október 20, 2006

Íslendingar Norður-Kórea hvalveiðiþjóða?

-Paul Watson Adolf Hitler Náttúruverndarsinna

Eftirfarandi er frétt af http://mbl.is

Íslendingar Norður-Kórea hvalveiðiþjóða, að sögn Watsons

Paul Watson, stofnandi og forseti umhverfissamtakanna Sea Shepherd, kallar Íslendinga „Norður-Kóreu hvalveiðiþjóða sem sýna almenningsáliti alls heimsins fyrirlitningu og hafa að engu regluverk alþjóðalaga", í viðtali við Fréttablaðið. Hann líkir þannig atvinnuhvalveiðum Íslands við kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu, að því er segir í Fréttablaðinu í dag.

„Það sem Ísland er að gera er glæpur og við ætlum okkur að senda tvö skip til Íslands næsta sumar til að hindra atvinnuhvalveiðarnar," heldur Watson áfram. „Langreyður er í útrýmingarhættu og ef Íslendingar drepa eina langreyði er þjóðin sek um að brjóta reglur Alþjóðahvalveiðiráðsins og CITES-samninginn um alþjóðaverslun með tegundir sem eru í útrýmingarhættu," að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Ég er búinn að sveiflast á milli þess að vera fylgjandi eða andvígur þessum blessuðu hvalveiðum okkar Íslendinga. Eða mætti ég segja þessarra Íslendinga sem hafa gaman að hvalveiðum. Ég verð að játa að ég var andvígur þeim í byrjun, ekki vegna ástar minnar á þessum stórum spendýrum heldur vegna þess að ég taldi Ísland ekki hafa neinn hag af veiðunum. Mögulega gæti þetta haft neikvæð áhrif á ferðamannaiðnaðinn og ekki fæ ég séð að neinn muni hugsanlega græða á veiðunum nema kannski hvalveiðifrömuðurinn Kristján Loftsson.

Núna er ég hins vegar að breytast í blóðþyrstan hvaladrápara og ástæðan er þríþætt. Í fyrsta lagi finnst mér hvalkjöt gott og ég hlakka til að læsa kjálkunum um fyrsta langreiðarbitann og þar með ná mínu árlega takmarki um að borða eina nýja dýrategund. Í ár er ég nú reyndar búinn að borða fimm nýjar en þá getum við bara talið langreyðina með árinu 2007. -Í annan stað eru það menn eins og hryðjuverkamaðurinn Paul Watson og talsmaður Grænfriðunga sem Einar Þorsteinsson talaði við á Rás 2 í gær. Menn og konur sem reyna að hafa áhrif á þjóðfélög með hótunum og aðgerðum til þess að skaða hagsmuni þeirra án þess að vita nokkuð hvað þeir eru að tala um fer afskaplega mikið í taugarnar á mér. Rök talsmanns Grænfriðunga voru á þessa leið:

1.Þar sem ekki er markaður fyrir hvalkjöt eigið þið ekki að veiða hval.
Svar: Þar sem ekki er til hvalkjöt á markaði þá vitum við ekki hvort fólk muni kaupa hvalkjöt nema að setja hvalkjöt á markað.

2.Sumir vísindamenn hafa efasemdir um að hvalastofnarnir í norðurhöfum séu komnir úr útrýmingarhættu.
Svar: Bull.

Samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar myndu árlegar veiðar á allt að 400 hrefnum og 200 langreyðum samrýmast markmiðum um sjálfbæra nýtingu. Samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra verða hvalveiðar takmarkaðar við 9 langreyðar og 30 hrefnur, til viðbótar þeim 39 hrefnum sem teknar verða árið 2007 við framkvæmd vísindaáætlunar Hafrannsóknastofnunarinnar, en þá verður því verki lokið sem hófst árið 2003 að safna 200 dýra úrtaki.
heimild

3.Íslendingar hafa meiri markað fyrir hvalaskoðun en veiði.
Svar: Alveg rétt og það fannst mér vera nægjanlega rök alveg þartil slefandi hálfvitar eins og Paul Watson fóru að tjá sig.

