&#x. 08, 2006

Æði og Æra

Ég vaknaði með bros á vör í morgun. Ég fór á debut tónleika gamals skólafélaga míns hans Gissurar Páls í Salnum í Kópavogi. Það er kannski ofsagt að kalla þessa tónleika debut tónleika en hann var þarna að halda skipulagða einsöngstónleika í fyrsta sinn á Íslandi. Gissur er besti íslenski tenór sem ég hef heyrt syngja á Íslandi, ég hef aldrei heyrt í honum Kristjáni en mun ekki hlaupast frá þeirri ábyrgð ef hann ákveður að drattast hingað og gaula soldið fyrir okkur. Þar til það verður er Gissur mér efst í huga hvað góða tónleikatenóra varðar. Þarna voru á dagskrá aríur og sonnettur úr frægum óperum m.a. eftir Donizetti, Rossini og Mozart ásamt óþekktari verkum. Ég reyndar kannaðist við mestalla dagskrána. Gissur hlaut gríðarlega öflugt lófaklapp í lok hvers söngs og ég var enginn eftirbátur samáhorfenda minna þrátt fyrir að vera með brákaða kjúku í hægri hendi. Ég er helaumur í dag. Gissur tók þrjú aukalög og það seinasta var hið klassíska O sole mio. Einkar vel flutt og jafnvel þótt ofspilun þessarar aríu hafi eyðilagt hana á síðari árum fyrir stórum hópi fólks þá naut ég flutningsins í botn. Gissur er kraftmikill tenór sem hefur góða stjórn á röddinni og breitt raddsvið. Alveg frá fyrstu nótu þá var maður hugfanginn og naut tónleikanna í stað þess að hafa áhyggjur af því að gamall félagi skyldi misstíga sig á sviðinu. Slíkt er ávallt gæðamerki. Gissur er algert æði.

Ég er ekki jafnánægður með þær fréttir að samflokksmenn Árna Johnsen skuli hafa nýtt sér fjarvist Ólafs Ragnars Grímssonar og gefið honum uppreist æru eins og Árni kallar það sjálfur. Í fyrsta lagi er ástæðan sú að mér finnst Árni ekki eiga skilið að æra hans sé hreinsuð. Hann framdi glæp sem skilar sér í glötuðu trausti og virðingu annarra fyrir þessari blessuðu æru. Hann sækir um þessa uppreist með það að markmiði að geta boðið sig fram til Alþingis á næsta ári. Hann fær hana vegna þess að samflokksmenn hans hræðast eftirmála kosninganna þar sem nánast öruggt er að hans persónulega fylgi í Vestmannaeyjum er nægilegt til að hann komist á þing. Þetta er bara einhvert helvítis spilerí og leikur sem Sjálfstæðismenn eru að framkvæma þarna og með honum sýna þeir stjórnkerfi landsins lítilsvirðingu og misnota sér aðstöðu sem þeir eru í. Fyrir mér eru Sólveig Pétursdóttir, Geir H Haarde og Gunnlaugur Claessen að draga sig í sama ósiðadilk og sá er nú hefur uppreist æru hlotið.

Megi þau skammast sín.

Háttvirtur Bragi reit 30.08.06 13:16
Háttvirtir rituðu:

Vá hvað ég er sammála þér með Árna og félaga. Þetta fólk kann ekki að skammast sín !!!

Athugasemd eftir Kristjana reit 31.08.06 09:11
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003