janúar 30, 2004

Hér kemur listi Háskólalistans í ár

Ýtið hér

Bragi reit 08:19 EH | Comments (44)

Er að fara á listakynningu

Núna verður listi Háskólalistans kynntur. Hann mun koma upp á þessari síðu eftir nokkra klukkutíma. Fylgist með...

Bragi reit 06:49 EH | Comments (36)

janúar 28, 2004

Hundfúll og reiður

Nú er ég bálreiður. Helvítis vítisspamarar hafa lagt síðuna mína undir sig og commentað í hvert einasta hólf. Og ekki nóg með það heldur er Ríkissjónvarpið svo duglaust og hugmyndasnautt að fá tvo pólitíkusa til að ræða um skipulagsmál Miðborgarinnar. Pólitíkusar hafa sjaldan eða aldrei haft góðan smekk á því hvað heitir gott skipulag þegar kemur að öðru en kosningabaráttu. Hanna Birna gegn Steinunni Valdísi. Afhverju fá þeir ekki sjávarlíffræðinga til að ræða áhrif litrófsins á þroska ungabarna!!!

Bragi reit 07:32 EH | Comments (318)

janúar 27, 2004

Go West

Er á leiðinni vestur á firði um næstu helgi. Hljómsveitin Hraun! og Heiða og Heiðingjarnir verða með tónleika þar. Annars vegar ætla þau að kíkja á Ísafjörð og spila þar á föstudaginn og svo verða stórtónleikar á Vagninum, Flateyri á laugardaginn. Er ekki alveg viss um hvort ég fari í bústað fjölskyldunnar fyrir vestan eða ekki. Líklegast verður gist í Holti vegna vatnsskorts sem myndi ergja tíu fimmtán manns verulega í Hjarðadal.

Það þýðir að ég muni missa af listakynningu Háskólalistans sem verður að öllum líkindum á Stúdentakjallaranum á föstudaginn. Listinn okkar í ár verður líklega bara sterkari en sá sem við buðum fram í fyrra og þó var ég á þeim lista sjálfur. Hvaða ofurmenni sitja listann að þessu sinni? Þeirri spurningu verður bara svarað með því að mæta.

Ég er svo búinn að stúdera lista Röskvu og Vöku af mikilli áfergð og ég verð að segja að sjaldan hef ég séð lista sem eru jafn troðfullir af gömlum vinkonum og nemendum mínum og þessir eru. Það er engu líkara en að félögin hafi kíkt við á endurfundum MHinga og dregið uppfyllingarnar þaðan. Annars er mér mjög vel við flest það fólk sem situr listana og ég hlakka til að takast á við gamla vini og kunningja.

Bragi reit 05:57 EH | Comments (204)

janúar 25, 2004

Við töpuðum ekki einum leik!

Þá er hinir óskrifuðu Tékkar búnir að slá okkur Íslendinga út úr EM í handbolta. Mér finnst handbolti afskaplega skemmtileg íþrótt. Eða kannski mætti segja að mér fyndist handbolti vera afskaplega skemmtilegur ef alltaf væri keppt á þeim kaliber sem þýska og spænska deildin hefur upp á að bjóða. Þess vegna gleðst mitt hjarta þegar kemur að stórkeppnum milli þjóða. Í þetta sinn voru úrslitin okkur Íslendingum ekki hagstæð og lukum við keppni í forriðli án þess að tapa einum leik...

Nú mun gusast upp umræða á Íslandi um hvernig eigi að breyta leiknum til að dómgæsla verði í meira samræmi og hvernig eigi að gera handboltann að vinsælli íþrótt. Mér finnst öll sú umræða vera vitlaus og tilgangslaus. Handboltinn er fínn eins og hann er. Það að fara að stækka mörkin eða minnka völlinn eða breyta dómum er bara til þess fallið að líkja eftir öðrum íþróttum. Handboltinn hefur sinn eigin sjarma og það bara vill svo til að hann er ung íþrótt sem ekki enn hefur náð þeim alþjóðlega status sem fótboltinn náði fyrir löngu. Ástæðan er einföld, ekki er hægt að grípa í handbolta hvenær sem er með þrem, fjórum félögum. Nauðsynlegt er að spila hann inni. Það vita þeir best sem hafa reynt að spila handbolta á malar eða malbiksvelli. Þær minningar eru litaðar af blóði drifnum hnjám og olnbogum sem líta frekar út eins og fínasta nautafillet.

