feb. 02, 2005

Íslenskur arkitektúr???

Var að reka augun í Innlit Útlit hennar Valgerðar Matthíasdóttur. Þar var hún að sýna nýja bryggjuhverfið í Garðabænum. Staðfestur enn á ný grunur minn um að íslenskir arkitektar séu andlausir og staðnaðir í póstmódernisma. Ég bara spyr, er fólk ekki orðið svolítið þreytt á endalausum kössum og beinum línum? Er það ennþá dauðasynd að skreyta húsið sitt? Að mér sækir hroll þegar ég hugsa um að kumbaldarnir á Laugaveginum séu að fara að hverfa á brott og þessir aðilar séu að fara að hanna þau hús sem koma eiga í staðinn. Getum við ekki bara hringt í særingamann og reddað Guðjóni Samúelssyni sínu seinasta djobbi með fullri virðingu fyrir doktor Magga og félögum. Mér finnst þeir einfaldlega ekki eiga það skilið að teikna hús á Laugaveginum. Síðustu hús sem þar hafa verið byggð eru arfaljót og byggingarefnin stál og gler eiga ekki heima á þessum vinalega vegi í hjartanu á borginni minni. Að mínu mati eiga hjallarnir að fara af Laugaveginum en það er ekki sama hvernig farið er að. Strikið á að vera fyrirmyndin okkar. Það er augljóst. Fleiri Íslendingar hafa orðið ástfangnir af Strikinu en nokkurri annarri götu utan landsins. Hún er falleg, þétt og skrautleg. Einfaldega það sem Laugavegurinn þarf að vera.

Háttvirtur Bragi reit 20.02.05 18:47
Háttvirtir rituðu:

Ætli ég verði ekki rekin úr landi þegar ég verð orðin rík og búin að láta byggja risastóra marocco húið mitt ef þú hefur skoðað maroccoskan arkitektúr það er allt voða kósí og skreytt með blómum og demouð ljós sem mynna á kertaljós og allt í púðum og kósí..
Ég er so sammála það er allt orðið svo kalt heima ég meina er ekki ekki nóg að við heitum Ísland?...

Athugasemd eftir Sigrún systir reit 20.02.05 22:17

Já, alveg sammála. Persónulega ef ég ætti einhverntímann nóg af seðlum myndi ég byggja mér holu eins og Bagend í the Shire. Annars elska ég svona New England hús með allskonar krókum og kimum og útskotum. Eins eru gömlu ensku cottage húsin líka yndislega krúttaraleg svona múrsteins hús.

Athugasemd eftir Steina reit 21.02.05 20:44

Neinei, nútímaarkitektúr þarf ekkert að vera ljótur, það vantar bara dug og þor í Íslenska arkitekta. Sjáðu t.d. þessi hús(href="http://www.duesseldorf.de/touristik/bildarchiv/grafik/n00156.jpg,
http://www.phototour.minneapolis.mn.us/pics/1996.jpg og http://www.larsleber.com/photos/PICT2948.jpg ).
Svona hús sanna að nútíma framúrstefna getur verið stórskemmtileg, enda minna þessi hús mann einna helst á mynd eftir minn uppáhaldslistamann, Salvador Dali.
Það þurfa ekkert öll ný hús að enda eins þessi ófögnuðir sem virðast spretta upp eins og gorkúlur á Kringlusvæðinu

Athugasemd eftir Valli reit 22.02.05 01:52

Jáhá þessi dæmi eru "stórskemmtileg" en samt alveg forljót að mínu mati og eiga einganveginn heima á Laugaveginum. Í Bretlandi eru mjög strangar bygginga reglugerðir (allavegana í sumum hverfum eða borgum) þar verða hús að vera í ákveðnum stíl og litum o.s.frv. Er ekki bara hægt að setja svona reglugerð hér varðandi Laugaveginn. Verða þá ekki allir sáttir? Nú þegar eru nokkur skemmtileg hús niðrí bæ sem mætti taka til fyrirmyndar varðandi ytra útlit, t.d. Hótel Borg, Eimskip, Landsbankinn við Austurstræti, Kaffi Reykjavík, MR, húsið sem Sjávarkjallarinn er í og Sólon.

Athugasemd eftir Kristjana reit 22.02.05 03:52

Jú reyndar eiga svona flott hús eins og eru þarna í Dusseldorf ekkert heima í lágreystri bæjarmynd Reykjavíkur. Best væri að reisa hús á borð við nýja Hótelið sem er búið að smíða í Aðalstrætinu og fellur eins og flís við rass í götumyndina, lúkkar gamalt Reykvískt en er spánnýt.

Athugasemd eftir Valli reit 22.02.05 12:53

að kasta steinum úr glerhúsi?

nú verð ég að taka upp hanskann fyrir íslenskan arkitektúr og skal það koma fram að ég er sjálfur arkitekt og reyna að útskýra hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru. það þarf jú augljóslega að mennta fólk. ég kom nýlega úr námi og hef þess vegna velt þessum hlutum nokkuð fyrir mér.

