júní 27, 2003

Ekkert bitur ekkert sár

Hvað gerir þú þegar:
...þú flýrð frá rigningu undir skýli á Laugaveginum og illa lyktandi róni hefur fengið sömu hugmynd
...þú kemur af klósettinu og áttar þig skyndilega á því að það eru vatnsblettir eftir handþvottinn á buxunum
...þú ferð með bílinn í skoðun og skoðunarmanneskjan finnur notaðan smokk í framsætinu
...þú svarar Subway stelpunni að þú viljir fá majones og sætt sinnep og hún hreytir framan í þig "datt það í hug"
...þú ferð með tölvuna í viðgerð og viðgerðarmaðurinn bendir þér vinsamlegast á að best sé að hafa tölvuna í sambandi
...þú ert spurð spurninga um mannkynssöguna og þú svarar því til að þú hafir ekki lesið þá bók
...þú bíður í röð á skemmtistað í rúman hálftíma til að sjá manninn sem skipti um dekk á bílnum þínum fara fram fyrir röðina plús þrír
...þú vinnur loksins kókakólaklakamolagerðargúmmíbox eftir að hafa reynt allt sumarið að komast á Justin og áttar þig á að ef þú hefðir sleppt því að drekka allt þetta kók hefðir þú líklegast átt efni á því

Sulk*

Bragi reit 02:23 FH | Comments (147)

júní 24, 2003

Gaman í Reykjavík

Framsóknarmenn eru núna í óðaleit að útgönguleið frá R-listanum. Þessi grunur þeirra um að þeir hefðu nánast strokast út í Reykjavík held ég að hafi verið staðfestur í kosningunum síðustu og núna sjá þeir fram á það að ef Samfylkingin bjóði fram sér í næstu borgarstjórnarkosningum þá muni þeir strokast út. Mín skoðun: Framsókn má fara til fjandans! Þeir saman með Sjöllunum munu ekki ná meirihluta hér í borginni að þremur árum liðnum. Ekki möguleiki. Frjálslyndir eru búnir að gera út um þann sjéns. Ekki er samt loku fyrir það skotið að á miðju tímabilinu muni slitna upp úr samstarfinu undir heitinu R-listinn og bæjarfulltrúarnir muni halda áfram samstarfi samt sem áður en undir nafni flokkanna. Þessir framsóknarmenn eru algjörlega búnir að afsanna allt gott sem var í fari þeirra fyrir tíma Halldórs. Áður fyrr gat flokkurinn verið hálfger jafnvægisstöng fyrir íslenska pólítík. Núna eru þeir orðnir að lyftistöng fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tryggur liðsmaður Davíðs. Ég endurtek, megi þeir fara til fjandans.

Bragi reit 12:35 FH | Comments (345)

júní 16, 2003

Villandi hlekkur

Augljóslega hef ég ýtt við einhverjum taugum þegar ég skrifaði greinina um símamálið. Hún er ekki byggð á neinum upplýsingum sem ég hef aflað mér annars staðar en í gegnum fjölmiðla og veit ég í raun ekki neitt meira um málið en þeir sem lesa blöðin reglulega. Mér hefur blöskrað umfjöllunin og vildi koma mínu sjónarhorni á framfæri. Nema hvað eitthvað hefur greinin verið ofmetin af einhverjum og mér gefið nikkið "insider" á Tilverunni. Fólk virðist hafa lesið greinina með því hugarfari að um einhvern voða insider hafi verið að ræða og er það mjög villandi að mínu mati. Einnig verð ég að játa það að á nokkrum stöðum í greininni lýsi ég stöðu málsins á frekar afdráttarlausan hátt og nota ég um leið málfar sem ég nota venjulega þegar félagar mínir og vinir lesa færslur á síðunni. Nú er mér alveg sama um það ef að aðrir líti við á síðunni og lesi það sem stendur þar en þessi yfirskrift sem mér var gefin á Tilverunni breytir merkingu færslunnar og er þar með villandi og gefur tilefni til misskilnings. Í greininni er ég að koma skoðunum mínum og trú minni á sakleysi Ragga, efasemdum um fullkomið sakleysi þeirra skjáseins félaga án þess að vera að dæma þá sem menn og í raun að lýsa yfir ánægju minni með það hvernig Sveinbjörn hefur sætt sig við aðstæður sínar og er ég viss um að fyrirgefningin komi fyrr hjá þjóðinni vegna þessarar samstarfsfýsni hans. Þetta geri ég með frekar skrautlegu málfari til að auka skemmtanagildi færslunnar og gera lesandanum það auðveldara að stagla í gegnum tíuna bloggið á deginum sem hann les. Þessi færsla er til dæmis án allrar skreytni og býst ég við að flestir sem lesi hafi ekki nennt að lesa hana alla leið hingað.

