desember 29, 2002

Húrra fyrir Ingibjörgu

Var framsóknarbatteríið á leiðinni að útiloka sig frá kosningu í borginni? Ég vil meina að útspil þeirra hafi haft veruleg áhrif á hvernig gengi þeirra verður í næstu kosningum. Fléttan hjá Ingibjörgu var aðdáunarverð og sýndi enn á ný hvers hún er megnug. Hr. Tal af öllum, sem næsti borgarstjóri. Maður sem er óumdeilanlega snjall frumkvöðull og næs gæji með vinalegt andlit. Ég hef samt áhyggjur af hfun borgarinnar. Framkvæmdastjóri Reykjavíkur. Fæ bara hroll niður bakið þegar ég hugsa um Reykjavík corp. framtíðarinnar. Eða hvað er grýlan upphafin eða ei?

Bragi reit 08:49 EH | Comments (1)

desember 23, 2002

Áfram Ingibjörg!

Loksins varð draumurinn að veruleika. Sterkasti og skynsamasti stjórnmálamaður landsins á leiðinni aftur á Alþingi. Þessi umræða um að hún eigi ekki að sitja sem borgarstjóri á meðan er kjaftæði. Bull og vitleysa. Illa rökstutt kjaftæði sem ég ætla að láta vera að hrekja vegna þess að umræða sem sköpuð er af hræðslu er ávallt einskis nýt í besta falli og til sundrungar og skaða í versta falli. Framsóknarmenn ættu að skammast sín fyrir þessa endemis vitleysu. Mér finnst það skrítið að sá flokkur sem hefur mest um það að segja hvernig landinu er stjórnað skuli ekki sætta sig við það að borgarstjóri næli sér í hlutastarf í smá tíma. Ekkert sögðu þeir um Gunnar I Birgisson og Björn Bjarnason. Ég vona það og bið um þá jólagjöf að fá fyrsta kvenkyns forsætisráðherra á Íslandi.
Annars er ég að komast í jólaskap og sit núna heima hjá Zato nýbúinn að borða pasta og drekka smá jólaöl. Var að velta því fyrir mér hvort ekki væri hægt að skapa preststörf sem ekki væru tengd trú manna. Menn og konur sem sjá um athafnir sem varða skírn, manndómsvígslu, giftingar og jarðarfarir. Algerlega án tilvísunar til guðs eða jahve, krishnu og Búdda. Félagsráðgjafi hátíðleikans. Nafngift óskast á Stéttina. Ég býð ljósið velkomið og mun því borða góðan mat og opna pakka. Gleðisleg jól og veriði södd og ánægð um jólin.

Bragi reit 08:48 EH | Comments (0)

desember 20, 2002

Jafnrétti

Mér virðast karlmenn í dag ekki gera sér grein fyrir því að konur eiga ennþá langt í land hvað varðar að standa jafnfætis þeim hvað atvinnu og annað því tengt varðar. Einnig held ég að það sé mikill misskilningur um hvernig aðferðafræði nútíma feminista er í verki. Konur eru einfaldlega byrjaðar að nýta sér vald sitt til að jafna út möguleika og þetta fer í taugarnar á karlmönnum. Ástæðan fyrir þessu er einföld. Þó að samfélagið líti á okkur kynblint þ.e. líti ekki á kyn okkar þegar sótt er um vinnu etc. Þá hefur samt ákveðin þróun orðið á þeim þúsundum ára sem að karlmenn hafa ráðið vinnumarkaðnum sem að skilgreinir störf útfrá þörfum og eiginleikum karla. Einnig er það svo að konur sjá ennþá um börnin okkar að miklum meirihluta tilvika og slíkt er hægt að líta á sem ókost þegar konur eru ráðnar í vinnu. Þetta eru aðallega hlutirnir sem konur eru að reyna að jafna út. Eina augljósa leiðin er með lagasetningu og valdbeitingu. Þá erum við ekki að tala um einhver handalögmál heldur beiting laga og réttinda. Mér finnst einfaldlega óþolandi þetta skilningsleysi okkar karlmanna á aðstæðum kvenna. Um leið og upp kemur einhver umræða í þjóðfélaginu um að konur hafi náð árangri í þeirra baráttu þá eru þær sallaðar niður.

