okt. 10, 2006

Fermingar og trúleysi

Ég hef verið að fyglast með umræðu um fermingar á síðunni hans Stefáns og ákvað að leyfa ykkur að fræðast örlítið um mína fermingu. Ég hef talið sjálfan mig trúlausan með öllu alveg frá þeim degi er ég komst að því að jólasveinninn væri frat. Ég setti þá sokk fyrir dyrnar inn í herbergið mitt og annan í gluggann. Skoðaði svo stöðuna daginn eftir og komst að því að sá sem í glugganum var hafði ekki hreyfst, en hinn hafði verið klesstur upp við vegginn. Beitti ég því einfaldri afleiðurökfræði og komst að því að öllum líkindum hefðu foreldrar mínir verið þarna á ferð. Við þetta ákvað ég að ég myndi ekki trúa neinum sögusögnum um skykkjuklædda kappa og tilvist þeirra án þess að hafa fyrir því meira en það sem sögusagnir og gróðabatterí sögðu til um. Og þettað meira þyrfti að innihalda haldgóð rök og góðar heimildir sem ekki koma aðilum sem þeim ota vel.

Þegar þetta var hafði ég aðeins lifað í um sex til sjö ár. Nokkrum árum síðar kom til fermingar og ég hafði varann á, hafði ekki mikinn áhuga á því sem þar fór fram og mætti illa og sjaldan í þessa tíma sem kynntir voru sem skylda. Þar sem ég var eini trúleysinginn í mínum bekk og að ég held í öllum árgangnum var mér einfaldlega ekki sleppt og þurfti ég að upplifa mín fyrstu skróp á ævinni í þessum tímum. Þegar kom svo að sjálfri fermingunni þá vaknaði efnishyggjumaðurinn í mér og ég tók þá ákvörðun að þessu gróðatækifæri yrði ekki sleppt og tók mamma mín að skipuleggja sameiginlega fermingarveislu mína og frænku minnar sem er jafngömul mér og fermdist á sama tíma. Áfallið kom svo nokkrum dögum fyrir ferminguna þegar að Ægir prestur í vesturbæ Kópavogs hringdi heim og tilkynnti okkur um það að svona menn sem ekkert hefðu mætt í trúfræðsluna gætu að sjálfsögðu ekki fermst. Ég fór því í skyndikúrs til Ægis og þar sem ég var frekar fljótur til í lærdómi á þessum árum lærði ég allan þvættinginn á tveimur stundum og fermdist svo nokkrum dögum síðar.

Ég er ekki frá því að ein ástæðan fyrir því að ég fermdist var sú að ég vildi gleðja hana mömmu mína. Ég taldi einnig að það að ljúga að sjálfum mér væri í lagi þar sem slíkt virtist vera ansi algengt þegar kemur að trúmálum. Ég var ávallt mjög sannfærður um mitt trúleysi og skráði ég mig úr þjóðkirkjunni um leið og ég byrjaði í menntaskóla, þá var ég einn af stofnfélögum í SARK, allavegana einn af fyrstu fimmtíu félögum þeirra samtaka þar sem ég komst ekki á stofnfundinn. Vantrú er félag sem ég hef kynnst ágætlega, bæði persónulega í gegnum Óla Gneista og Lalla sem ég kynntist í gegnum Háskólalistann og svo í gegnum hann Matta sem ég spilaði fótbolta með í Henson.

Ég hef fylgst með greinaskrifum þar og hrifist af nennu þessarra manna við að rökræða við trúmenn. Ég hef fyrir löngu lært að ekki þýðir að rökræða við trúmenn þar sem að í orðinu trú felst að viðkomandi hafi hafnað rökræðu og gengist trúnni á hendur. Því er ekki líklegt að rökræða við slíkt fólk hafi önnur áhrif en pirring og leiðindi. Vissulega er slæmt að hafna slíkri rökræðu sem farsa en það sem ég er að líta á hjá Vantrúarmönnum(ekki seggjum sem er gildishlaðið illyrði sprottið upp hjá mönnum sem vilja hlaða rökræðuna með tilfinningagildum) er meira hversu magnið getur verið mikið og einurðin gífurleg. Þetta held ég að sé haldreipi þeirra sem hvað mest gagnrýna Vantrúarmenn. Gagnrýnin er sem sagt að verða æ meira á þeim nótum að Vantrúarmenn séu sjálfir orðnir trúaðir á sinn eigin boðskap. Það er sem sagt verið að gagnrýna Vantrúarmenn fyrir að vera duglegir. Það er nefnilega ekki sami hluturinn að hafa trú á einhverju og að trúa.

Vantrúarmönnum er einnig líkt í æ meiri mæli við femínista. Þetta finnst sumum vera fúkyrði mikið. Mér finnst þetta aftur á móti vera hrós þar sem femínistar eins og Vantrú hafa verið duglegir við að kynna sinn málstað og vekja áhuga og athygli á sínum hugarefnum án ofbeldis og yfirgangs.

Og ég sem hélt að kirkjan og kristin trú boðaði umburðarlyndi.

Háttvirtur Bragi reit 05.10.06 13:33
Háttvirtir rituðu:

Það kom að því að ég er þér hjartanlega sammála.

Athugasemd eftir Elías Jón reit 05.10.06 17:47

Það kom að því að ég er þér hjartanlega sammála.

Athugasemd eftir Elías Jón reit 05.10.06 17:47
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003