okt. 10, 2006

Hleranir

Þessi frétt á mbl.is kemur mér ekki á óvart

Sími Jóns Baldvins hleraður

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráherra Íslands sagði í viðtali við Jóhann Hauksson á Útvarpi Sögu í morgun, að hann hefði haft grun um að sími utanríkisráðherra hafi verið hleraður. Árið 1992 eða 1993 hafi hann fengið tæknimann með tól sín til að skoða símtækin á skrifstofu sinn og þá kom í ljós að sími hans var hleraður.

Ég fer að halda að síminn fjölskyldu minnar hafi þá líka verið hleraður vegna aðildar föður míns að Æskulýðsfylkingunni. Ég hef einnig verið nokkuð viss um að á vissum tímapunkti hafi verið fylgst með undirrituðum að einhverju marki. Það var nefnilega sá tími sem ég var róttækur ungur maður sem lét handtaka sig við mótmæli. Eftir þann atburð kærði ég lögregluna og vann það mál og fékk handtökuna dæmda ólöglega. Nú í dag er oft vitnað í þetta mál í fjölmiðlum þegar kemur að réttindum mótmælenda. Þessi atburður var hins vegar ekki sá sem hefur ýtt hvað mest undir grunsemdir mínar um eftirlit einhverrar leyniþjónustu.

Það var í kringum 1997-98 að ung stúlka kom í heimsókn til mín frá Danmörku. Hún var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni hér á landi og hennar vegna og fjölskyldu hennar ætla ég að láta það vera að nefna hana. Nokkrum mánuðum áður en hún kemur hingað til lands tekur hún þátt í innrás í sendiráð Perú í Kaupmannahöfn. Þetta var atburður sem var talsvert í fréttum hér á landi en kveikjan að þessari innrás var tengd miklum róstum í stjórnmálum í Perú á þessum tíma sem danskir anarkistar tóku til sín og studdu aðra hliðina, ég ætla þó ekki út í að skýra það mál.

Við hittumst þrjú heima hjá mér í Kópavoginum og eyddum kvöldinu í að ræða um stjórnmál vítt og breitt í heiminum. Við byrjuðum svo að ræða um blessaðan feminisma og eitt leiddi af öðru og þar sem tveir aktívistar koma saman verður passívistinn að gefa eftir og við fundum út leið til að lýsa skoðunum okkar á táknrænan, en eflaust ólöglegan hátt. Við ætluðum okkur að spreyja málningu á einhvern glugga hjá Gallabuxnabúðinni vegna gína þar inni sem voru þannig mótaðar að mótaði fyrir ímynduðum rifbeinum. Þjetta fannst okkur svaka töff þannig að við fórum upp í bílinn minn og með spreybrúsa í för keyrðum niður í miðbæ, klukkan tíu, hálf ellefu á miðvikudegi, og að Gallabuxnabúðinni. Þar beið lögreglubíll fyrir utan búðina og renndi annar ómerktur bíll á eftir okkur sem nú byrjaði að blikka sírenuljósum.

Tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn stigu út úr bifreiðinni og báðu mig um að stíga út úr bifreiðinni. Lögreglumennirnir í merkta bílnum störðu á okkur en héldu sig inni í bílnum. Ég klifraði út úr bílnum og heilsaði upp á laganna verði sem voru ekki lítið alvarlegir. Þeir spurðu mig um hvað ég væri að gera þarna og þeir vældu eitthvað um að það væri skrýtið að ég kæmi ekki með betri ástæðu en þá að ég væri á rúntinum... Á MIÐJUM LAUGAVEGINUM!!! Auðvitað var planið að valda skemmdum á ófyrirleitnu fyrirtæki, en hvernig í ósköpunum átti þessi lögreglumaður að vita það nema að hafa haft einvhers konar eftirlit með okkur. Hann þráspurði mig um hvað ég væri að gera niðri í miðbæ og bað svo um að fá að leita í bílnum. Ég svaraði honum þannig til að ef hann hefði eðlilegan rökstuddan grun um að við hefðum eitthvað óhreint í pokahorninu þá skyldi hann gera það en annars láta það vera. Mér fyndist þetta eftirlit vera stórfurðulegt og ef að hann léti ekki af aðdróttunum sínum þá færi málið lengra. Þá gaf hann eftir og "leyfði" mér að fara.

Við vorum að sjálfsögðu dauðfegin að losna og keyrðum heim í flýti þar sem við skiluðum spreybrúsunum og bjuggum til allskyns samsæriskenningar og leituðum út um alla íbúð að hlerunarbúnaði og slíku. Að sjálfsögðu fann ég ekkert en ég hef samt ávallt verið með slæma tilfinningu gagnvart þessum atburði.

Háttvirtur Bragi reit 10.10.06 10:40
Háttvirtir rituðu:

Þetta er magnað!

Athugasemd eftir Halli reit 10.10.06 17:42
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003