Bragi reit 12:38 EH | Comments (2)

desember 19, 2002

Svar við Tjaldri

Ég var að enda við að lesa andsvar við Stúdentagreininni minni á Tjaldrinum. Þar segist hann vera gjörsamlega ósammála mér og tekur upp hanskann fyrir Röskvu. Ekkert minntist hann á Vöku og get ég ekki lesið annað út úr svari hans að hann hafi ekkert verið algerlega ósammála mér. Ekkert bendir til þess að Vökuliðar þori og geti hrist Sjálfstæðisflokksstimpilinn af sér. Hvað varðar hina þætti greinarinnar kom tjaldur inn á mörg mál sem ég verð að vera sammála að hafa vigt og skipta máli. Hins vegar er líkt og þarna hafi verið um ákall um skráningu að ræða. Ég er sammála því að Röskva hefur verið dugleg við að þrífa af sér flokksorðið en almannarómur lýgur sjaldnar en stjórnmálamenn og verð ég því að vera sammála honum. Virkni annara en Samfylkingarmanna hefur verið svo að segja ómælanleg í Röskvu undafarin ár. Eflaust er hægt að nefna einhver góð dæmi en þrátt fyrir þau ler líklegt að 95% af þeim er virkir eru í Röskvu í dag munu setja x við S í komandi kosningum. Þetta get ég játað, mætti skýrast með því að benda á að öllum er frjálst að mæta og taka þátt í starfinu. En málið er bara það að þegar stór hópur hefur rottað sig saman og siglir undir einu flaggi er erfitt fyrir aðra að komast að.

Bragi reit 02:30 EH | Comments (0)

Byrjum ballið

Í stúdentablaðinu var skrifuð grein um mögulegan klofning innan Röskvu. Þessum klofning var klínt á Vinstri Græna sem að sjálfsögðu verandi á móti öllu hlutu að vera á móti samstarfi á vettvangi stúdentapólitíkur. Enn komum við að gamalkunnum punkti sem ég reyndi að minnast á hér um daginn. Flokkslínur úti í samfélaginu verða að hverfa þegar hugsað er um hagsmuni stúdenta. Þessi liðsmaður Vöku virðist vera þeirrar skoðunar að flokkspólitík og stúdentapólitík eigi að haldast í hendur. Ég fordæmi slíkar hugmyndir, sem illa ígrunduðum og hreint út sagt gegn öllum hugsanlegum hagsmunum stúdenta. Ekki er ég staddur á neinni skýrri línu í stjórnmálum í dag og á í raun erfitt með að staðsetja mig í flokk. Mér finnst forsjárhyggjan of rík hjá VG og mér finnst of rík áhersla lögð á Evrópumálin hjá Samfylkingunni. Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki til greina vegna djúpstæðrar hugmyndafræðilegrar gjár sem ég þyrfti að komast yfir til að selja sál mína. Framsókn og Frjálslyndir eru síðan of snauðir af hugmyndum og hugsjón að mér myndi finnast ég staddur í holu fjalli. Er þetta vandi fyrir stúdent sem vill taka þátt í starfi til framgangs hagsmuna sinna? Það er óneitanlega erfitt fyrir þann sem ekki er tilbúinn að setja sig í flokk að taka þátt í stúdentapólitík eins og hún er háð í dag. Sama hvað Vökumenn segja; Þið eruð í samkrulli með Sjálfstæðisflokknum. Ekki halda áfram að ljúga að okkur. Röskva er engu skárri nema hvað línurnar eru óskýrari þar. Einhverjir VG menn eru þar eftir en ég á t.d. erfitt með að sjá fyrir mér Framsóknarmenn kjósa annan hvorn þessara lista. Á röskvuvefnum er að finna gagnrýni á greinina sem skrifuð var í Stúdentablaðið. Ég er sammála flestu því sem þar segir. Ritstjóri Stúdentablaðsins er greinilega ekki hlutlaus og sýnir lélega fréttamennsku með því að hafa ekki fengið þennan orðróm staðfestan. Ég lái honum ekki fyrir að vera ekki hlutlaus enda hlutverk hans sem Vökuráðinn ritstjóra að vera varðhundur flokksins. Röskvuliðar eru alveg jafnsekir um þetta á langri valdatíð sinni. Hins vegar hefði hann alveg getað talað við mig eða hina sem erum að hugsa alvarlega um framboð þriðja valkostsins. Ég get alveg sagt honum það núna að ef eitthvað verður gert á þá leið að bjóða fram sér verður það ekki sem eitthvað klofningsframboð frá Röskvu heldur eitthvað sem verður sjálfstætt og óbundið flokkshagsmunum. Það er mjög líklegt að þetta framboð verði að veruleika og ekki held ég að það muni vera minni ógnun við Vöku en við Röskvu. Á miðað við athyglina sem fyrri greinin mín fékk og þann fjölda tölvupósts sem barst ákvað ég að setja upp commentakerfi og býð ég síðuna mína fram sem útgangspunkt fyrir góða og heilbrigða umræðu um málefni sem skipta stúdenta máli.

