janúar 27, 2003

Upphaf Baráttu

Málefnavinna Háskólalistans er byrjuð af fullum krafti. Ótrúlegt en sagt þá höfum við ekki lent í neinum vandræðum með að safna fólki. Fjöldinn sem mætti á fyrsta fundinn var meira að segja sambærilegur við góðar fjöldasamkomur hjá Röskvu. Þarna var breiður hópur úr öllum deildum með mismunandi lífssýn en allir áttu eitt sameiginlegt. Þetta voru allt háskólanemar. Þeim fannst öllum nóg að sameinast í því. Þetta er það sem ég hef alltaf verið að velta fyrir mér. Hvurs lags stéttavitund, ef ég má nota það hugtak, hafa háskólanemar ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þeir séu háskólanemar. Hugmyndin um að Vaka og Röskva séu byggðar upp á mismunandi hugmyndafræði þar sem stóri munurinn er aðferðafræðin er orðin frekar úrelt. Stefnumálin eru frekar einhlýt og virðast flestir vera að stefna að hinu sama. Það að stúdentar eigi að þola sundurþykkju og ósætti vegna mála sem ekki koma háskólanum við er út í hött. Háskólalistinn byrjar sína grunnvinnu á því að vilji nemenda er kannaður og útfrá því er stefnan tekin. Við munum ekki þröngva skoðunum stjórnmálaflokka í landspólitík inn á stúdenta. Slíkt eru stúdentar vel færir um að ákveða sjálfir. Nokkrir hlutir við kosningabaráttuna sem fara í taugarnar á mér. Það fyrsta er stofugangur. Það að frambjóðendur skuli ganga inn í kennslustofur og ónáða kennslu er út í hött. Þetta er óþarfa tímaeyðsla bæði nemenda og kennara. Miklu sniðugra að halda sérfundi innan hverrar deildar. Fjármál fylkinganna. Nú vita ekki margir hvernig Vaka og Röskva eru fjármagnaðar. Væri ekki helvíti athyglisvert að fá að skyggnast í bókhaldið til að ganga úr skugga um hvort stjórnmálaflokkarnir séu nokkuð að múta þeim. Símhringingarnar. Mundu stúdent minn kæri, þegar þeir hringja í þig mundu hver lætur þig í friði.

Bragi reit 03:48 EH | Comments (1)

janúar 24, 2003

Háskólalistinn

Fyrsti fundur Háskólalistans hefur verið haldinn. Loksins loksins er komið fram á sjónarsviðið hópur fólks sem er ákveðið í að umbylta löngu úreltu kosningakerfi sem háskólinn hefur búið við. Núverandi kosningakerfi gerir ekkert af því sem að til þess ætti að vera ætlast. Það tryggir ekki jafna skiptingu sæta á milli deilda. Það er sama sem ómögulegt fyrir einstakling sem vill berjast fyrir hagsmunum sínum að bjóða sig sjálfan fram því að kerfið er byggt upp fyrir hópa eingöngu. Núverandi kerfi hyglir einnig íhaldsframboðunum tveim Röskvu og Vöku með því að kosið er til tveggja ára í senn. Til þess að losa um grágrýtislegan tón stúdentaráðs hafa þrír hópar sem upprunalega ætluðu að bjóða sig fram dreift séð sér fært um að sameinast. Við bjóðum fram stóra breiðfylkingu hugsjónafólks sem ekki lætur það trufla sig hvar háskólanemar setja x á landsvísu.
Fyrir marga er stúdentapólitíkin spaug sem hefur staðið í of langan tíma. Nú er komið nóg af stuttbuxnaerjum og sóleyjarbrölti. Hagsmunir stúdenta eru of mikilvægir til að leyfa þessum tveim klíkum að leika sér með þá eins og legókubba. Stúdentar hugsa um stúdentastjórnmál sem baráttu milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það gengur ekki mikið lengur, þ.e. ef við ætlum að ná einhverjum árangri í baráttunni fyrir betri námslánum, fjölbreyttara námi og öllum þeim fjölmörgu atriðum sem stjórn stúdenta er kosin til að berjast fyrir. Við, stúdentar höfum þuft að sætta okkur við xxx. Ekki mikið lengur.

