apríl 30, 2003

Áhyggjur

Ég hef áhyggjur af velgengni Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum að undanförnu. Fólk virðist vera byrjað að láta "fyndnu" auglýsingarnar hafa áhrif á sig. Ég segi það vegna mikillar trúar minnar á það að fólk geti ekki látið plata sig af málefnunum. Public Enemy söng hástöfum "don´t believe the hype". Nú bið ég ykkur um að sleikja ekki feldinn á rollunni, hví, jú hann er beiskur.

Bragi reit 10:20 EH | Comments (105)

Harmakvæði og heimsósómi

Ég er búinn að vera veikur í næstum heila viku. Mér gremst það og slíkt á náttúrulega ekki að leyfast hraustum karlmanni eins og mér að láta undan bakteríum og öðrum örverum sem á mig herja. Skítt með það. Það sem ég er búinn að vera að hugsa um á meðan veikindanna hafur gætt er HABL. Þið kannist betur við HABL sem SARS eða skæða lungnabólgan sem herjar núna á heiminn. Vinur minn Tim, enskur herramaður sem er menntaður í umhverfisverkfræði og líffræði að ég held er þess fullviss að þessi veira sé upphafið að einhverju sem líffræðingar kalla "cull" með skort á betra orði. Þetta "cull" er sem sagt atburður og röð atburða sem verða til þess að sú tegund sem fyrir "cullinu" verður fækkar gífulega um marga tugi prósenta. Erfitt að mynda sér skoðun á þessu. Mér finnst þetta hljóma svo náttúrulegt og eðlilegt en á sama tíma óskar maður að sjálfsögðu engum dauða og vesæld. Ég veit að sjálfsögðu ekkert um svona "cull" en það væri gaman að heyra frá þeim sem telja sig vita eitthvað í þessu máli.

Bragi reit 02:07 EH | Comments (344)

apríl 25, 2003

Miðbær í molum?

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var helsta útspil Sjálfstæðismanna í málum miðborgarinnar að miðbærinn væri orðinn niðurníddur og verslanir og önnur fyrirtæki flýðu miðbæinn í hrönnum. Oft fékk maður tilfinninguna að miðbærinn væri orðinn að eins konar Sódómu og að hér (ég hef búið í miðbænum í 3-4 ár) væri eingöngu stundaður hórdómur og eiturlyfjamisferli. Ekki það að slíkt sé ekki stundað í miðbænum en ég leyfi mér að efast um að það sé í meira mæli en í miðbæjum annarra borga í löndum sem við Íslendingar erum fægir fyrir að miða okkur við.