Í fyrsta lagi: það eru lélegir arkitektar í öllum löndum og ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að það er til mikið af lélegum íslenskum arkitektum en ber að geta að byggingarfræðingar hanna mikið af húsum hérlendis og hanna t.d. flest einbýlishús hérlendis. þeir hafa tæknimenntun en ekki menntun í arkitektúr. ég held að standardinn hér sé síður lægri en annars staðar..hugsanlega eigum við færri staðalfrávik vegna fólksfæðar. Hins vegar eigum við engar "stjörnur"en hugsanlega er það vegna þess að við erum alltaf að glíma við litlu low budget metnaðarlausu verkefni íslenskra "byggingarherra". ekkert má gera almennilega en þetta er helsta vandamál "sósíaldemókratískra" landa. Almenningur verður brjálaður ef peningum er sólundað og þá er tekin einhver kratalausn sem kostar lítið og verður hvorki fugl né fiskur. Skilaboðin frá verktökum og sveitafélögum eru yfirleitt á þessa veru: "Ef þú hlýðir ekki er til nóg af öðrum arkitektum sem eru tilbúnir til að gera þetta". Ástæðan er að það ríkir metnaðarleysi og skilningsleysi gagnvart arkitektúr meðal íslensks almennings. Hugarfarið er að það sé nóg að byggingin sé hlý, leki ekki. allt umfram það sé óþarfi.

Stærsta vandamálið er að íslenskur almenningur er frekar illa að sér í arkitektúr og hefur mun verri sans fyrir honum en flestar nágrannaþjóðir. það skiptir ekki máli hvaða perlum er hent fyrir hann alltaf skal hann vilja einhverja kofa. Það er einfaldlega þannig að við erum að vinna fyrir íslendinga; yfirleitt bæjaryfirvöld eða verktaka sem yfirleitt vilja vera með puttana í hlutunum og eru dugleg við að slá á putta arkitekta um leið og þeir ætla að fara að gera eitthvað að viti. Yfirleitt því þeir halda sjálfir í sinni heimsku að þeir viti betur en arkitektinn (því íslenskir arkitektar eru jú allir bjálfar).

Viðurkenni hins vegar fúslega að það er hlutverk arkitekta að mennta almenning því það er stórt bil á milli arkitekta og almennings. Þetta þarf að gerast með þeim hætti að það verði opnari umræða á meðal arkitekta um arkitektúr. ástæðan fyrir þvi að sú umræða er ekki sýnilega er að mínu mati sú að arkitektar eru hræddir við að styggja verkkaupa eða jafnvel stjórnmálaflokka með gagnrýni sinni.

Ég ætla ekki að fara mikið útí þetta Laugavegsmál en það eru tvær hliðar á því. Ég held það borgi sig að forðast ofgarnar; ökla og eyra. það eru ekki nægileg rök fyrir því að einhver kofi fái að standa að hann sé byggður fyrir hundrað árum. það er algjör smáborgarahugsunarháttur. við megum ekki láta söguna verða okkur fjötur um fót þó að við eigum alltaf að nýta okkur sporin sem sagan gefur. ég verð að viðurkenna að ég veit ekki nákvæmlega hvaða hús á laugaveginum er um að ræða en ég veit bara að þar eru nokkur hús sem mættu hverfa. ber þó að halda í karakter laugavegsins.

fyrirsögn umræðu þessarar er "íslenskur arkitektúr" en hins vegar er það nokkuð augljós að flestir íslendingar vilja erlendan arkitektúr á íslandi; marokko,strikið, dusseldorf og svo baggend(en íslenski torfbærinn er fyrirmyndin að honum). fyrst ber að hafa í huga að borgarrými og arkitektúr í hverju landi er afleyðing af menningu, sögu og landslagi. copy - paste gengur ekki eiginlega ekki því ekki viljum við lek hús eða turna á laugaveginum. við viljum gjarnan arkitektúr sem er afleiðing af 1100 ára veru okkar hér í ballarhafi. íslenskir arkitektar hafa með vissu millibili reynt að skapa íslenskum arkitektúr sérkenni. þessar tilraunir hafa gjarnan runnið útí sandinn af einhverjum orsökum. sennilega vegna þess að íslendingar margir skammast sín fyrir íslenska arkitektasögu enda hefur íslenski torfbærinn hvorki súlur né boga eins og menningarþjóðir í suðri státa af. það er þó þannig að þessi torfkofi var björgunarbátur íslensku þjóðarinnar í gegnum eymd og volæði og fleytti íslendingum í örugga höfn.

Athugasemd eftir Jóhann reit 24.02.05 12:29

...verð svo að kommentera á Hótel Horror í aðalstræti. þetta hús er sögulegur hrærigrautur og fornleifafræðilegt slys. aldrei skal búa til fornminjar og því síður úr blanda saman mörgum sögulegum tímum og búa til þann þriðja. ég held að fornleifafræðingar framtíðarinnar muni klóra sér í hausnum yfir þessu sögulega kraðaki sem er að reyna að endurskapa einn tíma með öðrum tíma í þeim þriðja (sem er dagurinn í dag). Við búum nefnilega ekki í disneylandi og getum því ekki leyft okkur þetta.

dÍSneyLAND??

