ágúst 30, 2006

Æði og Æra

Ég vaknaði með bros á vör í morgun. Ég fór á debut tónleika gamals skólafélaga míns hans Gissurar Páls í Salnum í Kópavogi. Það er kannski ofsagt að kalla þessa tónleika debut tónleika en hann var þarna að halda skipulagða einsöngstónleika í fyrsta sinn á Íslandi. Gissur er besti íslenski tenór sem ég hef heyrt syngja á Íslandi, ég hef aldrei heyrt í honum Kristjáni en mun ekki hlaupast frá þeirri ábyrgð ef hann ákveður að drattast hingað og gaula soldið fyrir okkur. Þar til það verður er Gissur mér efst í huga hvað góða tónleikatenóra varðar. Þarna voru á dagskrá aríur og sonnettur úr frægum óperum m.a. eftir Donizetti, Rossini og Mozart ásamt óþekktari verkum. Ég reyndar kannaðist við mestalla dagskrána. Gissur hlaut gríðarlega öflugt lófaklapp í lok hvers söngs og ég var enginn eftirbátur samáhorfenda minna þrátt fyrir að vera með brákaða kjúku í hægri hendi. Ég er helaumur í dag. Gissur tók þrjú aukalög og það seinasta var hið klassíska O sole mio. Einkar vel flutt og jafnvel þótt ofspilun þessarar aríu hafi eyðilagt hana á síðari árum fyrir stórum hópi fólks þá naut ég flutningsins í botn. Gissur er kraftmikill tenór sem hefur góða stjórn á röddinni og breitt raddsvið. Alveg frá fyrstu nótu þá var maður hugfanginn og naut tónleikanna í stað þess að hafa áhyggjur af því að gamall félagi skyldi misstíga sig á sviðinu. Slíkt er ávallt gæðamerki. Gissur er algert æði.

Ég er ekki jafnánægður með þær fréttir að samflokksmenn Árna Johnsen skuli hafa nýtt sér fjarvist Ólafs Ragnars Grímssonar og gefið honum uppreist æru eins og Árni kallar það sjálfur. Í fyrsta lagi er ástæðan sú að mér finnst Árni ekki eiga skilið að æra hans sé hreinsuð. Hann framdi glæp sem skilar sér í glötuðu trausti og virðingu annarra fyrir þessari blessuðu æru. Hann sækir um þessa uppreist með það að markmiði að geta boðið sig fram til Alþingis á næsta ári. Hann fær hana vegna þess að samflokksmenn hans hræðast eftirmála kosninganna þar sem nánast öruggt er að hans persónulega fylgi í Vestmannaeyjum er nægilegt til að hann komist á þing. Þetta er bara einhvert helvítis spilerí og leikur sem Sjálfstæðismenn eru að framkvæma þarna og með honum sýna þeir stjórnkerfi landsins lítilsvirðingu og misnota sér aðstöðu sem þeir eru í. Fyrir mér eru Sólveig Pétursdóttir, Geir H Haarde og Gunnlaugur Claessen að draga sig í sama ósiðadilk og sá er nú hefur uppreist æru hlotið.

Megi þau skammast sín.

Bragi reit 01:16 EH | Comments (1)

ágúst 29, 2006

Syfja

Ég er eitthvað syfjaður þessa dagana. Kristjana var að byrja í MS námi í Háskólanum í Reykjavík og þarf að mæta eldsnemma í skólann. Ég þarf að sjálfsögðu að skutla henni og vakna núna klukkutíma fyrr en ég hafði gert í sumar. Þessi vika verður erfið en ég býst við að þetta venjist.

Í öðrum fréttum er ða báðir bílarnir mínir virðast vera eitthvað úrillir þessa dagana. Pústkerfið í Toyotunni er að gefa sig og heyrast háværar drunur frá henni þegar hún er ræst. Tók þá ákvörðun að vera ekki að stússast í henni fyrr en eftir helgi. Svo er einhver bremsuvökvaleki í jeppanum. Það getur nú varla verið alvarlegt... Famous last words...

Bragi reit 11:20 FH | Comments (0)

Vestfirsk Rúlletta?

Smella Hér

Bragi reit 08:42 FH | Comments (7)

ágúst 25, 2006

Útsýnið mitt

Ég er einn af heppnustu skrifstofumönnum Íslands. Þrjá daga í viku sit ég með útsýni sem ansi margir myndu fremja illvirki mikil til að komast yfir. Ég horfi frá Seltjarnarnesinu yfir á Engey og Þerney, Kjalarnesið blasir við mér í hánorðri að ég held og á góðviðrisdögum má greina húsin á Akranesi. Hóll ykkar Reykvíkinga, Esjan er svo aðeins austar og það er talsverð skörun að sjá olíugeymana á Örfirisey hylja hluta af Esjunni fyrir mér. Þá fljúga hér flugvélar yfir höfnina þónokkrum sinnum á dag og innsiglingin inn á höfn er oft þétt riðin af bátum og skipum í margskonar erindagjörðum. Tilkomumesta sjónin þetta sumarið voru sólstafir sem lýstu upp eyjarnar í miklum dumbung í júní. Það gaf manni falska von um sólríkt sumar.