Handboltinn mun eflaust bæta við sig fylgismönnum á komandi árum og vonandi verður hann stærri íþrótt ef bévítans Amríkanavillan tunnubolti eftir tíu ár. Það er íþrótt sem mætti missa sig. Í handboltanum er allavegana leyfilegt að ýta frá sér. Við Íslendingar munum eflaust líka missa af lestinni eftir nokkur ár og hætta að hafa þann brennandi áhuga sem við virðumst enn hafa. Tökum samt á móti strákunum okkar með bros á vör og segjum við þá slagorð íslenskra í íþróttum ,,það gengur bara betur næst"

Bragi reit 08:00 EH | Comments (108)

janúar 23, 2004

Ekki láta sólina sjá þig gráta

Mér finnst ég vera tilneyddur til að skrifa smá færslu í tilefni af nýlegum greinaskrifum ,,Radda Röskvu" eins og þau kalla sig. Þetta eru einskonar bloggsíður forsprakka Röskvu og þar tjá þau sig um stúdentapólitík. Þar, að mér sýnist, hafa sumir valið sér skotmark í kosningunum.

Alma skrifar; ,,Mér sinnst nokkuð sniðugt það sem Bragi Skaftason skrifar um á síðu H-listans:,,Grundvallaratriði eru ekki atriði sem varða fleiri tegundir af jógúrt á kaffistofurnar eða fjöltengi fyrir tölvur". Hefur H-listinn eitthvað gert? Veit ekki betur en að þau hafi átt áheyrnarfulltrúa í minni nefnd en man ekki eftir að hafa séð hann á fundum. Það þarf líka að mæta á fundina, ekki bara vera með einhverjar yfirlýsingar. Það er kannski þess vegna sem stóru fylkingarnar eru með þessu lélegu atriði eins og fjöltengin."

Eftir þessu textabroti að dæma þá virðist álit Ölmu á eigin fylkingu og Vöku ekki vera mikið.

Silja skrifar; ,,Það sem mér þykir verst er þessi eilífa árátta h-listans að segja að Röskva og Vaka séu svo landsflokkapólitísk, að við séum sífellt að vinna að því að ganga í augun á, eða nota þá sem bakhjarla."
og svo meira
,,En aftur að H-listanum, mér finnst það koma úr hörðustu átt frá þeim að væna okkur um tengsl við flokka þegar einn af stofnaðilum þessa félags er að fara að bjóða sig fram til formanns ungra grænna. Það er allt í key en það þarf enginn að segja mér að hann hefði ekki haft það á bakvið eyrað ef hann yrði formaður stúdentaráðs að hann sé einnig vinstri grænn!!"

Já Silja, það er rétt að einn af rúmlega fjörutíu stofnaðilum Háskólalistans, einmitt maðurinn sem sat í 18. sæti listans, er núna að bjóða sig fram til formanns ungra vinstri grænna. Við erum líka með Heimdellinga Sjálffylkingarfólk og Framsóknarforkólfa innan okkar raða. Það sem við gerum hins vegar ekki er að þiggja aðstöðu og styrki frá stjórnmálaöflum sem bjóða fram á landsvísu. Þetta hafið þið Röskvufólk verið að gera. Ég verð að telja það Vöku til hróss að þau virðast vera búin að láta af slíkri starfsemi og er það vel. Ekki er efi í mínum hug að Háskólalistinn hafi haft töluverð áhrif á Vöku í frelsun þeirra undan pilsfaldi Sjálfstæðislokksins.

Svona málflutningur dæmir sig sjálfan.

Með von um málefnalega kosningabaráttu sem mun vonandi fjalla um grundvallaratriði umfram fjöltengi.