Ég rölti oft um miðbæinn og í kvöld gekk ég upp og niður laugaveginn með Jósa vini mínum. Eftir að leiðir skildu þá rölti ég einnig örlítið um Þingholtin og skoðaði húsin og andaði að mér fríska loftinu. Mannlífið sem Sjálfstæðismenn reyndu að telja okkur trú um að væri horfið úr miðbænum virtist mér vera ennþá til staðar. Fólk að rölta á milli bara, inn um gluggann á einum pöbb sáum við fjöldann allan af fólki vera að njóta tóna einhvers jazzbands og fjöldinn allur af útlendingum að ráfa um og allt virtist þetta fólk vera að njóta lífsins og enginn virtist vera að hafa af því neinar gífurlegar áhyggjur þó að Body Shop hefði flutt upp í Kringlu. Ætli einhver taki sig ekki til og breyti húsnæðinu í írskan pöbb. Miðbærinn er ekki í neinni niðurníðslu, hann er að breytast. Miðbærinn var fyrir skömmu aðalverslunarstaður borgarinnar. Þar kom fólk til að versla föt og skartgripi, fjöldinn allur af sérvöruverslunum og galleríum var þar, búðir sem seldu furðulegustu og sérhæfðustu vörutegundir, ein búð seldi eingöngu perúska handgerða muni eftir ömmu búðareigandans og einnig mátti finna búð fyrir aftan hielsuhúsið sem seldi galdradót, tarotspil og orkusteina. Ég sé ekki að fjölbreytnin hafi farið úr miðbænum. Þó að einhverjar búðir með takmarkaðan markhóp hafi farið þá hafa aðrar komið í staðinn og það er einfaldlega eðlilegt að miðbærinn fari í gegnum vaxtarverki eða kannski er betra að líkja þessu við breytingarskeið kvenna. Það er gangur verslunar að með aukinni samkeppni þurfi verslanir að laga sig að aðstæðum og ef að örlög verslunar á Íslandi er sú að flytja sig í verslunarkjarna eins og Kringluna og Smáralind þá verður það bara að hafa það. Eða var það kannski vilji Sjálfstæðismanna í Reykjavík að koma í veg fyrir að Smáralindin myndi bera sig? Mér sýnist að í þessu máli hafi Sjálfstæðsmenn fetað í fótspor bænda snemma á tuttugustu öldinni sem fóru í kröfugöngu gegn símanum.
Eitt er samt að í miðbænum sem ekki er hægt að kenna stjórnmálamönnunum um. Það er viðhald og niðurníðsla húsa í Þingholtunum og ofarlega á Hverfisgötunni. Hvar sem litið er má sjá hús sem greinilega hefur ekki verið málað í langan tíma, ryðgað bárujárn og brotnir gluggar sem hefur verið límt fyrir. Þetta er furðulegt vandamál þar sem ég er ekki að tala um atvinnuhúsnæði heldur nánast eingöngu um íbúðarhúsnæði. Nú sýnist mér það vera frekar húsnæði sem er leigt út sem er svona illa farið og á það að mínu mati að vera framfylgt reglum sem mig minnir að séu til um viðhald leiguíbúða. Ég átta mig ekki heldur á eigendum húsanna sem búa í sjálfum húsunum. Málning kostar peninga geri ég mér grein fyrir og einhverjir hafa kannski ekki efni á því að halda við húsunum sínum eins vel og þeir vildu en tapið sem þeir valda sjálfum sér í leiðinni með því að vanrækja þetta er líka töluvert í formi lægra verðgildi húsnæðisins og umhverfisins.

