mars 23, 2005

Hvað er málið?

Málið er Hraun! á Vagninum, Flateyri á föstudag og svo ,,Aldrei fór ég suður" Norður á Ísafirði, Laugardag frá 16:00 til miðnættis. Gleðin heldur svo áfram á Sjallanum Ísafirði.

Vagninn - Jepp besti staðurinn norðan Kvískerja!

Bragi reit 10:35 FH | Comments (3)

mars 18, 2005

Gmail við lok námsins og ferð vestur á firði

Ég er að taka upp notkun á gmail þar sem gamla háskólapóstfangið mitt verður tekið af mér, að öllum líkindum, bráðlega. Sama fang, bragisk nema núna með endinguna @gmail.com

Ég var svo að taka góða ákvörðun um að fara vestur á Önundarfjörð um páskana. Þar mun ég skemmta mér á skíðaviku og Aldrei fór ég suður.

Bragi reit 10:06 EH | Comments (1)

Hyllum sjéffann!

Elías Jón mannræningjaefni og stjórnmálafræðinemi er orðinn formaður Stúdentaráðs. Því fagna allir góðir menn. Reyndar sé ég litla ástæðu til þess að fagna hinum mikla biturleika sem fylgir fréttatilkynningu Vöku sem birtist á vefsíðu þeirra í dag. Hins vegar þá geri ég mér grein fyrir því að staðan sem komin var upp var engan veginn ákjósanleg. Hins vegar er niðurstaðan eitthvað sem fólk kom sér saman um og því er engin ástæða fyrir fólk að kvarta. Elías Jón er drengur góður sem er miklu meira en hæfur til þess að leiða Stúdentaráð næsta árið og óska ég honum velfarnaðar í starfi.
Copy of Fyrsta helgi febrúar 2004 001.jpg
Elli og xxla á góðri stundu.

Bragi reit 04:14 EH | Comments (0)

mars 13, 2005

Jói Fel og Asparssull

Jafnvel þó að mörgum hefðarkonum hér á landi finnist Jói Fel vera vel nýtilegur í sturtunni þá finnst mér hann vera handónýtur í brauðréttabókinni sinni. Aspas í hvern rétt!! Mér finnst ferskur aspas vera frábær léttsteiktur upp úr hunangi og balsamico en soðinn aspas í brauðrétti finnst mér hreint út sagt helgispjöll. Annars er þessi bók ekkert annað en ófrumlegur tónn við gamalt stef sem helgast meira af vöruúrvali í Hagkaupum en góðri matreiðslu. Greinilegt að hann er bakari en ekki kokkur.

Ég er semsagt búinn að vera að stússast við að búa til brauðrétti í allan dag, heilan klukkutíma reyndar. Komst að því að í brauðréttagerð eins og öðru get ég ekki haldið mig við uppskriftir. Þarf alltaf að semja nýtt sjálfur. Gott að vita fyrir framtíðina.

###############

Manchester valtaði yfir Southampton í gær. Ákveðinn léttir sem fylgir svona bursti í ljósi brottfalls minna manna úr Meistaradeildinni. Las grein á Guardian vefnum þar sem einhver vitleysingur var að ráðleggja Ferguson að selja Nistelrooy í sumar. (hér)
Ég ræddi þetta aðeins við Alla í gær og við komumst að því að maðurinn væri líklegast óhæfur um heilbrigða hugsun enda ekki heimspekingur...

Svo er kanalíu hálfvitinn kominn aftur á kreik. (hér)
Megi hann éta úldið handklæði.

Bragi reit 12:59 EH | Comments (1)

mars 12, 2005

Sólin skín inn um gluggann minn

Það er bara fínasta veður hér á Ásvallagötunni. Langar samt lítið út fyrir til að komast að því að hitinn er um frostmark. Þetta verður innidagur. Fór aðeins út í gær með Gumma. Hitti Loga og Kára á Prikinu og svo kíktum við á Vegamót þar sem Stebbi var í góðu glensi með tveimur vinkonum sínum frá Kanalíu. Fór snemma heim með sætu stelpunni. Ætlaði að fara að smella köku í ofninn og búa til brauðrétt þarsem ég átti von á fjölskyldunni hennar í heimsókn. Þessu hefur víst verið frestað þartil á morgun. Faen, hvad skal jeg göre nu?

Er víst að hugsa til bókamarkaðarins.... Jamm ætli ég fari ekki aftur þangað.

Bragi reit 01:31 EH | Comments (1)

mars 11, 2005

Gaman á Breiðvangi

Ég fór á Eddie Izzard í gær. Þorsteinn Guðmundsson og Pétur Jóhann Sigfússon hituðu upp fyrir goðið. Þorsteinn fannst mér vera hetja kvöldsins. Hann átti frábæra punkta og er að sanna fyrir mér að möguleiki sé fyrir uppistandara að bæta sig með æfingunni. Pétur reyndi að gera voða mikið grín að sjálfum sér. Það var fyndið á köflum en hann ílengdist í þeim húmor einum of mikið. Þá var komið að Eddie sem átti salinn í svona hálftíma. Náði Íslendingnum í manni afskaplega vel með vísunum í Sjálfstæðisbaráttuna og Þorskastríðið. Eftir þennan hálftíma kom svo hálfsúrt sketch með gíraffa og býflugu og datt þá botninn soldið úr þessu hjá honum. Ég ætla ekki að segja að þetta hafi verið beint lélegt en ég bjóst við meiru af honum. Kannski var maður bara búinn að hlægja svo mikið að kvótinn hafi verið kláraður þegar hann var kominn langleiðina með settið. Þetta kvöld var bara fínt.

