febrúar 20, 2005

Íslenskur arkitektúr???

Var að reka augun í Innlit Útlit hennar Valgerðar Matthíasdóttur. Þar var hún að sýna nýja bryggjuhverfið í Garðabænum. Staðfestur enn á ný grunur minn um að íslenskir arkitektar séu andlausir og staðnaðir í póstmódernisma. Ég bara spyr, er fólk ekki orðið svolítið þreytt á endalausum kössum og beinum línum? Er það ennþá dauðasynd að skreyta húsið sitt? Að mér sækir hroll þegar ég hugsa um að kumbaldarnir á Laugaveginum séu að fara að hverfa á brott og þessir aðilar séu að fara að hanna þau hús sem koma eiga í staðinn. Getum við ekki bara hringt í særingamann og reddað Guðjóni Samúelssyni sínu seinasta djobbi með fullri virðingu fyrir doktor Magga og félögum. Mér finnst þeir einfaldlega ekki eiga það skilið að teikna hús á Laugaveginum. Síðustu hús sem þar hafa verið byggð eru arfaljót og byggingarefnin stál og gler eiga ekki heima á þessum vinalega vegi í hjartanu á borginni minni. Að mínu mati eiga hjallarnir að fara af Laugaveginum en það er ekki sama hvernig farið er að. Strikið á að vera fyrirmyndin okkar. Það er augljóst. Fleiri Íslendingar hafa orðið ástfangnir af Strikinu en nokkurri annarri götu utan landsins. Hún er falleg, þétt og skrautleg. Einfaldega það sem Laugavegurinn þarf að vera.

Bragi reit 06:47 EH | Comments (14)

febrúar 15, 2005

Baulaðu Svavar ef þú heyrir

Sit heima hjá mér og hlusta á frumsömdu lögin hans Svabba, raula með og vökna um augun öðru hverju. Mér hefur fundist skrítið hversu mörg stórgóð lög koma frá honum og ekkert þeirra hefur verið almennilega gefið út. Ég ætlaði eitthvað að hjálpa honum að koma tónlistinni á framfæri fyrir ári síðan en eins og svo margt annað sem ég ætlaði að gera í fyrra varð það að sitja á hakanum vegna ótrúlegs annríkis. Ég sendi hins vegar tengla á nokkur lög eftir hann til Bretlands áðan að Svavari óspurðum. Nú veit hann það vonandi ef hann les þessa færslu, en mér til varnar náði ég ekki í símann hans til að segja honum frá þessu. Vonum að þessi umboðsmannahottsjott sem ég þekki í Lundúnum taki lögunum hans fagnandi. Annars er ég á leiðinni þangað í mars að öllum líkindum. Svabbi á skilið heimsfrægð fyrir einlægni, annað hef ég ekki að segja.

Bragi reit 07:11 EH | Comments (1)

febrúar 13, 2005

Myndir ársins 2004

Við Kristjana erum ljósmyndaáhugafólk. Ekki það að við séum mjög dugleg að taka myndir sjálf en við höfum gaman af því að dást að fallegum myndum. Ekki skemmir fyrir að nokkrir vinir okkar eru talsvert hæfileikaríkir á sviðinu. Í hvert sinn sem fréttamyndir ársins eru kynntar spennist ég því alltaf við og hér er hægt að skoða þær. Mikið af afskaplega fallegum og átakanlegum myndum. Ekki varð ég samt hrifinn af kanamyndinni sem virðist hafa unnið flokkinn fólk í fréttum. Njótið.

Bragi reit 07:04 EH | Comments (0)

febrúar 12, 2005

Hafa synir Kim Jong Il bylt föður sínum?

Nú eru fréttir að berast frá N-Kóreu sem ættu að valda mönnum áhyggjum. Þeir hafa lýst því yfir að þeir hafi yfir kjarnavopnum að ráða. Þetta hljómar ekki vel þar sem pólítískur óstöðugleiki og gríðarleg fátækt einkennir þetta litla Asíuríki sem stjórnað er af Fjölskyldumanninum Kim Jong Il. Mikil kúgun þegnanna og fast sæti á botni OECD listanna sem fjalla um lífsgæði. Þetta ríki er fársjúkt.

Undirliggjandi hafa svo verið umræður um það hvort að á undanförnum mánuðum hafi einhverjir aðilar innan valdaelítunnar verið að framkvæma hægfara byltingu innan ríkisins. Fréttir sem bárust fyrr í vetur voru loðnar í meira lagi þar sem okkur jarðarbúum var tjáð að myndir af elskaða leiðtoga og aðrir dýrkunarhlutir væru byrjaðir að hverfa af götum úti. Opinbera útskýringin, eins og Stefán Pálsson réttilega benti á í svarkerfinu á þessari síðu var sú að elskaða leiðtoga fyndist sem svo að dýrkunin á sjálfum sér væri komin út í öfgar. Ekki beint sannfærandi yfirlýsing frá manni sem virðist haldinn gífurlegu mikilmennskubrjálæði.