Bragi reit 02:09 FH | Comments (65)

apríl 23, 2003

Ungur? Í pólitík?

Ég horfði á Kosningakastljósið í kvöld þar sem saman voru komnir fimm frekar ungir einstaklingar hver úr sínum flokk og voru þau látin karpa við hvert annað sem von er kosninga og vísa. Upp úr dagdraumum mínum flosnaði ég er skyndilega laust sú tilfinning að þetta væru jú allt saman ungpólitíkusar. Það er harðger tegund sem fellur undir þá skilgreiningu skal ég segja ykkur. Það þarf meira en ritgerðastuld eða vörsluskattaveiðivon til að fella þá tegund að vetri. Nú skal ég segja ykkur hvaðan ungpólitíkusinn kemur. Þegar hann fæðist þá líkist hann öllum öðrum í ættbálknum. Það er kannski aðal hans á yngstu árum að skera sig lítið úr. Hann er ekki með illa lagað nef eða vanskapað eyra, en dæmi eru til um að sjón hans þarfnist hjálpar. Við förum hratt yfir sögu og hittum ungpólitíkusinn fyrir í grunnskóla þar sem hann er strax byrjaður að láta að sér kveða. Hann býður sig fram til nemendastjórnar en passar sig á því að láta ekki of mikið yfir sér og lætur aðra um forsetatitilinn enda líkamlegur þroski oft það sem kemur manni áfram í grunnskólapólitík og oftar en ekki stendur ungpólitíkusinn illa í þeim samanburði. Eftir grunnskólann þá liggur leiðin í einn af stóru skólunum á höfuðborgarsvæðinu. Þar gengur hann í málfundafélög og reynir eins og hann getur að safna saman í kringum sig hóp manna og kvenna sem tveim árum seinna hyllir hann og tryggir honum formannsstólinn í nemendafélaginu. Þetta telur ungpólitíkusinn vera alveg nauðsynlegt skref í leið sinni að valdastofnunum landsins. Einstaka frávik eru á þessari reglu, en þau má finna í vinstri flokkunum og nýttu þau sér árangur í bæði Gettu Betur og MORFÍS til að skapa sér sitt "bakland". Þegar hér er komið sögu verður að gera greinarmun á vinstri og hægri ungpólitíkusum. Einstaka vinstri ungpólitíkus er gáfaður með eindæmum og hefur einstaklega gaman af því að láta aðra vita af náðargáfum sínum. Þetta kemur ekki fyrir meðal hægri manna. Gáfur eru taldar vera mönnum til vansa á hægri hliðinni og hlýðinn hundur er talinn betri en gáfaður hægri ungpólitíkus. Á framhaldsskólaárunum þróast stíll ungpólitíkusins í áttina að því að verða óræður í tali og hann leggur á sig að læra stór og flókinn orð sem gera vini hans agndofa er hann beitir þeim í orðræðu um allt og ekkert. Þetta verður til þess að vinahópurinn er stofnaður. Hann er nauðsynlegur hverjum ungpólitíkus. Í honum eru venjulega fólk með aðrar áætlanir í lífinu og hefur lítið vit á pólitík. Ungpólitíkusinn notar sér þennan hóp sem prufuhóp og leggur á sig að sannfæra alla í honum um að hans stefna sé rétt og þeir skrá sig allir sem einn í einhvern stjórnmálaflokk. Þetta ferli fer allt eftir höfði ungpólitíkusins og ef allt fer að óskum þá hefur hann drauma um að skapa eftir höfði Davís annan þríhöfða þurs. Þá kemur að því að Ungpólitíkusinn fer í Háskólann. Hann fer í HÍ útaf stúdentapólitíkinni eingöngu. Deildin sem hann velur sér fer eftir stjórnmálaskoðun hans. Ef hann er vinstrisinnaður þá skellir hann sé í eitthvert fag í Heimspeki eða Félagsvísindadeild, en ef hann er hægrisinnaður þá er Lögfræði eða Viðskipta og Hagfræðideildin augljóst val. Þá er að koma sér inn í valdaklíkurnar í háskólanum. Það reynist honum frekar auðvelt eftir að hann kemst að því að barist er um fólk til að fylla lista og notar hann einnig vinahópinn úr menntaskólanum til að koma sér ofarlega á lista. Formannsseta í stúdentaráði er honum æðsta takmark í háskólanum og einungis fáum útvöldum tekst að komast í slíkt. Litið er á þann árangur sem frímiða inn á Alþingi ef hugurinn liggur þangað. Nú ber að líta á innræti ungpólitíkusinns. Hann berst hatrammri baráttu til að komast til valda í flokki sínum. Hann fylgir ákveðinni stefnu í stjórnmálum en stundum er hægt að efast um trúverðugheit þess og lítur hann oft út fyrir að vera frekar að leita að völdum en betra samfélagi. Það sem má benda á í þessu dæmi er staðreyndin að hann eyðir gífurlegum tíma og orku í að komast á pallborðið í Silfrinu og Kastljósi á meðan raunverulegur áhugi hans á landinu og þjóðinni minnkar með hverjum deginum. Hann hefur fjarlægst samfélagið, sem hann vill svo mikið þjóna að eigin sögn, svo mikið að hann lítur á það sem hagtölur en ekki manneskjur. Menn og konur sem hafa það eitt að markmiði að ná völdum eru okkur hættuleg. Ungpólitíkusar og völdin sem þeir eru byrjaðir að ná dreifa hrolli um líkama minn. Að mínu mati þarf fólk að hafa marktæka reynslu af því að búa í samfélaginu og þroska til að átta sig á því hvað þarf að gera til að breyta því til betri vegar. Ég vil setja aldurstakmark inn á þing. Ég býst ekki við að verða vinsæll fyrir vikið, en þetta finnst mér.

