maí 29, 2003

Gaman með Hrauni og 5tu

Það verður svo æðislegt að fylgjast með Zato og Hr. Muzak spila undir nafninu Hraun og að sjá 5tu herdeildina verður enn betra. En hvar getur maður orðið vitni að slíku undri.
Jú, á Sólon, Sunnudagskvöldið komandi Klukkan níu 21:00.
Enginn þarf að borga sig inn og enginn verður svikinn af tveimur frumlegustu tónlistarfyrirbærum norðurhjara.
Ekki missa af þessu.
Með þessum tónleikum verður flóði sleppt yfir landið og ekki stoppað fyrr en heimsyfirráð eru fyrirséð.

Bragi reit 01:29 EH | Comments (28)

maí 28, 2003

Gaman í Lundúnum

Ég var í Lundúnum um helgina eins og vel lesið fólk hefur sjálfsagt áttað sig á. Þetta byrjaði með vandræðum og vorum við tvo tíma að koma okkur upp á hótel eftir að við vorum lent vegna bilunar í lest sem við fórum með. Það er kannski fínt að það komi fram að þessi hópur sem þarna fór með mér til Lundúna var starfsfólk Priksins eins og það leggur sig. Eftir ferðina þá voru flestir orðnir of þreyttir til að gera neitt, en stuðboltinn ég var ekki lengi að koma djammhungrinu fyrir í fólkinu og leiðin lá beint niður á Bar Rumba rétt hjá Piccadilly Circus þar sem Bad Company og Ray Keith ásamt fleirum voru að spila. Þvílíka trommubassa geðveikin sem átti sér stað þarna. Við dönsuðum í ca. fimm tíma og ég komst að undraáhrifum gosdrykksins Red Bull einum of vel þetta kvöld. Um tvöleytið þetta kvöld kom Raggi (gamall vinur minn úr grunnskóla og einn eiganda Priksins) með tvær Kampavínsflöskur og sturtaði úr einni yfir mig Schumaker style. Jibbý ég átti ammli!!! Bragi er 25 ára. Eftir Bar Rumba þá kíktum við á Burger King og ætluðum að fá okkur aðeins í gogginn en viti menn, gera þeir ekki þau mistök að hafa tónlist í gangi og hvað þýðir það fyrir skemmtanaþyrsta íslendinga annað en partý? Þannig að okkur tókst að breyta á einni mínútu rólegum Burger King yfir í skemmtistað þannig að dyraverðirnir réðu ekki við neitt. Þegar við komum upp á fjögurra stjörnu hótelið okkar (blás á neglur) þá reyndi ég að sofna en þá enduruppgötvaði ég áhrif Red Bull. Voðalega er ég ánægður með að þetta sé ekki flutt inn til Íslands. Ætli ég hafi ekki sofnað um áttaleytið um morguninn og vaknað þrem tímum seinna. UUUrrrrrgghh
Næsta dag þá var ég dreginn í eitthvað búðarráp sem ég engan veginn nennti og sleit mig því frá þeim hóp. Ég er greinilega ekki þessi venjulegi Íslendingur sem eyðir helming eða meira af fríinu sínu í að fá góða díla á þetta og hitt. Allavegana þá fór þessi dagur að mestu leyti í að gera ekki neitt. Ég gerði síðan heiðarlega tilraun til að borða góðan mat í Lundúnum en mitt gamla álit á matnum þarna batnaði ekki mikið. Steikhús ættu að vera öruggari en aðrir staðir en guð minn góður þetta var ógeðslegt. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa þessu fyrir ykkur, þetta var of vont. Um kvöldið reddaði Lilja Nótt okkur svo inn á stað sem heitir Embassy. Þegar við komum þangað áttaði ég mig alveg á hvernig staður þetta var og setti ég strax upp snobbnefið sem ég hafði þróað hjá Rex og mér leið eins og heima hjá mér. :) Við vorum leidd inn í VIP herbergið þar sem ég setti mig strax inn í það að panta kampavísnflöskur á liðið og bað um eitthvað óáfengt handa tveimur dyravörðum sem við vorum með í ferðinni. Reyndar þá kallaði ég þá “bodyguards” og um leið þá jókst sýndamennskuvirðingin um einhver prósent. Þetta var ekkert voða gaman en samt soldið sérstakt að vera innan um svona ríkt fólk sem er alveg sama. Smá munur á því og þeim sem við höfum heima þar sem ef það hefur efni á því að kaupa sér BMW þá er það allt í einu orðið flottast. Eftir þetta þá kíktum við á stað sem þessi Andrew sem Lilja þekkti var með. Alveg fínn staður og gaman að heyra svona old school house einstöku sinnum. Þetta var ágætisammliskvöld nr.2 og ég fékk blankheit í kaupbæti.
Næsti dagur var eins og forgarður helvítis. Ég vaknaði með magapínu dauðans og við gönguferðina í Hyde Park þar sem ég reyndi að borða breska pylsu versnaði hún bara. Hélt að ég væri bara þunnur en þetta var bara ekkert fyndið. Sofnaði snemma þetta kvöld en sá samt íkorna.
Sunnudagurinn var ágætur. Rölti upp í Notting Hill og sá fólk með undarlegar hárgreiðslur. Annars var ekkert merkilegt við þann dag nema hvað ég fór heim. Það var gaman. Þessi saga hljómaði eins og “við vorum búnir með peningana endi á bíómynd” Það er rétt ég var búinn með péningana á laugardeginum og gerði ég voða lítið eftir það.