Bragi reit 12:47 EH | Comments (39)

janúar 20, 2004

Tryggur Gamli

Hann Stebbi Páls ýfði upp súrrealíska minningu fyrir mér í dag þegar hann skrifaði á Múrinn um stað sem ég rak á sínum tíma. Á þeim tíma sem ég tengdist staðnum var ég atvinnulaus nemi sem hafði mikla reynslu af veitingageiranum og leitaði að annarri vinnu í þeim bransa. Einn daginn leit ég við hjá vinkonu minni sem var að vinna á sólbaðsstofu í kjallara miðbæjarmarkaðarins. Við settumst inn á veitingastað sem var rekinn þarna í kjallaranum og spjölluðum um daginn og veginn.

Eigandi staðarins settist hjá okkur og við spjölluðum við hann um reksturinn á staðnum sem var honum greinilega ofarlega í huga þar sem ekkert gekk með hann. Hann tjáði mér að vinur hans sem var vanur markaðsmaður væri með hugmynd um að breyta ímynd staðarins og breyta þessum kræsilega bar í kokkteilbar. Þegar hann komst svo að því að ég var vanur barþjónn þá æstist hann upp og vildi endilega að ég sæi um reksturinn á barnum. Ég var að leita mér að vinnu og þáði tilboðið án þess að hugleiða það neitt meira.

Eftir mánaðarvinnu í að breyta útliti staðarins í litríkan kikkteilbar þá var opnað með pompi og pragt og var margt um manninn á opnuninni. Smá tíma tók að koma staðnum á djammkort Reykvíkinga en ótrúlegt en satt þá kom stór kippur í desembermánuði en staðurinn var opnaður í nóvember. Það gekk hreint út sagt býsna vel í einn og hálfan mánuð og tilraunin sem var kannski talin fyrirfram óðs manns æði virtist vera að heppnast. Ég fékk svo vinnu við að reka Kaffi Thomsen í janúar og hætti á Kokkteilbarnum.

Örlög Kokkteilbarsins Ingólfsbrunns voru svo ráðin á nokkrum mánuðum eftir brotthvarf mitt. Ekki það að ég vilji þakka mér einum fyrir þá örlitlu velgengni sem hann naut. Ég held að ástæðan fyrir því hve vel gekk í byrjun hafi verið forvitni og undrun fólks á því hvað gekk á þarna í kjallaranum á Miðbæjarmarkaðnum. Eigandinn að Kokkteilbarnum verður seint talinn kvótakóngur frá Akranesi en indæll maður var hann og vildi ég í dag að ég hefði lagt meira að honum við að hætta við framkvæmdina.

Hægt er að lesa greinina hans Stebba hér

Bragi reit 07:27 EH | Comments (191)

janúar 12, 2004

Háskólinn kýs á ný

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvernig pólitískt landslag er að skapast í háskólanum. Nú er liðið ár síðan við nokkur saman stofnuðum Háskólalistann. Miklar vangaveltur hafa verið innan listans um hvort markmiðum okkar hafi verið náð og þá hvort bjóða eigi fram aftur.

Nú virðast hjólin vera farin að snúast og engin merki eru uppi um að við höfum verið fullnægð í kröfum okkar til breytinga á kosningakerfinu. Þetta er stóra málið sem við lögðum upp með í byrjun og þetta er málið sem við munum halda áfram að kynna og berjast fyrir. Tilgangurinn er einfaldur. Við viljum vekja með stúdentum þá tilfinningu að í kringum þá sé fólk sem vilji standa vörð um hagsmuni þeirra. Við viljum að þetta fólk eigi líka að geta stundað þessa hagsmunagæslu án þess að vera bundin í vistarband hópa eða flokka. Fólk með mikla ábyrgðartilfinningu sem vill vernda hagsmuni stúdenta er núna tilneytt að sníða sínar skoðanir inn í stakk þeirra sem bjuggu til kerfið. Kerfið sem við stöndum frammi fyrir er búið til af tveimur hópum, Vöku og Röskvu. Það er hannað þannig að einungis kosningabandalög geta boðið sig fram í stúdentaráðskosningum. Ef til er manneskja sem ekki getur fundið sig í þeim fylkingum sem fyrir eru er sú manneskja nauðbeygð að leggja þá gríðarmiklu vinnu á sig að stofna heilt stjórnmálaafl til að hafa áhrif. Þetta gerði ég og vinir mínir í Háskólalistanum til að breyta þessu óréttlæti.