Bragi reit 02:05 FH | Comments (27)

júní 13, 2003

Gaman að hafa skoðanir

“við föllum í óminni þar sem við skiptum engu máli í samfélagi þjóðanna.” Þetta lagði móði fréttamaðurinn í Sjónvarpinu sér til munns þegar hann var að lýsa ástandinu sem yrði þegar herinn færi frá Keflavík í kvöldfréttum Sjónvarpsins. Þetta er náttúrulega ótrúlegt af fréttamanni að segja. Heldur þessi maður í alvörunni að sú staðreynd að tvær þrjár þotur í eigu BNA séu í Keflavík hafi eitthvað með það að gera hvernig áhrif okkar eru í samfélagi þjóðanna. Þetta fer pínulítið í taugarnar á mér og mér finnst að persónulegar skoðanir fréttamanna eigi ekki að skína of augljóslega í gegn í fréttaflutningi þeirra. Sérstaklega er slæmt þegar að skoðanirnar eru framreiddar í formi staðhæfinga en ekki vangaveltna.

Bragi reit 07:12 EH | Comments (126)

Gaman að nefna

Að nefna menn í fjölmiðlum sem hafa verið sakaðir um eitthvað hefur verið mikið í umræðunni hjá mér og kunningjum mínum. Þegar upp koma mál sem eru umdeild líkt og símamálið og núna barnaklámsmálið, fréttast oft hratt utan fjölmiðla nöfn sakborninga en er rétt af fjölmiðlum að auglýsa þau og um leið að einhverju leyti tengja nöfn hugsanlega saklausra manna við glæpi sem eru mannorðsskemmandi?
Tökum dæmi: Maður er sakaður um nauðgun. Nafn hans og andlit kemur í fjölmiðlum í tengslum við málið og er hann kynntur til sögunnar sem hinn grunaði. Nú kemur í ljós við réttarhaldið að maðurinn átti ekki að hafa möguleika á því að nauðga konunni þar sem hann var ekki í sama landi. Nafn hans er hreinsað hjá yfirvöldum en í augum hins fréttaþyrsta almennings er hann ennþá litinn hornauga. Hvers vegna? Jú, fjölmiðlar sjá ekki sama fréttamat í sýknu manns en þegar verið er að sækja einhvern til saka fyrir alvarlegan glæp. Tilkynning fjölmiðla verður sem sagt ekki jafn kraftmikil og nær ekki jafnmörgum eyrum og ásökunin náði. Skaðinn er sem sagt skeður um leið og hin opinbera ásökun kemur fram. Mannorð mannsins er flekkað og verður ekki lappað upp á það með einhverjum 2-3 dálksentimetrum eða örstuttri dómsmálaupptalningu í fréttum Stöðvar 2. Hins vegar verðum við að einhverju leyti að beita heilbrigðri skynsemi þegar kemur að þessum málum og í þeim tilvikum þar sem játning eða sannanir sem jafngilda játningu hafa komið fram finnst mér eðlilegt að almeningur fái að vita hverjir það eru sem hafa brotið lögin sem sett eru til verndar okkar allra. Annað hlýtur að vera fals. Að sjálfsögðu er símamálið mér efst í huga þegar ég fjalla um nöfn grunaðra manna. Þegar menn byrja að ofnota hugtakið saklaus uns sekt er sönnuð lenda þeir í öngstræti í þessu máli. Aðalgjaldkerinn hefur nú þegar játað og þykir flestum skýrt hugsandi mönnum augljóst að tveir máttarstólpar íslensks frumkvöðla og atvinnulífs hafa tekið við peningum sem greinilega hafa verið fengnir með ólöglegum hætti. Vitneskja þeirra getur ekki hafa verið svo brengluð að þeir hafi halið að um lán væri að ræða enda um of stórar upphæðir að ræða að ekkert hafi verið skjalfest. Þegar slík mál koma upp og sektin blasir við og menn hafa játað, finnst mér sjálfsagt að nöfn þessara manna komi fram en það er samt sem áður hættulegt vopn sem fjölmiðlamenn hafa í höndunum. Einhverjar samræmar siðareglur þyrftu að vera til sem fjölmiðlar færu eftir í slíkum málum. Eins og margir hafa tekið eftir hafa sumir miðlar kappkostað að nefna þessa menn á meðan þeir eru ekki nefndir í Ríkisfjölmiðlunum og í Morgunblaðinu. Þarna finnst mér ákveðið ósamræmi vera á ferðinni og þarf kannski að leiðrétta það.