Bragi reit 03:28 EH | Comments (1)

ágúst 18, 2006

Árétting vegna síðustu færslu

Blessað opna bréfið til Guðlaugs Þórs og Ágústu konu hans var skrifað í póstmódenískri reiði og firringu sem fylgir því að láta aðra traðka á fótum sínum. Raunveruleg ástæða þess að ég skrifaði þetta bréf er sú að ég er andstæðingur hugmynda Guðlaugs í pólitík og þarna fann ég góða ástæðu til að reyna að rífa mannorð hans niður um einhver stig. Ég játa á mig þann glæp. Allir atburðirnir sem ég skrifaði um eru hins vegar sannir. Guðlaugur Þór hagaði sér eins og dólgur þegar hann skaust tróð sér fram fyrir röðina og tvær eldri konur báðu mig og félaga mína um að taka í hann.

Já var ég búinn að minnast á það að fyrir þremur árum þá tók Pétur Blöndal fram úr mér á Laugaveginum. Þ.e. Landmannalaugar-Þórsmörk.

Held ég hafi einhvern antipata á því að Sjálfstæðismenn taki fram úr mér á Íslandi.

Já og takk kærlega Sjálfstæðismenn og Björn fyrir að rokka svona gríðarlega upp menningarnóttina. Get ekki beðið eftir því að klæðast KISS bolnum mínum og traðka upp á Klambratún til að rokka við ÓPERUTÓNLEIKANA

Fyrsta stóra sparnaðaraðgerð nýja borgarmeirihlutans er að líta dagsins ljós. SMELLIÐ HÉR

Fyrir þá sem ekki hafa áttað sig á því, þá er þessi færsla skrifuð í fullkomlega óvissri kaldhæðni og sérstaklega þessi seinasta setning sem mun gera hana enn óræðnari en áður.

Held ég sé eitthvað þreyttur.

Bragi reit 10:51 FH | Comments (0)

ágúst 17, 2006

Opið bréf til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Ágústu konu hans

Sæl Guðlaugur Þór og Ágústa Johnson. Þið eruð nú meiru hjónin. Ég var nefnilega á Laugardalsvelli núna á þriðjudaginn. Þið vitið, eins og þið. Ég var þarna í miðri röðinni sem þið ákváðuð að labba fram hjá í makindum og þarmeð framhjá svona um það bil 1500 manns og fara fremst í röðina. Auðvitað varstu ekki með þessu að brjóta nein lög en þú sýndir mér, vinum mínum, og um það bil 1500 öðrum helberan dónaskap. Það var mikið talað um það í kringum mig hvort ekki ætti bara að lemja þig. Ekki var það ég og ekki voru það vinir mínir heldur voru það tvær eldri konur sem ofbauð dónaskapurinn að þær bentu okkur á þig og sögðu að ef við værum nú alvöru karlmenn þá myndum við nú taka í þig Guðlaugur. Ég er friðelskandi maður og stunda ekki slíkan skepnuskap og því tók ég nú ekki vel í beiðni þeirra en brosti samt í kampinn og hugsaði með mér, þarna hlutu einhver atkvæði að fara í sorpið hjá Sjálfstæðisflokknum. Ástæðan fyrir því að mér ofbýður þetta er að sjálfsögðu sú að þú gegnir háu opinberu embætti og átt að vera fyrirmynd og sýna af þér þá hegðun gagnvart samborgurum þínum sem embættinu sæmir. já og alveg rétt, þú líka Ágústa, þar sem þú ert þekkt kona úr þjóðlífinu þá býst maður nú við annarri hegðun en þessari af þér.

Skammist ykkar.

Bragi reit 01:08 EH | Comments (3)

ágúst 14, 2006

Varnaglar

Afhverju verða menn að slefandi hálfvitum og setja endalaust marga varnagla þegar verið er að rökræða trúmál og samkynhneigð. Hér kemur ein klassík: Ég hef sko ekkert á móti hommum en...

Bragi reit 06:22 EH | Comments (1)

ágúst 09, 2006

Grímur Atla...

Ekki kúl maður... að böndla miðum... ekki kúl... Hélt þetta væri dísent gaur en svo heyrir maður þetta með Sufjan Stevens og forsöluna og... æi maður ef þú ert ekki að græða nóg eða ert að tapa á öðrum hvorum tónleikunum hækkaðu bara verðið á Sufjan eða eitthvað, veist það verður hvort eð er uppselt, ekki fokking neyða mig til þess að kaupa miða á fokkings Morrisey.

Fokk

Bragi reit 01:45 FH | Comments (0)