Bragi reit 02:32 EH | Comments (175)

maí 26, 2003

Kominn heim spúkí sjitt

Ég er nýkominn heim íúr London reisu. Skrifa um hana á morgun. Þetta er samt helvíti spúkí sjitt sem hún Alda vinkona var að senda mér.

Bragi reit 11:15 EH | Comments (69)

maí 21, 2003

Um hræðslu hægri manna.

Svansson hlekkjar á þessa færslu á Frelsi.is. Þetta er að mati Svanssons dularfullt en mér finnst þetta bara fyndið. Þarna eru líklega einhverjir ungir sjá ofsjónum yfir að nasisminn hafi almennt verið flokkaður með hægri stefnum og eru kannski hræddir vegna þessa um að vera óþægilega tengdir við hana. Þetta er hins vegar þarflaus ótti þeirra þar sem þjóðernissósíalisminn er stak í mengi pólítískra stefna rétt eins og kommúnisminn í Sovét og fasisminn á Ítalíu og verður hann ekkert flokkaður með hægri stefnum nútímans, nema þá að sjálfsögðu nýnasisma. Þannig að ungir sjálfstæðismenn ættu ekkert að vera að reyna að klína þessu upp á aðra og sjálfir ættu þeir að anda rólegar vegna fjarlægðar nasismans frá sjálfstæðisstefnunni, jafnvel þótt að allir nasistar Íslands hefi endað uppi í Sjálfstæðisflokknum.

Bragi reit 03:00 EH | Comments (16)

maí 20, 2003

Besta eurovision lag í heimi!

Ég vil benda ykkur á að kjósa Alf Poier þegar kemur að stóru stundinni á laugardaginn. Austurríska lagið í ár er snilld. Farinn til London í Eurovisionpartý.

Bragi reit 04:47 EH | Comments (234)

maí 14, 2003

Hmmm Tapsárir?