Bragi reit 01:47 FH | Comments (176)

apríl 22, 2003

Trúnaður

Már er að velta fyrir sér málfrelsi hans á netinu og hefur áhyggjur af því að vinna hans fyrir ákveðin fyrirtæki hafi áhrif á skrif hans á netinu. Þetta finnst mér ekki vera raunverulegt vandamál. Það hefur verið hálfgerð samþykkt á fyrirtækjamarkaði sem og í pólitík að sumri hlutir eigi að vera trúnaðarmál og þar með eigi ekki að fara út fyrir tiltekinn hóp. Ég er andvígur flestum slíkum leyndarmálum. Ég hef alltaf haft þá skoðun að ef einhver hefur eithvað að fela þá sé annarleg ástæða fyrir því. Trúnaðarsamningar um að láta ekki upplýsingar um innviði fyrirtækis frá sér fara finnst mér út í hött. Ef innviðir fyrirtækja eiga ekki að vera aðgengilegar almenningi þá hefur fyrirtækið eitthvað að fela og það er venjulega eitthvað óheiðarlegt. Sumir myndu kalla þessa skoðun barnalega og úr takti við raunveruleikann. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ef allar skoðanir manna væru einskorðaðar við daginn í dag og þann raunveruleika sem við búum við í dag þá væri skoðanamarkaðurinn fátækari fyrir vikið. Auðvitað eru skoðanir mínar á þessum málum bundnar við draumaheim sem ætti að vera okkur til fyrirmyndar. Ég held einnig að flestir séu þessarar skoðunar fylgjandi en vilji ekki trúnaðar vegna láta þá skoðun uppi :)

Bragi reit 03:54 EH | Comments (205)

apríl 14, 2003

Svartsýni? Dæmdu fyrir þig

Mikið búinn að lenda í samræðum að undanförnu við menn sem eru gífurlega svartsýnir á ástand heimsins. Menn sem benda á réttilega að við séum að ganga á olíu, vatns, fosfat, og ég veit ekki hvað-forða jarðarinnar. Við látum stríð ganga yfir okkur eins og ekkert sé og bilin milli þeirra styttist nú óðum. Mann sem horfa til BNA sem hins mikla Satans vestursins og hugsa til framtíðarinnar með óhug. Þetta er að miklu leyti mikil svartsýni og að miklu leyti raunsæi. Ég vil meina að ég sé ekki jafn svartsýnn og þetta fólk(án þess að ég sé að draga það í dilka) og mér finnst við mannfólkið eiga möguleika á mikilli og góðri framtíð ef við byrjum að haga okkur skynsamlega. Þetta orð er hins vegar erfitt að nota um ástandið á heiminum eins og hann blasir við okkur í dag. Við Spillum náttúruperlum án þess að blikna. Við fjölgum okkur eins og við getum ekkert annað. Við drepum okkur sjálf með vopnum sem drepa allt annað í kringum okkur. Við erfðabreytum dýr og plöntur til að fá meira út úr þeim og þar með eyðileggjum við fjölbreytni þeirra. Við grisjum sjóinn eins og hann væri endalaus. Við sköpum sjúkdóma sem við smitum hvort annað með. Við leyfum vondum mönnum að ráðskast með framtíð jarðarinnar.
Þetta verður að stoppa.

Bragi reit 09:53 EH | Comments (30)

