apríl 30, 2004

Ljósbleikur 1.Maí

Á morgun er þjóðhátíðardagur þessarrar síðu. Vinsamlegast óskið henni til hamingju. Annars held ég að það viðri vel "til loftárása". Er að velta því fyrir mér hvort það væri snjallræði að æfa gönguna. Þramm þramm fylking hægri sinnum forðum frá því arðræningjar oss vilja ráðast á.

Bragi reit 06:39 EH | Comments (18)

apríl 27, 2004

Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta...

Fjölmiðlafrumvarpið hefur skekið óbyggðina í nokkra daga og Davíð Oddson er búinn að fara mikinn í því að skerða rétt manna til útvarps og fjölmiðlunar. Þetta mál er hið skemmtilegasta og gaman að sjá menn arga og þrasa yfir minnstu og mestu atriðum í því. Ég nenni samt ekki að fara út í það mál. Hins vegar nenni ég að rifja upp mál sem á skemmtilegan hátt tengist þessu beinum og óbeinum böndum.

Haustið 1984 var mikið verkfall BSRB á Íslandi. Eins og söguþjóðin veit sjálfsagt fullvel voru eingöngu ríkisfjölmiðlar á Íslandi á þessum tíma og starfsmenn þeirra fóru þar af leiðandi í verkfall. Ólöglegt var fyrir einkaaðila að stofna fyrirtæki og útvarpa eða sjónvarpa efni á þessum tíma þó að skömmu eftir verkfallið hafi verið gerðar breytingar á útvarpslögum sem opnuðu fyrir möguleika fyrirtækja eins og Stöðvar 2 og Bylgjunnar að miðla fjöl.

Í þessu verkfalli fór hins vegar að bóla á lögbrjótum nokkrum sem höfðu tekið sig til og hafið útsendingar á útvarpi. Kallað var á Þóri Garðarsson Radíoeftirliti Landsímans og Hjálmar Árnason skoðunarmann sem hófu leit að merkjunum. Þeir kölluðu á lögreglumenn og komu þeir Haukur Ásmundsson og Þórður Þórðarson aðvífandi og gat nú leitin haldið áfram hindrunarlaust. Ekki leið á löngu að leitarmenn kæmust á sporið og var haldið niður Kringlumýrarbraut frá Suðurveri í norðurátt.

Staðnæmdust þeir við Háaleitisbraut 1, hús Sjálfstæðisflokksins. Þar stóð í dyrunum Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Flokksins sem reyndi að meina lögreglumönnunum aðgang. Þeir komust fram hjá honum og hófu leit í húsakynnunum. Reyndu þeir að komast upp á þak til að athuga með senditæki en þá kom aðvífandi borgarstjórinn Davíð Oddson sem sagðist hafa verið í símanum við ráðherra dóms og kirkjumála og bað hann viðkomandi að fara út þar sem hann hefði ekki samþykkt þessa aðför. Hringdi hann í ráðherrann fyrir framan lögreglumennina og rétti þeim svo símann. Magnús Einarsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sem bættist í hópinn tók við honum og að símtali loknu tilkynnti hann að þar sem yfirmaður póst og símamála hefði ekki veitt heimild fyrir þessu þá þyrftu þeir að yfirgefa húsið.

Það er ótrulegt að hugsa til þess að Davíð þessi maður sem var tilbúinn til þess að brjóta lögin ef þurfa þætti til að frelsa fjölmiðlana á Íslandi skuli núna, í dag, vera svo ákveðinn í þeirri viðleitni að setja skuli höft á einmitt þennan markað. Er Davíð kannski tilbúinn til að játa það að hann hafði rangt fyrir sér þennan dag og svo marga aðra?

Heimild:Baldur Kristjánsson og Jón Guðni Kristjánsson, Verkfallsátök og fjölmiðlafár, bls.52-53 Samtíminn 1984

Bragi reit 01:42 FH | Comments (9)

apríl 26, 2004

Undur og stórmerki hafa gerst!!!