Þetta hafði Vefþjóðviljinn að segja um kosningarnar. Þarna er skrifað af mikilli list og er höfundi mikið í mun að sannfæra aðra um að samanburður við aðrar kosningar skipti ekki máli það sem skipti máli er að Sjálfstæðisflokkurinn vann þar sem hann fékk flest atkvæði. Ég elska fólk með svona rökhugsun.
Síðan verð ég að minnast á þessa frétt sem var ætluð til þess að hressa landann við en ef hún er skoðuð gaumgæfilega þá sjáum við að hvað samkeppnishæfni okkar þá erum við kannski í svona fertugasta sæti. Lönd undir 20 milljónir anyone

Bragi reit 10:41 FH | Comments (13)

maí 13, 2003

Smásagnavefsafn

Ég hef lengi verið að velta fyrir mér því sem Níels vinur minn hefur mikið verið að leggja fyrir sig. Það er að skrifa smásögur. Ég hef gert eitthvað af þesu sjálfur en flest af mínum sögum eru stílæfingar og ekki að mínu mati hæfar til birtingar, jafnvel þó að ég hefi á einhverjum undarlegum stundum gert svo. Eflaust má finna eina eða tvær sögur í sarpinum hér til vinstri. Í rauninni er ég ekki að velta fyrir mér skrifunum sjálfum heldur birtingu á þeim. Ég veit að Níels var að hugsa um að setja upp síðu fyrir sögur en ég hef á tilfinningunni að það hafi dottið upp fyrir. Jafnvel þótt að gamla síðan hans innihaldi nokkrar góðar. Með tilkomu Kistunnar þá hefur upplýsing um íslenskar bókmenntir hafið almennilega innreið sína á netið en mér finnst hún ekki sinna því nýsköpunargildi sem slík síða ætti að hafa. Þess vegna er ég að hugsa um að setja upp undirsíðu eða jafnvel aðra síðu þar sem bókmenntaumræða á að fara fram og hún á líka að vera gagnabanki yfir smásögur og ljóð óútgefinna höfunda og þannig ætti hún bæði að virka sem afþreyingarvefur og sem umræðugrundvöllur.
Allt í lagi, þá er bara eftir að skrifa tvær síður í viðbót um samsemdarefnishyggju og höfnun Kripke á henni og lesa örlítið meira í rökfræði, massa prófið og þá getum við öll glaðst helling og leikið okkur í ultimate frisbee.

Bragi reit 12:38 FH | Comments (25)

maí 11, 2003

Var þetta hann Bjöggi frændi?

Þetta hefur maddamman að segja um úrslit kosninganna. Mér sýnist það vera Bjöggi frændi sem skrifar greinina. Nú verð ég að segja að í fyrsta skipti í langan tíma er ég sammála honum frænda mínum. Áfram Valþjófsdalur!

Bragi reit 03:24 EH | Comments (155)

Bara búið?

Ég er búinn að heyra mikið um það að Sjálfstæðisflokkurinn sé að gelda afhroð í þessari kosningabaráttu. Mikið finnst mér það leiðinlegt þegar flokkur tekur sig til og þurrkar út náttúru heillar tegundar. Nú hef ég ekki gerst svo frægur að sjá þetta fræga afhroð en af nafninu að dæma er það nú ekkert sérlega fagurt dýr. (rim shot)
Ég skil ekki hvernig bændaflokkurinn getur verið svona stór. Átján prósent er allavegana tíu of mikið. En svona lætur fólk plata sig með auglýsingum. Mér finnst það ömurlegt að fólk láti sér detta það í hug að kjósa eftir auglýsingum. Hvað erum við eiginlega að kjósa? Auglýsingastofur? Sá sem er fyndinn og misbýður vitsmunum fólks hvað mest fær mest fylgi. Sama finnst mér reyndar um þessi svokölluðu málefni sem allir eru svo hrifnir af og nefna svo dæmið sem þeir þekkja máli sínu til stuðnings. Þessi málefni eru náttúrulega ávallt einhver hraðsuða sem fer vel í munni en um leið og við kyngjum þeim fáum við niðurgang. Málefni eiga ekki að ráða því hvað við kjósum að mínu mati. Stefna flokkanna almennt, hvernig við höfum upplifað ríkisstjórnina, treystum við stjórnarandstöðunni, viljum við breytingar, hver er líklegastur að koma þeim breytingum á framfæri sem við viljum.
Soldið of seint í rassinn gripið en samt.
Samfylkingin er sigurvegari kosninganna. Húrra fyrir því!