Í þriðja lagi þá er það viðbrögð alþjóðasamfélagsins, aðallega enskumælandi þjóða sem virðast vera horfnar svo langt upp í eigið þermi að ekki er hægt að greina rök frá villu. Þau hafa verið öfgafull og einkennst af hótunum, meðal annars þá lét sjávarútvegsráðherra Bretlands hafa þetta eftir sér;

Það sé barnalegt ef ríkisstjórn Íslands haldi að hún geti tekið slíka ákvörðun án þess að það hafi áhrif á tvíhliða samskipti ríkjanna.
heimild


Svo ég endurtaki í lokin:

-Paul Watson Adolf Hitler Náttúruverndarsinna


-Viðbót
Kristjana Ósk gerði smá athugasemd sem ekki náði fram í kerfið og ákvað ég að svara henni:

Áður en nýjar vörur eru settar á markað eru gerðar markaðsrannsóknir. Þetta er víðtekin og almennt samþykkt venja.

Hvað varðar hvalveiðar þá er ALLTOF mikið í húfi til þess að stökkva út í djúpu laugina án þess athuga fyrst markaðinn.

Mér finnst þetta vera algert rugl... við erum nú þegar að veiða slatta af hval fyrir innlendan markað (undir yfirskini vísindaáætlunarinnar). Nú þegar er hægt að fá hval á matseðlum margra veitingahúsa.

Hagsmunir heildarinnar hljóta að vega þyngra en hagsmunir einhverra örfárra eigingjarnra hvalveiðimanna sem vilja skapa sér tekjur á kostnað annarra atvinnugreina í landinu. En flest bendir til þess að sú verði raunin ef veiðar verða hafnar.

Svar mitt:
Þetta mál varðar fleira en markaðina sjálfa. Fyrirtækin eiga að standa í þessum markaðsrannsóknum sjálf en ekki ríkið. Markaðsrannsóknirnar eru því ekki á ábyrgð ríkisins. Það að ríkið leyfi veiðar á tiltekinni dýrategund þarf að grundvallast á fimm þáttum.

1.Er dýrategundin í útrýmingarhættu
2.Er hægt að stjórna veiðum þannig að dýrategundin verði ekki í útrýmingarhættu vegna veiðana.
3.Skaða veiðarnar umhverfið á annan hátt.
4.Er siðferðisvitund þjóðarinnar misboðið
5.Stangast þetta á við alþjóðalög og samninga.

Hvað það varðar að allt of mikið sé í húfi þýðir að við þurfum að takmarka frelsi sumra til að auka frelsi annarra. Ákvörðun ríkisins á ekki að grundvallast á mótmælum hippa frá massatjúsetts. Atvinnugreinar munu alltaf vera í togstreitu og það mun ávallt vera ákveðinn skaði frá einni starfsgrein til annarrar. Stjórnmálamenn eiga heldur ekki að vera í þeirri stöðu að velja á milli starfsgreina eins og hvalaskoðunarmenn eru að heimta. Það væri sannarlega mismunun á starfsgreinum. Hins vegar er spurning um hvort að þessar hvalveiðar stangist á við alþjóðasamninga og lög. Ef svo er ber okkur annaðhvort að segja okkur frá samningunum eða að beita okkur fyrir því ða breyta lögunum. Síðan er það nú þannig að Alþjóðalög hafa í raun ekkert gildi ef ríki ákveða að taka ekki mark á þeim.

Í upphafi skal endinn skoða og öfugt. Við skulum athuga afhverju hvalveiðum var hætt á sínum tíma. Íslenska þjóðin lét undan alþjóðaþrýstingi vegna þeirrar fullvissu manna í vísindasamfélaginu að hvalirnir væru komnir í útrýmingarhættu og þess skaða sem Sjávarhirðirnir og Grænfriðungar höfðu ollið á sölu sjávarafurða. Tekin var sú ákvörðun að ekki skyldi veiða þessi dýr aftur fyrr en stofnarnir væru komnir í sæmilegt horf aftur. Nú hafa hvalveiðiþjóðirnar gömlu krafið Alþjóðahvalveiðiráðið um leyfi til þess að hefja aftur vdeiðar enda stofnarnir löngu komnir í veiðanlegt horf, hér á N-Atlantshafi að minnsta kosti. Ráðinu hefur verið stjórnað af þjóðum sem ekki stunda hvalveiðar og því hefur þetta leyfi ekki fengist. Reyndar eru til þjóðir sem fá undanþágu frá banni ráðsins en þær eru t.d. Grænland og Bandaríkin. Þar fá frumbyggjar að veiða nokkur dýr á ári vegna þess sem kallað er séraðstæður. Til að undirstrika hræsnina sem er innbyggð í þetta efni þá eru Bandaríkin einmitt ein af þeim þjóðum sem mótmælir sem mest nýuppteknum hvalveiðum Íslendinga.

