desember 25, 2006

Gleðileg jól, megi ljósið verða þér til mikillar gleði!

Aðfangadagskvöld runnið upp og yfirgefið mannskapinn. Maginn minn er ánægður og sömuleiðis hugurinn. Við Kristjana erum líklegast að upplifa okkar seinustu pakkajól. Á næsta ári býst ég við að flestar gjafir til okkar verði föt og annað dóterí fyrir litla barnið sem Kristjana geymir núna í maganum sínum. Það er undarlegt að lenda í flóði gjafa. Ég var orðinn saddur á gjöfum löngu áður en síðasta gjöfin kom og finnst við vera ofdekruð af vinum okkar og fjölskyldu. Ég kvarta nú samt ekki undan slíku.

Vinur minn Martin gaf mér gjöf núna um jólin. Við gáfum honum í raun ekkert en sonur hans fékk að sjálfsögðu pakka frá okkur. Hann er argentínskur og sagði mér frá jólahefðunum þar í sambandi vð pakkana. Þar tíðkast að sá sem gefi gjöf skrifi á pakkann nafnið á þeim sem pakkann á að fá en ekki hver gaf pakkann. Þetta finnst mér sniðugt. Þarna er bæði verið að sporna gegn metingi og einhverju gjafakapphlaupi.

Ég hef átt góð jól og óska öllum þess sama.

Bragi reit 02:28 FH | Comments (2)

desember 19, 2006

Kosningar í bráð

Ég hef tekið eftir því að fjölmiðlar telja fjölmiðlalögin vera stóran þátt í stirðleika á milli stjórnarflokkanna. Jafnvel að þetta mál eigi eftir að vera kosningamál í vor. Því fer fjarri. Slagkrafturinn er allur farinn úr fjölmiðlalögunum og þessi klessa sem ohf-un RÚV er komin í hefur dempað áhrifamátt upphrópanna fjölmiðlalaganna. Ég held hreint út sagt að ástæðan fyrir því að við sjáum óeðlilega mikið skrifað og fjallað um fjölmiðlalögin sé sú að þau fjalla um fjölmiðla. Það er eðlilegt að stétt manna hafi áhyggjur af stöðu sinni en þarna er verið að skekkja vægi umfjöllunar um aðra huti.

Kosningamálin verða að mínu mati á allt öðru plani. Ég tel það vera víst að stór hluti fólks muni kjósa með veskjunum í vor. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar mun koma fólki illa og verðbólgubál mun myndast sem hækkar húsnæðislán fjöldans gríðarlega.

Krónan er ákaflega viðkvæm og evran er að taka við sem aðalviðskiptamynt íslenskra fyrirtækja. Straumur Burðarás var að enda við að tilkynna um að þeir ætli að færa bókhald og skila ársreikning í evrum.

Erlend lán eru að verða æ algengari sem fjármögnunarleið húsnæðis og ég persónulega fæ ekki séð að krónan eigi sér langa lífdaga. Upptaka evrunnar og innganga Íslands í ESB verður að vera stórt kosningamál.

Siðferðisleg ábyrgðarmál og inflytjendamál eiga eftir að taka til sín hluta af athyglinni en lífeyrisgreiðslur verða fyrirferðamiklar og mun sérframboð "heldri borgara" hafa talsverð áhrif á þeim vettvangi.

Von draumalandsins um að kosið verði um náttúrunua og skynsama nýtingu er óraunhæf. Áhugi er ekki fyrir því að ég held.

Bragi reit 01:23 EH | Comments (1)

desember 16, 2006

Olíufélagsforstjórar kærðir

Ég rakst á þessa frétt á Vísi.is í morgun. Fannst um að gera að setja tengil á hana hér á síðunni.

Þarna kemur fram með þeirra eigin orðum hvernig forstjórar olíufélaganna sviku út úr Íslendingum peninga. Ég hef mikið velt fyrir mér aðferðafræðinni sem hefur verið beitt í þessu samráðsmáli. Held hún sé gölluð og ég held að fyrst núna sé verið að fara rétta leið í málinu. Ég tel að sektir séu nauðsynlegar á fyrirtækin. Hins vegar þarf ábyrgð yfirmanna að vera ríkari. Það eru þeir sem fremja verkin og því eðlilegt að þeirra manndómur sé tekinn til skoðunar og t.d. í þessu dæmi kærðir fyrir hlut sinn.

Bragi reit 10:15 FH | Comments (1)

desember 15, 2006

ManUtd blogg

Ég hef ekki lagt það í vana minn að skrifa um fótbolt hér á þessu bloggi. Ég hef samt talsverðan áhuga á slíku sparki og þess vegna hef ég ákveðið að hlífa þessu bloggi sem mun vonandi styrkjast á næstunni og stofnað undirsíðu sem mun kallast Manchester United bloggið. ég geri þetta að áeggjan nokkurra kunningja minna sem einnig verða pennar á þessari síðu. Útlitið er til bráðabirgða og mun batna eftir nokkrar vikur en fyrst um sinn látum við orðið ráða. Smella hér til að komast á síðuna.

Bragi reit 01:31 EH | Comments (0)

desember 06, 2006

Tvöföldun eða 2+1

Umræðan um Suðurlandsveginn finnst mér vera af hinu góða og algjörlega nauðsynleg. Útkoman er hins vegar við það að nálgast hið vitlausa. Nú er komið upp úr krafsinu að annaðhvort verður tvöfaldað eða hin lausnin 2+1 verður sett í framkvæmd. Ég persónulega er hlynntur 2+1 aðferðinni ef Vegagerðin passar sig á að bæta við vegöxl til að gefa fólki tækifæri til að stoppa vegna vandræða. Eins og staðan er í dag þá er erfitt að nema staðar á 2+1 hluta vegarins vegna lítillar axlar. Ástæðan fyrir því að ég er hlynntur þessari leið er margþætt.

1.Hún er talin af sérfræðingum vera jafn örugg og tvöföldun.

2.Hún er miklu ódýrari, vegamálastjóri telur að hún sé 70% ódýrari. Þessi verðmunur þýðir að við gætum einnnig lagt 2+1 veg að Hvalfjarðargöngum fyrir sama pening og tvöföldun á Suðurlandsvegi.

3.Hún gefur fólki tækifæri til að taka framúr án áhættu.

4.Hún útilokar framanákeyrslur.

5.Minni sjónmengun, minna jarðrask, minni ljósmengun.

Einu rökin sem hallast að 2+2 vegi eru þau að umferðin sé orðin það mikil að 2+1 vegur nái ekki að flytja hana. Þetta eru rugl rök og hefur oft verið bent á Reykjanesbrautina í þessu samhengi. Slíkur samanburður er rangur. Umferð um Reykjanesbrautina er mun meiri en um Suðurlandsbraut. Alþjóðaflugvöllur og stórir byggðakjarnar sem sækja mikið atvinnu til Höfuðborgarsvæðisins hafa víst eitthvað með það að gera. Fólk er einnig voða hrifið af því að minnast á að í framtíðinni muni bílum fjölga og því muni umferðin aukast. Eru þetta nógu góð rök fyrir því að henda sjö milljörðum aukalega í mögulega þarflausa vegaframkvæmd?

Bragi reit 11:38 FH | Comments (2)