janúar 28, 2006

Ég hef aldrei

Ég hef aldrei heyrt jafnmikla tilgerð í kynnum og í söngvakeppni sjónvarpsins. Ég hef aldrei heyrt jafnmikið af vondum lögum á sama kvöldinu.

Úfff

Segi ekki meira

Bragi reit 09:37 EH | Comments (2)

janúar 27, 2006

Skrítinn riðill í EM

Ég var að fylgjast með drættinum fyrir EM í fótbolta. Við erum í riðli með Spánverjum, Svíum, Dönum, Lettum, Norður Írum og Liechtenstein. Ekki varð okkur kápan úr því klæðinu að fá Englendinga í riðilinn, það hefur verið langþráður draumur Eggerts Magnússonar. Góðu fréttirnar eru þær að við þurfum ekki að ferðast um hálfan hnöttinn, til Armeníu eða Kazakhstan en vondu fréttirnar eru þær að þarna eru þrjú lið sem öll eru firnasterk. Svíar og Danir hafa gríðartak á okkur og Spánn ernáttúrulega alltaf Spánn. Liðin sem við ættum ekki að vera í vandræðum með eru Norður Írar og Liechtenstein. Lettar hafa verið að styrkjast á undanförnum árum og eru með mikið harðjaxlalið. Við ættum að geta strítt Spáni að mínu mati ef sagan kennir okkur eitthvað. Við höfum nokkrum sinnum náð hagstæðum úrslitum gegn þeim. Annars er þetta bara fyrirheit um skemmtilega leiki á næstu árum í Laugardalnum.

Bragi reit 11:36 FH | Comments (0)

janúar 25, 2006

Vaka lúffar fyrir Háskólalistanum og baráttumáli H-listans er náð

Eftirfarandi birtist í Stúdentablaðinu fyrir kosningarnar í fyrra, árið 2005:

Formannsefni framboða kynnt: Háskólalistinn mun fyrir kosningar kynna fulltrúa sinn til formennsku í Stúdentaráði. Það hlýtur að vera krafa stúdenta við Háskóla Íslands að hafa fyrirfram vitneskju um hver komi til með að vera þeirra helsti talsmaður á komandi tímabili.

Eftirfarandi birtist á Mbl.is þann 25. janúar 2006:

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, kynnir nú í fyrsta sinn sérstakt formannsefni í kosningabaráttunni, þ.e. frambjóðanda sem verður formaður Stúdentaráðs ef Vaka vinnur meirihluta í ráðinu. Formannsefnið er laganeminn Sigurður Örn Hilmarsson, sem setið hefur í Stúdentaráði síðasta árið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vöku.

Vaka segir að með þessu móti fái stúdentar aukin áhrif varðandi það hver verði næsti formaður ráðsins. „Embætti formanns er það mikilvægasta í ráðinu og hann er talsmaður stúdenta út á við og það hlýtur að teljast eðlilegt að kjósendur komi að vali hans,“ segir í tilkynningunni.

Ég vil, fyrir hönd Háskólalistans þakka Vöku fyrir að hlýða svona vel og bíð bara eftir að Röskva geri slíkt hið sama.

Bragi reit 05:58 EH | Comments (0)

janúar 18, 2006

Spilafíkn á Íslandi

Ég er að horfa á Kastljósið endursýnt og Ögmundur Jónasson og Þórarinn Tyrfingsson eru að rökræða um útdeilingu fjár úr spilakössum og hvort það eigi ekki bara að banna þá. Ég persónulega var ekkert á móti spilakössum og einstaka veðmáli þar til ég hóf vinnu, fyrir nokkrum árum, á veitingastað sem einmitt bauð upp á notkun slíkra tækja. Mér fannst þetta bara vera einn af þessum hlutum sem fólk ætti að gera upp með sjálfum sér hvernig ætti að fara með. Eftir að hafa séð fólk sem á lítið undir sér og eygir jafnvel heilu og hálfu mánuðina án peninga og neyðst til að lifa á lánum frá glæpamönnum hef ég myndað mér þá skoðun að við sem samfélag eigum ekki að leggja blessun okkar yfir þetta fyribæri. Við eigum ekki að leggja gildrur fyrir fólk sem eru gjörsamlega gagnslausar. Einhverjir hafa þá skoðun að þetta sé of mikilvæg tekjulind fyrir góðgerðafélög. Ég segi, lækkum bara framleiðslustyrki í landbúnaði til móts við þetta. Nenni ekki að skrifa meira, góða nótt.