En ég er einmitt mjög sammála þér Kristjana mín. Þetta var vanhugsað mál og mun skaða okkur meira en það mun koma okkur til góða. Hins vegar finnst mér að ákvörðunin eigi ekki að stjórnast af markaðsaðstæðum heldur fyrrgreindum forsendum.

Bragi reit 10:21 FH | Comments (8)

október 19, 2006

Almennt um prófkjör, af gefnu tilefni

Prófkjör bæði Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar eru býsna umfangsmikil hjá fréttamiðlunum þessa dagana. Framboðstilkynningar dynja á sem aldrei fyrr og mannkostir frambjóðenda dregnir fram í lesendadálkunum í hundraðatali. Ég þekki talsvert marga sem ákveðið hafa að bjóða sig fram. Þetta kemur víst með árunum. Sífellt fleiri af fyrrum samstarfsmönnum, vinum, kunningjum, ættingjum og öðrum sem ég hef kynnst í gegnum lífsleiðina telja sig fullbúna undir þá ábyrgð að stjórna landinu.

Ef þú ert einn af þessum hópi, þá vinsamlegast bið ég þig um að sleppa mér þegar kemur að því að biðja fólk um að styðja þig. Ég er flokksbundinn Samfylkingarmaður og þar mun ég styðja það fólk í Reykjavíkurkjördæmi sem mér finnst hafa erindi á þing. Þið hin sem eruð að leita eftir stuðningi mínum og eruð í öðrum flokkum eruð því miður að leggja út línu á miðju túni. Það að ég er ekki tilbúinn að leggja ykkur lið hefur ekkert með það að gera að mér líki ekki við ykkur eða treysti ykkur ekki. Ég tel það hins vegar svik við sjálfan mig að annaðhvort skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við flokk sem ég get ekki hugsað mér að styðja, hvað þá að ganga í hann. Þetta er ein af þessum svokölluðu lífsskoðunum sem ég hef og bið fólk um að virða.

Ég verð hins vegar að játa að í fyrsta skipti á ævinni langar mig til þess að styðja manneskju sem stendur í prófkjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er hún Guðfinna Bjarnadóttir. Kynni mín af henni hafa verið á persónulegum nótum undanfarin ár enda er ég giftur inn í stórfjölskyldu hennar. Þar er á ferðinni heilsteypt manneskja sem hefur sýnt það og sannað í störfum sínum jafnt og á öðrum sviðum að henni er treystandi fyrir æðstu áhrifastöðum. Ég get hins vegar ekki samvisku minnar vegna stutt hana í prófkjörinu en ég hvet ykkur sem þetta lesið og eruð í stöðu til þess að styðja við bakið á Guðfinnu að láta verða af því.

Af þeim sem ég hef nú þegar lofað mínum stuðningi eru þau Bryndís Ísfold og Ágúst Ólafur sem reyndar hefur ekki heyrt í mér en veit að getur reitt sig á stuðning minn.

Aðra gef ég ekki upp.

Prófkjör eru að mínu mati ekki mjög góð aðferð til að ákvarða hverjir eiga að bjóða sig fram fyrir ákveðna flokka. Það er að segja ekki eins og þau eru uppsett í dag. Mér finnst sú aðferð að halda óbundið innanflokksprófkjör vera langbesta kostinn sem ég hef rekist á. Slíkt kemur í veg fyrir óheilbrigða smölun og ónákvæma félagalista. Þá er nauðsynlegt að hafa uppstillingarnefnd til þess að geta brugðist við ef úrslitin yrðu skaðleg fyrir flokkinn í heild sinni. Sumum finnst það kannski ekki lýðræðislegt en ég sé samt fleiri kosti við þessa tilhögun en ókosti.

Bragi reit 01:56 EH | Comments (8)

október 10, 2006

Hleranir

Þessi frétt á mbl.is kemur mér ekki á óvart

Sími Jóns Baldvins hleraður

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráherra Íslands sagði í viðtali við Jóhann Hauksson á Útvarpi Sögu í morgun, að hann hefði haft grun um að sími utanríkisráðherra hafi verið hleraður. Árið 1992 eða 1993 hafi hann fengið tæknimann með tól sín til að skoða símtækin á skrifstofu sinn og þá kom í ljós að sími hans var hleraður.

