mars 31, 2004

Vond herferð

Forsetaframbjóðendurnir í BNA skjóta nú skotum hver á annan eins og byssubófar í villta vestrinu. LAngt síðan við sáum svona harða kosningabaráttu á Íslandi. Fær mann til að velta fyrir sér hvort þetta sé bara neyðin sem kennir konunni að spinna.

Bragi reit 11:58 FH | Comments (20)

mars 30, 2004

Málfrelsi?

Ég lenti í samræðum á mánudaginn sem enduróma í huga mínum og ég verð að koma þeim á framfæri. Þessar samræður voru við Onoru O´Neill rektor Newnham College í Cambridge og einnig situr hún í House of Lords þar sem hún er, að ég held barónessa. Ekki sátum við ein að spjallinu heldur voru þarna aðrir heimspekinemar og Vilhjálmur Árnason heimspekingur.

Við ræddum ýmislegt, allt frá bókum hennar og Kant(en hún er mikill Kantisti) yfir í pólitík og svo það sem ég vil minnast á hér, málfrelsi. Hér á Íslandi hefur verið í gangi mikil umræða um myndbirtingar DV af meintum glæpamönnum, aðilum tengdum þeim og annarra mannorðsárása sem blaðið hefur tekið sér fyrir hendur. Til er fólk sem finnst þetta allt í lagi og svo eru aðrir sem vilja einfaldlega láta loka miðlum sem ganga yfir persónur á skítugum skónum. Nú vil ég ekki vera einn af þeim sem hleypur upp til handa og fóta og vil banna allt og setja lög á það sem mér finnst ósæmilegt. Til þess tel ég mig í fyrsta lagi óhæfan og í öðru lagi finnst mér slík bönn vera röng. Hins vegar finnst mér nauðsynlegt að staldra aðeins við og íhuga hvort við sem blöskrar(ég er einn af þeim sem blöskrar við málflutning blaða eins og DV) eigum að láta bjóða okkur það að reisn og mannorð einstaklinga sé að engu gert á síðum blaðanna og skjám imbanna.

Málfrelsið er eitt frelsi af mörgum, en jafnframt því er það kannski frelsið sem mörgum okkar er mikilvægast. Vægi tjáningar er það mikilvægt mannsandanum. Við sækjum réttindi okkar til málfrelsis til mannréttindasáttmála SÞ. Sá sáttmáli var byggður á þeim grundvelli að manninum fylgdi reisn og að þessari reisn fylgdu ákveðin réttindi. Þetta frelsi var ætlað handa manninum einum. Sem einstaklingur meðal manna hefur maðurinn fullt frelsi til að tjá skoðanir sínar. Engin klausa í neinum mannréttindasáttmála gefur fyrirtækjum sama leyfi og einstaklingum. Fjölmiðlar búa yfir annars konar frelsi sem við köllum prentfrelsi. Auðvelt er að rugla þessum tveimur stoðum þjóðfélagsins saman og það er jafn hættulegt og það er auðvelt.

Fjölmiðlar hafa yfir að búa samansöfnuðu valdi sem hægt er að beita með ægivaldi. Þetta vald eiga þeir ekki að geta notað hindrunarlaust. Í nafni prentfrelsis birta þeir greinar um málefni, fara með fréttir og birta myndir, sýna myndskeið og sjá okkur fyrir umfjöllun um málefni líðandi stundar. Sögubækur þær sem við lásum í skóla mega sín lítils miðað við upplýsingarnar sem við drögum að okkur frá fjölmiðlum dagsins í dag.

Með aukinni fjölmiðlun hefur hraðinn aukist. Þessi hraði hefur orðið til þess að fréttaflutningur hefur breyst. Í stað gaumgæfinnar athugunar fréttamannsins á sannleik sögunnar og smekklegrar birtingar hans sem ,,hlutlauss" áhorfanda hefur sprottið up örylgjupopp fréttanna. Við borðum bara stóru, vel poppuðu kornin og skiljum eftir baunirnar. Niðursuðufréttirnar sem allir miðlar hafa einhvern tímann gerst sekir um, eru nú orðnar venja frekar en undantekning hjá sumum miðlum. Ekki nóg með það að miðlarnir hraðsjóða fréttirnar heldur hafa sumir látið sér detta það í hug að það sé kannski ekki nóg að hlutverk fjölmiðlanna sé að færa okkur fréttirnar heldur eru þeir búnir að færa sig út í skáldskapinn. Frægt er þegar Séð og heyrt skrifaði um Sigurð Kára og handtökuna. Sumir fjölmiðlar létu sér ekki nægja að skálda upp og hraðsjóða fréttirnar heldur fóru þeir út í þann hættulega bransa að taka þátt í fréttunum. Þeir vilja vera með greyin. DV hefur ekki verið að sinna hlutverki fréttamiðils að undanförnu. Þeir hafa sjálfir verið fréttirnar. Þeir hafa komið af stað atburðarás sem hefur nú þegar haft skelfilegar afleiðingar og enginn sér fyrir endann á.

