftir eins og var með Skjásportið. úúúúúú Ég held að enginn nema örfáir sérvitringar hafi áhuga á þessum aukafítusum og ættu þeir í rauninni að skammast sín fyrir að bjóða upp á þetta öðruvísi en frítt.

Nú finnst mér engin ástæða til að bera virðingu fyrir mönnum sem haga sér á þennan máta. 365 miðlar voru að enda við að tryggja að ég mun aldrei eiga við þá viðskipti aftur. Ég læt ekki bjóða mér svona rugl og ég hvett aðra um að taka sömu afstöðu með mér. Hittumst svo á Glaumbar og hvetjum okkar menn.

Bragi reit 04:28 EH | Comments (19)

júlí 19, 2007

Fallegasta orðið á íslensku

Þessi kona er með samkeppni um fallegasta orðið á íslensku. Persónulega finnst mér flest orðin sem koma fram í keppninni hennar líkjast nýja trendinu í nafngiftum þjóðarinnar. Aþena Mjöll og Máni Snær (æl)

Mér finnst orðið Hrygningarstofn vera fallegasta orðið á íslensku. -sagt af Agureyringi.

Bragi reit 04:18 EH | Comments (2)

júlí 15, 2007

Virk Umhverfisvernd

Ég var að enda við það að lesa grein eftir Leó M Jónsson sem birtist á Vísi í dag. Þar talar hann um nauðsyn þess að auka hlut díselbíla í umferðinni af umhverfisverndarástæðum og færir hann fyrir því ýmis rök sem mörgum umhverfisverndarsinnanum kann að finnast skrítin. Flest kannaðist ég við og finnst mér skemmtileg tæknileg útskýring hans á því hvers vegna díselvélar menga minna en bensínvélar.

Ég hef lesið síðuna hans Leós í hartnær tvö ár og er hún endalaus uppspretta fróðleiks um bíla og öllu sem tengist bílum. Leó er einnig mikill spökúlant um heimsins gæði og æði og má finna greinar þar inni um hvers konar umhugsunarefni og hefur hann sterkar skoðanir á flestu því sem penninn ritar. Þegar ég virðist hafa misst minn metnað fyrir vefsíðunni minni þá er gott að geta hangið í pilsfaldinum hjá mönnum eins og Leó sem hafa með dugnaði haldið uppi góðri síðu í langan tíma. Leó átti tíu ára vefsíðu afmæli fyrir stuttu og verð ég að óska honum til hamingju með það.

Nú er hann Þorri minn orðinn fimm vikna og á leiðinni til Hollands með mömmu sinni. Hann er semsagt að fara að heimsækja ömmu og afa í Hollandi. Það er ekki laust við að ég sé með smá kvíða yfir því að fá ekki að halda utan um einkasoninn í heila viku. Annars má finna myndir af honum inni á síðunni hennar Kristjönu.

Ég verð duglegri á næstunni í blogginu. Ég er búinn að taka mér rúmt ársfrí að mestu en nú er ætlunin að endurhanna síðuna og hefja skriftir á nýjan leik.

Bragi reit 10:48 FH | Comments (1)