október 29, 2004

Stinga þeim inn. PUNKTUR

Afhverju fer enginn í fangelsi fyrir að stela af þjóðinni 40 milljarða?? Ég á ekki orð. Hvað er að þessum mönnum. Olíufyrirtækin hafa stundað viðbjóðslegan glæp í mörg ár og þessir glæpir hafa bitnað á öllu þjóðfélaginu nema kannski einhverjum grasétandi reiðhjólafíklum. Árni Johnsen fór í fangelsi útaf einhverjum dúk og bílskúr sem hann gerði upp fyrir vin sinn. Afhverju sendum við ekki Kristinn Björnsson og félaga í sex ára fangelsi eins og þeir eiga skilið. Urrandi vitlaus alveg hreint. Ekki hægt að segja neitt gáfulegt um þetta nema kannski að það er allt í lagi á láta þessa menn heyra það þegar þið hittið þá. Félagslegt taumhald virkar ágætlega. Urrandi reiður. URRRRRRR

Bragi reit 07:20 EH | Comments (48)

október 12, 2004

Að berjast gegn illum kanadruslum

Liðinu mínu líður illa þessa dagana. Manchester United er ógnað af vondum manni frá Bandaríkunum. Hann ætlar sér að kaupa félagið og breyta því í enn meiri peningamaskínu en það er nú þegar orðið. Aðdáendur út um allan heim heyja nú borgarastríð gegn þessari yfirtöku með því að bæði hóta því að hætta að kaupa treyjur eða styðja félagið fjárhagslega á meðan þessi ógn stendur yfir. Þetta er logo baráttunnar:

Einnig er aðdáendum bent á að verið er að safna fólki til að annaðhvort kaupa í félaginu sem það styður eða þá að bjóða fólki að skrá sig frítt í sjóð sem á talsvert magn hlutabréfa í félaginu. Pælingin er sú að fæla Vonda manninn frá með því að sýna styrk í fjölda. Hægt er skrá sig hér á http://www.shareholdersunited.org/joinsu.php.

P.S. Ég er viss um að Glazer aka vondi maðurinn sé Repúblikani.

Bragi reit 10:29 EH | Comments (97)

október 08, 2004

Úr felum

Ég hef ákveðið að koma sjálfum mér á lappir. Ég hef staðið í tilraun undanfarna tvo mánuði sem fólst í því að fela mig fyrir flestum á sem flestum vettvöngum.(er hægt að beygja orðið svona?) Á þessum tíma reyndi ég að vera helst ekki staddur á landinu. Ég flúði til Danmerkur og Hollands í sannkallaðar unaðsreisur. Hvids vinstue og hátíð mikil í Leiden voru ágæt hliðarspor þeirra ferða en gaman var þó að hitta eftir langa fjarveru, fjölskyldu mína og verðandi tengdafjölskyldu.

Ég varð vitni að einum skemmtilegasta og hressasta viðburði sem komið hefur fyrir í sögu Evrópu. Þessi viðburður innihélt þennan hlut.

Á miðnætti á laugardagskvöldi í miðborg Leiden þá voru tugir þúsunda karlmanna í spreng. Þessir menn voru þarna samankomnir ásamt álíka miklum fjölda kvenna til að fagna einhverjum viðburði sem átti sér stað á sautjándu öld á svipuðum árstíma. Þegar Hollendingar fagna þá drekka þeir mikinn bjór. Þetta sem við sjáum hér að ofan er útipissuskál sem er greinilega til eins nýtileg. Að pissa í hana. Meira að segja geta fjórir í einu pissað í þessa einu skál það sem eins og flatarmál hennar gefur til kynna þá eru fjórar afmarkaðar skálar sem eiga það allar sameiginlegt að hægt sé að pissa í þær. Á fyrrnefndu miðnætti þá hafði myndast ansi góð röð við eina af þessum úrínalíum. Mörgum var orðið mikið í mun að fá að spreyta sig á þeim og sumum meira en öðrum.

Svo ég lengi ekki orð mín enn meira þá varð ég vitni að því að einum manni var orðið það mikið mál að pissa að hann beygði sig í hnjánum og reyndi að pissa í gegnum klofið á öðrum manni sem var að brúka úrínöluna. Þessi tilraun endaði þannig að krafturinn á bunu þess sem stóð aftar varð heldur mikill og fékk afturendi þess sem stóð framar að kenna á henni. Sá fremri varð ekkert gífurlega kátur með tilraunir þess aftari og réði til höggs. Ekki fór nú betur en svo að buxurnar duttu niður um hann sem og hann sjálfur á jörðina dragandi þann aftari með sér.

Hellidemba, umhverfið litað grænt af Heineken glóð mikilli og tveir menn með buxurnar niðrum sig að glíma í faðmlögum á hellulagðri stétt í miðborg Leiden.

P.s. Kristjana rændi glowstick gleraugum af manni og eignaðist vin í formi sextugs homma með skreytifíkn.

Bragi reit 01:03 EH | Comments (172)