nóvember 24, 2003

Feitir sveittir miðaldra karlar með vasana fulla af péningum.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að fólk er að verða leitt á þessu valréttarmáli en ég bara verð að tjá mig um það. Í þetta mál eru aðeins tveir menn flæktir, sem ekki eru feitir. Þeir virðast allir svitna meira en meðalmaður. Þeir hafa það allir sameiginlegt að eiga mikinn péning. Aðeins einn er ekki miðaldra. Og ef við rýnum í andlit þeirra og limaburð þá sjáum við að þeir eru allir karlmenn.

Ótrúlegt! Og ég sem hélt að jafnréttisumræðan sem er búin að vera eins og fluga á skít í lengri tíma hefði skilað einhverju.

Ætli þetta hafi verið það sem Michael Moore í bókinni sinni Heimskir Hvítir Karlmenn hafi átt við. Valdabarátta karla á miðjum aldri með loðna lófa og ítök í pólitík og viðskiptum. Sjáðu Davíð taka pening út úr Búnaðarbankanum. Gerir hann það af ást sinni á almenningi og hneykslan á bankamönnum? Sjáðu Sigurð Einarsson og Hreiðar skila peningunum sínum aftur til bankans. Gera þeir það vegna þess að þeim finnst þeir ekki eiga þá skilið? Hafa þeir meiri áhuga á að vera góðir gæjar en að taka við svona miklum peningum? Sjáðu Jón Ólafsson losa sig við íslensku eignirnar sínar. Er hann genginn í áhugasamtök um skattgreiðslur í London og vill nýta þessa peninga í þær. Sjáðu Jón Steinar og Einar Odd verja Davíð í umræðuþáttum stöðvanna. Mikið þykir þeim vænt um vin sinn, Aðal.

Erum við kannski bara komin með alvöru Aðal?

Bragi reit 09:21 EH | Comments (11)

nóvember 21, 2003

Krukkum í krukkum sálarinnar

Ég hef verið frekar slappur undanfarna tvo daga. Þessir tveir dagar hafa sem sagt verið notaðir í það að horfa á misvitra þáttarstjórnendur eyða tímanum mínum. Sérstaklega hann Dr. Phil

Dr. Phil er alveg magnaður þáttur sem er settur upp þannig að sálfræðingurinn Phil tekst á við mismunandi rugl í fólki. Ýmis frávik í fólki dregin fram og fólki bent á að hegðun eins og að láta ekki barnateppið sitt frá sér, teppi sem manneskjan hafði sofið í þegar hún fæddist og vildi ekki láta það frá sér jafnvel þó að hún væri komin á þrítugsaldurinn, væri ekki almennt talin eðlileg.

Nú er ég ekki einn af þeim sem vill benda á amríkana og segja "djöfull er þetta rugluð þjóð". Ég held að við Íslendingar séum alveg jafnrugluð og amríkanar og ef það sem kemur fram í þessum þætti hans Phil á um okkur þá erum við bara helvíti skemmtileg líka.

Ástæðan fyrir því að ég segi það, er sú, að mér hundleiðist þegar allir fylgja sömu siðareglunum og gildunum. Mér finnst bara frábært ef einhver finnur hjá sér þörf fyrir að halda í teppi sem hún/hann hefur átt síðan það fæddist. Fínt. Ef þetta eru verkefni sálfræðinga í dag þá erum við í góðum málum sálarlega.

En því miður eru þetta einfaldlega ekki hin venjulegu verkefni þeirra sem stússast í sálarlífi mannskepnunnar. Þau eru líkast til of drungaleg og lituð of sterkum tilfinningum til þess að þau sé hægt að sýna á markaðstorgi Dr. Phil.

Bragi reit 02:08 FH | Comments (7)

nóvember 11, 2003

Í góðri Von

Ég hef verið að taka eftir því æ meir að skoðanir mínar á pólitík eru orðnar færri, óskýrari og dráttarlausar.(andstæðan við afdráttarlausar) Þegar ég var yngri þá taldi ég mig til hinna hörðu vinstri manna og fór í ótal kröfugöngur og skipulagði alls kyns mótmæli gegn hinum ýmsu málefnum. Allt sem mér fannst vera tákn eða vísbending um félagslegt óréttlæti og stuðlaði gegn jafnrétti fannst mér vera af hinu vonda. Þetta var gengið svo langt að mér leið illa bara við tilhugsunina að jafnvel yrða á Vezlinga eða eiga vinfengt við sjálfsstæðismenn.

Þetta voru öruggir tímar í mínum heimi. Ég gat með auðveldri eftirgrennslan áttað mig á hvort að einstaklingur var mér að skapi eða ekki. Þetta var gengið svo langt að um tíma voru þeir sem ég umgekkst eingöngu vinstri menn sem ekki áttu ríka foreldra, helst í skóla eða listum og héldu með Manchester United eða jafnvel horfðu ekki á fótbolta.

Nú stoppa víst flestir og hugsa "hér hefi ég rambað inn á síðu manns sem greinilega hefur dvalarstað á Kleppi". Ég geri mér grein fyrir því að þessi valhegðun mín lítur ekki út fyrir að lýsa skírum og skörpum dreng sem á framtíðina fyrir sér.

