ágúst 27, 2003

Færeyski draumurinn

Ég held að ég hafi lent í einni skemmtilegustu lífsreynslu með Færeyinga sem ég hef komist í í gær. Var að vinna á Nelly´s og inn ganga tuttugu Færeyingar. Þeir byrja að tala við okkur á barnum og víla ekki fyrir sér að nota færeysku í öll mál. Panta drykki á færeysku og spjalla við okkur á málinu sínu. Ég svaraði þeim alltaf á íslensku og eftir stutta stund var ég byrjaður að skilja þetta hrognamál betur.

Eftir töluverða drykkju þá stakk einn þeirra greinilega upp á því að nú skyldu þeir syngja. Gleymdi ég að minnast á að þeir voru allir sjómenn? Ef mig misminnir ekki þá var þetta um ellefu leytið. Þeir hófu upp raust sína og söngurinn lak út úr kjaftinum á þeim eins og tannkrem úr túbu.

Fyrst var ég hræddur um að hinir viðskiptavinirnir myndu flýja staðinn en ekkert svoleiðis gerðist. Í staðinn þá fóru bara Íslendingarnir og hinir túristarnir að reyna að læra textann og syngja með. Ég held að sjaldan hafi ég verið jafn hlessa. Ég slökkti á tónlistinni og tók þátt í söngnum með færeysku frændum okkar.

Þið sem voruð í kór þegar þið voruð lítil þá hafið þið kannski kyrjað Ólafur Liljurós og séð að erindin eru ekkert alltof fá. Tvö, þrjú lög og klukkan var orðin eitt og ég neyddist til að loka. Færeyingunum til lítillar skemmtunar en eitt gerðu þeir þó sem ég get ekki séð að við Íslendingar erum duglegir í. Um leið og ég kveikti ljósin og bað alla um að fara þá þökkuðu þeir fyrir sig og fóru. Þeir einu sem ég átti í vandræðum með í gær voru tveir íslenskir strákar sem neituðu að hreyfa sig. Þetta er óþolandi einkenni Íslendinga og við ættum að reyna að endurskoða framkomu okkar allra gagnvart þjónustufólki og hvoru öðru í leiðinni. Enginn er jafn ruddalegur og Íslendingur á bar.

Eitt fékk ég út úr þessu kvöldi, aukna virðingu fyrir hinum hjartahlýju vinum okkar í austri. Mikið finnst mér ég hafa haft miklar ranghugmyndir um þessa þjóð. En nú sé ég að þeir standa okkur framar í fleiri en einni meiningu. Þeir eru kurteisir og bera virðingu fyrir menningu sinni. Og það sem meira er þeri bera ómælda virðingu fyrir öðrum og eru umburðarlyndir gagnvart annari menningu. Þeir skammast sín ekki fyrir að skemmta sér á þann hátt sem landar þeirra hafa gert í hundruði ára. Þess vegna er þjóðarsál þeirra heilsteyptari en okkar og ég segi að við gætum lært heilmikið af Færeyingum.

Bragi reit 12:37 EH | Comments (13)

ágúst 26, 2003

Krísufundur í Krísuvík

Fyrirsjánleg fyrirsögn? Kannski, en ætli hún fari nokkuð í taugarnar á fólki sem lætur það yfir sig ganga að Björn Bjarnason skuli enn sitja í valdasæti eftir hina "yfir gagnrýni hafna" embættisskipan sína. Svo ég tali nú ekki um hugmyndir mannsins og brjálsemi er hann vill stofna lýðveldisher Íslands.

Þessir skjálftar að undanförnu hafa leitt huga minn að hættu sem við suðvesturhornarar höfum lítið sem ekkert hugleitt nema þá kannski í framhjáhlaupi. Stórgos á Bláfjallasvæðinu. Þetta svæði er mjög virkt eldfjallasvæði í þeim skilningi og ætti engan að undra ef þarna myndi hefjast gos einhvern tímann á næstunni. Þar er hins vegar einungis ein byggð í einhverri alvöru hættu. Grindavík myndi líklegast leggjast í eyði og er ég viss um að það myndi kæta Keflvíkinga að verða einráðir í íslenskum körfuhnattleik og gleðjast gætu þeir yfir mögulegri endurkomu kvótans sem heimsótti Keflavík í smá tíma en ákvað að þar væri ekki jafn skemmtilegt og á Grindavík.