apríl 13, 2003

K-barátta

Ógeðsleg þessi kosningabarátta. Sigurður Kári D listamaður í Kinglunni í dag "Við höfum verið að gefa fólki páskaegg og tala við marga út á það snýst þessi leikur". Þar hafið þið það elsku Íslendingar. Sjalfstæðisflokkurinn er bara að leika sér. Ögmundur var að grilla pulsur ofan í fólk upp í útálandi Reykjavík, Framsókn gaf mini páskaegg í Smáralind og bjór á föstudag á Kaupfélaginu. Reynda hefur mér virst Framsókn vera ógeðslegust allra í kosningabaráttunni. Þeirra áhersla er að laða börnin að eins og einhver perri með nammi og hremma svo foreldrana í leiðinni. Birgitta Haukdal að syngja í opnun kosningamiðstöðvar. Ojj bara. Hefði verið í lagi ef það hefði verið það eina. En þeir hafa haldið áfram að stíla á börnin. Allt í lagi, að vera góður við börn er í fullkomnu lagi, en í guðanna bænum, þau hafa ekki kosningarétt! Látið þau í friði þangað til þau eru nógu gömul til að fera upp á milli. Sýnist Frjálslyndir ekki hafa efni á þessum aðferðum og verðum við eflaust látin töluvert í friði af þeim. Hins vegar býst ég við að Samfó verði með götuhátíðir og annað slíkt. Held ég að hinir flokkarnir geti lært ýmislegt af þeirra kosningabaráttu.
Nýtt afl og T listinn finnst mér hins vegar vera misheppnuð klofningsframboð úr Sjalfstæðisflokknum sem hafa engan grundvöll fyrir tilvist sinni. Samt held ég að við séum bara búin að snerta kosningabaráttuna með tungubroddinum. Við eigum eftir að kyngja ansi miklum skít áður en við fáum að velja 10. maí. Síðan hvet ég ykkur til að hrósa öllum litlu frambjóðendunum þegar þeir vilja sannfæra ykkur, vegna þess að í raun líður þeim mjög illa. Þeir vita sem er að eftir að þeir verða kosnir eiga þeir eftir að svíkja þig vegna breyttra aðstæðna og utanaðkomandi breyta.
Greyin, ó greyin.

Bragi reit 08:12 EH | Comments (160)

Kosningar Hnossningar

Jæja þá. Kosningar ekki satt? Herra kosningar! Smá ríspekt hérna!
Já það eru að koma kosningar. Það finnst sumum gaman og sumum finnst það bara ekkert gaman. Mér finnst það gaman. Ég er sem sagt einn af þeim sem finnst það gaman. Þar af leiðandi er ég ekki einn af þeim sem finnst það ekki gaman. Mér finnst líka Framsóknarflokkurinn vera krabbamein í íslensku samfélagi. Mér finnst svo mikið. Sumum finnst ekki jafn gaman að finnast og mér. Það er allt í lagi. Mér finnst Frjálslyndir vera ótrúverðugir. Sumir kalla það að finnast vera að hafa skoðanir. Ekki mér. Mér finnst það að finnast vera að finnast. Einhvern veginn höfðar T-listinn ekki til mín. Ef mönnum finnst það sama og mér verð ég glaður. Það er gott að vera glaður. Jafnvel betra en að vera ekki glaður. Ég er á móti Vinstri Grænum. Gleðin er það sem sumum finnst vera það sem er að þjóðfélaginu. Ekki finnst mér það enda er ég gleðin, ekkert annað en gleði. Reyndar getur gleðin stundum verið hamingja. Allir Sjálfstæðismenn klæðast jakkafötum og ég á bara ein, þessvegna er mér illa við Sjálfstæðisflokkinn. Ef fólki finnst að það sem þeim finnst sé eitthvað sem engum öðrum finnst, finnst þeim þau ekki vera fyndin. Samfylkingin er eitthvað svo klofvega. Finnst öðrum gaman að lesa svona greinar. Nýtt afl???? tíhí...Fyndið? Ég veit það ekki.

Höfundur þessarar greinar ber ekki ábyrgð á sjálfum sér hvað þá skrifum sínum.

Bragi reit 07:50 EH | Comments (320)