Þessi barátta okkar snýst um grundvallaratriði. Grundvallaratriði eru ekki atriði sem varða fleiri tegundir af jógúrt á kaffistofurnar eða fjöltengi fyrir tölvur. Grundvallaratriði snúast um svo mikið mikið meira. Þau snúast um þann grunn sem við byggjum kerfið sem við þurfum að lifa í og hrærast. Við viljum að grunnur húsanna okkar sé sterkur og að nægilegt magn steypu og styrktarjárns sé notað í hann á sama hátt og þegar við ætlumst til þess að leiðtogar okkar séu kosnir á lýðræðislegan og sanngjarnan hátt. Í háskólanum er grundvallaratriði sem þarfnast athugunar. Það er ekki lýðræðislegt og það er ekki sanngjarnt. Það skiptir máli og það þarfnast lagfæringar. Við viljum að lýðræði sé grundvöllur hagmuna okkar.

Við töluðum mikið um það í fyrra hvað hinar fylkingarnar væru tengdar stjórnmálaöflum í landinu. Röskva nýtti sér aðstöðu stjórnmálaflokka til úthringinga. Talsmaður Vöku leiðrétti það að þau hefðu notað einhverja aðstöðu Sálfstæðisflokksins í fyrra. Ég hef það á tilfinningunni að þau hafi séð að sér í ár. Innan raða þeirra er margt um gott, drífandi og dugandi fólk. Ég hef trú á því að þetta fólk muni standa í kosningabaráttu þessa árs á eigin verðleikum. Þau muni ekki nýta sér boð annarra sem sjá sér hag í að pólitíska ástandið í háskólanum fari eftir þeirra höfði. Það er okkar mál, stúdenta, en ekki þeirra mál Davíðs og Össurar. Ég bið þá um að skipta sér ekki af þessari rimmu.

Við töluðum um siðferði í kosningum í fyrra. Símhringingar og skráningar á kjörstað. Þessir tveir hlutir stungu í augun. Símhringingarnar eru skipulegar athafnir sem ég vil líkja við spam. Óumbeðnar auglýsingar sem eru neyddar uppá mann í formi símhringinga. Þær eru þó skömminni skárri en þær persónunjósnir sem framdar eru á kjörstað. Þar sitja fulltrúar stóru framboðanna og skrá hvern þann er kemur og kýs, niður í tal kjörgengra manna. Ég vona að þetta hverfi af sjónarsviði kosninga til stúdentaráðs þetta árið. Vongóður er ég en ég held að sama hvað ég kvabba og kveina munu símhringingarnar halda áfram. Þá er bara um að gera að muna hver lætur þig í friði.

Háskólalistinn mun bjóða fram í ár. Í þetta sinn ætlum við að ná oddaaðstöðu og komast í stjórn stúdentaráðs. Breytingar...

Bragi reit 03:02 FH | Comments (49)

janúar 08, 2004

Tvær grillveislur á sama kvöldi

Þetta kvöld hefur verið frábært hingað til. Ég fékk nudd frá ástinni minni, og horfði svo á tvær grillveislur í sjónvarpinu. Ef Nesi gengur brúnn og sællegur um ganga háskólans er það líklegast ekki vegna langrar utanlandsferðar heldur er ábyrgðin spjallþáttastjórnenda sjónvarpsstöðvanna. Þó fannst mér Svanhildur og Kristján standa sig betur en Ísland í dag parið, jafnvel þó að þökk sé myndskeiðum frá umsögn bókmenntagagnrýnanda hafi sú grillveisla verið ögn líflegri. Það er greinilegt að Kristján er maður sem þarf að kynnast til að komast í góða veislu.

