maí 29, 2004

CIA og rangar upplýsingar... Aldrei!

Mér finnst gaman að staðreyndum. Þess vegna lét ég reyna á þjóðhverfuna og komst að nokkrum skemmtilegum hlutum í sambandi við Ísland. Þetta gerði ég með því að líta á staðreyndaskrá CIA um Ísland sem er fáanleg á veraldarvefnum. Þarna er hægt að komast að alls kyns óþurftarupplýsingum. Meðal annars þessa klausu sem ég ætla að láta fylgja með í heild sinni. Þetta er sem sagt listi yfir leiðtoga stjórnmálaflokka, gjöriði svo vel: "Independence Party or IP [David ODDSSON]; Left-Green Alliance or LGP [Steingrimur SIGFUSSON]; Liberal Party or LP [Gudjon KRISTJANSSON]; Progressive Party or PP [Halldor ASGRIMSSON]; Social Democratic Alliance (includes People's Alliance or PA, Social Democratic Party or SDP, Women's List)or SDA [Ossur SKARPHEDINSSON]; Social Democratic Party or SDP [Sighvatur BJORGVINSSON]; Women's List or WL [Kristin ASTGEIRSDOTTIR]" Það er kannski ekki að furða að upplýsingar CIA um Írak væru svona ótraustar.

Bragi reit 03:56 EH | Comments (91)

maí 24, 2004

Hvaða andskotans samþjöppun!!!!

Hjálmar Árnason einn af Júdösum þessarar þjóðar greiddi hrákasmíðinni í dag atkvæði og notaði það sem röksemd að þetta væri eitthvað skref til að koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Hvurslags endemis vitleysa! Hvaða samþjöppun? Það er nú ekki lengra síðan en tuttugu ár síðan ein sjónvarpsstöð og ein útvarpsstöð var til í landinu. Núna eru fjölmörg fyrirtæki að reka útvarpstöðvar og þrír aðilar fyrir utan ríkið sem bjóða aðgang að sjónvarpsstöðvum. Dagblöðum hefur að vísu fækkað, en netmiðlarnir koma fyllilega í staðinn fyrir þá. Og þá spyr ég aftur, hvaða helvítis samþjöppun???

Þessir þingmenn Framsóknarflokksins gerðu í dag íslensku þjóðinni það sem Júdas á víst að hafa gert Kristi. Davíð gaukaði að þeim örfáum silfurpeningum í formi forsætisráðherratitils og í staðinn þá sveik Framsókn kjósendur. Flest í kringum þetta mál hljómar eins og röksemd Hjálmars. Vond afsökun samin til að leiða okkur skrefi fjær sannleikanum. Sannleikurinn er sá að hér er á ferðinni stærsta siðferðislega gjaldþrot Íslandssögunnar. Enginn bjóst við því að Sjálfstæðismenn sem eru svo múlbundnir í valdanet Davíðs að enginn þorir að standa við sína pólitísku sannfæringu. En Framsóknarþingmennirnir, ég hélt að þetta væri að upplagi gott fólk. Ég virðist hafa haft rangt fyrir mér.

Bragi reit 04:04 EH | Comments (328)

maí 23, 2004

Ég á afmæli í dag

Já, þá er maður orðinn 26 ára. Ég vil fá fullt af blómum og krönsum takk. Ég hef ekkert meira um það að segja. Jú kannski eitt. "What did the five fingers say to the face?"

Bragi reit 04:58 EH | Comments (197)

maí 20, 2004

Flopp ársins, dauðadómur Nasa?

Vinur minn, hann Jósi hafði samband við mig í nótt. Hann var frekar reiður og pirraður greyið enda hafði skemmtistaður einn gert honum mikinn grikk. Hann og hundruðir annarra höfðu sem sagt keypt miða á Nasa skemmtistað við Austurvöll til þess að hlýða á plötusnúð að nafni Sasha, en sá kunn vera strokgóður við vínylplötur og snýr þeim eflaust af mikilli list.

Reyndar þá var Jósa boðið af vini hans honum Geira 3d sem hafði ráðist út í þá fjárestingu að kaupa tvo miða á umrætt kvöld. Heildarsumma þeirra viðskipta var þá komin upp í þrjúþúsund krónur. Mættu þeir glaðir í bragði og með blik í augum snemma á staðinn. Rétt til að hita sig upp fyrir kvöld gleði og hamingju.