Nú eru hins vegar fréttir að berast sem renna stoðum undir samsæriskenningarnar um valdatökuna. Opinbera fréttastofa Norður Kóreu vitnaði í stofnanda ríkisins þann 27 janúar:"Our (national) founder Kim Il-Sung, when he was alive, emphasized that if he falls short of completing the revolution, it will be continued by his son and grandson,". Þessi yfirlýsing kemur í kjölfar sífækkandi teikna um völd og áhrif Kim Jong Il. Næstu mánuðir verða fróðlegir en ólíklegt er að við hér á vesturlöndum heyrum af atburðum þegar þeir gerast þar sem upplýsingaleg einangrun landsins er hreint út sagt gríðarleg.

Meira um þessa nýjustu atburði er hægt að lesa hér

Bragi reit 03:44 EH | Comments (1)

febrúar 11, 2005

Mikið er lífið gott

Í dag eru allir glaðir, sjáiði bara: Vaka Röskva H-listinn

Bragi reit 05:29 EH | Comments (1)

Tíminn líður, við líðum öll fyrir það

Daginn eftir einn mest spennuþrungna dag í háskólanum sem ég hef upplifað líður mér ekki jafn vel og mér ætti að líða. Helvítis hliðarverkanir öskranna hafa farið illa með röddina mína. Gerði heiðarlega tilraun til hljóðbloggs áðan en það hljómaði of líkt breimandi læðu til að gera opinbert. Annars get ég ekki kvartað. Oddastaðan var eitthvað sem við stefndum á allan tímann. Ég held að þessi aðstaða sé samt gríðarlega vandmeðfarin. Vonandi náum við að breyta einhverju með veru okkar í ráðinu.

Stuttorður í dag. Get ekki annað.

Bragi reit 04:28 EH | Comments (2)

SIGUR

SIGUR SIGUR SIGUR SIGUR SIGUR!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! 441 441 441 Þrjú ár er langur tími. Það tókst að lokum. Ég er glaður!!!!!!!!!!!

Bragi reit 05:43 FH | Comments (8)

febrúar 04, 2005

Röskva og Samfylkingin í eina sæng!!!

Í þrjú ár höfum við Háskólalistafólk haldið því statt og stöðugt fram að tengsl Vöku og Röskvu við stjórnmálaflokka inni á Alþingi væri skaðleg fyrir hagsmuni stúdenta. Við höfum bent á þessi tengsl og báðar fylkingarnar hafa statt og stöðugt neitað þeim. Vaka hefur staðið sig ágætlega að virðist en Röskva hefur nú sýnt fram á að þetta félag er ekkert annað en útibú frá ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar, Ungum Jafnaðarmönnum.

Grein eftir fjórða sæti Röskvu birtist á vef þeirra 2. febrúar og var titluð sem ritstjórnargrein. Þessi grein var ekkert annað en lofgjörð um Röskvu og þeirra starf. Reyndar gerðum við Háskólalistamenn og konur okkur leik að greininni og spiluðum leikinn finndu staðreyndavillurnar með greininni. Hins vegar er ég í hálfgerðu sjokki. Þar sem ég er Samfylkingamaður skammast ég mín fyrir að flokkurinn skuli haga sér svona. Maka puttunum í málefnum háskólastúdenta á þennan hátt. Við H-listafólk höfðum samband við ritstjóra málgagnsins og hann varð við kröfum okkar og tók niður greinina. En hei, hún er komin upp aftur. Ég get ekki séð annað af þessum vinnubrögðum en að um hana hafi farið umræða og Samfylkingin ákveðið að styðja við bakið á Röskvu í þessum kosningum.

Stúdentar, þegar þið gangið að kjörborðinu þá er augljóst að þið eruð að kjósa Samfylkinguna um leið og þið kjósið Röskvu. Áhrif stjórnmálaflokka innan stjórnmálahreyfinga innan háskólans eru hagsmunaárekstur. Það sem eru þeirra hagsmunir fer ekki saman við okkar hagsmuni.

Hér má sjá greinina ef ekki er búið að taka hana út og endilega ef þú hefur tíma spilaðu leikinn tíu staðreyndavillur, þær eru reyndar miklu fleiri.

Viðbót; Greinin hefur verið tekin af vef Ungra Jafnaðarmanna.

Bragi reit 10:40 FH | Comments (8)

febrúar 03, 2005

Vaka þarf að útskýra ýmislegt

Vaka, félag rétthentra í Háskóla Íslands virðist vera í vondum málum þessa dagana. Tregða Vöku til að taka þátt í samstarfi um lánsjóðsmálin við BÍSN INSÍ OG SÍNE virðist vera að vinda upp á sig. Á mörgum stöðum er verið að fjalla um þetta mál. Menn eru tvísaga. Vaka annars vegar og hin samtökin þrjú hins vegar. Listi yfir umfjallanir um þetta mál:
Hlistinn
Vaka
Röskva
BÍSN
INSÍ
SÍNE

Ef þetta verður ekki til að beygla vonir Vökumanna um að halda meirihluta þá er heimurinn orðinn skrítinn.

Bragi reit 02:44 EH | Comments (11)