Besta partýband norðurslóða hefur gefið út fyrsta singulinn sinn á stafrænu formi. HRAUN! hefur í tæpt ár skemmt okkur Íslendingum með frábærri spilamennsku og partýstemmingu. Nú er ætlunin að færa út kvíarnar og er þessi útgáfa liður í því. fyrsti singullinn fæst hér, á heimasíðu hljómsveitarinnar HRAUN!.

Njótið vel

Bragi reit 04:38 EH | Comments (65)

apríl 23, 2004

Fjallagarpurinn mikli

Hef ákveðið að fara í nokkrar svaðilfarir í sumar. Þið sem lásuð um laugavegsgönguna sem ég og fríður hópur fórum á síðasta sumri geta rifjað upp hversu ótrúlega gaman þetta var með bæði myndrænum hætti hér og stafrænum hætti hér. Annars þá vildi ég endilega auglýsa eftir væntalegum ferðafélögum. Ég sé fyrir mér ca. tvær alvöru ferðir í sumar, önnur frá Ásbyrgi, að Dettifossi og sunnan megin við Kröflu gegnum Dimmuborgir að Mývatni. Hin verður væntanlega einhvers konar útfærsla af Hornstrandaferð. Sú fer mikið eftir veðri og þoli manna. Einhverjar smáferðir eru svo einnig planaðar eins og létt skokk um Fimmvörðuháls og vonandi finn ég einhvern sem á góðan jeppa og er til í að kíkja upp á jökul.

Ég hlakka svo til.

Bragi reit 02:46 EH | Comments (92)

apríl 21, 2004

Fallega land

Það er ekkert lítið hvað ég verð alltaf ástfanginn af þessu landi á vorin. Í allan dag er ég búinn að vera að glápa á sjálfan kónginn (Snæfellsjökul) þar sem hann sést úr sætinu mínu í vinnunni. Þessi jökull hefur skartað sínu fegursta í allan dag og skyggnið er fullkomið. Ég sé eftir því að hafa ekki komið með myndavélina í vinnuna. Þið sem hafið skoðað myndasafnið mitt hafið kannski áttað ykkur á því að ég er mjög hrifinn af náttúrutökum í mikilli fjarlægð. Þar skiptir samspil ljós og lands miklu þannig að taka eina góða mynd verður að mikilli þraut. Ég er sérstaklega ánægður með nokkrar myndir og hér eru hlekkir á þær. (1) (2) (3) Þessar þrjár eru kannski allar af sama hlutnum en allar hafa þær mismunandi karakter. Næstu eru fjölbreyttari og vona ég að þér finnist gaman af því að skoða þær. (4) (5) (6) (7) (8) (9) (10) (11) (12) (13) (14)

Bragi reit 03:50 EH | Comments (26)

apríl 19, 2004

Trúin og blindan

Sumt fólk eyðir löngum stundum lífs síns í að berjast fyrir réttindum. Ég hef lengi velt fyrir mér uppruna réttinda og til hvers þau séu í raun og veru. Lengi vel voru mannréttindi mér hugleikin og ég skráði mig í Amnesty International. Ég skrifaði þónokkur bréf til þjóðarleiðtoga víðsvegar um heim sem Amnesty sagði mér að væru vondir og brytu mannréttindi.

Aldrei efaðist ég um að hið góða fólk frá Amnesty hefði neitt annað en rétt fyrir sér. Ekkert veit ég um það núna, frekar en þá, hvort eitthvað vit hafi verið í því sem fyrir mig var lagt. Hitt þykist ég nú samt vita í dag að maður á ekki að trúa einhverju í blindni. Þetta virðist hins vegar ekki vera útbreiddur boðskapur og finn ég mig knúinn til að fjalla aðeins um þá hugmynd að skoðun umhverfist í trú á svipstundu. Einnig reyni ég að finna einhverjar leiðir framhjá þessum stíg sem svo margir virðast feta.