Þessi þróun hefur vakið upp óteljandi spurningar sem við leitum svara en þau er erfitt að finna. Lausnarorðið í dag er frelsi og siðferði má sín lítils gagnvart því. Myndbirtingar af meintum sakborningum og fjölskyldum þeirra hafa vakið óhug. Birting yfirheyrsluskýrslu hefur óumdeilanlega vakið sterk viðbrögð. Fyrirsagnir í æsifréttastíl sem gagnast engum nema blaðinu í sölu eru varla boðlegar hugsandi fólki og oftar en ekki eru eins konar falsanir um innihald málsins.

Undanfarin ár hafa frjálsir fjölmiðlar, þeir miðlar sem fara með fréttir verið að færast á einar hendur. Slíkt hefur einnig gerst í útlöndum, Murdoch, Turner og fleiri hafa sölsað undir sig fjöldamörgum fyrirækjum. Murdoch sjálfur á t.d. yfir 200 dagblöð. Það vald sem fjölmiðlarnir hafa yfir að ráða er slíkt að ríkisstjórnir standa og falla með fjölmiðlakóngunum. Ekki þarf að leita langt yfir skammt. Berlusconi situr á valdastóli á Ítalíu og þrátt fyrir ótrúlegan hroka og yfirgang í starfi þá situr hann traustum fótum studdur af fasistaflokki Ítalíu.

Frelsi fjölmiðla sem starfa innan slíks markaðs verður að vera takmarkað. Frjálshyggjumenn kyrja í kór ,,vernda skattgreiðendur frá ríkinu", ég segi ,,vernda ríkið, fólkið og jafnvel líka frjálshyggjumennina frá ofurvaldi fjölmiðlanna." Á Íslandi höfum við ákveðnar siðareglur og sú er krafan að ritstjórar blaða og fréttastofa þurfi að taka ábyrgð á því efni sem birt er. Hins vegar er sú ábyrgð nánast eingöngu í orði en ekki á borði. Sárafá dæmi eru um það að skrif blaðamanna hafi verið dæmd siðlaus eða meiðandi. Þetta er einfaldlega vegna þess að dómstólaleiðin er bæði kostnaðarsöm og tímafrek og fáir sjá sér hag í því að auka við þá athygli sem fjölmiðillinn hefur vakið sem er venjulegast neikvæð.

Hver er þá lausnin? Ég sé ekki neina lausn á borðinu sem ríkið gæti boðið upp á. Ritskoðun kemur að sjálfsgðu ekki til greina þar sem hún skekkir þær upplýsingar sem við fáum og gerir það að verkum að víðsýni sú sem skapast af góðum fréttaflutningi glatast. Blaðamannafélagið ætti að vera leiðandi í því að takmarka þessa sorpblaðamennsku en ég held að aðalgagnrýnandinn þurfi að vera neytandinn sjálfur. Okkur sem blöskrar á að vera það ljóst að þetta mannskemmandi hverfur ekki nema það standi ekki undir sér fjárhagslega. Hættið að kaupa draslið.

Bragi reit 12:46 FH | Comments (114)

mars 26, 2004

Um undirbúning og framkvæmd mótmæla

Eins og margir vita þá var ég í nefnd sem var skipuð fyrir skipulagningu stúdentamótmælanna þann 22.mars eða fyrir ykkur sem lesið þetta í dag eða á morgun, síðastliðinn mánudag. Talsverð umræða hefur sprottið upp á netinu um framkvæmd þeirra og finn ég mig hálftilneyddan til að svara henni, ekki vegna þess að mér finnist gagnrýnin ekki eiga rétt á sér heldur er betra að fólk viti forsögu þeirra mála sem það ræðir um.