Ég fer að halda að síminn fjölskyldu minnar hafi þá líka verið hleraður vegna aðildar föður míns að Æskulýðsfylkingunni. Ég hef einnig verið nokkuð viss um að á vissum tímapunkti hafi verið fylgst með undirrituðum að einhverju marki. Það var nefnilega sá tími sem ég var róttækur ungur maður sem lét handtaka sig við mótmæli. Eftir þann atburð kærði ég lögregluna og vann það mál og fékk handtökuna dæmda ólöglega. Nú í dag er oft vitnað í þetta mál í fjölmiðlum þegar kemur að réttindum mótmælenda. Þessi atburður var hins vegar ekki sá sem hefur ýtt hvað mest undir grunsemdir mínar um eftirlit einhverrar leyniþjónustu.

Það var í kringum 1997-98 að ung stúlka kom í heimsókn til mín frá Danmörku. Hún var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni hér á landi og hennar vegna og fjölskyldu hennar ætla ég að láta það vera að nefna hana. Nokkrum mánuðum áður en hún kemur hingað til lands tekur hún þátt í innrás í sendiráð Perú í Kaupmannahöfn. Þetta var atburður sem var talsvert í fréttum hér á landi en kveikjan að þessari innrás var tengd miklum róstum í stjórnmálum í Perú á þessum tíma sem danskir anarkistar tóku til sín og studdu aðra hliðina, ég ætla þó ekki út í að skýra það mál.

Við hittumst þrjú heima hjá mér í Kópavoginum og eyddum kvöldinu í að ræða um stjórnmál vítt og breitt í heiminum. Við byrjuðum svo að ræða um blessaðan feminisma og eitt leiddi af öðru og þar sem tveir aktívistar koma saman verður passívistinn að gefa eftir og við fundum út leið til að lýsa skoðunum okkar á táknrænan, en eflaust ólöglegan hátt. Við ætluðum okkur að spreyja málningu á einhvern glugga hjá Gallabuxnabúðinni vegna gína þar inni sem voru þannig mótaðar að mótaði fyrir ímynduðum rifbeinum. Þjetta fannst okkur svaka töff þannig að við fórum upp í bílinn minn og með spreybrúsa í för keyrðum niður í miðbæ, klukkan tíu, hálf ellefu á miðvikudegi, og að Gallabuxnabúðinni. Þar beið lögreglubíll fyrir utan búðina og renndi annar ómerktur bíll á eftir okkur sem nú byrjaði að blikka sírenuljósum.

Tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn stigu út úr bifreiðinni og báðu mig um að stíga út úr bifreiðinni. Lögreglumennirnir í merkta bílnum störðu á okkur en héldu sig inni í bílnum. Ég klifraði út úr bílnum og heilsaði upp á laganna verði sem voru ekki lítið alvarlegir. Þeir spurðu mig um hvað ég væri að gera þarna og þeir vældu eitthvað um að það væri skrýtið að ég kæmi ekki með betri ástæðu en þá að ég væri á rúntinum... Á MIÐJUM LAUGAVEGINUM!!! Auðvitað var planið að valda skemmdum á ófyrirleitnu fyrirtæki, en hvernig í ósköpunum átti þessi lögreglumaður að vita það nema að hafa haft einvhers konar eftirlit með okkur. Hann þráspurði mig um hvað ég væri að gera niðri í miðbæ og bað svo um að fá að leita í bílnum. Ég svaraði honum þannig til að ef hann hefði eðlilegan rökstuddan grun um að við hefðum eitthvað óhreint í pokahorninu þá skyldi hann gera það en annars láta það vera. Mér fyndist þetta eftirlit vera stórfurðulegt og ef að hann léti ekki af aðdróttunum sínum þá færi málið lengra. Þá gaf hann eftir og "leyfði" mér að fara.

Við vorum að sjálfsögðu dauðfegin að losna og keyrðum heim í flýti þar sem við skiluðum spreybrúsunum og bjuggum til allskyns samsæriskenningar og leituðum út um alla íbúð að hlerunarbúnaði og slíku. Að sjálfsögðu fann ég ekkert en ég hef samt ávallt verið með slæma tilfinningu gagnvart þessum atburði.

Bragi reit 10:40 FH | Comments (1)

október 05, 2006

Fermingar og trúleysi

Ég hef verið að fyglast með umræðu um fermingar á síðunni hans Stefáns og ákvað að leyfa ykkur að fræðast örlítið um mína fermingu. Ég hef talið sjálfan mig trúlausan með öllu alveg frá þeim degi er ég komst að því að jólasveinninn væri frat. Ég setti þá sokk fyrir dyrnar inn í herbergið mitt og annan í gluggann. Skoðaði svo stöðuna daginn eftir og komst að því að sá sem í glugganum var hafði ekki hreyfst, en hinn hafði verið klesstur upp við vegginn. Beitti ég því einfaldri afleiðurökfræði og komst að því að öllum líkindum hefðu foreldrar mínir verið þarna á ferð. Við þetta ákvað ég að ég myndi ekki trúa neinum sögusögnum um skykkjuklædda kappa og tilvist þeirra án þess að hafa fyrir því meira en það sem sögusagnir og gróðabatterí sögðu til um. Og þettað meira þyrfti að innihalda haldgóð rök og góðar heimildir sem ekki koma aðilum sem þeim ota vel.