Áður en ég hefst handa þá vil ég endilega biðja menn að varast að taka þessari umræðu þannig að ég telji mig vera einhvern engil í þessu samhengi. Það er ég ekki og reyni ekki að láta líta út fyrir.

Hver er þessi blinda trú?
Við skulum byrja á því að athuga hvernig trú manna getur verið mismunandi og stigbundin. Við getum hugsað okkur guðstrú í þessu samhengi. Trú manna er misjöfn og hafa menn tilhneigingu á að flokka í dilka eftir því hversu heildstæð trúin er. Við köllum þá bókstafstrúarmenn sem trúa því orðrétt sem stendur í helgiritum og taka fyrirmælum frá æðstuklerkum eins og lögum sem ekki má andmæla. Nöfn yfir aðra hópa eru af skornum skammti því ekki greina þeir sig frá meginþorra fólks með jafn róttækum hætti. Að sjálfsögðu er svo til hinn endinn sem kallast þá trúlaus.(Það má þó deila um það hvort að trúleysingjarnir geti kallað sig trúlausa, en nóg um það í bili.) Á vesturlöndum eins og annars staðar eru bókstafstrúarmenn litnir hornauga og er það eflaust vegna þverstrengingslegra viðhorfa þeirra gagnvart öðrum trúfélögum og hinum frjálslyndari.

Trúin sem um ræðir og fær fólk til að útiloka ákveðna hluti frá lífi sínu og innihalda sumt er sterkt afl. En eitthvað hlýtur að orsaka þetta afl. Margar kennisetningar eru uppi um hvers vegna einhver telur að þau sönnunargögn(eða skortur á þeim) sé nægjanlegur vitnisburður um að einhverju eigi að taka trúanlegu. Fólk getur beitt röklegum leiðum og fundið út með vísindalegri nákvæmni að ákveðinn hlutur sé af ákveðinni stærð o. s. frv. Engin niðurstaða hefur fengist úr slíkum vangaveltum og jafnvel þótt að þekkingafræðin sé ávallt að bæta utan á sig þá mun hún líklega aldrei geta staðhæft neitt með eitthundrað prósent vissu.

Þar sem að ekki einu sinni hæfustu heimspekingar heimsins eiga auðvelt með að staðhæfa neitt með fullkominni vissu þá er ekki erfitt að skilja tilhneigingu mannsins til að setja sér ákveðin, ef við getum kallað hugtakið um fullnægjandi forsendur svo, leitarskilyrði, þegar verið er að leggja mat og trú á eitthvert atriði. Ef þessum leitarskilyrðum sem hver og einn hlýtur að setja sér, gerandi þau afstæð, er fullnægt, þá er mark tekið á afurð þeirri sem kemur úr viðfanginu. Það að einhver taki mark á einhverjum staðhæfingum útskýrir samt ekki þá blindu trú sem ég vil meina að stjórni skoðunum okkar að miklu leyti. Hinsvegar er nauðsynlegt að skilja hvernig einhver tekur upp á því að láta sannfærast á annað borð. Það sem ég vil kalla leitarskilyrði er því sú lágmarkskrafa sem einstaklingur gerir gagnvart hlut A til að hann viðurkenni og leggi trú á A.

Nú ætti það að liggja í augum uppi að ef einhver getur komið með mótrök sem fella leitarskilyrðin fyrir A þá hætti einstaklingurinn að taka mark á A. Útkoman úr því gæti þá verið annaðhvort ~A(ekki A) eða B. Sem þýðir á mannamáli að forsendurnar fyrir A séu brostnar og annaðhvort hafnar einstaklingurinn A eða kemst að annari niðurstöðu. Ekki er þetta þó alltaf svo og fyrir því liggja margar ástæður. Við getum í raun kallað ástæðurnar fyrir því að einstaklingur komist að annarri niðurstöðu en ~A eða B blinduna sem ég leita. Hún er samt margskonar og því ekki hægt að útskýra hana alfarið með einhverri einfaldri lýsingu. Nauðsynlegt er að líta á mögulegar aðstæður þar sem blindan heftir sýn til að öðlast betri skilning á henni.