1. Aðdragandi mótmælanna.
Allt þetta byrjaði á Stúdentaráðsfundi þar sem ákveðið var að halda mótmæli fyrir Háskólafund á mánudeginum. Þessi fundur var haldinn á fimmtudeginum fyrir helgina. Þarna komu allar fylkingar að máli og sammæltust um að setja á laggirnar nefnd skipuð einum úr hverri fylkingu. Á fundi nefndarinnar sátu Pétur frá Röskvu, ég frá Háskólalistanum og Jarþrúður og Erla frá Vöku. Hef samt grun um að Erla hafi verið þarna sem nýráðinn starfsmaður Stúdentaráðs.
Á fundinum var ýmislegt rætt sem ég vil ekki fara út í vegna trúnaðar við nefndarmenn, karpað um orðalag og annað slíkt. Síðan var verkum skipt og ég og Pétur fórum í að redda efni í skiltin og röltum við niður í Byko ásamt langri ferð upp í Pennan Hallarmúla þar sem keypt voru karton og annað smálegt. Efnisvinnan var svo framkvæmd á sunnudeginum þar sem karton voru límd á önnur karton í öðrum lit og sum hver höfðu einhverja áletrun.

Þarnæst kom óeirðasveit Háskólalistans sér fyrir í kjallara Eggertsgötu 24 þar sem skiltin voru sett saman og borðaskipun ákveðin. Á morgni mánudagsins var svo gengið í allar byggingar og dreifimiðum og plakötum komið fyrir ásamt því að við settum upp borð í átta af byggingum háskólans þar sem þrír sátu, einn frá hverri fylkingu og við hvert borð var eitt skilti sett í hávegi, en alls voru tíu slík gerð fyrir þessi mótmæli. Á þessum borðum hófst svo smölun sem virtist takast vel því mætingin var góð. Jarþrúður kom einnig fram í Íslandi í bítið þar sem hún kynnti mótmælin, sendi nokkra vefpósta og fréttatilkynningar í alla fjölmiðla.

2. Framkvæmd mótmælanna sjálfra
Klukkan 12:20 yfirgáfu fulltrúar fylkinganna borðin sem þeir sátu á og þrömmuðu að Aðalbyggingunni. Þar bað Jarþrúður mig um að stýra mannfjöldanum sem ég og gerði. Meirihluti fundarmanna stóðu vinstra megin við bygginguna séð frá Sæmundi. Ég kallaði því til þeirra að laga þá vinstri slagsíðu sem komin var á fundinn. Þvínæst bauð ég fundarmenn velkomna og kynnti Jarþrúði og ávarp hennar. Hún stóð sig með mikilli prýði og brutust almenn fagnaðarlæti út í hvert skipti sem hún gerði hlé á máli sínu. Lauk hún ræðunni með því að biðja fundarmenn um að fylgja mér í ákalli um engin skólagjöld. Misþyrmdi ég þarmeð raddböndum mínum og fundarmenn tóku undir "Engin skólagjöld, engin skólagjöld".

Eftir töluverðan tíma þar sem menn höfðu ákallað guði álagningar og skatta leit ég á Jarþrúði og spurði hana hvort Páll Skúlason hafi nokkuð haft samband við hana og hvort hann ætlaði að ávarpa fundinn. Reyndar, þá sagði ég orðrétt við hana "Hvar er Páll". Ég verð að játa að ég gerði mér greinilega ekki grein fyrir aðstöðu minni og um leið og ég sleppti orðinu þá tóku tveir kunningjar mínir undir með mér með orðunum "góður Bragi, Hvar er Páll, hvar er Páll!". Köllin bárust um eins og eldur í sinu og var lítið hægt að gera til að stoppa þau. Páll birtist svo öllum að óvörum og var púað að honum eins og vani er á slíkum mótmælum.

Eftir ávarp Páls þá kallaði ég yfir hópinn að þessum mótmælum væri lokið og bað fólk um að krefjast engra skólagjalda í eitt skipti í viðbót. Eftir það þá liðuðust mótmælin í sundur og lauk með mjög fullnægjandi hætti. Engin meiðsl á mönnum eða Páli og skiltin höfðu ekki verið notuð í neitt annað en að vera skilaboð sem háskólafundur hefur greinilega að einhverju leyti tekið til sín.