Athugasemd eftir Jóhann reit 24.02.05 12:35

Mikið finnst mér gott að þú skrifaðir hér Jóhann. Ég verð að játa á mig að ég hljóp á mig með því að ásaka íslenska arkitekta um að vera andlausa og staðnaða. Ég geri mér nefnilega fullvel grein fyrir því að verkkaupar á Íslandi virðast ráða meiru um útlit húsa en þeir sem hanna þau. Góður punktur.
Þó ég sé ekki sammála öllu sem þú ritaðir þá er ég sammála í grundvallaratriðum, Laugavegurinn verður að halda áfram að vera íslenskur vegur og því þurfum við að leita til íslenskra arkitekta. Þrátt fyrir ábendingu mína um að leita eigi utan landssteinanna eftir fyrirmynd að fallegri verslunargötu(Strikið) þá átti ég ekki við að við ættum að gera tvírit af því heldur eingöngu draga af henni lærdóm um umhverfi og skipulagningu. Ég er afskaplega sammála brotthvarfi margra húsa af Laugaveginum. Hins vegar verður þú að játa að það er ekki mikið af dæmum sem fá okkur til að vera bjartsýn með hönnun á Laugaveginum á seinni tíð. Húsið sem hýsir Hereford, Laugavegur 7 og Kjörgarður, öll byggð á sitt hvoru skeiðinu en bera vont vitni um annað hvort arkitekt eða verkkaupa.
Hérna verður mikil og opin umræða að fara fram og hún má ekki einkennast af upphrópunum og öfgum eins og Torfusamtökin hafa nú þegar hafið.

Með von um ferska strauma.

Athugasemd eftir Bragi reit 24.02.05 19:34

Vei!!! Loksins er einhver sammála mér með hótelið í Aðalstræti. Finnst það algjör hryllingur. Finnst hræðilegt að sjá þessi póstmódernísku áhrif á gamaldags húsi sem gæti annars verið mjög fallegt. En þó verð ég að segja að þetta er mun skárra en moldarplanið og niðurníddu kofarnir sem voru þarna fyrir fyrir tveimur árum síðan.

Athugasemd eftir Kristjana reit 25.02.05 13:33

hótelið er slys og torfusamtökin fara offari

Athugasemd eftir Jóhann reit 25.02.05 22:51

Réttast væri að keyra Caterpillar af stærstu gerð í gegnum mjög margan kofann í bænum.
Annars hlýtur víti arkitekta nú að einhverju leyti að vera sjálfskapað enda fær heil starfstétt ekki bjálfatitil bara sísona, kannski er gallinn sá að þeir taka sig og verk sín of alvarlega.

P.S. Hótelið rokkar, en það er nú bara spurning um smekk held ég ;-)

Athugasemd eftir Valli reit 27.02.05 19:48

Áfram kúluhús!

Athugasemd eftir Biggi reit 01.03.05 15:08

ég hef nú ekki heyrt af bjálfatitli og enn síður um neitt víti þó að íslenskur arkitektúr þyki almennt ekki vera í fremstu röð.það er hins vegar rétt að margir taka sig og verk sín of alvarlega...þeas að bygging þarf að geta breyst með þörfum hvers tíma og því þurfa hús að vera þannig hönnuð frá upphafi að þau geti þróast og þeim geti verið breytt samhliða nýjum kröfum.

ef víti arkitekta er eitthvað þá er það pólitíkin. það er þannig að fólk kvartar oft undan því að reykvísk séu svo sundurleit og það vanti heildarmynd á hverfin. ég þekki þetta af eigin raun og þetta virkar á eftirfarandi hátt: arkitekt teiknar deiliskipulag og setur skilmála um hæðir og þakform, t.d. einhalla eða flatt þak. skipulagsnefnd samþykkir málið og allir halda að þarna muni rísa hið snotrasta hverfi. í millitíðinni er einhverjum sem líst ekki á skilmálana (verktaki, stór húsbyggjandi, einhver frægur eða jafnvel venslamaður einhvers í bæjarstjórn). ástæðan oftar en ekki þakformið eða stærðin. af ótta við að styggja viðkomandi lætur bæjarstjórn þá skipun ganga að gefa undanþágu. þegar undanþágan er komin er einnig komið fordæmi og þá er skrattinn laus og útkoman eru mörg nýleg hverfi í reykjavík sem eru blanda af kanadískum einingaviðbjóði, finnskum bjálkakofum, húsum teiknuðum af byggingarfræðingum, verkfræðingum og arkitektum. svona gerast kaupin á eyrinni.

Athugasemd eftir Jóhann reit 02.03.05 23:49

Gaman að sjá virka umræðu um arkitektúr, meira af því.

Athugasemd eftir Haraldur Ingvarsson reit 14.09.05 16:23
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003