Framhald af þessari grein mun koma von bráðar hér á vefsíðuna og mun hún helgast af þessu málefni næstu tvær vikur.

Bragi reit 08:58 EH | Comments (46)

apríl 18, 2004

Óskir Háskólalistans virtar

Jæja þá geta þau ykkar sem tilheyra hinum skrítna flokki háskólalistafólks tekið gleði sína, því ég var að enda við að afreka það að setja upp myndirnar úr sumarbústaðnum og frá listakynningunni hér.

Bragi reit 01:41 EH | Comments (35)

apríl 16, 2004

Laukurinn slær ómþýðan tón.

Þetta er hreinasta snilld.

Bragi reit 04:13 EH | Comments (62)

apríl 14, 2004

Ha, Útlendingur!

Ég hef aldrei verið neitt áhugasamur um útlendingamál eða annað tengt nýbúum og öðrum sem koma til landsins að utan. Hef bara fundist það frábært þegar í heimsókn koma áhugasamir frá öðrum löndum og freista gæfunnar með líf sitt á landinu mínu. Tökum á móti þeim sveittum, þreyttum hvort sem þeir heita John eða Li mei. Skiptir mig engu. Hef aldrei í raun skilið hvernig aðrir menn geta litið á sjálfa sig sem eitthvað merkilegri verur en annað fólk.

Ég held ekki að Björn Bjarnason sé vondur maður. Honum er eflaust umhugað um velferð Kínverjanna og Svíanna sem staldra hér við í von um vinnu. Veit svosem ekkert hvort það dugi eitthvað að leita inni á heimilum og munnvikum þessa fólks til að vernda þau og okkur. Myndi halda að það væri miklu sniðugra bara að spurja fólkið sjálft. Ekki það að ég viti neitt um löggæslumál. Hef meira að segja brotið lögin nokkrum sinnum. Einu sinni fór ég til Lundúna án þess að hafa passann minn með mér. En sjáiði til, þar sem ég er Íslendingur þá stafar ekki af mér nein hætta. Það eru nefnilega ekki til neinir vondir Íslendingar. Allavegana enginn Íslendingur sem er svo vondur að honum detti í hug að nýta sér félagslegt kerfi annara landa og fremja glæpi annars staðar en á Íslandi.

Vinur minn er svaka skotinn í stelpu sem af einhverjum undarlegum ástæðum fæddist ekki á Íslandi en er búin að búa hérna í nokkur ár. Þau eru að fara að gifta sig. Mér finnst það ekkert sniðugt að hún hafi það yfir höfði sínu að geta bara verið rekin af landi brott vegna þess að Björn fékk vont kaffi í morgun. Illa hugsað lagafrumvarp sem verður að gera höfðinu styttri.

Ýtið hér

Bragi reit 04:22 EH | Comments (64)

apríl 13, 2004

Myndasafnið hans Braga

Ég hef verið að stússast við að koma upp myndasafni á síðuna mína yfir páskana. Loksins má njóta listilega tekinna mynda og þeirra andartaka sem greipuð eru í eilífðina fyrir virkan Sony vélarinnar minnar. Ekki hef ég sjálfur tekið allar myndirnar, sumar hafa verið teknar af Kristjönu og sumar af Stebba. Myndasíðuna má finna með því að smella hér. Hún er ekki alveg fullkláruð enda nokkur þúsund myndir sem á eftir að hlaða inn á hana.

