ágúst 30, 2005

Kjósum Sjálfstæðisflokkinn næsta vor!

Hvað þýðir það? Jú, það þýðir að við fáum að halda flugvellinum á sínum stað enda kemur hann sér svo vel fyrir okkur borgarbúa, við fáum langþráða byggð útá eyjum og meirað segja ætla Sjallarnir að vera svo góðir við okkur að grafa göng út í Viðey og Engey! Við fáum endurgerð Páls Vilhjálmssonar klæddan í hold og blóð og kominn með sítt að aftan sem borgarstjóra. Allar hugmyndir um gjaldfrjálsan leikskóla falla um sjálfa sig. Miðbærinn deyr. Rússablokkirnar munu rísa á Hlíðarenda og Sjálfstæðiskonur munu fá sínu framgengt og hundagirðingin við rætur Öskjuhlíðar verður friðuð. Húdífú!

Bragi reit 11:38 FH | Comments (6)

ágúst 24, 2005

Saga fyrir löngu

Ég skrifaði þessa sögu fyrir nokkrum árum. Hún er svona nostalgíu barnaskapur með góðri pælingu í endann. Ég tek samt eftir því að málfarið var ennþá óslípað og margar og mikla málfarsvillur koma fram í textanum. Sagan er samt góð og birti ég hana aftur hér á arftaka hafduthetta.

Herra minn... já og frú.
Í dag er mánudagur og lítur út fyrir að verða góður dagur. Mánudagur er því ekki á leiðinni að verða jafn leiðinlegur dagur og sunnudagur var, en hann var ekki dagur til að hrópa húrra fyrir. Sunnudagar eiga það nefnilega til að verða frekar einhæfir og mollukenndir. Enginn nennir að elda almennilegan mat, fólk fer ekki í fötin heldur gengur um í sloppnum þar til sólin sest og sér þá ekki ástæðu til að klæða sig. Þó er eitt einkenni sunnudaga það að fjölskylduboð virðast eiga sunnudaginn frátekinn. Þetta virðist ekki vera tilviljun, ef litið er á þann fjölda fjölskylduboða sem farið er í, er hægt að sjá að eflaust yfir helmingur af þeim hafa verið haldin á sunnudögum.

Sumum finnst gaman í fjölskylduboðum. Ég þekkti einu sinni strák sem elskaði fjölskylduboð. Mjög sjaldan voru fjölskylduboð í hans fjölskyldu. Alltaf þegar ekkert fjölskylduboð var í hans fjölskyldu á sunnudegi, þá hringdi hann í alla vini sína og kannaði hvar boðin væru. Hann fór síðan á staðina einn eftir annan og bað um að fá að leika við vin sinn. Ef foreldrarnir sögðu að vinurinn væri upptekinn í fjölskylduboði þá gerðist hann ennþá ágengari og fór stundum hús úr húsi til að leita að boði sem var tilbúið að hleypa honum inn. Ég velti því oft fyrir mér hvað það var sem dró hann að fjölskylduboðum. Var það hlýja og góðmennska ömmunar og afans? Var það glettin stríðni föðurbróðursins? Kannski líkaði honum og fannst gaman að sjá hvað fólkinu sem átti bágt var vel tekið í fjölskylduboðum. Feita stelpan með bólurnar naut jafnmikillar ástar í fjölskylduboði og frænka hennar sem söng í léttmjólkurauglýsingunni. Þær léku sér á jafningjagrundvelli í fjölskylduboðinu. Ég var forvitinn um það og ákvað að spyrja hann. Svarið var í raun loðið og hefði ég verið eldri hefði ég búist við þesskonar svari. Ástæðan var nefnilega sú að pabbi hans var venjulegast ekki kominn heim á sunnudögum. Ég vissi ekki að pabbi hans væri að vinna svona skrítna vinnu sem héldi honum alltaf frá því að halda fjölskylduboð á sunnudögum. Ég þekkti strákinn hvort sem er ekkert það mikið að ég vissi hvað pabbi hans var að vinna við. Mér var í rauninni alveg sama.

Alltaf eftir þetta þá bauð ég honum í boðin heima hjá okkur. Við lékum okkur saman og mér fannst hann vera skemmtilegur leikfélagi. Hann hló á svo sérstakann hátt. Alveg eins og slanga. Hiss hiss hiss hló hann. Honum þótti ósköp vænt um að fá að koma í boðin heim til mín og ég var í raun feginn að fá leikfélaga. Mér þykja nefnilega fjölskylduboð ekkert skemmtileg. Ég þurfti alltaf að klæða mig í betri fötin og haga mér eins og ég vissi að fólk hagaði sér ekki neitt. Tala öðruvísi og hreyfa sig öðruvísi. Standa í röð þegar maturinn og kökurnar eru framreiddar. Iss, hvað halda menn að maður nenni þessu. En strákurinn virtist elska það. Þá meina ég líka elska að bíða aftast í röðinni og hleypa eldra fólki fram fyrir sig, sem þakkaði fyrir sig með orðunum, ,,mikið er hann kurteis, þessi elska, ja svei ef allir litlir strákar væru eins og þú". Hann elskaði að segja þakka þér í staðinn fyrir takk og hafið þér góðan dag í staðinn fyrir bless. Eftir að hann hafði farið í töluvert margar veislur heima hjá mér og við vorum orðnir mjög góðir vinir þá hringir hann einn daginn í mig. Hann sagðist ekki geta komið í fleiri fjölskylduboð, hann væri að flytja út á land og hann myndi örugglega hafa samband þaðan sem hann væri að fara. Þetta var það seinasta sem ég heyrði frá þessum strák þangað til fyrir tveimur árum. Þá birtist mynd af föður hans í dánarfregnum Morgunblaðsins. Ég ákvað að reyna að hafa upp á stráknum sem átt hafði með mér svo margar góðar stundir. Ég fann hann í fangelsi. Hann drap pabba sinn. Pabbi hans hafði aldrei verið í vinnu.

Þessi saga er ekki sönn. Hins vegar eru atburðir æsku oft skýrari og réttari löngu eftir að þeir hafa verið upplifðir. Suma hluti hafa foreldrar ykkar haldið frá ykkur til að hlífa ykkur og sumt áttuðuð þið ykkur ekki á fyrr en eftir lengri tíma. Er barnæskan tími sakleysis eða barnslegrar fávisku?

Bragi reit 04:02 EH | Comments (1)

ágúst 19, 2005

Myndir úr brúðkaupinu

Jamm ég býst við að sumt fólk hafi gaman af því að skoða svona brúðkaupsmyndir. Þannig að þið megið skoða okkar. Hérna

Bragi reit 12:49 EH | Comments (1)