Eitthvað ætlaði það að dragast að umræddur Sasha byrjaði að spila enda ekki um að ræða neinn gullfisk í tjörninni og slík stórstirni eru víst vön því að láta bíða eftir sér. Biðin varð þó ansi löng og eitthvað var lýðurinn byrjaður að ókyrrast upp úr þrjú þegar sá meinti ofurhugi, Sasha, var ekki mættur á svæðið og út tók að spyrjast orðrómur um að eflaust væri um að kenna svalli á hótelherbergi kappans. Sel það ekki dýrara en ég keypti það enda gefa slíkar flökkusögur oft af sér bastarða.

Um fjögur leytið er það svo tilkynnt að drýsillinn sjálfur myndi ekki heiðra mannsöfnuðinn með nærveru sinni. Gífurleg reiði braust út á meðal manna í salnum og allt keyrði um koll, ef ekki þverbak. Vertar reynu að róa mannskapinn með yfirlýsingum eins og að þeir sem væru enn með miðana gætu fengið þá endurgreidda, en lítið stoðaði það þá, er höfðu látið miðasölukonuna fá miðana sína.

Þegar þetta er skrifað eru tæpir tveir tímar síðan þessir atburðir hentu. Segiði svo að maður sé ekki með puttann á púlsinum. Ekki er auðvelt að spá fyrir um afdrif Nasa að svo stöddu. Ég hef hins vegar horft upp á staði veslast upp og gefa upp laupana vegna eftirmála minni atvika en þess sem hér átti sér stað. Síðan er náttúrulega alltaf spurning hvort að staðurinn nái að varpa ábyrgðinni yfir á þá er héldu sjálft kvöldið. Allavegana þá mun tíminn einn leiða slíkt í ljós.

Bragi reit 05:58 FH | Comments (59)

maí 14, 2004

Vafasamur listi.

Öryrkjadómurinn/frumvarpið. Falun Gong Launahækkun og lífeyrissjóðsbreytingar sérsniðnar fyrir Davíð Skólagjöld Kárahnjúkavirkjun Ríkisábyrgðir til ÍE Starfsmannaleigur Verðbólgan Stríðið í Írak Skattahækkanir??? (bensíngjald, hækkun á lyfjum) Svik um skattalækkanir Útlendingafrumvarpið Stofnun íslensks hers (sérsveitarmálið) Herseta íslenskra hermanna á Kabúlflugvelli Brot á jafnréttislögum Fjölmiðlafrumvarpið

Bættu við að vild.

Bragi reit 01:06 EH | Comments (84)

maí 12, 2004

Áfram Br... Valur

Ég fór á handboltaleik í gær. Þar sem ég er fæddur bliki og spilaði með Breiðabliki á sínum tíma í handboltanum þá var upplifun gærdagsins hálfeinkennileg fyrir mig. Ég fór sem sagt á annan úrslitaleik Vals og Hauka í deildinni. Ég þekki marga Valsara og einn af þeim er sérstaklega harður og tryggur og dró mig á leikinn með því skilyrði að ég myndi klæðast rauðri valsaratryju sem hann prangaði inn á mig fyrir nokkru.

Ég hefði aldrei látið ginnast hefði ég ennþá búið í Kópavoginum og ræturnar grænu hefðu sko bannað mér að fara á leik annarra liða hvað þá sem merktur stuðningsmaður þeirra. Ég var hins vegar löngu búinn að taka ákvörðun sem varðaði nákvæmlega þetta.

Nú bý ég eins og sumum lesendum þessarar síðu er kunnugt í vesturbænum í Reykjavík. Svokölluðu KR-svæði. Þar sem önnur lexían mín í íþróttafræðum var sú að KR-ingar væru djöfullinn get ég ekki hugsað mér að börnin mín verði að KR-ingum í framtíðinni.(Fyrsta lexían var sú að allt annað en Man Utd væri rusl) Nú á ég engin börn og ekki útséð með það að ég flytji einhvern tímann úr vesturbænum. En, ef svo líklega vill til að ég eignist börn á meðan ég bý í vesturbænum þá verð ég að baktryggja mig með öllum mögulegum leiðum þannig að þau muni ekki verða fórnarlömb KR veirunnar.