3. Þrjár fylkingar saman í mótmælum.
Það er einn hlutur sem gagnrýnendur mótmælanna hafa ekki athugað eða gefið gaum ennþá, en sá er staðreyndin að þarna var ekki bara um Stúdentaráð að ræða í aðgerðunum heldur sú óhjákvæmilega staðreynd að, til þess að Stúdentaráð geri eitthvað slíkt í nafni sameinaðs Stúdentaráðs þarf samþykki allra fylkinga. Þarna eru þrjár fylkingar, misróttækar með mismunandi aðferðafræði í baráttunni gegn skólagjöldum. Þeir fáu sem mættu á kappræðurnar fyrir stúdentaráðskosningarnar muna kannski eftir karpi mínu og Árna um hvernig best er að láta rödd stúdenta heyrast. Ég var tilbúinn til mótmæla og verkfalla á meðan Árni Vökumaður vildi ekki ganga lengra en að impra á samningaleiðinni. Þessi róttækni sem Vökuliðar samþykktu á þessum mótmælum kom mér því mjög á óvart og var ég hrifinn. Nú þarf bara að kynda vel undir þeim og gera þau reiðari þannig að næst megi skrifa meira krassandi slagorð á skiltin.

Hvað gjallarhornið varðar þá skil ég ekki þessa þráhyggju með gjallarhornið. Þeir sem stóðu nálægt mér þegar ég stýrði fjöldakallinu eru sumir hverjir ennþá með suð í eyrum vegna ofurmannlegra hæfileika minna á sviði raddbandaþenslu.

Hef það ekki lengra að sinni og ef þið sem lesið fáið það á tilfinninguna að ég sé með einhverju leyti að reyna að upphefja sjálfan mig eða Háskólalistann á kostnað annara sem komu að þessum mótmælum þá er það rangt. Ég skrifa þetta eingöngu útfrá minni eigin reynslu og er frásögnin eflaust lituð skoðunum mínum og upplifun.

Bragi reit 05:43 EH | Comments (30)

mars 25, 2004

Skrá sig

Ég var að enda við að skrá mig í skólann á næsta ári. Skil ekki hvernig hægt er að gera svona ónotalegt og notendavont skráningarkerfi. Er glaður og farinn að nudda ástina mína sem er með einhver ónot í herðunum.

Bragi reit 02:15 EH | Comments (280)

mars 24, 2004

Heimur heimskari fer

Ég verð að játa að frétt VG í Noregi kemur mér nú ekkert gífulega í opna skjöldu. Þar segir að greindarvísitala mannkyns hafi lækkað um 15% á undanförnum árum. Orsökina telur UNICEF sem birti þessar tölur vera skortur á joði A-vítamínum og öðrum steinefnum sem skortir verulega í fólki, aðallega í þróunarlöndunum. Ég verð að játa að ég gef lítið fyrir einhverjar líffræðilegar afsakanir þess að mannkynið sé að verða heimskara með árunum. Ástæðurnar blasa við. Á vesturlöndum eru þær sjónvarp og ofát með smá skammti af ofneyslu alls sem fólk hefur náð að kalla vanabindandi og í þeim löndum sem ekki flokkast undir þessi alssnægtarríki er það einmitt skorturinn á öllum þessum "gæðum" sem skýrir þetta. Ég held að joðskortur hafi örugglega áhrif en efast um að það sé eitthvað sem hægt sé að kalla ástæðu, einhvers konar milliforsenda jú, en aldrei ástæða.

Bragi reit 09:28 FH | Comments (39)

mars 23, 2004

Mótmælamaðurinn mikli

Ég var mótmælandi Íslands í gær. Fimm hundruð manns mættu. Manndrápsskiltin sem ég, Sverrir og Jakob (lesist, óeirðasveit H-listans) klömbruðum saman settu punktinn yfir iið hvað útlit mótmælanna varðaði.

Fyndinn hlutur átti sér samt stað, eitthvað sem ég bjóst ekki við. Eftir nokkrar mínútur af öskrum sem öll voru á þessa leið "engin skólagjöld", þá beygði ég mig niður af pallinum sem ég stóð uppá og bankaði í öxlina á Jarþrúði, formanni stúdentaráðs og spurði hana hvar Páll væri. Ég orðaði sem sagt þessa spurningu á þennan máta "hvar er Páll". Um leið og ég sleppti orðinu þá sögðu tveir gaurar við hliðina á mér "góður Bragi ´hvar er Páll, hvar er Páll´(lesist hátt)" Þar sem þessi mótmæli voru skipulögð af öllum fylkingum og ekki neitt ofurauðvelt að koma í gegn einhverri róttækni þá var allt svona sem beint var gegn persónum víst taboo í þessum fyrstu mótmælum okkar saman. Ég reyndi að stöðva þessi áköll drengjanna en það gekk ekki betur en svo að þau dreifðust eins og eldur í sinu um mótmælin. Eftir töluverð köll þar sem ég var löngu búinn að yppta öxlum og öskra með þá gekk kallinn út.