En að undanförnu hef ég verið að leita að útskýringu á þessari hegðun og ég held að ég hafi fundið hana í bók sem heitir Philosophy and Social hope eftir Richard Rorty. Þar skrifar hann dálitla sjálfsævisögu í fyrsta kaflanum þar sem hann dregur upp mynd af sjálfum sér á yngri árum.

Foreldrar hans voru miklir vinstrisinnar og bækur eftir Trotský og fleiri voru í hillunum á heimili hans líkt og biblíur, vinskapur foreldra hans við mestu framámenn í sósíalistaflokki Bandaríkjanna var mikill og eitthvað var skrifað um að þau hefðu meira að segja leyft einum ritara Trotskýs að dvelja hjá þeim að nafni John Frank. En eins og flestir sem eitthvað vita um þá sögu ættu að átta sig á hvílík hætta var þar á ferðum, en Stalín hafði sem sagt fyrirskipað morð á Trotský, Kirov, Ehrlich og fleirum sem tengdust þeim.

Eins og hann lýsir seinna í bókinni, en hún er eins konar sýn hans á pólitík, þá kemur það ansi sterkt fram að hann hefur litið í æsku á sósíalisma ekki sem stefnu heldur sem nauðsyn. Hann var í augum Rorty líkt og trúarbrögð sem ekki mætti andmæla. Kannski er ég að túlka of gróft núna og mín saga er kannski ekki nákvæmlega eins og hans enda voru aðstæður okkar margt um ólíkar.

Hann hóf sína leit að auknum skilningi fyrr en ég, fimmtán ára klárar hann heildarsafn Platóns og frá því er ekki aftur snúið. Hann hefur leit sína að þeirri þekkingu og vissu sem ætti að gefa honum grundvöll fyrir því sem í hjarta hans var rétt. Hans trú, sósíalisminn. Kannski var þetta aldrei trúin hans heldur eingöngu það sem Ólafur Ragnar barði á brjóst sér fyrir fyrstu forsetakosningarnar sínar, barnatrúin.

Við Rorty eigum það sameiginlegt að eiga foreldra sem eru Trotskyistar(að minnsta kosti annað þeirra) og ólst ég upp við það sem hið sjálfsagða. Rétt eins og prestsdóttir elst upp við predikanir föður síns þá hlustaði ég á föður minn tala um stjórn hinna vinnandi stétta og framtíðina sem yrði björt og fögur í sósíalískum faðmi.

Eins og flest börn þá held ég að ég hafi misskilið föður minn allsvakalega og byrjaði hálfpartinn að taka orð hans sem gefin, jafnvel þegar hann talaði í dæmisögum. Nú vil ég ekki vera að segja það að ég hafi komist að einhverjum æðri sannleik sem sýnir mér fram á að það sem faðir minn hefur að segja sé rangt. Þvert á móti þá held ég frekar að túlkun mín á því sem hann hafði að segja var of bókstafleg. Ég var fimmtán ára bókstafstrúarmaður á allt sem var gert í nafni sósíalismans.

Ég held að það sem ég hefi áttað mig á sjálfur er það að blanda ekki saman hugmyndinni um félagslegt réttlæti og velferð lítilmagnans við það að trúa á einhverja aðferðafræði sem á að duga til að ná fram þessum markmiðum.(orðalagið í þessari setningu er svolítið loðið, vinsamlegast komið með betri uppástungu) Hugtakið; að trúa á, er mikilvægt í þessu samhengi og lýsir í raun og veru aðalatriði þessarar greinar.

Rorty líkir saman Nýja testamentinu og Kommúnistaávarpinu sem tvær bækur þar sem höfundar þeirra koma með ákveðna spá um framtíðina og vilja í öðru tilvikinu byggja á því sem þeir kalla reynsluþekkingu og í hinu er maður aldrei viss um að verið sé að byggja á neinu öðru en einhverjum ákjósanlegum siðalögmálum. Í báðum tilvikum séu margar miljónir manna að leggja trú á það sem skrifað er í þessar bækur og í þær vitnað á margan hátt. Sumir leggja meiri trú í þær en aðrir, og sumir ganga lengra en aðrir í trú sinni.

Þetta finnst Rorty rangt og að slík trú eigi ekki að líðast. Hins vegar hefur hann í gegnum tíðina tileinkað sér aðra túlkun á þessum ritum, þá sérstaklega kommúnistaávarpinu. Hann kallar þá túlkun Social Hope, eða von um félagslegt réttlæti. Hann vill sem sagt meina að það sem við eigum að fá út úr ritum eins og kommúnistaávarpinu sé lýsing á og von um félagslegt réttlæti.

Svo við endum á svipuðum stað og við byrjuðum þá verð ég að segja að mér finnst mikið koma til þessarar túlkunar á Ávarpinu. Það er langt síðan ég hætti að setja fólk í réttir eftir skoðunum þeirra og stöðu í borgarasamfélaginu. Ég er ekki einu sinni viss um að skoðanir mínar eigi endurspeglun í nútímavinstristefnu. En án frekari bollalenginga þá er ég sem sagt hættur að trúa og byrjaður að vona.

Bragi reit 05:42 EH | Comments (47)