Bragi reit 11:55 EH | Comments (3)

Hagræði í Hagfræði

Ég er á leið inn í heim hagfræðinnar þar sem ýmislegt er útreiknað. Þessir útreikningar eru ekki eitthvað sem ég óttast. Ég hef svo sem ekki stundað neina útreikninga af viti síðan í framhaldsskóla og það er að verða kominn sex ár síðan ég leit síðast á jöfnu. ég hef í gegnum árin svo sem óttast þessa stærðfræði gífurlega en ég held að með því að gera þá merkilegu uppgötvun að með nægilegri vinnu er manni allt möögulegt þá hafi mér tekist að komast yfir þessa hræðslu.

Ástæðan fyrir þessari kúvendingu í námi er mér reyndar eðlislæg og þetta skeður reglulega á þriggja ára fresti. Áhugi minn á hagfræði er þótt ótrúlegt megi virðast alggjörlega faglegur. Þ.e, ég hef áhuga á sjálfu náminu og þeim athugunum sem hagfræðingar fást við. Ekki sakar að þetta peningasjúka samfélag virðist meta menn sem geta svarað þér hvaðan þú getur búist við næstu krónu umfram menn sem eiga í erfiðleikum með að svara einni einustu spurningu um um sín fræði með án vafa. Sannleikanum samkvæmt verð ég nú að segja það að hagfræðin er reyndar ekki neitt fjarri heimspekinni þegar kemur að þessari ónákvæmni og vafa enda er hún upprunnin í heimspeki.

Ég gæti haldið áfram að sannfæra sjálfan mig um að ég sé að gera rétt með þessu en ég læt það vera í bili.

Bragi reit 05:46 EH | Comments (1)

janúar 17, 2006

Vantar bók

Ég er að hefja undirbúningsnám fyrir eitthvað Hagfræðidót og vantar bókina MODERN ECONOMETRICS: AN INTRODUCTION Ef einhver lesandi síðunnar getur reddað mér henni á sanngjörnu verði þá yrði ég afskaplega þakklátur. Annars þá var ég að taka þá ákvörðun að fara í frekara nám í Hagfræði og verð þess vegna að taka fyrsta árs kúrsa næsta árið. Ég er voða spenntur. Þetta er nám sem gerir mig spenntan!

Þið getið náð í mig á netfanginu bragisk@hi.is

Bragi reit 10:13 EH | Comments (0)

janúar 12, 2006

Siðareglur blaðamanna og DV barið

Siðferði hefur verið mér hugleikið undanfarna daga. Að sjálfsögðu vegna gríðarlegrar umræðu um Ísafjarðarmál DV síðastliðinn þriðjudag. Í viðskiptalífinu gilda ákveðnar siðareglur. Þessar siðareglur eru oft á tíðum stutt samantekt á frekar augljósum varnöglum sem viðkomandi starfsmönnum er sagt að fara eftir. Sem dæmi má taka eru siðareglur blaðamannafélagsins sem hljóma upp á fimm punkta. Vissulega þörf upptalning en sumum þykir kannski að þessum siðareglum sé ekki nægilega þröngur stakkur sniðinn. Það er nefnilega þannig með siðareglur að í gegnum tíðina hafa þær byggt á því að dómsvald það er tekur fyrir kærur hafi til að bera sæmilegri skynsemi viti borinna manna og eigi þeim að vera leikur einn að skera úr um hvort að þessum siðareglum hafi verið fylgt. Nú er það þannig að dómsvald þetta er tekur fyrir kærur á hendur blaðamönnum hér á Íslandi virðist hafa afskaplega óskýrt vald þegar kemur að refsingu. Vissulega er án efa dæmt eftir bestu getu en refsing viðkomandi er einskorðuð við illt auga þeirra sem til þekkja. Hér fylgir dæmi af úrskurði siðanefndar blaðamannafélagsins.;