Hugrakkur maður, hann Páll. Man í fljótu bragði ekki eftir mörgum mótmælum þar sem Davíð hefur gengið út úr Alþingishúsinu og ávarpað fundinn, eða Björn, eða Halldór. Páll átti setningu dagsins "við erum ekki að sækja um að setja á skólagjöld, við erum bara að biðja um heimild." Álit mitt á Páli Skúlasyni snarlækkaði þarna enda á maðurinn að teljast bæði bráðgáfaður og svo er hann nú líka útgefinn heimspekingur sem væri eflaust að kenna mér forspjallsvísindi og siðfræði ef hann hefði ekki orðið fyrir þeirri ólukku að vera kosinn rektor.

Skömmu síðar þá dreifðust mótmælin og viðtöl Jarþrúðar við fjölmiðla hófust. Rúv og fleiri töluðu við hana en einhverra hluta vegna vildi fréttamannleysan hjá Stöð 2 ekki tala við fulltrúa þeirra mótmæla sem höfðu farið fram. Ég áttaði mig á því hver ástæðan var um kvöldið. Stöð 2 hefur tekið pólítíska ákvörðun um að styðja við bakið á þeim er aðhyllast skólagjöldin. Sýnt var frá mótmælunum, viðtal tekið við Pál og svo einhvern frjálshyggjubjálfa sem hafði ásamt 5-6 vinum sínum í frjálshyggjufélaginu og Heimdalli stofnað félag stúdenta með skólagjöldum. Ég er bálreiður út í Stöð 2. Vonandi að stúdentar fari nú að segja upp áskriftum að því í hrönnum.

Bragi reit 12:19 EH | Comments (257)

mars 17, 2004

Britney og Ja Rule með Al quaeda og Saddam í bólinu (fyrirsögn sem mun ná sér í lesendur)

Mér finnst ekki gott að láta aðdáendur mína bíða í of miklu ofvæni eftir grein frá mér. Hins vegar var lokað á netið hjá mér í smá tíma og því gat ég ekki dælt því út sem hefði komið. Greinar sem þið voruð að missa af voru meðal annars; Niðurbrot feminsmans(endalok kvenfrelsisstefnu nútímans), Frelsið fagra(undan oki bandarískrar heimsvaldastefnu), Áttavilltur í Armani(sjálfsævisaga Árna Magnússonar félagsmálaráðherra) og síðast en ekki síst Á hverfandi fleti, merk grein um strokleður sem missti svo aldeilis marks að hún komst ekki á netið. En nú er ég aftur tengdur þannig að tímaeyðslan mun hefjast á ný.

Bragi reit 01:00 EH | Comments (568)

mars 08, 2004

Sætust á ammli í dag

Já hún Kristjana mín er árinu eldri í dag. Það var partý hjá okkur á laugardaginn og mikið um gleði og skap. Þótti takast vel til og erum við skötuhjúin hin ánægðustu með aðsókn og erfiði. Fáein skakkaföll urðu þó og erum við nokkrum kristalsglösum fátækari fyrir vikið. Ekki á það að erfa því til hvers eru glös ef ekki má brjóta þau? Til hamingju ástin mín með afmælið. Hérna er stórt bloggknús frá kallinum þínum. :)

Bragi reit 06:48 EH | Comments (270)

mars 04, 2004

Vinnuleit

Er að leita mér að vinnu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég leita mér að vinnu án þess að vera sækja í veitingageirann í sex ár. Voðalega er það skrýtin tilfinning. Eins og maður sé við upphaf einhvers sem eigi jafnvel eftir að endast í lengri tíma. Endilega látið mig vita ef þið sjáið eitthvað bitastætt.

Bragi reit 03:17 EH | Comments (56)

mars 02, 2004

7 undur heimsins

Hér er hægt að kjósa um hin nýju sjö undur heimsins.

Ég valdi Timbuktu, Kínamúrinn, Taj Mahal, pýramíðann við Chichén Itzá, stytturnar á Páskaeyju, Colosseum og La Sagrada Familia.