Íslendingar hafa orðið meir og meir grandvaralausir fyrir þeim hættum sem fylgja að búa á landi eins og Íslandi. Eldgos eru nánast orðin söluvara og sum gos jafnvel kölluð túristagos. Jarðskjálftar eru orðnir skemmtilegir og allir spyrja hvorn annan með eftirvæntingu daginn eftir:"fannstu skjálftann" með sögu í mund.

Við megum ekki gleyma því að þessa náttúru ber að virða og ekki halda að hún muni ávallt vera saklaus og góðleg. Ekki er lengra en átta ár síðan hún tók tugi lífa í snjóflóðum.

Skólinn byrjar eftir viku. Ögrun heimspekinnar er sá áfangi sem ég hlakka hvað mest til að taka. Jón Ólafsson ofurheimspekingur að fjalla um Richard Rorty og möguleg endalok heimspekinnar. Víííí gaman

Bragi reit 03:17 FH | Comments (12)

ágúst 18, 2003

Svaka þreyttur, löng vakt.

Heimurinn er voða vondur. Ó hvað ég hlýt að vera hræðileg persóna að hafa látið mér detta það í hug að kaupa Nike fótboltaskó, grey litlu börnin... snuff
Úpps hvað segirðu er ekki öruggt að kjötið sem ég er að borða sé af dýri sem hafi ekki þjáðst er því var slátrað.. æææææ
Drepur þessi bjór heilasellur... glugg glugg glugg
Er ég að sýna fram á hvað við hvítu asnar erum mikill yfirburðakynstofn ahahahahahahahahahh... Farinn að sofa, er ekkert í neitt ofsa skapi. hnuss

Bragi reit 03:14 FH | Comments (39)

ágúst 12, 2003

Hvar eiga vondir að vera?

Eitthvað hljóta bytturnar að verða fúlar í þetta skiptið

Bragi reit 05:20 EH | Comments (120)

ágúst 11, 2003

Lúinn Ferðalangur Snýr Heim

Ég, Jósi, Stebbi, Helgi, Elín og Unnur fórum í mikla svaðilför á föstudag. Helga og Jósa fannst það nefnilega svo sniðugt eftir að hafa gengið Fimmvörðuhálsinn á einum degi að gera betur og rölta Laugaveginn á þremur dögum.

Fyrir ykkur sem ekki vita hvað Laugavegurinn er þá er hann gönguleið á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Laugavegurinn er 51 kílómetri og hæst fer hann í 1148 metra yfir sjávarmál. Á leiðinni þarf að vaða þrjár til fjórar bergvatnsár og tvær jökulár, þar af er önnur lítið annað en fljót. Útbúnaðurinn í svona ferð vegur um 20-25 kíló, mismunandi eftir því hvað er tekið með.

Alla helgina rigndi og á fyrsta deginum þá blotnaði allt sem ég tók með mér, svefnpokinn líka. Þannig að ég hljóp fyrstu ca. 12 kílómetrana með rennandi blautan bakpoka og tjald á bakinu á þremur tímum. Maður var ekki lengi úr blautu spjörunum til að hengja þær til þerris í skálanum við Hrafntinnusker. Útsýnið var af skornum skammti fyrsta daginn vegna þoku en það litla sem við sáum er næg ástæða til að endurtaka gönguna. Við tókum þá ákvörðun að sofa í skálanum vegna veðurs og tók Helgi fram þá mögnuðu bók 555 gátur og entumst við í heilar 60 gátur áður en súrrealísk heimsmynd þessara þriggja sem hana tóku saman var orðin einum of ríkjandi á svefnloftinu.

Næsta dag var allt orðið þurrt en ennþá var rigning úti. Þennan dag átti þrekvirkið að vera unnið. Að fara tvær dagleiðir á einum degi. 27 kílómetrar. Við lögðum af stað um hádegisbil og fyrsti partur leiðarinnar var hálfleiðinlegur, upp og niður gróðursnauðar hæðir og vind og rigningu með í för. Það sem gerði þetta betra var að útsýnið var skárra þennan daginn og sáum við góða tvo þrjá kílómetra og oft lengra. Þegar við vorum búin að ganga í tvo þrjá tíma gengum við niður dal sem var gróðri vaxinn og þar ákvað sólin að sýna á sér andlitið. Hún þurrkaði okkur vel og vandlega þar sem við bjuggum okkur undir að vaða á sem skar dalinn í sundur eftir endilöngu.