apríl 10, 2003

Strengir og toppform

Ég og ástin mín fórum í gymið í gær. Þetta verður að teljast markverður viðburður þar sem ég hef í sárafá skipti litið inn í slíka sali. Það er kannski ekkert markvert við þetta að öðru leyti nema kannski að það er erfitt að standa upp, halda á bolla, smyrja brauð og hnýta skóreimar. Annað, eins og að anda djúpt veldur líka vandræðum og ég held að ég sé ekkert á leiðinni að gera neitt af viti næstu dagana. Allavegana á meðan þessar harðsperrur eru að angra mig. Samt er verið að reyna að draga mig út í kvöld á sama stað. Það er sko átak. Ég er semsagt kominn með bumbu, tágrannur maðurinn. Þau kalla þetta forvörn. Samt verð ég að játa það að eftir púlið leið manni bara nokkuð vel.
Það var samt eitt sem ég tók eftir og fór svolítið í mig. Inni í salnum var maður sem var vaxinn eins og naut. Um leið og við komum inn þá byrjaði hann að glápa á mig. Svona eins og ég væri girnilegt lambalæri. Verandi vanur þessu frá öllum þeim stöðum sem ég hef unnið með samkynhneigðum karlmönnum var ég ekkert að kippa mér upp við þetta. Hélt hann væri bara að mæla mig út. Djöfull hafði ég rangt fyrir mér. Um leið og ég byrjaði að reyna að hreyfa við einhverju tæki var hann kominn upp að Kristjönu og byrjaði að kenna henni af einhverri barnslegri hreinskilni sem ég á erfitt með að skilja. Síðan hjálpaði hann mér í gegnum nokkur tæki og var svo áhugasamur að ég fékk á tilfinninguna að hann væri í einhverjum Samverjahóp lyftingastöðva. Hann leit út fyrir að átta sig ekki á því þegar ég sagði honum að þetta væri í annað skiptið á ævinni sem ég hefði komið inn í svona stöð og í fyrsta skiptið sem ég lyfti lóðum. Hann bara neitaði að trúa því að þetta væri ekki eitthvað sem ég legði sjálfan mig í hundrað og tíu prósent. Það sem verra er ég held að hann sé búinn að hanna eitthvað plan fyrir mig. "Til að komast í toppform". Ég er að hugsa um að láta glepjast til að,og munið þetta er eina ástæðan, til að koma meiri bjór fyrir í mallakút.

Þangað til næst, sælir félagar!

Bragi reit 02:43 EH | Comments (78)

apríl 09, 2003

Próf?

Búinn að vera að taka nokkur próf í dag hér landið sem ég er,


Switzerland
Switzerland -
A neutral power for as long as most can remember,
it has avoided war for several centuries.
However, it is still considered highly advanced
and a global power.


Positives:

Judicial.

Neutrality.

World-Renouned.

Powerful without Force.

Makes Excellent Watches, Etc.


Negatives:

Target of Ridicule.

Constant Struggle to Avoid Conflict.

Target of Criminal Bank Accounts.Which Country of the World are You?
brought to you by Quizilla


hér ég eiturlyfið


Cocaine
Cocaine.
You like to talk,
you like to run,
but most of all you like to have fun.


Which drug should you be hooked on? [now with pictures]
brought to you by Quizilla


hér er geðveilan mínnarcissistic


Which Personality Disorder Do You Have?
brought to you by Quizilla


og hér er ég í vondukallalandi


bathory
You are Elizabeth Bathory. (The bloodcountess)
Legend tells us that you, this very rich,
beautiful and high born woman tortured and
murdered some 650 young women and bathed in
their warm blood to keep yourself beautiful.
In some stories, it is said you have drank thier
blood as well. You were a sexual sadist on a
grand scale.
Ah vanity is your downfall. For shame!


Which Imfamous criminal are you?
brought to you by Quizilla

Hamingja eða hvað?

Bragi reit 07:43 EH | Comments (225)

Pípóli

Hef ekki tekið svona próf í langan tíma en sé þetta hjá honum Bjarna og ákvað að taka það.


I am
p

Everyone loves pi

_

what number are you?

this quiz by orsa

Hamingja, ég er pí. Miklu flottara en þessar náttúrulegu tölur sem ganga upp. Ég er líka góð afsökun rökfræðinga til að benda á að stærðfræðin sé ekki fullkomin, einungis ormleg rökkerfi geta nokkurn tíma orðið fullkomin.