Þegar þetta var hafði ég aðeins lifað í um sex til sjö ár. Nokkrum árum síðar kom til fermingar og ég hafði varann á, hafði ekki mikinn áhuga á því sem þar fór fram og mætti illa og sjaldan í þessa tíma sem kynntir voru sem skylda. Þar sem ég var eini trúleysinginn í mínum bekk og að ég held í öllum árgangnum var mér einfaldlega ekki sleppt og þurfti ég að upplifa mín fyrstu skróp á ævinni í þessum tímum. Þegar kom svo að sjálfri fermingunni þá vaknaði efnishyggjumaðurinn í mér og ég tók þá ákvörðun að þessu gróðatækifæri yrði ekki sleppt og tók mamma mín að skipuleggja sameiginlega fermingarveislu mína og frænku minnar sem er jafngömul mér og fermdist á sama tíma. Áfallið kom svo nokkrum dögum fyrir ferminguna þegar að Ægir prestur í vesturbæ Kópavogs hringdi heim og tilkynnti okkur um það að svona menn sem ekkert hefðu mætt í trúfræðsluna gætu að sjálfsögðu ekki fermst. Ég fór því í skyndikúrs til Ægis og þar sem ég var frekar fljótur til í lærdómi á þessum árum lærði ég allan þvættinginn á tveimur stundum og fermdist svo nokkrum dögum síðar.

Ég er ekki frá því að ein ástæðan fyrir því að ég fermdist var sú að ég vildi gleðja hana mömmu mína. Ég taldi einnig að það að ljúga að sjálfum mér væri í lagi þar sem slíkt virtist vera ansi algengt þegar kemur að trúmálum. Ég var ávallt mjög sannfærður um mitt trúleysi og skráði ég mig úr þjóðkirkjunni um leið og ég byrjaði í menntaskóla, þá var ég einn af stofnfélögum í SARK, allavegana einn af fyrstu fimmtíu félögum þeirra samtaka þar sem ég komst ekki á stofnfundinn. Vantrú er félag sem ég hef kynnst ágætlega, bæði persónulega í gegnum Óla Gneista og Lalla sem ég kynntist í gegnum Háskólalistann og svo í gegnum hann Matta sem ég spilaði fótbolta með í Henson.

Ég hef fylgst með greinaskrifum þar og hrifist af nennu þessarra manna við að rökræða við trúmenn. Ég hef fyrir löngu lært að ekki þýðir að rökræða við trúmenn þar sem að í orðinu trú felst að viðkomandi hafi hafnað rökræðu og gengist trúnni á hendur. Því er ekki líklegt að rökræða við slíkt fólk hafi önnur áhrif en pirring og leiðindi. Vissulega er slæmt að hafna slíkri rökræðu sem farsa en það sem ég er að líta á hjá Vantrúarmönnum(ekki seggjum sem er gildishlaðið illyrði sprottið upp hjá mönnum sem vilja hlaða rökræðuna með tilfinningagildum) er meira hversu magnið getur verið mikið og einurðin gífurleg. Þetta held ég að sé haldreipi þeirra sem hvað mest gagnrýna Vantrúarmenn. Gagnrýnin er sem sagt að verða æ meira á þeim nótum að Vantrúarmenn séu sjálfir orðnir trúaðir á sinn eigin boðskap. Það er sem sagt verið að gagnrýna Vantrúarmenn fyrir að vera duglegir. Það er nefnilega ekki sami hluturinn að hafa trú á einhverju og að trúa.

Vantrúarmönnum er einnig líkt í æ meiri mæli við femínista. Þetta finnst sumum vera fúkyrði mikið. Mér finnst þetta aftur á móti vera hrós þar sem femínistar eins og Vantrú hafa verið duglegir við að kynna sinn málstað og vekja áhuga og athygli á sínum hugarefnum án ofbeldis og yfirgangs.

Og ég sem hélt að kirkjan og kristin trú boðaði umburðarlyndi.

Bragi reit 01:33 EH | Comments (2)