Með sólskinið sem förunaut gengum við hress og kát að Álftavatni sem er sannkölluð vin í eyðimörkinni. Þar átum við og dokuðum við til að njóta veðurblíðunnar. Þar spurðum við einnig skálavörð hvora áttina við ættum að taka, en hægt er að fara öðru hvoru megin við fjall sem stendur við Álftavatn. Hún ráðlagði okkur, þar sem við þurftum að vaða ána sem ég minntist á fyrr, þá væri líklegast mikið í á sem er oft illfær. Þannig að í stað þess að fara leið sem væri líklega fljótfærari með tveimur vöðum þá tókum við þá ákvörðun að fara þá sem innihéldi þrjú vöð. Það var með fallegri göngutúrum sem hægt er að hugsa sér, grænar hlíðar og náttúran og fjöllin stórbrotin og oft sérkennilega löguð.

Þessi leið vísar niður í Hvanngil sem er fallegur og gróinn dalur. Þar höfðum við stutta viðkomu og við nýttum okkur aðstöðu sem skálinn bauð upp á. Þarna var klukkan orðin margt og tólf kílómetrar eftir af deginum þannig að við neyddumst til að drífa okkur þó við hefðum glöð viljað stansa þarna og njóta náttúrunnar betur.

Frá Hvanngili er mögnuð leið yfir sanda og með skriðjökulinn sífellt ógnandi þá er tilfinningin blönduð ótta og virðingu fyrir náttúruöflunum. Áttar maður sig vel á umfangi landsins og smæð mannsins á þessum vegspotta. Snemma á þessari leið er nauðsynlegt að vaða jökulá. Hún er vel breið og ísjökulköld. Ekki voru allir hressir með það og þurfti smá tíma fyrir fólk að jafna sig eftir að hafa gengið í gegnum þessa köldu köldu reynslu. Þá tók við kapphlaup við tímann sem ég verð að segja tapaðist. Myrkrið skall á og fórum við seinustu tvo kílómetrana í niðamyrkri og rigningu. Við vorum ekki lengi að koma upp tjöldunum og fórum að sofa.

Þarna má segja að við höfum verið nísk án ástæðu. Þarna hefðum við átt að gista í skálanum og greiða níuhundruð krónum meira fyrir hlýju og þurrk. Rigndi inn á tjaldið okkar Jósa og vöknuðum við illa farin um morguninn í raun ósofin vegna kulda og bleytu. Eitthvað vorum við lengi að koma okkur í gang og álagið var byrjað að segja til sín hvað fæturna varðaði. Þessi staður heitir Emstrur og þaðan var haldið af stað um eittleytið.

Mörg stopp voru tekin á þessum seinasta degi og meðal annars þá lentum við í því óþægilega atviki að enginn annar en Pétur Blöndal æðir fram úr okkur með einhvern fylgdarflokk. Þetta var erfiður dagur en lokakafli leiðarinnar bætti verulega úr skák.

Þessi dagur er að mínu mati fallegasti hluti leiðarinnar og hápunktur hans er að vaða yfir stóra jökulá og það að þramma í gegnum skóginn í átt að Hálsadal þar sem við komum niður í Þórsmörk. Þar var grillað og slegið upp veislu með veisluföngum sem við létum senda okkur áður en við lögðum af stað.

Fyrir ykkur sem hyggjast ganga Laugaveginn hef ég þrjár ábendingar handa ykkur. Í fyrsta lagi ekki láta glepjast af sögum um fólk sem fer þetta á stuttum tíma. Engin leið er að njóta þeirrar náttúru sem við manni blasir á Laugaveginum á minna en fjórum dögum. Við gengum þetta of hratt. Í öðru lagi ekki taka með ykkur tjald. Það er litlu dýrara að gista í skálunum og þægindin eru nauðsynleg, sérstaklega ef veðrið er jafnslæmt og á fyrsta degi hjá okkur. Í þriðja lagi þá elska ég íslensku sauðkindina. Ullin bjargar manni alveg.

Bragi reit 05:00 EH | Comments (48)

ágúst 01, 2003

Jamm

Var að horfa aðeins á Ísland í Bítið og þar var verið að tala um olíufélögin og einhverja sniðgöngu hjá misvitrum neytendum sem leggja til að við kaupum ekki bensín hjá þeim. ÍB postulinn kom þá með hugmynd sem ég verð að játa að er mjög sniðug og ég hvet ykkur til að taka upp á þessu. Kaupiði bara bensín hjá olíufélögunum! Ekki fara í Select ef þið eruð svöng. Ef klukkan er orðin of margt þá er hægt að fara í BSí eða 10-11 í múlunum og Hafnarfirði. Ekki láta undan freistingunni að fá ykkur súkkulaði með bensíninu.

Bragi reit 10:56 FH | Comments (150)