febrúar 27, 2006

Bókamarkaðsraup

Ég leit við á bókamarkaðnum í Perlunni á laugardaginn. Þar verslaði ég þónokkrar bækur. Ég fæ venjulegast hálfgert flog á svona mörkuðum og hrúga öllu sem hugurinn girnist í körfuna. Síðan seinna um daginn þá vitkast ég og tek upp úr henni það sem mig langar í raun ekki í og held því sem ég get ekki skilið við mig. Þessi bókamarkaðsdagur var ekkert frábrugðinn öðrum slíkum dögum. Eftir klukkutíma grúsk var ég kominn með í hendurnar eitthvað nálægt tíu bókum. Ég notaði áhugaverða leið til að minnka þann stafla. Þar sem ég hafði ekki tekið mér körfu var þetta byrjað að síga í og hægja á mér ferðina. Þannig flugu báðar matreiðslubækurnar og bók sem fjallaði um konungsdrauma íhaldsins fauk snemma einnig. Man ekki hvað fauk aukreitis, það getur ekki verið merkilegt. Þær bækur sem ég keypti voru:
1. Tilraunir handa Þorsteini, lánaði mitt eintak fyrir mörgum árum og hef ekki fengið það til baka. Man ekki hverjum. 400,- krónur
2. Framfaragoðsögnin eftir Von Wright 1000,- krónur
3. Ævisögu Tolkien 390,- krónur
4. Áform eftir Houellebecq 1000,- krónur
5. Ársrit Ferðafélags Íslands 1949-1951 inniheldur umfjöllun um vestur og norður Ísafjarðarsýslur ásamt að því er mig minnir Borgarfjarðarsveit. 800,- krónur fyrir þrjú bindi innbundin í eitt.

Ég hef sérstakan áhuga á ársritinu vegna fyrirhugaðrar ferðarminnar á jökulfirði og hornstrandir í sumar. Mamma benti mér á að hafa samband við ákveðinn herramann fyrir vestan til leiðsagnar og ég held að ég muni taka þessari leiðsögn á orðinu. Nafn þessa manns verður ekki gefið upp fyrr en ég hef haft samband við hann, en þangað til hef ég þá vísbendingu uppi að Þóra Marteinsdóttir vinkona mín ætti að kannast ansi vel við kauða. Enn er laust í þessa ferð og ég sit sveittur við að safna í hóp fyrir ferðina. Þeir sem hafa áhuga mega hafa samband við mig í síma.

Bragi reit 01:11 EH | Comments (4)

febrúar 23, 2006

Lög Stúdentaráðs stórbrotin! (stórlega brotin)

Hér birtist 61. grein laga um Stúdentaráð Háskóla Íslands:


61.gr.
Við ráðningu framkvæmdastjóra Stúdentaráðs og ritstjóra Stúdentablaðsins skal meta umsækjendur á faglegum grunni og líta sérstaklega til starfsreynslu og þekkingar á viðkomandi sviði. Auglýsa skal starfið laust til umsóknar, með skýrum hætti í útbreiddu dagblaði. Auglýsinguna skal birta minnst 10 virkum dögum fyrir lok umsóknarfrests.

Hér birtist fullyrðing tekin af forsíðu heimasíðu Röskvu:
Samstarf fylkinganna felur m.a. í sér að Vaka fær formann Stúdentaráðs og Röskva framkvæmdastjóra Stúdentaráðs.

Hér birtist fullyrðing tekin af forsíðu heimasíðu Morgunblaðsins:
Sigurður Örn Hilmarsson, oddviti Vöku, verður formaður Stúdentaráðs en Ásgeir Runólfsson, oddviti Röskvu, verður framkvæmdastjóri ráðsins.