Bragi reit 03:25 EH | Comments (42)

júní 11, 2003

Gaman úti í búð

Jæja eitthvað virðist ég hafa ýft við netheimum með síðasta bloggi mínu. Ég er víst kallaður insider í símamálinu jafnvel þó að það eina sem ég viti í þessu máli og er tilbúinn að tala um hefur allt komið fram í fjölmiðlum að undanförnu. Hins vegar vona ég að ég hafi skrifað þannig að ég hafi ekki verið að spinna neitt upp og að skoðanir mínar séu vel rökstuddar.

Annað sem ég hef verið að taka eftir (ekki annað hægt) er þetta mál með helgidagafriðinn. Það virðist vera með öllu óskiljanlegt mál. Það að sjoppum, vídeóleigum og bensínstöðvum sé leyft að hafa opið, sem og veitingastöðum, en ekki búðum og stórmörkuðum er vitlaust í meira lagi. Már benti mér á þá augljósu staðreynd að verið er í raun að koma í veg fyrir að fólk borðaði heilsusamlega. Auðvelt virðist að komast í mat sem almennt þykir óhollur og nammi, en nánast ógjörningur er að næla sér í grænmeti eða annað slíkt hollustufæði á helgidögum. Einhverjir benda líka á grey túristana sem vafra um bæinn í leit að æti eins og endurnar við tjörnina sem svelta eins og túristarnir, engin bakarí eru opin heldur. Þetta virðist ekki vera trúarlegs eðlis þar sem jesúkappinn sem kom í kastljósi í gær virtist ekki hafa neitt á móti því að verslanir væru opnar. Kommarnir eru komnir í einhvern frjálshyggjubúning og minntist Ögmundur á frelsi allavegana þrisvar sinnum í jákvæðum tón. Hins vegar benti hann á að tryggja verði hag starfsmannanna. Satt og rétt, en eigum við þá ekki að spyrja starfsfólkið fyrst áður en við ákveðum svona hluti fyrir það. Hægri lobbýið er náttúrulega allt með því að opnað verði á helgidögum en hafandi verið í stjórn í 12 ár og ekkert hefur gerst í þessu máli sýnir okkur náttúrulega hvar fyrirstaðan er í þessu máli. Hmmmm eru sjálfstæðismenn hinir nýju kommar 21stu aldarinnar?

Bragi reit 04:33 EH | Comments (28)

