júní 28, 2004

Auðu atkvæðin

Jæja þá er maður kominn heim úr fríi. Ég ákvað að fara vestur til að fara í fyrsta fríið mitt í tvö ár. Fimm dagar og mér líður eins og nýslegnum túskildingi. Lygi lygi lygi. Ég er orðinn veikur. Svoleiðis gerist ef maður slakar á. Þessi ferð okkar Kristjönu er eitthvað sem hefur verið skráð í sögubókina mína. Ég held að ég hefði betur lesið greinina hans Svanssonar um Kindaslátrun á þjóðvegunum. Segi ekki meira um það. Hamingja á mínu heimili með góðan sigur Óla á afturhaldsöflunum. Helvítis Moggakvikindið aftur orðið að floksskeini. Auðir seðlar um tuttugu prósent.

Ótrúlegt en satt þá hafa auðu seðlarnir loksins verið taldir sér. Í mörg ár hafa ýmsir aðilar á Íslandi barist fyrir því að þessir seðlar skyldu flokkast sér þar sem væri um ákveðna afstöðu að ræða. Það hefur því verið skoðun þessara manna að autt atkvæði skyldi vera jafngilt greiddu atkvæði. Vegna augljósra vankanta á því mun það lílegast aldrei verða en samt verð ég að játa það að þetta gæti verið ákveðin hluttekning sem flokkast ætti sér. Hins vegar finnst mér það hljóta að vekja upp spurningar að loksins þegar hægri menn ætla að skila auðu í fyrsta sinn skuli kjörstjórn sleikja afturenda þeirra með ákvörðun sinni um að telja auðu atkvæðin sér.

Ég er ekki með þessu að segja að mér finnist það hræðilegt að þessi atkvæði skuli talin sér. Persónulega þá finnst mér að þetta sé sjálfsagt og jákvætt. Tímasetningin og kringumstæðurnar eru hins vegar kolrangar og fullar af hræsni. Síðan er það vandinn með auðu atkvæðin. Hvaða rétt höfum við til að skila auðu? Er ekki verið að hafna lýðræðinu með því að skila inn auðu atkvæði. Ég hef ávallt litið á það sem svo að þeir sem skila inn auðum atkvæðum séu þar með í raun að hafna lýðræðishugtakinu. Lýðræði snýst um það að lýðurinn, almenningur velur sér valdhafa. Um leið og almenningur hafnar því að velja hlýtur hann að vera að kippa stoðum undan þessari aðferð til að velja sér valdhafa.

Að sjálfsögðu eru rökin sem notuð eru fyrir þessari aðferð við kosningu marktæk að einhverju leyti, þau sem hljóma upp á að verið sé að hafna þeim valkostum sem í boði eru. Hinsvegar eru þeir sem skila inn þessum tómu atkvæðum að grafa undan kerfinu á þann hátt að möguleikinn myndast á því að lítill minnihluti kjósenda fær um það ráðið hver stjórnar landinu, er forseti og stjórnar sveitarfélögunum. Þetta opnar svo aftur umræðuna um þá ábyrgð sem við berum sem kjósendur í lýðræðislegu samfélagi. Markmið kosninga er að velja úr þeim hópi frambjóðenda þá eða þann sem við teljum hæfastann sama hvernig við skilgreinum slíkt.

Þetta vekur upp spurningar um hvort það sé ákjósanlegt að þurfa á stundum að kjósa á milli tveggja vondra kosta í kosningum. Skásti kosturinn er stundum ekkert gífurlega ásættanlegur en svo lengi sem enginn annar er í framboði er það nauðsynleg skylda okkar að taka ákvörðun og velja.

Bragi reit 02:56 EH | Comments (30)

júní 16, 2004

Hvað kýs Davíð?

Hei vitiði hvað! Það eru að koma kosningar. Forsetakosningar. Ég er fyrir löngu búinn að taka ákvörðun um hvað ég ætla að kjósa. Ólafur vann fyrir atkvæðinu sínu fyrir tveimur vikum síðan. Hins vegar þá er einn maður sem ætti að vera í alvöru valvanda. Davíð Oddson. Það virðist liggja ljóst fyrir að hann muni ekki kjósa Ólaf að sömu ástæðu og ég ætla að kjósa hann. Þá stendur valið á milli tveggja kosta. Ástþórs "kúkú" Magnússonar og Baldurs Ágústsson. Ekki þarf að margorða líkurnar á því að Davíð fari að kjósa Ástþór kallinn. Þá stendur Baldur einn uppi og á hann atkvæði Davíðs víst. Eða hvað? Hefur Davíð einhvern tímann kosið annað en Sjálfstæðisflokkinn. Þarna er á ferð maður sem ekkert er tengdur við stjórnmálaflokka og virðist vera slatti heiðarlegur og virðulegur. Allt saman það sem Dið hefur verið að missa að undanförnu. Getur hann það?

Bragi reit 04:25 EH | Comments (27)

júní 15, 2004

Hænuskref, Bragi, hænuskref

Núna eru liðnir þrettán dagar síðan ég játaði síðast syndir mínar fyrir heilögum internetguði. Þessi pása var kærkomin og vil ég þakka ykkur kærlega fyrir þolinmæðina sem mér hefur verið sýnd vegna fjarveru minnar. Hún er tilkomin af neitun Ólafs. Ég hugsaði með mér. ,,Ég á ekki eftir að geta hætt í skrifum um þetta atvik og þarafleiðandi mun ég fæla frá trygga lesendur í hrönnum. Best að vera ekkert að skrifa þá í staðinn." Þetta varð raunin og í raun var þetta hálfgerð raun. ég hugsaði um það á næturnar að læðast fram í tölvu og krota örlítið, bara smá um gleði mína og hamingju með toppinn. Ég hætti í vinnunni og tók upp á því að stunda líkamsrækt. Good times Good times.

Bragi reit 11:49 FH | Comments (68)

júní 02, 2004

Loksins finnst mér ég búa í lýðræði.

Þakka þér kærlega fyrir Herra Ólafur Ragnar Grímsson. Þú hefur sýnt okkur það að íslensk þjóð á hetjur á óvæntum stöðum. Nú mun stjórnin svara til saka fyrir þær slæmu ákvarðanir sem hún hefur tekið. Í dag búum við öll í lýðræði og mér líður betur í dag en nokkurn tíma áður.

Bragi reit 04:29 EH | Comments (283)