Bragi reit 02:46 EH | Comments (53)

maí 10, 2003

Bölvaður ríkiskommúnismi!

Hvers vegna er ég byrjaður að líta á Sjálfstæðisflokkinn sem gamaldags kommúnistaflokk sem líkist óneitanlega þeim er stóð með hamar og sigð í hendi á rauðu torgi. Einkennin eru nánast öll til staðar.

Langur valdatími.
Spilling viðgengst í flokknum.
(Árni Johnsen)
Fimm ára áætlanir. (Kárahnjúkavirkjun)
Fyrirgreiðslur handa dyggum flokksmeðlimum. (Landsbankinn, ÍE, Áburðarverksmiðjan, yfirmenn stjórnsýslunnar)
Umhverfi valdamanna gert stórfenglegra en almenningur á að venjast. (klósett Sollu P)
Mikil miðstýring innan flokksins.
Flokkshollusta einkennist af hræðslu.
Einn foringi.
Yfirstjórnin hefur gaman að hersýningum og líkum hlutum.
(Davíð hefur meira að segja prófað að fara í stríð)
Stækkandi ríkisbákn.
Hærri skattar.
Skömmtunarstefna tekin upp.
(Byggðakvóti)
Vinfengi við Guðlegan leiðtoga Kína.

Þetta gæti haldið áfram endalaust. Ég segi að í dag vonast ég til að þessi flokkur verði hrakinn frá völdum, hann klofni og alvöru hægri flokkur myndist og hagsmunapotararnir stofni bara sinn eiginn Kristilega Þjóðarflokk.

Bragi reit 06:44 EH | Comments (9)

maí 08, 2003

Sá fyndið

Sá eitthvað fyndið í dag. Man ekki.... Jú alveg rétt, það var félagi minn sem skartaði barmmerki Nýs afls. Hélt ég ætlaði að kafna úr hlátri en ákvað að beita hann ekki skoðanakúgun og leyfði honum að halda sínu barmmerki sem ég síðan komst að því að væri meinfyndinn brandari sem besti vinur hans hafði troðið upp á hann. Óskaði samt nafnleyndar vegna stöðu hans í þjóðfélaginu. Það eina sem ég get er að hann er það sem ég hef skilgreint á síðunni sem úngpólítíkús. Rímar við Markús.

Bragi reit 06:39 EH | Comments (116)