Bragi reit 11:52 FH | Comments (61)

apríl 07, 2004

Mikið að gerast

Það er svo mikið að gerast í dag að ég veit varla hvar ég á að byrja. Fyrst má kannski nefna fyrsta stúlknaband alþýðulýðveldisins Íslands, Nylon. Myndbandið þeirra má finna hjá honum Geira3d. Einhver gagnrýni hefur komið fram um að þetta myndband sé bara ein stór kókauglýsing og nýja bandið hans Einars Bárða sé bara eitt stórt sellát. Bæði er rétt, en ég vil minna fólk á að í myndbandinu við þetta lag, sem NB var samið af Dr. Gunna og Þóri Eldon og sungið af henni Heiðu og Unun, voru einmitt kókkallar að bera inn kúta á Tunglið ef ég man rétt. Kókvísunin er því ekkert einsdæmi þó að í þetta sinn hafi hún eflaust kostað kók meiri pening en í fyrra skiptið. Skoðanir mínar á þessu uppátæki eru svo síðan þær að ég sé engan tilgang með því að æsa mig eithvað yfir þessu. Ef einhverjum finnst gaman að skoða svona söluvöru þá ætla ég ekki að reyna að koma í veg fyrir það.

Síðan eru mótmæli gegn skerðingu borgaralegra réttinda Íslendinga jafnt sem útlendingakomin í fullt gang.
Lesið ykkur til um þetta áður en þið takið afstöðu.

Þá voru Bandaríkjamenn að gera eina stærstu skyssu Írakstríðsins í dag. Ef einhver hafði efast um hvort þetta yrði að nýju Víetnamstríði þá held ég að sá hinn sami ætti að fara að endurskoða það almennilega.

Bragi reit 06:02 EH | Comments (40)

apríl 05, 2004

Svíi! Nei sveiattan!

Bill Gates grætur söltum tárum í dag þar sem hann er ekki lengur sá stórkarl sem hann áður var. Samkvæmt þessari frétt þá er einhver Svíalufsa orðinn ríkari en hann.

Í öðrum fréttum þá er ég hálfhneykslaður á VG mönnum að eiga svona afburða slappan ungliðaforingja eða ráðsmann eins og ég vil kalla hann. Viðtal var semsagt tekið við formenn ungliðahreyfinga í Silfrinu í gær. Andrés formaður ungra jafnaðarmanna og stuttbyxninn stóðu sig báðir með ágætum en Oddur leit út fyrir að vera maðurinn sem ekki hafði hugmynd um hvað hann væri að gera þarna. Samræðupunktarnir sem hann kom fram með voru allir í formi yfirlýsinga sem er alltaf merki um að einhver hafi ekki lært heima fyrir prófið. Allar rökræður sem hófust hjá hinum tveimur enduðu með einhverri yfirlýsingu hjá Oddi og svo neyddust hinir til að skýra efnið fyrir honum. Hvernig gat Freyr tapað fyrir þessum manni. Hann er einfaldlega of reynslulaus og ungur til að vera formaður. Þannig er það.

Bragi reit 09:51 FH | Comments (20)

apríl 02, 2004

Forsetaframboð í uppsiglingu?

Ætlar hún sér að bjóða sig fram aftur til forseta? Maður veit aldrei.

Bragi reit 03:52 EH | Comments (50)