#####################

RÚV málið mikla er að ganga af mér lifandi dauðum. Ekki að ég sé svo rosalega hneykslaður yfir einhverjum pólítískum potunum í útvarpsráði, heldur frekar að fólk skuli vera svona hissa og vantrúa þegar að slíku kemur. Ég bara spyr, er fólk búið að búa við samskiptaleysi og einangrun síðustu áttatíu árin? Gerir fólk sér ekki grein fyrir allri fyrirgreiðslunni og sporslunum sem fara fram að tilstuðlan Framsóknar og Sjallanna í landinu? Hefur fólk aldrei heyrt um orðið spillingu? Hún er nefnilega til hérna í miklu mæli, munurinn á Íslandi og nágrannalöndunum er hins vegar sú að þessi spilling er lögleg á Íslandi en ólögleg annars staðar. Ég er búinn að vinna að félagi í Háskólanum sem hafði það sem eitt að stefnumálum sínum að flokkar á landsvísu ættu ekki að hafa bein áhrif í háskólastjórnmálin. Ég er svo alltaf spurður af meðlimum hinna fylkinganna hvort ég sé að ásaka þá um spillingu! Hvurslags endemisbull er þetta! Upphrópunarmerki!!

#####################

Kristjana átti afmæli þann áttunda og ná vikulöng hátíðarhöld hámarki á morgun þegar fjölskyldan hennar kemur í heimsókn. Reyndar verðum við bara að ímynda okkur að foreldrar hennar og systkini séu með okkur, en eins og alþjóð veit eru þau í útlegð í flatlendinu Hollandi. Við fórum á Austur Indía á mánudaginn, borðuðum hjá Alla og Jórunni á þriðjudaginn, reyndar líka í gær fyrir Eddie og svo gaf ég henni þessa líka forlátu peysu sem passaði engan veginn á hana þannig að núna er Kristjana stoltur eigandi af risastórri inneignarnótu sem hún á eflaust eftir að nota í eitthvað flott.

Jamm, takk í dag.

Bragi reit 01:02 EH | Comments (7)

mars 08, 2005

Kristjana á afmæli!!

Hún á afmæli í dag hún Kristjana. Yndislega Kristjana!
hafrafjall 018.jpg
GróttaogKristjana-flotturpakki.jpg

Bragi reit 11:29 FH | Comments (0)

mars 05, 2005

Ótrúleg snilldartónlist og bókamarkaður

Ég er orðinn heltekinn af jpop. Það er fyrir ykkur sem ekki fylgjast mikið með, japönsk popptónlist. Nokkrir flytjendur eru í mínu uppáhaldi eins og Pizzicato 5 sem margir ættu að kannast við. Nú er ég hins vegar orðinn yfir mig hrifinn af Gaur sem kallar sig Marxy. Hér er lag eftir hann sem heitir neoplasticism vs. de stijl. Þvílík snilld! Ef þið eruð ekki sammála mér þá eruð þið bara skrítin. Hér getið svo kíkt á heimasíðunna hans Marxy.

Annað er að frétta að ég og Kristjana fallega fórum á bókamarkað í ag og keyptum þar fjórar bækur. Öreindirnar eftir Michel Houellebecq, Furstann eftir Machiavelli og tvær matreiðslubækur. Mér finnst ég ennþá vera að finna til skyldueignir í bókasafnið mitt og ég hlakka til þegar ég get farið að kaupa bækur ekki bara vegna þess að ég skammast mín fyrir að hafa ekki lesið þær heldur líka vegna þess að þær hafi mikið skemmtangildi. Reyndar er Houellebecq bráðskemmtilegur og ég spái honum Nóbelsverðlaunum innan fimm ára.

Bragi reit 07:44 FH | Comments (0)

mars 04, 2005

Helvítis flugvöllurinn, fari hann fjandans til!

Já burt með þetta malbiksrandaróféti úr Vatnsmýrinni. Frekar vildi ég sjá blauta fætur vappa þar um á milli fífukollanna en að halda í þetta ræmufargan sem spillir, spælir og spjallar rætur Öskjuhlíðarinnar. Það guðsvolaða andskotans fyrirbæri má fara fjandans til. Og viti menn, ég þarf ekki að rökstyðja mál mitt. Framsóknarpakkið gerir ekki einu sinni tilraun til þess, afhverju ætti ég þá að leggja mig í líma við að finna upp á einhverjum röklegum afleiðum og aðleiðslum. Við heimspekipakkið ættum kannski að halda af stað í jafnréttisbaráttu rökhyggjunnar. Við krefjumst jafngildra raka!! Slíkar upphrópanir gætu staðið á skiltunum.

Miltisbrandur og morðvélar þær er fylgja vítisvotti sem þessum skal í burt. Ég sver við tengdason föður konunnar minnar að ég muni gera allt sem í mínu himneska valdi er hægt til að koma í veg fyrir þetta ófremdarverk, hryðjuverk gagnvart svefnfrið mínum. Ég mun jafnvel skrifa grein í moggann!

Bragi reit 11:30 FH | Comments (4)