Bragi reit 08:01 EH | Comments (36)

janúar 06, 2004

Með fjenslu

Mér finnst Engrish fyndið tungumál. Er núna veikur heima þannig að ég á frekar erfitt með að skrifa skiljanleg blaðurblogg. Var byrjaður á langloku um vana og tengsl hans við meðvitund og meðvitundarleysi en ég get varla hugsað heildstætt núna.

Bragi reit 03:25 EH | Comments (213)

janúar 05, 2004

Langar þig til að vera eins og NYPD Blue?

Þessi Ameríka er svo yndislega rugluð. Í smá tíma hefur verið hægt að versla lögregluskildi og annað sem er ekki bara næstum eins og löggan í USA er með, heldur nákvæmlega eins. Ákveðin lög voru samþykkt vegna þessa og segja þau að ef þessir hlutir eru notaðir til þess að fremja glæp sé það ólöglegt. DUH

Bragi reit 11:53 EH | Comments (75)

janúar 04, 2004

Var að leita að góðgæti fann porn

Ég held að flestum ætti að vera kunnug trílógían um Hríngadróttinn. Hér hefur verið gerð mynd sem styðst við þá sögu. Áhugaverður titill og Throbbitarnir eru góð viðbót í safn furðudýra kvikmyndanna.

Fyrir ykkur sem eigið Extended version DVD af Fellowship of the ring er áhugavert að kíkja á atriði sem falið er á diskinum. Farið í scene selection og finnið seinasta atriðið. Mig minnir að það sé númer 27. Ýtið einu sinni niður og hringur á að birtast neðst á skjánum. Ýtið á OK og Jack Black mun birtast ykkur í hlutverki hringberans.
Peter Jackson er snillingur hvers húmor er góður.

Er líka svaka glaður yfir þessu prófi. Hver vill ekki vera guðfaðirinn?What Classic Movie Are You?

Bragi reit 03:37 FH | Comments (3)

janúar 02, 2004

Vont skaup, góð áramót

Af einhverri óskiljanlegri ástæðu sáu forsvarsmenn RUV sig tilneydda til að auka fjölbreytnina í flóru skaupshöfunda og endurréðu ekki Óskar J. sem hafði brillerað núna í tvö ár. Réðu þeir þýðendur leikrita í hans stað og væri það vel ef þessir menn hefðu einhverja hugmynd um hvað er fyndið og hvað ekki. Útkomuna sáum við landsmenn svo á gamlárskvöld. Mér stökk þrisvar bros á vör, tvisvar yfir atriðum sem byrjuðu á góðum punkti, þá brosti ég, en brosið breyttist í fýldan svip þegar atriðin voru teygð í svona mínútu, tvær. Þriðja skiptið sem ég brosti var þegar ég áttaði mig á því að skaupið væri búið. Þetta skaup sökkaði svo mikið að ég var orðin slefrakur í klofinu.

Áramótin voru hins vegar fín. Fór í partí til hans Stebba sem rokkaði það vel að hann þurfti að ýta okkur út til að við nenntum að kíkja á bæjarrúntinn. Gef því tíu af tíu mögulegum. Öll partí héðan í frá eru skref niður á við. Gefum Stebba gott klapp "the Dance Commander".

Fór svo á Hilmir snýr heim í gær. Vá. Ekkert meira "sexý" en syngjandi Viggó Mortensen. Á gríns, Vá. Ég á einhvern veginn ekki von á því að ég muni hafa mikinn áhuga á því að fara aftur í bíó næstu árin. Ég held að allt verði vonbrigði eftir að hafa upplifað þetta mesta snilldarverk kvikmyndasögunnar. Einu tók ég sérstaklega eftir í viðbrögðum áhorfenda. Þegar gengið var út af myndinni voru allir þöglir. Enginn sagði neitt, eða því sem næst. Áhrifin af myndinni eru slík að maður situr eftir orðlaus. Held samt að hún fái ekki Óskarinn. Enginn hobbitanna var með eyðni og það voru engir gyðingar eða nasistar í myndinni. Nema að akademían líti á hana sem dans og söngvamynd, þannig á hún kannski sjéns.

Góðar stundir

Bragi reit 01:13 EH | Comments (27)