Nú spyr ég, er þeim alvara með þessu? Er það virkilegt að fyrsta embættisgjörð nýs meirihluta Stúdentaráðs sé að svínbeygja og stórbrjóta lög ráðsins. Ég er svo aldeilishlessa. Þetta kallar á stjórnsýslukæru af mikilli stærðargráðu. Enginn umsækjenda um þetta starf mun sem sagt eiga möguleika í það nema að hann heiti Ásgeir Runólfsson, jafnvel þó að annar umsækjandi sé hæfari. Þetta kallast spilling og er ógeðfellt sukk og svínarí. Skammist ykkar og hegðið ykkur svona í bakherbergjum í framtíðinni en ekki úti á götu.

Bragi reit 06:55 EH | Comments (0)

febrúar 22, 2006

Sæðisfrymisöngurinn

Ákveðið lag er búið að hljóma í hausnum á mér síðan Múhameðsmyndamálið kom upp á yfirborðið fyrir nokkru síðan. Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér hvernig múslimar hefðu tekið þessu gríni Monty Python sem veltu sér upp úr því að gera grín að kaþólikkum og mótmælendum með því að gera grín að fjölskyldumynstri, kynlífi og því að fórna börnum fyrir læknisfræðilegar tilraunir vegna þess að fjölskyldan átti hvort sem er nóg af þeim. Hér fylgir textinn:


Every Sperm is Sacred

There are Jews in the world, there are Buddists,
There are Hindus and Mormons and then
There are those that follow Mohammad, but
I've never been one of them.

I'm a Roman Catholic,
And have been since before I was born,
And the one thing they say about Catholics is
They'll take you as soon as you're warm.

You don't have to be a six footer,
You don't have to have a great brain,
You don't have to have any clothes on,
You're a Catholic the moment Dad came, because

Every sperm is sacred,
Every sperm is great,
If a sperm is wasted,
God gets quite irate.

Endurtekið

Let the heathen spill theirs,
On the dusty ground,
God shall make them pay for
Each sperm that can't be found.

Every sperm is wanted,
Every sperm is good,
Every sperm is needed,
In your neighborhood.

Hindu, Taoist, Morman,
Spill theirs just anywhere,
But God loves those who treat their
Semen with more care.

Every sperm is sacred,
Every sperm is great,
If a sperm is wasted,
God gets quite irate.

Every sperm is sacred,
Every sperm is good,
Every sperm is needed,
In your neighborhood.

Every sperm is useful,
Every sperm is fine,
God needs everybody's,
Mine, and mine, and mine.

Let the pagans spill theirs,
O'er mountain, hill and plain.
God shall strike them down for
Each sperm that's spilt in vain.

Every sperm is sacred,
Every sperm is good,
Every sperm is needed,
In your neighborhood.

Every sperm is sacred,
Every sperm is great,
If a sperm is wasted,
God gets quite irate.

Bragi reit 10:59 FH | Comments (5)

febrúar 20, 2006

Ég sko býst við því...

Ég rakst inn á hina annars stórskemmtilegu vefsíðu hugsjonir.is í dag og ég þurfti ekki að lesa lengi þar til ég skellti uppúr.

Á dögunum heimsótti Aleida Guevara, dóttir argentínska byltingarmannsins Che Guevara, landið og hélt meðal annars fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík. Nú missti ég af þessum fyrirlestri, og veit því ekki nákvæmlega hvað Aleida hafði fram að færa. En ég held að mér sé óhætt að fullyrða að boðskapurinn hafi verið kommúnistastjórn Kastrós og föður síns í vil.

Ég sá einmitt Einar Odd í lúxushelmingi Baðstofu Lauga um daginn, hann var að spjalla við einhvern mann sem leit út fyrir að vera í Sjálfstæðisflokknum. Ég heyrði reyndar ekki hvað þeim fór á en eflaust hafa þeir verið að plotta sölu á Seðlabankanum til einkavina sinna...