Þessi Valsleikur var því fyrsta skrefið mitt í því að forða þeim frá bölinu. Ég hef tekið þá ákvörðun að fyrst að Valur er þægilega nálægt muni það lið verða framtíðarlið barna minna. Hins vegar ef ég á að vera nægilega sannfærandi við þau þarf ég að gera Val að mínu uppáhaldsliði...allavegana í Reykjavík. Þannig að...ég verð líklega algengur gestur á leikjum Vals í sumar þó að sjálfsögðu muni ég líka kíkja á Blikaleikina því aldrei mun ég svíkja heimahagana.

Klikkun?

Bragi reit 01:25 EH | Comments (48)

maí 11, 2004

Ný færsla í myndasafninu

Ég var að enda við að setja inn myndir frá svaðilför minni, Bigga og Stebba í Hvalfirðinum á sunnudaginn. Hægt er að skoða myndirnar með því að smella hér.

Bragi reit 04:05 EH | Comments (20)

maí 10, 2004

Undirskriftir og gullfiskaminni

Þegar þetta er skrifað eru framkvæmdir við færslu Hringbrautar komnar vel á veg. Búið er að rífa niður hús sem stóð í vegi fyrir brautinni og bílasala sem einnig var fyrir, hefur verið færð. Ég hef aldrei séð neinn tilgang í þessari færslu, hvað þá vit. Engan áhuga hef ég á að sjá Hringbrautina breikkaða og færða til. Þrjár akreinar hvoru megin!! Afhverju ekki stokkur?? Hvað er fólk eiginlega að hugsa? Ef þið viljið mómæla þá er undirskriftalistinn hér.

Er samt kominn með nett leið á undirskriftarlistum á netinu. Þeir eru orðnir of algengir til að vera marktækir. Ég er líka orðinn hálfleiður á því að skrifa undir allar mínar skoðanir. Mér hefur alltaf fundist mótmæli góð leið til að láta valdhafana vita að þeir komast ekki upp með hvað sem er. Í dag finnst mér samt einhvern veginn eins og þeir komist í alvörunni upp með allt. Fjölmiðlafrumvarp, útlendingalögin, hleranir, stríðsleikir, niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, skólagjöld í háskólum og svo mætti áfram telja. Man einhver eftir Öryrkjadómnum??

Ég skrifaði einhvern tímann grein inn á síðuna hans Egils í silfrinu um skammtímaminni íslensks almennings. Bar því við að minnið væri frekar stutt og enginn vinnandi vegur að láta stjórnmálamenn gjalda fyrir embættisafglöp og stórmennskubrjálæði vegna þessa minnis. Þeir humma öll köll á afsögn og ábyrgð fram af sér í svona viku og þá er allt gleymt og grafið. Reyndar er ég bjartsýnn á að í þetta sinn geti þeir ekki falið sig lengi þar sem þeir hafa vakið fjölmiðlarisann. Ég finn ekki greinina, hún var reyndar skrifuð í kjölfar öryrkjadómsins fyrir þremur árum og kannski ekki skrýtið að Egill skuli hafa hent henni út af vefnum sínum. En samt...

Bragi reit 01:59 EH | Comments (43)

maí 06, 2004

Jæja þá er það búið

Jæja, þá er það búið. Sex in the city hefur lokið göngu sinni. Ástin mín á eftir að sakna þeirra og var að enda við að skrifa langt blogg um lokin.

Bragi reit 11:46 EH | Comments (20)

Það er sko eitt sem mig langar til að segja

Takk kærlega fyrir þolinmæðina ástin mín. Vona að það verði gaman hjá þér á eftir. Greyið ástin mín er að fara að horfa á vinkonurnar sínar í seinasta sinn. Aumingja Kristjana.

Bragi reit 09:11 EH | Comments (13)

Blogspot til vandræða enn á ný

Mér líður svo vel. Það eru sirka eitt og hálft ár síðan ég tók síðuna mína af blogspot og byrjaði að nota Movable Type. Þessi tími hefur verið draumi líkastur. Enginn downtími, einu villurnar sem hafa komið upp eru þær sem ég hef sjálfur gert og uppfærslurnar ganga eins skjótt í gegn og maður vill. Ég tek til dæmis eftir því í dag að öll commentabox á blogspot síðum liggja niðri. Greyin mín, ef ykkur líður rosa illa útaf þessu blogspot drasli þá eigið þið einfaldlega að næla ykkur í MT. Reyndar kostar það að redda sér léni, en þau er hægt að kaupa slíkt fyrir minna en tvöþúsund kall víðsvegar um netið.