Bragi reit 11:40 EH | Comments (237)

Herlaust land, eða hvað?

Var Falun Gong málið þvingunartilraun Ríkislögreglustjóra til að fá fram kröfur sínar um sérsveit? Hann reyndi að fá fram aukafjárveitingu þegar NATO fundurinn var haldinn og fékk ekki. Síðan skyndilega var líkamsræktarstöðin Falun Gong lokuð inni í Njarðvíkurskóla. Ríkislögreglustjóri neitaði að hleypa fólkinu inn í landið og taldi sig ekki hafa nægt löggæslulið til að hafa hemil á þessu fólki. Nú á að stofna sérsveit(eða auka fjármagn til hennar um 250 milljónir á ári) sem hefur einhverskonar dulinn tilgang andhryðjuverkasveitar.

Þetta hefur Björn Bjarnason tilkynnt og hreykir sér stoltur af. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar sem þarfnast svara.

1. Hver er þörfin á íslenskri sérsveit með "tætara" og "bombur".

"Björn segir að lögreglan þurfi að vera búin undir að sinna m.a. hryðjuverkum. Þá þurfi að bregðast við aukinni hörku í glæpastarfsemi í landinu. „Þetta endurspeglar að við teljum að við séum komin inn í nýtt umhverfi og við skilgreinum þau verkefni sem að lögreglunni snúa á annan veg en áður,“ sagði Björn og bætti við að ríkisstjórnin hafi fallist á þetta mat sitt."

2. Er víkingasveitin ekki nóg?

Hvergi minnist Björn á Víkingasveitina. Gaman væri að heyra hvað verður um hana ef sérsveitin verður stofnuð.

3. Hvar ætlar Björn að skera niður til að fá fjármagn fyrir tindátana sína?

Helgi Hjörvar spurði um það á Alþingi í morgun hvar Björn ætlaði að fá fjármagn fyrir "þetta gæluverkefni og bernskudrauma Björns Bjarnasonar"

4. Hafa einhverjar hótanir borist íslenskum stjórnvöldum frá alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum?

"Björn nefndi sem dæmi að von sé á skemmtiferðaskipi til landsins með 40-50 þúsund farþega og siglingavernd felist m.a. í tryggja öryggi slíkra skipa. „Við þurfum að búa þannig um hnútana að annarra þjóða menn hafi trú á því að við getum brugðist við þeim verkefnum sem upp kunna að koma hér á landi sem annars staðar,“ sagði ráðherra."

5. Er þetta vísir að stofnun íslensks hers?

Augljóslega hefur Björn það í huga að í framtíðinni muni verða stofnaður her á Íslandi. Ef það er efi í einhverjum huga að þessi aðgerð sé skref í áttina að hervæðingu Íslands þá leiðréttist hann hér með. Auðvitað er Björn að reyna að stofna her. Þetta er bara laumuleg aðferð til þess.

6. Og að lokum, er herleysi Íslands ekki einn af hornsteinum menningar okkar?

Grundvöllur þess að mark er á okkur tekið í alþjóðasamfélaginu.
Að sjálfsögðu. Þessi aðgerð er ekkert annað en endir sérstöðu okkar sem herlauss ríkis. Erum við sátt við það? Ég held ekki, en það er einfaldlega ekki verið að segja okkur frá því.

Bragi reit 04:17 EH | Comments (34)

mars 01, 2004

Svartur maður?

Ef þetta er grín þá er það að virka ef þetta er ekki grín þarf sá hinn sami aðeins að átta sig á hugtakinu "svart". Það er kannski ekki mjög gáfulegt að auglýsa ætlað löbrot.

p.s. gleðilegan bjórdag. Það gætir einhvers misskilnings um þennan dag í hugum fólks. Þrátt fyrir álit manna á frelsisást Sjálfstæðisflokksins þá er það mér í fersku minni að 1989, árið sem bjórinn var leyfður á ný sat Sjallinn í stjórnarandstöðu eftir að hafa setið mörg ár í ríkisstjórn og sóað óteljandi tækifærum til að koma þessu þjóðþrifamáli á framfæri. Það voru kommarnir, kratarnir og bændurnir sem leyfðu Lövenbrau og Kaiser. Getur einhver nefnt hinar tegundirnar sem voru leyfðar í sölu fyrst um sinn. Sá hinn sami fær bjór að launum.

Bragi reit 05:40 EH | Comments (136)