Ég skrifaði upphaflega *Fíbbl hérna, en þar sem fólk þarf nú að gera ansi meira heimskulegt en þetta til að verðskulda þá nafnbót þá sleppum við því. Hinsvegar eru gagnrýnisraddir velferðarbossanna hér á Íslandi á því hvernig fólk ídolíserar Che afskaplega fyndnar. Fyrir fólk sem aldrei hefur horft upp á heilu þjóðirnar í hungursneyð og fátækt, fólk sem verður leitt ef það missir af Boston Legal á sunnudeginum og þarf að horfa á endursýninguna. Fólk sem lærir um lífið af bókum eins og ég. Hver erum við að gagnrýna mann sem frelsaði heila þjóð frá hungursneyð og vosbúð, aðferðir hans og áform. Eigum við ekki bara að líta í okkar eigin barm og sjá hvern bjána þetta frjálshyggjufólkið ídolíserar vestan við hafið. Sem þarf ekki á byssu að halda heldur segir tvö orð við einhvern kall og sprengjum er varpað á Bagdad. Þetta frjálshyggjufólk svokallaða veit ekkert um lífið, veit bara hvað það er að lifa í vellystingum. OOOOOOOOOOOOOOOOOOO þetta gerir mig svo pirraðan stundum. Hverjar eru raunverulegar hugsjónir fólks?

Bragi reit 03:43 EH | Comments (7)

febrúar 15, 2006

Nokkur orð

Já ég hleyp á snærisspottavagninn og býð ykkur sem mig þekkja að velja nokkur orð um mig. Smellið hér

Bragi reit 06:14 EH | Comments (0)

febrúar 10, 2006

Að kosningum loknum

Kosningum er lokið til stúdentaráðs og annað árið í röð hefur óskabarn þjóðarinnar, Háskólalistinn náð oddastöðu. Ég komst ekki að því fyrr en um hálf sjö í morgun þegar ég leit á símann minn og skoðaði sms skilaboð sem ég fékk frá honum Óla Gneista.

Í fyrra vorum við nauðbeygð til þess að taka formanninn. Í ár held ég að það sé eðlilegt að fylkingarnar sem hafa hvað mest atkvæðamagn á bak við sig semji um það á milli sín hver tekur við embættinu. Vaka og Röskva eru bara fylkingar. Það stendur hins vegar fólk á bak við skildi fylkingarinnar og þetta fólk þarf að læra hvað það er að vinna í samstarfi. Það er eitthvað sem persónan ég hef aldrei kunnað vel við og hef því aldrei boðið mig fram til Stúdentaráðs eða í neina slíka ábyrgðarstöðu án þess að vera fullviss um að ég komist ekki að. Sumir gætu kallað þetta áhugaleysi en mér hefur fundist eðlilegra og betra fyrir mig að beita mér á annan hátt. Sumir kalla það því ljóta nafni að vinna á bakvið tjöldin en mér finnst það óttalegt ónefni. Ég vil miklu frekar telja mig til þeirra sem vinna hugmyndavinnu í þágu ákveðins málsstaðar. Á undanförnu ári hef ég ekki gefið mikið af mér þar sem mér hefur fundist ég hafa sagt allt sem segja þarf um þessa hagsmunabaráttu. Ég hef samt fylgst vel með og tel mig geta gefið greinargóða lýsingu á þeim breytingum sem hafa orðið á þessari pólitík.

Á þeim árum sem Háskólalistinn hefur verið í framboði, þá hafa styrkir og afskipti stjórnmálaflokka á landsvísu minnkað stórlega. Sumir halda því reyndar fram að enga hjálp sé að fá frá flokkunum, en ég veit betur. Einræði í Stúdentaráði hefur runnið sitt skeið á enda. Allar fylkingarnar eru virkar allt árið og nýtist þá þessi gamli góði slagkraftur sem var afskaplega mikið talað um veturinn 2002-2003.