Svona gerið það nú fyrir mig, það tekur svo langan tíma að skoða þessar blogspot síður þar sem þær eru endalaust þungar í niðurhali.

Bragi reit 09:48 FH | Comments (31)

maí 05, 2004

Verkföll kennara

Deiglan birtir í dag áhugaverða grein fyrir margar sakir. Þórður Heiðar Þórarinsson veltir fyrir sér kennaraverkföllum og þá "staðreynd" að nánast sé hægt að stilla klukkuna eftir þeim. Ýmis frjálshyggjurök koma fram í greininni og hlutir eins og "Góðir kennarar eru miklu verðmætari en vondir og þess eiga þeir líka að njóta í launakjörum." og "Skólar eiga að hafa metnað til þess að hafa sem best starfsfólk í vinnu og eiga þess vegna að sækjast eftir því að fá sem besta kennara í vinnu. Þannig gæti myndast samkeppni milli skóla um að greiða góðum kennurum laun." könnumst við öll við.

Þetta er allt saman gott og blessað og ætla ég ekki að einbeita mér að því. Það sem ég vil hins vegar ympra á er aðferðafræði kennara í baráttu sinni fyrir bættum kjörum. Þessi barátta er gagnrýnd í greininni og þar kemur m.a. fram að í raun hagnist aðalhagsmunaaðilinn á verkföllum, þ.e. ríkið. Ég er að sjálfsögðu ósammála því og vil endilega benda á að þrátt fyrir að spara örfáar krónur í launakostnað einn mánuðinn hefur verkfall alltaf áhrif út í þjóðlífið og tapast fjármunir vegna óvissu og annarra þátta.

Ég er samt enginn stuðningsmaður kennaraverkfalla. Mamma mín og pabbi eru kennarar og ég kannast því við kjarabaráttu kennara meira en flestir. Í gegnum skólagöngu mína var hún sífellt trufluð af verkföllum. Aðallega var þetta í framhaldsskóla en þar lenti ég í þeirri einstæðu reynslu að upplifa þrjú verkföll kennara. Meðal annars á útskriftarönninni minni og var ég í hættu með að þurfa að fresta útskrift um heila önn.

Í greininni sinni bendir Þórður á að markaðsvæðing skólanna muni leysa þetta vandamál og gera skólana að betri stöðum. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála og vil þess vegna koma með annars konar lausnir og baráttuaðferðir fyrir blessaða kennarana. Í stað hinna klassísku verkfalla eiga kennarar einfaldlega að byrja á því að breyta starfsaðferðum sínum. Í kristinfræði væri til dæmis tilvalið að lesa upp úr kóraninum og kenna börnum að krjúpa á hnén og vísa í austur. Í landafræði væri sniðugt að klippa út öll lönd af kortunum og láta krakkana nota ímyndunaraflið raða þeim aftur upp á kortið. Írak gæti þá lent nálægt Texas og Ísland og Nýja Sjáland gætu keppt í rýjingum án þess að ferðast yfir allan hnöttinn. Íslenskukennarar gætu byrjað á því að leiðrétta fullkomlega rétt skrifaða stíla. Pí hefur alltaf verið soddan leiðindatala með allar sínar aukatölur, þetta gæti verið tækifærið, Pí = 3. Svona mætti halda lengi áfram allt þar til þetta fer að hafa áhrif á krakkana og vitleysingarnir inni á þingi átta sig á því að krakkarnir þeirra hafa orðið heimskari með hverjum deginum.

Æ ég veit það ekki, mér finnst þessi aðferð allavegana skömminni skárri en þessi sífelldu verkföll.