Svo syfjaður

Ég las um daginn greinargóða lýsingu Alla á muninum á Alla reyndar átti þarna að standa ,,Ella á muninum á A og B manneskju." Tók bara eftir því að hægt er að lesa Alla á muninum á Alla afturábak og áfram. Ég hef alla tíð skilgreint sjálfan mig sem B manneskju, ekki af því að ég sé eitthvað óæðri öðrum heldur vegna þess að ég hef aldrei síðan ég kláraði grunnskólann vaknað fyrir tíu nema að hafa eitthvað rosalega mikilvægt fyrir stafni. Í framhaldsskóla var þetta meira að segja þannig að ég reiknaði með því í vali að ég gæti ekki mætt mikið fyrir hádegi. Ég held að þessi þróun hafi orðið í kennaraverkfallinu langa ´95. Eftir sjálft verkfallið var mæting gefin frjáls í MH og enginn mætti í skólann en við tókum samt próf og ég stóð mig nokkuð vel. Eftir þessa önn sem var mín önnur, á fyrstu önninni fékk ég meira að segja aukaeiningu fyrir mætingu, þá átti ég mjög erfitt með að mæta í skólann á morgnana. Ég held að þarna hafi ég tekið ákveðna lífsstílsákvörðun. Ég skyldi ekki finna mér vinnu eða mæta í skóla sem hefst á þeim óguðlega tíma sem allur tími er fyrir hádegi. Ég hef nú brotið þessa ákvörðun og mun líklegast aldrei verðar samur eftir. Nú mæti ég í vinnu klukkan hálf níu um morguninn. Þvílík kvöl og pína það er að koma sér á lappir. Vika liðin og ekkert er þetta að verða auðveldara.

Ég auglýsi hér með eftir ráðum frá vönum einstaklingum, hvernig getur maður vaknað snemma og hvernig heldur maður sér vakandi í vinnunni.

Bragi reit 11:59 FH | Comments (18)

Heill sé þér Sesar

Hann Halli Háskólalistamaður er ekki allur þar sem hann er séður. Nú hefur hann skrifast á við frjálshyggjubelgina í skólagjaldafélaginu. Þetta er með skemmtilegri lesningum sem ég hef eytt tíma í að lesa í lengri tíma. Það sýnir fram á hvers konar hugmyndafræðilegt gjaldþrot hægri frjálshyggjan á við að stríða þessa dagana. Þetta ástand þeirra minnir mig talsvert á það ástand sem myndaðist í kringum 1990 og varðaði gömlu kommana. Það eina sem vantar er fall dollarsins(í stað Berlínarmúrsins) og þá koma út heilu doðrantarnir um hvernig þessir gömlu frjálshyggjudrengir gera upp frjálshyggjuna sem einhvers konar barnatrú einfeldningsins. Hroki??? Ekki fannst þeim það þegar aðförin var gerð að sósíalistunum í byrjun tíunda áratugsins.

Annars þá eru fleiri einkenni þess að frjálshyggjan sé að líða undir lok. Fyrsta einkenni þess að stjórnmálastefna er komin á leiðarenda er þegar hún nær tökum á heilu þjóðfélögunum. Fá þjóðfélög eru byggð á sömu hugmyndum og þau voru að viðhalda fyrir þrjátíu árum, jú kannski Kína. Annað einkennið er það að helstu hugmyndafræðingarnir byrja að haga sér sem skipsrottur. Flýja skipið um leið og byrðingurinn brestur. Ekki er langt síðan Milton Friedman byrjaði að taka aftur öfgafyllstu hugmyndir sínar. Þriðja einkennið er leiðtogadýrkun. Ég held að það átti sig allir um hvern er talað hér. Fjórða einkennið er kannski það hættulegasta. Ofurskipulögð félög sem eru búin til með þeim tilgangi að sannfæra og safna atkvæðum/kylfum(í vanþróaðri samfélögum).

Ég er eiginlega að vona að ég hafi rétt fyrir mér. Ég tel mig býsna frjálslyndan en þessi öfgafrjálshyggja hræðir mig meira en nasisminn.

Bragi reit 11:00 FH | Comments (94)

apríl 01, 2004

Sem betur fer

Ég var að heyra eitthvað um að nemendaskrá ætli að bjóða nemendum sem skráðu sig í síðustu viku upp á að endurskoða skráninguna. Þetta er þá líklegasta seinasta uppgjöfin frá stjórnvöldum háskólans. Valblaðið á að vera komið inn á heimasvæði nemenda á hádegi í dag.

Bragi reit 11:41 FH | Comments (275)