júlí 23, 2004

Fótbolti in Engrish

Skjár 1 hefur tekið yfir fótbolta okkar Íslendinga. Og já, þá á ég ekki við þennan íslenska heldur enska boltann. Enska boltann, úrvalsdeildina sem hefur notið jafnvel meiri vinsælda meðal íslenskra karlmanna en fréttir og Spaugstofan. Jafnvel klám bliknar við hlið enska boltans í vinsældum. Eins ótrúlegt fyrirbæri og það er, þá áætlar Skjár 1 að bandvarpa boltanum með breskum boltaspekingum. Hið ástkæra, ylhýra mun víkja fyrir bastarði tungumálanna, engilsaxneskri tungu. Ég er persónulega hoppandi illur yfir þessari ákvörðun og ég átta mig engan veginn á því hvernig nokkrum mönnum dettur í hug að brjóta lög sem eru skýrari en tuttugu karata demantur fyrir framan nefið á öllum Íslendingum í beinni útsendingu. Hér kemur áttunda grein útvarpslaga í heild sinni.

8. gr. Tal og texti á íslensku.
Efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.
Ákvæði greinar þessarar eiga ekki við þegar um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva. Þau eiga ekki heldur við þegar útvarpsstöð hefur fengið leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku, sbr. 1. mgr. 7. gr.
(Hér eru útvarpslögin í heild sinni)
Ég er persónulega ekki mjög hræddur um það að skilningur minn á boltanum rekist á einhverja tungumálarimla. Ég er hins vegar hræddur um það að aðrir séu ekki á sama máli. Jafnvel þótt að ungir, stæltir og tungufimir karlmenn geti stært sig af lipurð sinni í málafærslum á enskri tungu þá eru ekki allir Íslendingar staddir á sömu málsyllu og þessir ungæðingar sem núna áætla að svipta fjölmarga bæði unga og aldna því að njóta boltans í beinni á sæmilegri íslensku með misvitrum vitringum.

Hér má sjá Kastjós þann 22.07.2004 þar sem þetta mál var rætt.

Bragi reit 07:16 EH | Comments (212)

júlí 20, 2004

Laxerandi Framsókn

Ríkisstjórnin dregur aftur frumvarp um fjölmiðlalög og hættir við að leggja annað fram. Munum hvað Halldór sagði skömmu eftir að fyrri lögin voru afturkölluð og þau seinni kynnt. "Spurður hvar hugmyndin að þessari leið hefði fæðst sagði Halldór að hún hefði komið upp í samtölum hans og forsætisráðherra."hér Greinilega var hann ekki að reka fleyg í síðu Davíðs heldur hefur þróun undanfarinna vikna leitt til þess að Halldór hefur þurft að fremja einskonar Harakiri á málið.

Hjálmar Árnason hefur álpast út úr stjórnarráðinu málaður trúðslitum sökum ummæla sinna í fjölmiðlum að undanförnu "Formaður flokksins hefur unnið þetta að undanförnu og haft mjög gott samráð við þingmenn. Við notum tæknina til þess og hann hefur alveg vitað hvernig hjarta þingmanna í okkar þingflokki slær og á þeim nótum hefur hann unnið þetta mál," hér

Svo kemur svona; "Ég lýsi yfir vonbrigðum, gríðarlegum vonbrigðum, með það að forysta flokksins virðist af einhverjum ástæðum ekki vera að tala við sömu þjóð og ég."hér -Brynhildur Bergþórsdóttir á fundi hjá Framóknarflokknum Reykjavík Suður, og svona; "Ég hef ekki unnið við að yrkja framsóknarakurinn til þess að sjálfstæðismenn njóti ávaxtanna.“hér Sveinn Bernódusson Framsókn Bolungarvík, og smá svona; "Stjórn SUF telur að bíða beri með að lögfesta fjölmiðlalög á ný."hér

Kúvending verður á stefnu mesta popúlistaflokks Íslendinga. Skyndilega upplifa Íslendingar aflið sem felst í því að virkja mótmælastrauma til mikils brims. Halldór er nauðbeygður til fylgispektar við grasrótina.

Ég get síðan ekki hætt þessari upptalningu án þess að láta eina tilvitnun fljóta með til gamans. Þessi setning birtist í ályktun stjórnar ungra framsóknarmanna þann 8.7.2004; "Stjórn SUF er ánægð með staðfestu formanns Framsóknarflokksins sem af lipurð hefur sveigt Sjálfstæðisflokkinn frá afleitu upphaflegu frumvarpi Davíð Oddsson. Ber sú framistaða skýrt merki um hæfi Halldórs Ásgrímssonar til að koma auga á skynsamlegar leiðir út úr erfiðum aðstæðum án alls óðagots." hér

Bragi reit 03:19 EH | Comments (17)

Bölvuð sé hún...

Jamm... vika í viðbót fjarri vinnu vegna veikinda. Lungnabólgan mín virðist vera að stinga sér niður út um allt. Nú hefur hann Jósi verið greindur með veikina og ég neyðist til að halda mig inni við í viku í viðbót sökum þessarar pestar. Vona bara að ég hafi ekki breitt þetta meira út. hrmpfffb

Bragi reit 01:32 FH | Comments (14)

júlí 16, 2004

Lungnabólga á mínu heimili.

Jamm ég ligg eins og skata heima hjá mér og hósta af krafti. Með bölvaða lungnabólgu og neyddur til að taka lyf sem láta mig sjá stjörnur og tala upphátt við sjálfan mig um Ottó Rehagel. hrrrmmppfffff

Bragi reit 02:31 EH | Comments (34)

júlí 02, 2004

Hún er á leiðinni!!!

Já krakkar mínir. Loksins loksins er uppáhaldsbókin mín á leiðinni á silfurtjaldið. Fíflabandalagið held ég að sé íslenskaður titill á henni. Confederacy of dunces er sem sagt á leiðinni, vonandi á þessu ári og ég get varla haldið vatni yfir spenningi. Það er mögnuð saga á bakvið sjálfa bókina. Höfundur hennar dó áður en móðir hans fann handritið í skúffu hjá honum. Henni datt í hug að hún væri með eitthvað í höndunum sem hún gæti selt og sendi handritið á nokkra útgefendur. Einhverjum vitleysing datt í hug að gefa hana út og skömmu seinna fékk hún Pulitzerinn. Annars þá er ég ennþá veikur og nýbúinn að endurheimta röddina. Samt ekki gaman.

Bragi reit 03:16 FH | Comments (161)