maí 07, 2003

Öppdeit

Mér sýnist jafnréttishugmynd Davíðs Oddsonar vera einangruð við það að veita ungum konum það jafnrétti sem þær eiga skilið. Allavegana lét hann í það skína í áróðursmyndbandi sínu í Sjónvarpinu. Hann talaði um að úr skólunum væru að koma myndarlegar ungar konur sem eiga eftir að láta til sín taka.(Ekki nákvæm tilvitnun) Ekkert minntist hann á hinar konurnar sem kannski hafa sömu menntun og þær ungu sem eru að mennta sig. Enga þörf sér hann á því að losa þær undan vistarbandi lágstéttarstarfa.
Ég er ekkert gífurlega ánægður með Vinstri Græna þessa dagana og finnst mér nauðgunarmálið þeirra ekki vera mál sem á að setja fram á þennan hátt. Já það er ógeðslegt að konum sé nauðgað. Já 10-20% kvenna verða fyrir kynferðisofbeldi. En það þýðir ekki að einn af hverjum fimm karlmönnum á Íslandi sé nauðgari. Það þarf engan reiknisnilling til að sjá að einn fimmti er hæsta mögulega talan. Lægsta mögulega talan er einn. Eflaust eru til stórtækir kynferðisafbrotamenn. Og að vera tekin í bólinu(no pun intended) með það að lýsa því yfir að enginn á listum VG séu kynferðisafbrotamenn er náttúrulega bara þversögn við hvernig á málum var haldið í fyrra atriðinu.
Framsókn hefur verið að sækja í sig veðrið að undanförnu. Ég skil ekki afhverju. Gleymum því ekki að Framsókn hefur verið með landbúnaðaráðuneytið að gera í þessari ríkisstjórn sem nú er að fara frá. Á þeim tíma sem stjórnin hefur setið hefur sú stétt hrapað í tekjum og er nú fátækasta stétt landsins. Núverandi Landbúnaðarráðherra hefur verið algerlega óhæfur til að takast á við þann vanda sem steðjar að landbúnaðinum. Halldór brýtur þvert gegn skýrasta þjóðarvilja sem mældur hefur verið og styður stríð gegn Írak, bíddu, ekki bara styður, við erum þáttakendur! Valgerður (Álgerður) treður inn virkjun sem er ein af verstu virkjanamöguleikum sem í boði voru af að því virðist af einskærri þrjósku. Jón Kristjánsson hefur verið svo sofandi í Heilbrigðisráðuneytinu að Suðurnesjamenn hafa þurft að keyra til Reykjavíkur til að fá uppáskrifaða norska brjóstdropa. Páll Pétursson er Félagsmálaráðherra!!!??? Siv (the destroyer) Friðleifsdóttir Umhverfisráðherra hefur einn versta ferilinn af þeim öllum. Hún er ekki Umhverfisráðherra. Hún barðist hart fyrir því að við mættum menga meira en aðrir í heiminum. Hún barðist fyrir því að við gætum sökkt landinu. Uppfok á landinu hefur sjaldan verið alvarlegra. Enginn Íslendingur flokkar rusl. Ennþá tíðkast að henda plastflöskum í ruslið. Þetta er bara ótrúlegt.
Það er óþarfi að tala um Sjálfstæðisflokkinn. Mér persónulega finnst að þeir hægrimenn sem í flokknum eru eigi að reka LÍÚ pakkið úr flokknum eða einfaldlega stofna nýjan hægriflokk sem stofnaður er í kringum hugmyndir en ekki hagsmuni. Það hefur komið skýrt fram í þessari kosningabaráttu að Sjálfstæðisflokkurinn er í hagsmunagæslu fyrir efnamenn innan flokksins.
Frjálslyndir mega eiga það að þeir eru ákveðnir. Það fór um mig þegar ég sá Guðjón A. lúinn og þreyttan eftir að hafa keyrt á hross úti á landi. Hann var samt einarður og fylginn sér. Hins vegar verður að teljast þeim til lastar að vanreikna tillögur í skattamálum um 12 milljarða. Greinilegt að þarna er á ferðinni eins málefnis flokkur. Spurningin er hvort það sé ekki bara allt í lagi. Þannig er að slík framboð vekja menn oft til umhugsunar hvað sé að í þjófélaginu.
Nýtt Afl virðist vera týnt einhvers staðar í Grafarvoginum. Vinsamlegast ef þið finnið það, látið það vera fram yfir kosningar.
Hins vegar virðist Samfylkingin vera að breyta áherslum sínum í áróðri og Ingibjörg er ekki jafnmikið í sviðsljósinu og hún var. Auglýsingarnar eru byrjaðar að líkjast þjóðerniskenndarauglýsingum Sjálfstæðisflokksins og svo virðist bara að þau séu á siglingu.