júní 10, 2003

Gaman í símanum

Ég er ekki búinn að vera nógu duglegur að undanförnu í blogginu en ég saka gott veður og aðgerðaleysi um hvað sjaldan ég blogga á sumrin. Ég hef reyndar verið mjög meðvitaður um bloggleysi mitt og þetta hefur verið alveg helvíti erfitt að standast það að tala um símamálið. Verandi einn af þeim sem þetta mál snertir beint (ég vann hjá Prikinu þar til um mánaðarmótin, og er vinur Ragga og gamall skólafélagi bæði hans og Krissa) þá fannst mér þögn hjá mér um þetta mál vera við hæfi. Núna þegar þeir eru komnir út og sögurnar orðnar færri og lágværari þá finnst mér í lagi að ég tjái mig eitthvað um þetta. Í fyrsta lagi þá vil ég benda á það að fjórði maðurinn, þ.e. Ragnar virðist vera alveg utan við þetta mál. Þegar stóra lánið var tekið var hann glasabarn hjá Kaffi Reykjavík. Hann var þarna í yfirheyrslu og verður að öllum líkinum ekki kærður. Hinir þrír virðast vera sekari en OJ. Sveinbjörn virðist hafa blindast algjörlega af græðgi og þessi annars geðþekki maður þarf aðeins að hugsa sinn gang, enda virðist hann hafa áttað sig um leið og þeir voru teknir og síðan þá hefur hann malað eins og spiladós. Hvað Krissa og Árna Þór varðar veit ég ekki hvað gengur að þeim. Hver höndin virðist vera upp á móti annarri og þeir neita allri sök. Lán???? Ég hef sko tekið lán og þá þarf maður ábyrgðarmenn og veð og útibússtjórinn þarf að skrifa undir. Þetta virðist hafa farið fram hjá þeim félögum. Einnig þá er það eðlilegt þegar maður tekur lán að ákveða dagsetningar á afborgunum og slíkt því það er ekki lán ef maður þarf ekki að borga það til baka. Einhverjir hafa verið að klína orðunum mannlegur harmleikur á þetta mál. Mannlegur harmleikur getur ekki átt við þegar einhverjir einstaklingar ákveða að fremja lögbrot, framkvæma það, hylma síðan yfir því og að lokum neita allri sök. Bull og vitleysa. Mér finnst að þeir ættu að skammast sín og játa sök sína frammi fyrir alþjóð. Sveinbjörn er orðinn maður að meiri en tvíeykið ætti að skammast sín.
Þetta mál er að hafa gífurlegar afleiðingar í veitingahúsaheiminum. Núna er komin svo mikil hreyfing á markaðinn að þessu mætti líkja við þann tíma sem Þórarinn og Þórður gripu allt á markaðnum sem var laust. Nú er eignaraðild að flestum stærstu börunum komin á fárra hendur og finnst mér það mjög jákvætt. Þeir aðilar sem koma núna að og tengjast rekstri Lækjarbrekku, Tapas, Nelly´s, Victor, Galíleó, Sólon og nú Felix og Thorvaldsen eru með traustari atvinnurekendum sem ég hef kynnst á þeim tíma sem ég hef unnið í slíkum rekstri. Óska ég þeim velfarnaðar með þessa nýju staði sína og vona ég að starfsfólkið sem var í óvissu og vandræðum hafi fundið úrlausn sinna mála. Skjár einn heldur áfram rekstri án vandkvæða og mér skilst að Planet Reykjavík hafi líka skipt um eigendur. Nú er spurningin hvernig verður fjárhagsleg framtíð þeirra skjáseins félaga?

Bragi reit 04:52 EH | Comments (65)

júní 05, 2003

Vopn eða ekki Vopn

Þegar farið var í stríð við blessaða Írakana um daginn voru Bush og Blair fullvissir um að þeir ættu gereyðingarvopn. Reyndar var skilgreiningunni á gereyðingarvopnum breytt svo að hún kæmist fyrir í hugmynd þeirra félaga um vopnaeign Íraka. Aldrei hafa efnavopn verið talinn til slíkra vopna fyrr en það er kannski allt í lagi fyrst að maður getur víst drepið marga með slíku vopni. Miklu fleiri en með byssu.
Núna hafa þingnefndir verið settar á fót til þess að kanna staðhæfingar þeirra um vopnaeign Íraka. Eitthvað virðast menn vera byrjaðir að efast um sannsögli strákanna og uppi er sögur um að skjöl hafi verið fölsuð, þrýstingur verið settur á leyniþjónustumenn um að hagræða upplýsingum og túlkanir á upplýsingum verið ákaflega frjálslegur. Þá hefur Paul Wolfowitz aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna játað að aðalástæða hernaðarins sé sú að landið (Írak) vaði í olíu, og að aðrar ástæður hafi verið fyrirsláttur.
Hvað erum við Íslendingar þá að hugsa? Af hverju leyfum við þá Davíð og Halldóri að vaða uppi án þess að rökstyðja ákvörðun sína um að styðja þetta stríð? Fjölmiðlar hafa leyft þeim að spjalla við einhverja kellu sem er víst aðstoðar vara auka varnarmálaráðherra eða eitthvað álíka um hvað Bandaríkin eigi að drösla mörgum köppum til Íslands. Algjörlega eru þeir óáreittir. Hvernig getum við leyft okkur slíkt umhugsunarleysi og verðum við að spyrja okkur hvar gagnrýnin, sem á að vera í höndum stjórnarandstöðu og fjölmiðla hefur falið sig. Ekki leyfa þeim að komast upp með þetta. Umræðu núna, Takk!

Bragi reit 12:39 EH | Comments (22)