des. 12, 2002

Stúdentar heyrið!

Í Háskóla Íslands er rotnandi epli. Þetta epli heitir stúdentapólitík. Stjórnkerfi nemenda er stjórnað af tveimur öflum sem Vaka og Röskva heita. Röskva hefur haldið um stjórnvölinn undanfarinn áratug en nú hefur Vaka komið sér í drottnunarhlutverk. Vaka þessi er á margan hátt ágætis félagasamtök. Innan Vöku eru mætir menn og mætar konur sem öll eiga sér draum. Sama má segja um Röskvu. Þarna eru greinilega á ferðinni tvö félög hugsjónamanna og kvenna sem berjast hatrammlega, en drengilega þó, um völd í stúdentaráði. Vandamálið er bara að draumurinn þeirra er kominn á villigötur. Hann hefur ráfað um dimma dali í lengri tíma og erfitt er að sjá að réttmætir eigendur hans séu hans leitandi. Og kannski er það einmitt vandamálið. Ungu stríðsgarparnir og valkyrjurnar sem eiga að berjast fyrir hagsmunum okkar stúdenta í ráðinu, gagnvart háskólanum og stjórnvöldum hafa misst sjónar á hinum rétta draum. Hinn rangi draumur hefur hreiðrað um sig í hjarta þeirra er minnst mega sín og eitrað huga og sál. Frami í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna! Heyr Heimdallur, heyr FUJ og heyri þeir er málið kunna að varða hvað þér hafið gjört okkur. Tengslin milli Sjálfstæðisflokksins og Vöku dyljast engum og virðist það vera sjálfvirkur sleppibúnaður sem hendir formönnum Vöku frá Hringbraut upp í Valhöll í sæti Heimdallarformanns og SUS stjórnina. Sama hefur verið uppi á teningnum að undanförnu hjá Röskvu. Þetta félag sem virtist vera ágætlega skipt á milli stjórnandstöðuflokkanna núverandi og Framsóknar virðist vera komið í fast slagtog með Samfylkingunni einvörðungu. Hvar endar þetta?
Ákveðnar ástæður eru fyrir því að stúdentar kjósa í stúdentaráð og háskólaráð. Ákveðnar forsendur eru fyrir því að stúdentum fannst ástæða til þess að bindast samtökum og mynda sameiginlegt ráð. Nefnilega að vernda og berjast fyrir hagsmunum og bættum kjörum nemenda. Það að vera talsmenn nemenda í eilífri baráttu fyrir sómasamlegum námslánum og bættri náms- og kennsluaðstöðu. Að hafa puttana í stúdentagörðum og leikskólum sem börn nemenda sækja. Sjá um að hægt sé að fá sér sómasamlega máltíð í skólanum. Fleiri hluti er hægt að nefna en við hljótum öll að sjá hversu gífurlega mikilvægt það er fyrir stúdenta að eiga sterka og góða baráttumenn og konur að í Stúdentaráði. Þá komum við að gagnrýni minni á núverandi fyrirkomulag. Að gefnum þeim sterku tengslum við fyrrnefnda stjórnmálaflokka, er hægt að hugsa sér þann möguleika að þeir sem vinna undir nafni þessara samtaka séu ekki að eingöngu vinna að hagsmunum stúdenta. Tengslin eru augljós og er í raun ástæðulaust fyrir mig að tilgreina hér með upptalningu hver fylgnin er við starfi í Röskvu og Vöku og framapoti í fyrrnefndum stjórnmálaflokkum, en hún er gríðarleg. Forsendur þess að vera í stúdentaráði og taka þátt í pólitík eiga eingöngu að vera þær er varða hagsmuni stúdenta. Við eigum að geta litið á þau sem okkar hagsmuni gæta sem traust og óbundin öðrum aðiljum sem annars konar hagmuni hafa sem gætu gengið beint gegn hagsmunum stúdenta. Slík er raunin í þessu tilfelli. Stúdentar geta ekki mikið lengur treyst þeim samtökum er nú sitja um stúdentaráð. Nýtt afl verður að koma fram. Afl sem hefur þá getu og þann vilja til að berjast af öllu afli fyrir réttindamálum og öllu því sem stúdentum er í hag.
Svar óskast.

Háttvirtur Bragi reit 10.12.02 02:59
Háttvirtir rituðu:

I realise I might be out of topic but check out this collection of best song lyrics http://www.lyricshosting.com

Athugasemd eftir song lyrics reit 15.09.05 17:14
Hjarta mitt gleðst ef ritar þú:

Muna eftir mér?Frá 25. apríl 2003