mar. 03, 2006

Henson - Kumho Rovers/Marshall 1-2

Við mættum frekar fáir og rétt náðum í lið laugardaginn 4. mars. Vorum ellefu til að byrja með en svo kom Snæbjörn og gaf okkur sjéns á að pústa aðeins í keyrslunni frammi. Samsetning liðs af þeim sem mættir voru gáfu okkur ekki marga sjénsa á að spila annað en 4-4-2 og því var stillt upp á þann veginn.

Jón Berg í markinu, Einar og Jói stóri í miðverðinum. Jói er að koma frá Ótta sem virðist vera að liðast í sundur. Fáum við vonandi nokkra menn frá því liði aftur í Henson. Viffi og Gussi bakverðir, Pétur og Daði á miðjunni, Alli og Gunni á köntum og ég og Ívar frammi. Svona byrjuðum við og ég verð að segja að maður var svolítið áhyggjufullur vegna vöntunar á skiptimönnum.

Kumho/Marshall vann A riðil utandeildarinnar í fyrra á meðan við vorum ekki að gera neinar rósir í C riðli. Við lögðum á ráðin að pressa þá ekki of framarlega þar sem það myndi eflaust sprengja okkur og tókum við á móti þeim á miðjum okkar vallarhelmingi. Allt liðið varðist sem einn maður og það var gaman að sjá að menn voru að taka á því af metnaði. Ekkert harkalega, hinsvegar var ekki verið að sleppa hlaupum og fáar sölur litu dagsins ljós, allavegana fyrstu sextíu mínúturnar.

Ég verð að segja það í hreinskilni að við áttum fyrri hálfleikinn skuldlaust. Við spiluðum vel boltinn gekk afskaplega vel á milli manna og við skoruðum eitt mark á meðan þeir áttu varla færi. Markið kom eftir sendingu frá Daða sem var staddur á vinstri kant tíu metrum frá vítateig. Hátt fór boltinn og svo virtist sem að markvörður Kumho/Marshall hafi blindast af sólinni sem var lágt á lofti og hann hélt ekki boltanum sem hefði átt að vera auðvelt að gera og Ívar hljóp með boltann inn í markið, 1-0. Við áttum fleiri færi í fyrri hálfleik og hefðum átt að fara inn í hálfleikinn með annað mark í plús.

Eftir að skipt var um helminga dró eitthvað af mönnum en samt var verið að gefa allt í þetta. Við áttum nokkur dauðafæri en þau voru ekki nýtt sem skyldi. Kumho skoraði jöfnunarmark þegar korter var eftir af leiknum og allt leit út fyrir að leikurinn myndi enda 1-1. Kobbi, góður dómari leiksins var ekki á sama máli og lét leikinn halda áfram þartil Kumho var búið að skora sigurmark og flautaði hann leikinn strax af eftir markið sem kom upp úr hraðri sókn eftir misheppnaða sóknartilburði okkar. Lokatölur 2-1 mér var nú samt nokk sama hvernig þessi leikur fór fyrst við vorum ekki teknir í bakaríið.

Ég verð að hrósa einum manni umfram alla aðra en það var Jói stóri sem var klettur í vörninni og gott er að vita að þær viðbætur sem koma inn í liðið á næstunni eru til þess að bæta liðið en ekki bara til þess að auka breiddina. Allt liðið á hins vegar skilið stórt hrós fyrir baráttu og skynsaman leik. Við vorum beinskeyttir og harðir, gáfum ekki tommu eftir og þessi leikur hefði alveg eins getað unnist hefðu happadísirnar séð ástæðu til þess.

Maður leiksins: Jói Stóri

Háttvirtur Bragi reit 05.03.06 13:12
Háttvirtir rituðu:

Nú tala ég eins og sumir sem við þekkjum....: ég las ekki greinina en ég get ímyndað mér að mér hafi ekki þótt hún skemmtileg....

Athugasemd eftir Kristjana reit 08.03.06 00:31

Elska þig!!!

Áfram Henson :) Henson Best!!!!

Athugasemd eftir Kristjana reit 08.03.06 00:36
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003