Bragi reit 11:45 FH | Comments (63)

maí 04, 2004

Heimsendir

Ég hef verið að fá undarlegt spam að undanförnu. Ég var orðinn vanur því að fólk hefði áhyggjur af því að ég væri með of lítið typpi og hvort ég þyrfti ekki hjálpar við að ná´onum upp. Nígerískir vinir mínir vildu óðir og uppvægir gera mig að milljónamæringi og eitthvað sápufyrirtæki hafði gífurlegan áhuga á að kynna fyrir mér nýjustu gerð fótsápa. Núna er ég að lenda í því að trúarhópar, ekki einn heldur þrír eru að boða heimsendi ef ég geng ekki í söfnuðinn og greiði tíund. Vá hvað mér finnst ég vera mikilvægur.

Að mati flestra hreyfinganna átti heimsendir að verða árið tvöþúsund eða svona hér um bil. Þetta ætti náttúrulega að þýða að með hverju árinu sem líður frá þúsaldarskiptunum þá minnki óttinn og fólk fjarlægist þessa hópa og trú. Einhvern veginn ná þeir samt að telja fólki trú um að annaðhvort hafi reikningurinn misfarist í gegnum aldirnar eða að einfaldlega hafi aðstæðurnar breyst og tímasetningin færist örlítið til. Sumir eru reyndar svo grófir og segja að Ragnarrök séu nú þegar hafin og lítið sé hægt að gera nema þá kannski að dæla peningum inn í samtök spámanna (lesist spammaranna). Hér læt ég fylgja með nokkra skemmtilega tengla sem ættu að skemmta hræða og fá ykkur til að opna veskin.

Spammarar 1

Rödd skynseminnar (eða hvað)

Billy Graham reynir að sannfæra fólk um heimsendi.

Flass um heimsenda

Margar tegundir af heimsendum, allar á einum stað.

Ég fékk sendan póst frá einhverju fólki þarna úti sem bað mig um að lesa þessa grein.

Kannast einhver við Krishna?

Einverjir mjög vænissjúkir. Ein sú flottasta sem ég hef augum mínum litið. Pbs með þætti um heimsendi.

Bragi reit 10:16 FH | Comments (173)

maí 03, 2004

Hver er sannspár?

Hann er maður margra kvenna. Hárið örlítið byrjað að grána. Kollvik byrjuð að myndast. Gengur mikið í jakkafötum. Á það til að ráða furðufugla í stjórnunarstöður enda er hann sjálfur furðufugl. Hefur hlotið sýknu í héraðsdómi. Á vini í útlöndum. Getur leigt heilu breiðþoturnar með engum fyrirvara. Maðurinn er gífurlega þrjóskur og kann sko að sólunda almannafé. Kemur fram í fjölmiðlum haldandi á tveggjalítra kókflösku sem inniheldur bara "slattann". Nú eru einhverjir byrjaðir að kveikja. Látum þetta nægja. Hér er maðurinn sem heldur sig mikinn. Hver er sannspár? Ýtið hér!

Bragi reit 10:52 FH | Comments (19)

maí 02, 2004

Síða san

Þá hef ég lokið að mestu uppfærslu á síðunni minni. Ennþá eru leyndir gallar og aðrir sem ekki eru svo leyndir. Ég er búinn að læra heilmikið á lestur MT html kóðans við þessa uppfærslu. Myndin sem þið sjáið hér fyrir ofan er af sólarlagi við Ægissíðu. Mynd sem ég tók 22. apríl og þegar ég sá hana í fullri stærð þá byrjuðu hugmyndir að fæðast um að útæra þemu síðunnar hingað til á japanskan hátt. Þema síðunnar hefur verið ´homage til fallinna stórvelda. Síðasta útlit var Sovétveldisútfærslan, sem ég verð að játa, var orðin ansi þreytt. Ég vona að þessi sé skiljanleg og hugmyndin á bakvið hana sé ekki of langsótt. Myndin á að tákna sólsetur keisaraveldisins en eins og fróðir menn muna þá leit fáni þess svona út.

Afganginn ætla ég svo að leyfa hugmyndaríkum lesendum síðunnar um að geta sér til um. Eitthvað tengis það þó hnignun og hruni.
Bragi reit 04:49 EH | Comments (26)

maí 01, 2004

Under construction

Ég er víst að reyna mitt besta til að skilja allan þennan html kóða sem að baki heimasíðu er. Vegna margra beiðna þá hef ég ákveðið að breyta útliti hennar. Hún mun hins vegar verða uppi á meðan og fólk getur því fylgst með tilraunum mínum til hins ítrasta.

Bragi reit 04:55 EH | Comments (70)