Bragi reit 11:24 EH | Comments (260)

Með bakið við vegginn

Vindar breytinga? Það er bara eins gott. Ég flyt til Danmerkur ef þessi ríkisstjórn heldur velli. Hún hefur virkað sem hinn besti áttaviti sem ég hef fundið til þessa. Allt sem hún stendur fyrir hef ég verið á móti.
Ég vil sjá nýja ríkisstjórn sem hefur dug í sér til að takast á við fjárskort Háskólans,
gera það að verkum að við þurfum ekki að bíða í viku eftir tíma hjá heimilislæknum,
jafna tækifæri karla og kvenna,
berjast við fátækt í landinu,
gera stjórnsýsluna gegnsæa,
vernda umhverfið í stað þess að "vernda" umhverfið með því að breyta því eftir eigin geðþótta,
lækka skatta á nauðsynjavörum,
breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu,
koma í veg fyrir að efnamenn geti falið launin sín með því að kalla þau fyrirtækjanöfnum,
gera eitthvað af viti hvað varðar landbúnaðinn og afnema vistarbandið og átthagafjötrana sem bændur búa við,
styður ekki hvaða vitleysu sem Bush dettur í hug,
býður ekki í heimsókn fjöldamorðingjum,
brýtur ekki á mannréttindum borgaranna,
níðist ekki á öryrkjum,
fara ekki með fjármuni ríkisins eins og Árni Johnsen
og gerir bara meiriháttar húsþrif í ráðuneytunum.

Við þurfum á nýrri stjórn að halda.
Þetta er bara yfirborðið.

Bragi reit 01:57 FH | Comments (31)

maí 05, 2003

Glory, Glory Man United!

Við erum meistarar! Við erum meistarar! Gott á alla hina. Ahhhhhhhhhh Það er gaman að halda með United í dag og fleiri gleðifréttir eru þær að Stoke náði að halda sér uppi í fyrstu deildinni. Þetta var fyrsta og eina íþróttatengda blogg sem ég hef skrifað. Vonandi munu þau verða fleiri í kjölfar sigra United í meistaradeildinni að ári og fleiri ósigruðum titlum strákanna hans Fergusons.
Annars þá auglýsi ég eftir tveim til þrem dögum ef einhver sér fram á að hafa nægan tíma. Það væri fínt að skeyta þeim inn á milli mánudags og þriðjudags um miðnætti. Kominn í tímahrak hvað ritgerðir og próf varðar. Þetta reddast samt alltaf.
Finnst ótrúlegt að VG skuli vera að benda á tölfræðigögn um nauðganir sem segja að 10-20% af öllum karlmönnum á Íslandi hafi og muni fremja nauðgun. Síðan sverja þau af sér að innan VG séu nauðgarar. Veit ekki hvað mér á að finnast um þetta. Farinn að læra.

Bragi reit 02:30 FH | Comments (85)

