mar. 03, 2006

Ál og síld

Ég er svo aldeilis gáttaður þessa dagana. Ég á ættir mínar að rekja til Vestfjarða og er afskaplega stoltur af þessum tengslum mínum við þann fríða flokk manna og kvenna sem byggja þessa illfæru en jafnframt fallegu firði.

Atvinnuástandið hefur breyst þar talsvert undanfarin ár. Skortur hefur verið á vinnuafli í framleiðslustörf þannig að stór hluti Vestfirðinga er núna fólk sem ekki á rætur sínar að rekja til Íslendinga. Sumum finnst þetta slæm þróun, mér er nokk sama hvaðan fólk er og hvernig það lítur út.

Stóra vandamálið á Vestfjörðum er því ekki að það vanti störf handa fólki heldur frekar að það vanti störf sem gefa meira í aðra hönd og krefjist meira af þeim sem þau stundi. Metnaðarfullir einstaklingar eru nú að ýta á að háskólanám verði hægt að stunda fyrir vestan og er það vel. Slíkt mun án efa hafa ruðningsáhrif í för með sér og vel menntað fólk mun skapa tækifæri handa sjálfu sér. Ég hef engar áhyggjur af vestfirðingum, þá dreymir enga stóriðjudrauma, þetta er fólk sem er duglegt og úrræðagott sem er sinnar eigin gæfu smiðir.

Það sem ég þekki af Íslandi, og það er nú býsna mikið þar sem ég hef búið hér alla ævi, er ansi margt. Eitt þessarra vitneskjubrota sem ég taldi mig búa yfir er sú fullvissa um að þetta sé frekar einsleit þjóð. Heyrnarmunur er á mállýskum á milli landsfjórðunga og aðeins ætlað innfæddum að greina mun. Skapið er mikið en milt á milli. Menn eru mældir af vinnu og geði, frekar en auði og útliti, þó vissulega sé þetta að breytast á seinni árum. Og áður en álæðið rann á Austfirðinga og nú Norðlendinga hélt ég að Við Vestfirðingar ættum sjálfsbjargarviðleitnina þeim sameiginlega.

Mér virðist hafa skjátlast. Nú er uppi typpið á norðlendingum bæði körlum og konum. Alver stefnir í höfn á Bakka og Húsvíkingar skreytast álhúfum og álbindum. Í góðæri nútímans þegar atvinnuleysi á öllu landinu nær varla tveimur prósentum fagnar þetta fólk tilkomu nýrrar fátæktargildru. Álver, þrátt fyrir góðan aðbúnað í Hafnarfirðinum skapar starfsmönnum sínum ekki mikil auðæfi. Slíkt er misskilningur og tel ég mig ekki þurfa að skýra slíkt út fyrir Húsvíkingum.

Atvinnuástandið mun ekkert batna á Húsavík. Afram mun verða skortur á hálaunavinnu og háskólamenntað vinnuafl mun haldast í borginni. Lítið mun breytast á Húsavík fyrir utan verbúðir sem óhjákvæmilega munu rísa til að hýsa erlenda vinnuaflið sem mun vinna flest störfin í verksmiðjunni. Líkt og Alcoa hefur sýnt Austfirðingum munu ekki einu sinni yfirmenn verksmiðjunnar vera með aðsetur á Húsavík heldur hefur Alcoa sett upp aðalskrifstofur á Suðurlandsbrautinni. Hverju voru Húsvíkingar þá að fagna?

Ég tel mig hafa svarið. Er það möguleiki að Húsvíkingar séu orðnir svo leiðir á hvorum öðrum að minnsti möguleiki á því að sjá nýtt fólk í bænum sé ástæða til mikilla hátíðahalda. Ég vona svo sannarlega að sú sé ástæðan. Sú er virði einhvers, lítils verð eru efnahagsrök og atvinnuleysi. Slíkt er rakalaus þvættingur og ég vona að allir Íslendingar með hálfa hugsun hjálpist að í næstu kosningum við að losa okkur við þetta efnahagslega krabbamein sem Framsóknarflokkurinn er. Skerum það í burtu.

Sjálfstæðisflokkurinn er jafnsekur í þessum glæp gegn framtíðinni, sjallarnir leyfa manni sem býr að fylgi sem mælist sí og æ undir tíu prósentum að vera forsætisráðherra heillar þjóðar. Það kaus hann sko enginn til þess að vera forsætisráðherra.

Ég nenni engan veginn að telja upp hinar ótal mörgu ástæður fyrir því afhverju þetta álver er vond hugmynd. Stundum er grænn bíll bara grænn bíll. Appelsína er bara appelsína og enn eitt álverið er bara ný síld.

P.S. Í guðanna bænum ekki væna mig um sleggjudóma og aðra slíka vitleysu gagnvart íbúum heilla landshluta. Þeir sem þetta lesa vita fullvel gagnvart hverjum þessi grein beinist og taki þeir til sín sem eiga. Vissulega á þetta ekki við um kjördæmin heil en stórir hlutar virðast hafa eignast áldrauminn og gert hann að sínum.

Háttvirtur Bragi reit 03.03.06 10:57
Háttvirtir rituðu:
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003