Bragi reit 01:11 EH | Comments (224)

apríl 07, 2003

Partý gaman

Stebbi hélt upp á afmælið sitt á föstudagskvöld. Það verður að segja að lag kvöldsins var Danger (high voltage) með Electric six. Hugsið ykkur þýskan Antonio Banderas og fertuga hollenska nektardansmær í hörkusleik. Bara snilld. Annars leystist fjörið upp í algera vitleysu þegar einhver, líklegast Jósi ákvað að finna Moon Song og spilaði þetta í fimm sex skipti. Fyndið? já, of fyndið? gæti verið. Allavega þá var mikill hlátur og gleði þegar við yfirgáfum nýju íbúðina hans Stebba. Til hamingju Stebbi.

Bragi reit 12:17 EH | Comments (346)

apríl 02, 2003

Feminismi

Hún Unnur á nokkra góða punkta í sarpinum. Hún útskýrir í þessari grein ástæður fyrir femínisma sínum. Mér sýnist hún líka vera jákvæð gagnvart þessum nýju samtökum sem hafa verið stofnuð píkunni til heiðurs. Er það gott og blessað. Ég er eins og Bjarni sem virðist hafa farið á stofnfundinn með henni Unni sinni, karlkyns feministi. Ég verð hins vegar að játa það að líklega er ég að upplifa sjálfan mig sem feminista á öðrum forsendum en Unnur og Bjarni. Ég aðhyllist Valdahugmyndina um jafnrétti kynjanna. Þetta er svolítið erfið kenning að verja, sérstaklega í nútíma arðránssamfélagi, en verður maður ekki að gera sitt besta.
Að undanförnu er maður búinn að vera kaffærður í setningum eins og ,,ég er alveg fylgjandi jafnrétti kynjanna en mér finnst kynjakvótar vera brot á raunverulegum jafnréttindum." og ,,Það er alveg út í hött að fara að hygla konum eitthvað umfram karla einfaldlega út af því að þær eru konur." Svona setningar og rökemdafærslurnar sem þeim fylgja eru venjulegast sagðar af vanþekkingu þess sem setninguna yrðir. Mikill misskilningur virðist vera á meðal almennings um eðli jafnréttisbaráttunnar. Nú er svo komið að við höfum komið á, því sem næst kynblindum starfsmarkaði. Þessari röksemd er hægt að mótmæla og geri ég það sjálfur hér seinna í textanum en leyfum henni að standa einfaldlega til útskýringar á vandanum sem ég ætla að reyna að útskýra.