Bragi reit 01:12 EH | Comments (0)

janúar 23, 2003

Þegar glampinn gýtur

Tölvur framkalla glampa í augum manna. Glampinn er oft glær en nær þó stundum því takmarki sínu að kristallast í gluggalaga form. Sérstaklega kemur þetta fram í teiknuðum myndum fimm ára barna og myndlistarkennara. Þetta eru þó alls ekki þau einkenni sem eru hvað eindregnust við tölvunotkun. Oft tala menn um að augun þeirra séu kassalaga. Ég held samt að þeir séu að tala um sjónvarpsgláp. Aldrei heyri ég konur tala um slíkt. Kannski vita þær upp á sig skömmina. Tölvur eru notaðar mikið af fólki sem enn hefur hendur sér til hagræðis. Þess vegna kann mann að undra að tölvur eru jafnvel meira notaðar af þeim sem ekki hafa þann lúxus að geta hamrað á lyklaborð með eitilhörðum fingurgómum. Oft hef ég séð fréttamyndir af fólki sem hamast í gríð og erg við að stjórna tölvunni sinni með hökunni og sumir jafnvel með tungunni. Blint fólk nýtir sér jafnvel tölvutæknina en ég hef samt ákveðnar efasemdir um að þeirra tölvunotkun sé myndræn, hún hlýtur að vera táknræn. Glampinn sem ég minntist á fyrr er oft framkallaður af tölvuskjánum. Hins vegar með tilkomu nýtísku fíltera þá átti þetta vandkvæði að vera horfið en samt viðheldur glampinn sér. Sumir vilja meina að glampinn sé ímyndun þess er horfir. Ég vil halda því fram að glampinn sé guð.

Bragi reit 09:04 FH | Comments (0)

janúar 16, 2003

Smásaga í örstuttu máli.

Litli maðurinn sat. Í hægðum sínum. Frekar ógeðslegt. Enda hann búinn til úr velúr. Þetta er náttúrulega rugl. Tuskudúkkur hafa ekki hægðir. Hann reis upp. Gólfið nötraði. Ekki af sjálfu sér. Gólf gera ekki svoleiðis. Stóllinn vaggaði. Rugguró. Loftið var lævi þrungið. Þarf að mála loftið? Allir voru kátir en herbergið var tómt. Litli maðurinn gafst upp. Hann snéri upp á sig. Tvo hringi. Datt svo niður lúgu. Sum herbergi hafa lúgur. Þessi var í veggnum. Hann datt til hliðar niður. Þar hitti hann Viðar hlið. Hliðar eru ekki oft nefndar. Þessi hlið hét Viðar. Hún hélt sig til hliðar. Um sinn.

Bragi reit 09:37 FH | Comments (0)

janúar 13, 2003

Kraftur eftir fríið.

Búinn að taka mér smá frí til íhugunar og veikinda. Ekkert er betra til afslöppunar og endurnæringar og jólin. Eða svo hélt ég. Eftir hvorki fleiri né færri en átta fjölskylduboð um jólin og áramótin ákvað ég að reyna að hjúpa mig inni í íbúðinni minni með vídjó og nammi og konuna mína sem var nýkomin heim frá útlöndum. En því miður fyrir mig virtist hún vera á öðru máli og um leið og við vorum búin að vera góð við hvort annað þá var hún komin í málningarhugleiðingar. Hvað geri ég ekki fyrir þessa elsku og skokkuðum við svo í Byko og keyptum hvítt hvíta málningu. Litblindi ég vissi ekki að það eru víst til í kringum fimmtíu tegundir af hvítlitum í Byko. Við máluðum íbúðina á miðvikudaginn, allt nema svefnherbergið en þetta hefur eflaust verið of mikil áreynsla fyrir mig, dauðþreyttan manninn eftir ofát og jólastress. Ég lagðist í rúmið með hita um kvöldið og vaknaði veikur daginn eftir. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn ánægður með það að veikjast. Algjör endurnæring og hvíld í fjóra daga. Byrjaði í skólanum í dag og hlakka til að takast á við verkefni haustsins eilífa á landi klaka og klepra. Hef verið í miklum íhugunum varðandi pólitík og er að sjá að löngun mín er í þá áttina að vinna að stjórnarskiptum á landinu. Er í raun orðinn töluvert afhuga öllum stúdentapólitíkurpælingum. Allavegana hvað varðar sérframboð. Langar til að beina krafti í meiri hagsmuni mína en minni, þar sem ég mun ekki taka lán það sem eftir er námsferils míns í HÍ. Sjálfselska? Nei hvernig er það aftur, "practice what you preach". Með því að predikera það að stúdentapólitík sé hagsmunabarátta þá verður maður líklega að hafa ríkra hagsmuna að gæta ef þeirra á að berjast fyrir, ekki satt? Einhver comment? Er ég að hænsnast út? Á ég að ganga til liðs við annaðhvort aflið og berjast á þeim vettvangi? Hvað skal gera? Marinerum hugann í smá stund og komum fram með lausn á vandanum, en á meðan þá vil ég biðja ykkur um að veita mér liðsinni og skýra afstöðu ykkar til þessarra mála.

Bragi reit 11:14 FH | Comments (1)