Öllum ætti nú að vera ljóst að kosningakerfið er meingallað og því þarf að breyta, ef meirihlutanum finnst hugmyndin um einstaklingskosningar of róttæk og ómeðfærileg þá má ræða aðra valkosti. Stubbalistar eru útspil sem voru viðbrögð Röskvu við tillögum okkar árið 2004. Mér líkaði vel við þá hugmynd. Þar er ekkert vandamál þegar kemur að varamönnum. Að kjósa til eins árs í einu er eitthvað sem verður hreinlega að gerast, núverandi ástand er hreint út sagt hlægilegt. Reynslurökin eiga ekki við “rök” að styðjast. Engin takmörk á því hversu oft fólk getur boðið sig fram þýðir að reynslan getur haldist við í langan tíma. Nú, ef svo fólk vill ekki bjóða sig fram í annað sinn þá það. Ekki hefur það staðið t.d. núverandi formanni fyrir þrifum. Hann fékk hið góða nesti, “hér eru lyklarnir og þarna er hurðin bless” frá fráfarandi Vökuformanni. Hann hefur spjarað sig ágætlega.

En svo til að draga saman. Vaka, Röskva, boltinn er hjá ykkur, reynið að sparka honum í markið.

Bragi reit 08:11 EH | Comments (1)

febrúar 05, 2006

Það er svo gaman...

að heyra einhverja nýja tónlist sem maður getur sökkt sér ofan í. Sufjan Stevens er maður sem er búinn að heita sér því að semja plötur 50 talsins sem hver og ein fjallar um ríki Bandaríkjanna. Illinoise heitir sú sem ég er að hlusta á núna og ég get ekki annað sagt en að þetta er hin ánægjulegasta tónlist. Melódískt popp og það spillir ekki fyrir að þarna eru ávanabindandi lagbútar sem gjörsamlega troða sér inn fyrir varnarleysi hins svefndrukkna manns og gerir hann sönglandi allan daginn. Mér finnst það ekkert slæmt. Langar að komast yfir meira efni eftir þennan mann.

Fór á H-vaða í gær. Alþingi spilaði fyrir sprungnum hljóðhimnum. Ég missti af fyrra bandinu sem ég verð að játa að ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. Ég ætla að skjóta á Hljómsveitin Þingmennirnir. Það væri hið minnsta varabærandi ef Hljómsveitin Alþingi og Þingmennirnir væru að leika fyrir dansi í Nasa Austurvelli.

Bragi reit 01:13 EH | Comments (1)

febrúar 03, 2006

Stúd... ía um mynd

Ég var haldinn efa og já, bara miklum efa þegar ég heyrði að gera ætti kvikmynd upp úr hinni stórgóðu bók Hitchhikers Guide to the Galaxy. BBC þættirnir gömlu voru vart þolanlegir og ekki dat mér í hug að einhver nýgræðingur á sviði kvikmyndagerðar gæti gert stórvirki úr þessum frábæra efnivið. Húmor bókarinnar er byggður á hnyttnum samtölum ásamt stórgóðum lýsingum sem erfitt er að sýna með myndmáli. Ég þorði aldrei á myndina í kvikmyndahúsi þar sem ég er haldinn einhverjum afbrigðilegum ótta við að sitja í rými þar sem allir horfa í sömu áttina. Ég beið því þar til myndin kom út á DVD formi. Og viti menn!! Konan mín sofnaði og ég þreif mig í sturtunni með vírbursta eftir korters áhorf. Þvílíkur viðbjóður! Vondur og ýktur leikur, ... hef ekkert að segja... bara ... ojjjjjjj Taktu þetta óbragð úr kjaftinum á mér gu.... nnar plataði ykkur Vantrúarmenn.

Minn úrskurður, eftir tíu ár þegar menn draga þessa mynd upp í partíum verður hún notuð á sama hátt og menn nota plötuna hans Gunnars Jökuls, Hamfarir. Takk fyrir.

Bragi reit 01:27 EH | Comments (0)