Ég ætla að útskýra eldri hugmyndir fyrst og koma svo að valdahugmyndinni sem hefur verið að sækja í sig og í leiðinni verið að draga að sér gagnrýni eins og segull í járnvörubúð.
Simone de Beauvoir er ein af upphafskonum kvenfrelsisbylgjunnar sem reið yfir vesturlönd á seinni hluta síðustu aldar. hún skrifaði um jafnréttisbaráttuna og stöðu konunnar útfrá tilvistarfræðilega(existensial) sjónarhorni. Það þýðir að hún leit á konuna sem konu fyrst en ekki sem hóp sem kallast konur. Þ.e. það er náttúruleg staðreynd að til eru konur og karlar, það sem skiptir máli er það sem konur (eða karlar) gera eftir fæðingu. Eyða lífinu í að gera. Svona eyðir hún hugmyndinni um að konan fæðist inn í einhverja aðstöðu sem hún eigi ekki eftir að geta slitið sig úr. Hún og fleiri hugmyndasmiðir kvenfrelsisstefnunnar litu þannig á að ekki eigi að líta á kyn manna sem hindrun eða hvata þegar verið væri að sækja um vinnu(vinnumarkaðurinn að sjálfsögðu stærsta málið í kvenfrelsisbaráttunni og því mun ég fjalla um hann sem dæmi). Það ætti að líta á umsækjendur kynblint. Í raun ættu allar stofnanir samfélagsins að líta á einstaklinga kynblint og verð ég að segja að þetta er viðtekin venja í dag.
Eins og kemur fram í mörgum fræðibókum um feminisma þá eru stórir ókostir við þessa hugsun. Hún leyfir öllum öðrum verðleikum að koma fram og hafa áhrif á stöðu manneskjunnar gagnvart vinnuveitandanum. Þetta þýðir að börn á framfæri konu(sem eru nánast ávallt í okkar samfélagi aðalumsjónarmaður barna) séu litin sem ókostur þegar kemur að því að velja á milli tveggja jafnhæfra einstaklinga og því verður sá einstaklingur sem ekki hefur þennan ókost ráðinn. (venjulega karlmaður) Annað dæmi sem segir til um hvað þessi kenning er ófullkomin væri að taka fyrir hæðar og þyngdartakmarkanir í störf. Slíkar takmarkanir eru kannski augljósustu dæmin um það hvernig vinnumarkaðurinn er hannaður með þarfir karlmanna í huga. Þarna er gott að taka slökkvistörf sem dæmi. Þar eru þyngdar og hæðartakmarkanir sem í raun koma í veg fyrir að nokkur kona geti sinnt störfum slökkviliðsmanns nema að hún sé feit og óeðlilega há. Þetta er dæmi um starf sem ekki þyrfti að hafa slíkar takmarkanir vegna samanburðar við önnur lönd. Í Japan er hæðartakmörkunin einungis 150 cm miðað við í kringum 175 á Íslandi(er ekki með nákvæma lýsingu á þessu) Ekkert bendir til þess að slökkviliðið í Japan standi sig ver í að slökkva elda en á Íslandi.
Þetta er kannski svolítil einföldun á málinu en staðreyndin er sú að nánast allt atvinnulífið hefur verið mótað eftir þörfum karlmanna og slíkt hlýtur að koma konunum illa. Stjórnunarstörf til dæmis eru flest hönnuð og löguð að stjórnunarstílum karlmanna sem (og nú er ég ekki að alhæfa heldur notast ég við empíríska fylgni) er kallaður reglustjórnun. Að hvika ekki frá reglunum og taka ekki ákvarðanir frá máli til máls. Þetta er nánast öfugt við hvernig konur stjórna. Þær vilja vega og meta hvert mál fyrir sig og taka mið af aðstæðum á meðan karlarnir þurfa á reglum að halda til að taka ákvörðun.
Þarna kemur Valdahugmyndin inn í dæmið. Hún segir til um að konur eigi að notast við völd sín til að jafna út möguleikana. Kynjakvótar, fæðingarorlof, ólöglegt að reka ófrískar konur, og fleiri hlutir eru afleiðingar valdastefnunnar. Þegar fólk dæmir hluti eins og kynjakvóta er það venjulegast vegna þess að það þekkir ekki forsöguna á bak við þá. Hins vegar er það umdeilanlegt hvort við eigum að halda í svona hluti að eilífu.

Hvað aðra siðferðislega hluti sem femínistar eru að stússast í verð ég að líkja þeim við félag feitra eða einhverjar svoleiðis pælingar. Konur verða að hætta að líta á sig sem konur fyrst og líta á sig sem einstaklinga í forgrunni. Vona að þessi "stutta" yfirferð mín vekji smá fjaðrafok.

Bragi reit 02:42 EH | Comments (15)

apríl 01, 2003

Gaman á Prikinu

Ég var að heyra að Prikið væri komið í samstarf við Emil nektarstaðaeiganda. Hann er búinn að vera eitthvað í fréttum að undanförnu vegna auglýsinga á ferðum til landsins og lýtaaðgerðum í leiðinni. Þessari auglýsingu hefur víst verið beint að nektardansmeyjum og hafa þær tekið vel í þessa hugmynd og fjölmennt til landsins að undanförnu. Núna vilja þær þakka fyrir sig og sýna nýfengna skartgripi sína í þakklætis og mótmælaskyni á Prikinu í kvöld. Þær vilja með athæfi sínu mótmæla því sem þær kalla vanvirðingu við starfstéttina og saka landlækni um hræsni og yfirgang í þessu máli. Sem sagt, allir á Prikið í kvöld og kíkjum á nýjustu afurðir íslenskra læknavísinda.

Bragi reit 03:09 EH | Comments (4)