maí 25, 2007

Um ríkisstjórnarmyndun og viðbrögð við henni

Ég er ákaflega bjartsýnn fyrir hönd nýrrar ríkisstjórnar. Í henni situr margt fólk sem ég hef haft góð kynni af og treysti til góðra verka. Aðdragandi myndunar hennar var hins vegar með öðrum hætti en ég bjóst við og vil ég reifa nokkrar athuganir mínar í því ferli.

Atburðarásin er flestum kunn. Upp úr viðræðum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks slitnaði eftir fund þingflokks Framsóknar skömmu eftir kosningar. Viðræður þessara tveggja flokka höfðu ekkert farið af formlega stiginu og mikill vari var hjá mörgum um áframhaldandi samstarf. Slit urðu ofan á og Geir og Ingibjörg Sólrún sameinuðust um að vinna saman næstu fjögur árin.

Nokkur hugtök hafa verið notuð af nýrri stjórnarandstöðu varðandi myndun nýrrar stjórnar og svo nú í sambandi við stjórnarsáttmálann. Við skulum skoða fáein slík.

Steingrímur J. Sigurðsson hefur minnst á það í þónokkrum viðtölum að þarna hafi aðilar ekki farið að leikreglum. Leikreglur þessar eru vissulega ekki til nema sem lagabókstafur. Lagabókstafnum var fylgt til hins ýtrasta, og ef svo var hvar voru þá leikreglur brotnar? Ef Steingrímur er að ýja að þeirri venju að stjórnarandstaðan eigi að ræða saman ef stórn fellur þá er það í fyrsta lagi ekki algilt og í öðru lagi má benda honum á að stjórnin féll ekki í þetta sinn. Þegar kemur að öðrum samskiptareglum er ekki um neitt annað að ræða en traust á milli fólks og skírskotun til fyrri samskipta. Venjur eru ekki leikreglur og ef Steingrímur ætlar að gagnrýna eitthvað eða vera opinberlega sár út í eitthvað sem Samfylkingin hefur gert honum, þá ætti það að vera skorturinn á trausti sem Samfylkingin sýndi honum. Er það ekki raunin að þegar allt kom til alls þá treysti Samfylkingin sér ekki í stjórn með Framsókn og Vinstri Græna gjammandi framan í hvor aðra? Leikreglur voru ekki brotnar.

Nafngiftir á nýrri ríkisstjórn eru orðnar býsna margar og ber þar helst ap nefna Þingvallastjórn, Baugsstjórn, Bleikjan, Uppstigningastjórn, Geirlaug og eflaust fleiri nýtileg orð. Ekki sé ég neina þörf á því að kalla Ríkisstjórn íslenska lýðveldisins annað en það sem hún er kölluð. Uppnefni af þessu tagi eiga að vera verðskulduð og koma að sjálfu sér en ekki uppfundin af misvitrum bloggurum.

Svo er það sjálfur stjórnarsáttmálinn. Er hann óljós? Við hverju bjuggust menn? Fimm ára áætlun? Hann er óljós vegna þess að í eðli sínu er stjórnarsáttmáli óljós. Hann boðar stefnuna og leggur línurnar en setur mönnum ekki það miklar skorður að ekki sé hægt að haga seglum eftir vindi. Ef eitthvað þá er þessi stjórnarsáttmáli sá skýrasti sem ég hef lesið í lengri tíma.

Það sem er kannski hið merkilegasta við nýja stjórn er hins vegar ekki bundið við sjálfa stjórnina heldur við stjórnarandstöðuna. Í henni sitja núna allir þeir flokkar sem á undanförnum árum hafa boðað afturhald, íhald og bersýna þjóðernisstefnu. Íhaldið gamla sem á árum áður var flokkur hægvirkra framfara lítur núna út eins og kú á fyrsta degi beitar í samanburði við þessa þrjá. Þetta er til marks um hvað mun breytast og hvað mun ávinnast í tíð nýrrar ríkisstjórnar. Frjálsræði og alþjóðahyggja mun hafa vinninginn yfir þröngsýni og þjóðerniskennd.

Bragi reit 11:49 FH | Comments (2)

maí 13, 2007

Iss, hún er ekkert fallin.

Við getum þó allavegana glott eins og maðurinn sem var að enda við að lemja hundinn sinn. Framsókn er búin að ýlfra í alla nótt.

Bragi reit 10:49 FH | Comments (0)

maí 12, 2007

Muniði orðin

"Ég vil biðja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að víkja úr kjörbúðinni."

Bragi reit 11:24 FH | Comments (0)

Kæru Vinir

Fellum ríkisstjórnina.

Bragi reit 09:27 FH | Comments (0)