3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands kveður skýrt á um að blaðamaður skuli forðast allt það sem gæti valdið saklausu fólki, eða fólki sem eigi um sárt að binda óþarfa sársauka eða vanvirðu. Á það jafnt við um texta og myndir. Siðanefnd telur einsýnt að þess hafi ekki verið gætt í þessu máli. Með efnistökum sínum mátti ritstjórn DV vita að aukið væri á þjáningar sjúklingsins og aðstandenda hans. Almennt telur siðanefnd að gæta þurfi sérstakrar varkárni í umfjöllun um sjúklinga og að virða beri einkalíf þeirra.
Úrskurður
Ritstjórn DV telst hafa brotið gegn 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Brotið er mjög alvarlegt.

Reykjavík 18. ágúst 2005

Hjörtur Gíslason; Brynhildur Ólafsdóttir; Jóhannes Tómasson; Salvör Nordal; Sigurveig Jónsdóttir

Þessi dómur sem fjallaði um mál sem ég vil ekki nefna, segir að brotið sé mjög alvarlegt, hvar er þá refsingin? Áður fyrr var það að valda hneisu í samfélaginu og verða fyrir áminningu, afskaplega óáhugavert og slíkt hafði afleiðingar sem voru blanda af virðingarmissi og tapi á trausti. Þessi gildi eru enn í fullu gildi í dag og því er það mitt mat að siðareglur blaðamanna séu góðar.

Hins vegar nær refsingin ekki til þeirra sem DV stýra í dag. Þeim virðist vera sama um traust og virðingu. Þeir skeyta engu um að vera styrk stoð fjölmiðils sem hlífir þeim veiku og aumu og gætir þess að níðast ekki á þeim hvers sekt er ósönnuð. Svona menn taka engum rökum.

Ég ætla ekki að vera orðlengri um þetta mál en ég má til að minnast 1. maí göngu sem ég fór í fyrir sjö, átta árum. Á þeim tíma hafði einhverri þjóðernishreyfingu vaxið fiskur um hrygg og fór með hótunum um að ráðast á tiltekinn hóp göngumanna. Þá vék að mér eldri maður sem ég hef ómælda virðingu fyrir, rólyndismaður, þekktur fyrir andlegan styrk sinn og afrek í starfi. Hann horfði til mín alvarlegur og segir, ,,Bragi, ef þessir nasistar koma og trufla gönguna, þá þarf einfaldlega að berja þá, það er eina tungumálið sem þeir kunna.” Ég var ekki sammála honum þá og er það vissulega ekki enn í dag. En ég hef að sjálfsögðu ekki horft upp á eyðileggingarmátt manna sem hafa misst virðingu við samfélag sitt, glatað öllu stolti og beint reiði sinni í eina átt.

Ég tel að samfélagið hafi tekið gamla manninn á orðinu nú í gær(miðvikudag) og ákveðið að lemja DV, það er löngu hætt að taka rökum og nú er undirskriftalistinn kominn yfir tuttuguþúsund. Gott og vel, ég tók þátt í þessu en ég held að þetta eigi ekki eftir að breyta neinu.

Bragi reit 01:41 EH | Comments (2)

janúar 11, 2006

Mótmæli gegn DV

Mér hefur oft misboðið vegna æsifréttamenskunnar á DV, en það sem mér misbauð í gær var að ég var orðinn svo dofinn gagnvart mannorðsmorðunum þeirra að ég áttaði mig ekki á alvarleika forsíðunnar fyrr en ég heyrði af sjálfsvígi mannsins hvers mynd var á forsíðunni.


Bragi reit 12:18 EH | Comments (0)