jan. 01, 2006

Siðareglur blaðamanna og DV barið

Siðferði hefur verið mér hugleikið undanfarna daga. Að sjálfsögðu vegna gríðarlegrar umræðu um Ísafjarðarmál DV síðastliðinn þriðjudag. Í viðskiptalífinu gilda ákveðnar siðareglur. Þessar siðareglur eru oft á tíðum stutt samantekt á frekar augljósum varnöglum sem viðkomandi starfsmönnum er sagt að fara eftir. Sem dæmi má taka eru siðareglur blaðamannafélagsins sem hljóma upp á fimm punkta. Vissulega þörf upptalning en sumum þykir kannski að þessum siðareglum sé ekki nægilega þröngur stakkur sniðinn. Það er nefnilega þannig með siðareglur að í gegnum tíðina hafa þær byggt á því að dómsvald það er tekur fyrir kærur hafi til að bera sæmilegri skynsemi viti borinna manna og eigi þeim að vera leikur einn að skera úr um hvort að þessum siðareglum hafi verið fylgt. Nú er það þannig að dómsvald þetta er tekur fyrir kærur á hendur blaðamönnum hér á Íslandi virðist hafa afskaplega óskýrt vald þegar kemur að refsingu. Vissulega er án efa dæmt eftir bestu getu en refsing viðkomandi er einskorðuð við illt auga þeirra sem til þekkja. Hér fylgir dæmi af úrskurði siðanefndar blaðamannafélagsins.;

3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands kveður skýrt á um að blaðamaður skuli forðast allt það sem gæti valdið saklausu fólki, eða fólki sem eigi um sárt að binda óþarfa sársauka eða vanvirðu. Á það jafnt við um texta og myndir. Siðanefnd telur einsýnt að þess hafi ekki verið gætt í þessu máli. Með efnistökum sínum mátti ritstjórn DV vita að aukið væri á þjáningar sjúklingsins og aðstandenda hans. Almennt telur siðanefnd að gæta þurfi sérstakrar varkárni í umfjöllun um sjúklinga og að virða beri einkalíf þeirra.
Úrskurður
Ritstjórn DV telst hafa brotið gegn 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Brotið er mjög alvarlegt.

Reykjavík 18. ágúst 2005

Hjörtur Gíslason; Brynhildur Ólafsdóttir; Jóhannes Tómasson; Salvör Nordal; Sigurveig Jónsdóttir

Þessi dómur sem fjallaði um mál sem ég vil ekki nefna, segir að brotið sé mjög alvarlegt, hvar er þá refsingin? Áður fyrr var það að valda hneisu í samfélaginu og verða fyrir áminningu, afskaplega óáhugavert og slíkt hafði afleiðingar sem voru blanda af virðingarmissi og tapi á trausti. Þessi gildi eru enn í fullu gildi í dag og því er það mitt mat að siðareglur blaðamanna séu góðar.

Hins vegar nær refsingin ekki til þeirra sem DV stýra í dag. Þeim virðist vera sama um traust og virðingu. Þeir skeyta engu um að vera styrk stoð fjölmiðils sem hlífir þeim veiku og aumu og gætir þess að níðast ekki á þeim hvers sekt er ósönnuð. Svona menn taka engum rökum.

Ég ætla ekki að vera orðlengri um þetta mál en ég má til að minnast 1. maí göngu sem ég fór í fyrir sjö, átta árum. Á þeim tíma hafði einhverri þjóðernishreyfingu vaxið fiskur um hrygg og fór með hótunum um að ráðast á tiltekinn hóp göngumanna. Þá vék að mér eldri maður sem ég hef ómælda virðingu fyrir, rólyndismaður, þekktur fyrir andlegan styrk sinn og afrek í starfi. Hann horfði til mín alvarlegur og segir, ,,Bragi, ef þessir nasistar koma og trufla gönguna, þá þarf einfaldlega að berja þá, það er eina tungumálið sem þeir kunna.” Ég var ekki sammála honum þá og er það vissulega ekki enn í dag. En ég hef að sjálfsögðu ekki horft upp á eyðileggingarmátt manna sem hafa misst virðingu við samfélag sitt, glatað öllu stolti og beint reiði sinni í eina átt.

Ég tel að samfélagið hafi tekið gamla manninn á orðinu nú í gær(miðvikudag) og ákveðið að lemja DV, það er löngu hætt að taka rökum og nú er undirskriftalistinn kominn yfir tuttuguþúsund. Gott og vel, ég tók þátt í þessu en ég held að þetta eigi ekki eftir að breyta neinu.

Háttvirtur Bragi reit 12.01.06 13:41
Háttvirtir rituðu:

Ég velti fyrir mér hversu margir sem lumbra á DV
í dag, hafi keypt það í síðustu viku eða tekið þátt
í að styrkja blaðið með auglýsingakaupum.

Ritstjórnarstefna DV hefur löngum verið ljós. Allir
sem studdu þetta lið ættu að staldra við og hugsa
sinn gang.

Athugasemd eftir Bjarni Rúnar reit 12.01.06 17:14

Fólk átti bara hætta að kaupa snepilinn fyrir löngu síðan ef því blöskraði svona því að DV hefur ekkert breyst frá því að það hóf þennan nýja ristjórnarstíl sinn. Kapítalisminn hefði þá séð um blaðið, Jón Ásegir er ekki vanur því að vilja reka kompaní sem tapa peningum.

Hræsni, er orð sem mér er ofarlega í huga.

Athugasemd eftir Valli reit 13.01.06 15:04
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003