maí 01, 2003

Úttekt á femínistum

Allt í lagi. Þá er kominn tími til að anda djúpt og róa sig aðeins niður. Ég held að ég sé ekki eina manneskjan sem hefur fundist umræðan um femínistafélagið vera farin út fyrir öll siðleg mörk. Þeim hefur verið líkt við ógnarstjórn Ísraela, og mörg andstyggileg orð hafa fallið í þeirra garð. Ekki það að femínistafélagið hafi verið svo siðleg sjálf. Á póstlistanum reyndu bæði Már og Unnur að koma fram sínum skoðunum um Draum Gyðu og fleira sem þeim þótti vera að í samtökunum en fengu svo skít til baka á póstlistanum.
Svona gengur náttúrulega ekki. Í fyrsta lagi er að mínu mati enginn femínisti marktækur ef hann/hún er í leit að umframréttindum. Slíkt á enga samleið með femínistum sem vilja koma fram kvenfrelsi og jafnrétti. Aðferðafræðin virðist vera að vandræðast fyrir fólki. Auðvitað er til fólk sem er róttækt og sættir sig ekki við neitt misrétti og heimtar breytingar hið snarasta. Þetta sjónarmið er til og er mjög marktækt. Hins vegar verðum við að átta okkur á því að það er einfaldlega ekki mjög raunsætt. Einnig þá brýtur þetta sjónarmið gegn öðru sjónarmiði sem þetta sama fólk virðist trúa mjög heitt á en það er lýðræði og að leyfa meirihlutanum að ráða, gera það sem kemur sem flestum til góða án þess að það skaði hina verst settu. Þar sem þessir hópar róttæklinga eru venjulegast litlir en háværir þá verður að athuga það að líklegast er hópurinn sem er andsnúinn svona kröftugri baráttu og hraðri breytingu miklu miklu stærri. Hins vegar eins og ég minntist á hér á undan þá eru þessir hópar mjög háværir og gera lýðræðinu gott eitt til með því að nýta sér málfrelsi sitt. Hins vegar lenda hógværir hópar sem kannski eru í ráðandi meirihluta oft í því að vera ekki nógu ákafir í sínu og raddir þeirra drukkna. Nú er það þannig að í þessarri rökræðu hef ég verið að lýsa meira mismunandi hópum sem berjast en það sama getur átt við í félagi manna.
Þetta er vandamál sem við erum kannski að verða vitni að núna í umræðunni. Lítill öfgafullur hópur í femínistafélaginu sér að þarna er félag sem hefur stækkað umfram björtustu vonir og ákveður að misnota félagið til að koma fram skoðunum sínum og framfylgja þeim.
Einnig verðum við að athuga um hvað þessi umræða fjallar. Að miklu leyti fjallar þetta um drauminn hennar Gyðu sem mér finnst bara ekkert koma femínisma við. Svipað eins og kynþáttahreinsanir koma sósíalisma ekkert við. Einnig þá hefur gagnrýninni verið beint að femínistafélaginu fyrir að vera að leggja vefsíður, fyritæki og aðra miðla í einelti. Að sögn félagsins hafa einungis einstaklingar haft samband við þessa miðla án þess að vera að gera það í nafni félagsins. Þetta hlýtur að teljast barnaleg afsökun hjá femínistum. Að neita því að gagnrýnin hafi sprottið upp á póstlistanum er sögufölsun. Þó að fólkið sem hafði samband hafði ekki uppáskrift frá félaginu þá er ég þess fullviss um að ekki hefði það farið að hafa samband við þessa miðla ef félagsins nyti ekki við.
Siðferðisleg málefni eru líka erfið í meðhöndlun. Er það jafnrétti og hluti af feminisma að hindra málfrelsi og segja fólki hvernig það á að haga sér. Ég hafði alltaf trú á því að þetta væri mönnum frjálst. Ég held að markmið femínista hljóti að vera að jafna launin, réttindin, breyta uppstillingu vinnumarkaðarins og fleiri áþreifanlegar breytingar sem ekki eru partur af einhverri siðferðislegri "ég skal sko segja þér hvað þú mátt segja og gera" herferð, sem líkist herferð "The Moral Majority" í Bandaríkjunum með Jerry Falwell í fararbroddi.

Bragi reit 06:37 EH | Comments (33)

Viðhorfskönnun

Hvur andskotinn. Er égvirkilega svona frjálslyndur. Og meiri Framsóknarmaður en þykir hollt. Viðbjóður

1. Samfylking (xs). 46%
2. Frjálslyndi flokkurinn (xf). 46%
3. Vinstri grænir (xu). 31%
4. Framsóknarflokkur (xb). 31%
5. Sjálfstæðisflokkur (xd). 23%

En í þessari kem ég betur út thank god


Flokkur Samsvörun
Samfylkingin (S) 84%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (U) 83%
Nýtt afl (N) 82%
Frjálslyndi flokkurinn (F) 76%
Framsóknarflokkur (B) 69%
Sjálfstæðisflokkur (D) 57%

Bragi reit 05:16 EH | Comments (117)

1. maí Félagar til hamingju!

Fram þjáðir menn í þúsund löndum...
Ó, hve létt er þitt skóhljóð...

hammer.jpg
Bragi reit 12:14 EH | Comments (6)