Bragi reit 01:17 FH | Comments (0)

desember 18, 2002

Nú er ég kominn með

Nú er ég kominn með nýtt lúkk og nýtt commentakerfi og vil ég þakka honum Jósa fyrir það. Nú geta vinveitt öfl og önnur varpað fram skoðunum sínum á þessu bloggi. Zato vil ég þakka sérstaklega fyrir að hafa fundið þetta einkar smekklega lúkk.

Bragi reit 07:00 EH | Comments (1)

Í kjölfarið á stúdentablogginu mínu

Í kjölfarið á stúdentablogginu mínu er ég búinn að fá töluverð viðbrögð og er ánægður að sjá að ekki láta allir stúdentar sér fátt um finnast hvað varðar hagsmuni sína. Ég ætla að drífa mig og setja upp commentakerfi hér á síðunni þannig að hægt verður að hafa alvöru rökræður um hvað gera skal. Búinn í bili.

Bragi reit 02:49 EH | Comments (1)

desember 10, 2002

Stúdentar heyrið!

Í Háskóla Íslands er rotnandi epli. Þetta epli heitir stúdentapólitík. Stjórnkerfi nemenda er stjórnað af tveimur öflum sem Vaka og Röskva heita. Röskva hefur haldið um stjórnvölinn undanfarinn áratug en nú hefur Vaka komið sér í drottnunarhlutverk. Vaka þessi er á margan hátt ágætis félagasamtök. Innan Vöku eru mætir menn og mætar konur sem öll eiga sér draum. Sama má segja um Röskvu. Þarna eru greinilega á ferðinni tvö félög hugsjónamanna og kvenna sem berjast hatrammlega, en drengilega þó, um völd í stúdentaráði. Vandamálið er bara að draumurinn þeirra er kominn á villigötur. Hann hefur ráfað um dimma dali í lengri tíma og erfitt er að sjá að réttmætir eigendur hans séu hans leitandi. Og kannski er það einmitt vandamálið. Ungu stríðsgarparnir og valkyrjurnar sem eiga að berjast fyrir hagsmunum okkar stúdenta í ráðinu, gagnvart háskólanum og stjórnvöldum hafa misst sjónar á hinum rétta draum. Hinn rangi draumur hefur hreiðrað um sig í hjarta þeirra er minnst mega sín og eitrað huga og sál. Frami í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna! Heyr Heimdallur, heyr FUJ og heyri þeir er málið kunna að varða hvað þér hafið gjört okkur. Tengslin milli Sjálfstæðisflokksins og Vöku dyljast engum og virðist það vera sjálfvirkur sleppibúnaður sem hendir formönnum Vöku frá Hringbraut upp í Valhöll í sæti Heimdallarformanns og SUS stjórnina. Sama hefur verið uppi á teningnum að undanförnu hjá Röskvu. Þetta félag sem virtist vera ágætlega skipt á milli stjórnandstöðuflokkanna núverandi og Framsóknar virðist vera komið í fast slagtog með Samfylkingunni einvörðungu. Hvar endar þetta?
Ákveðnar ástæður eru fyrir því að stúdentar kjósa í stúdentaráð og háskólaráð. Ákveðnar forsendur eru fyrir því að stúdentum fannst ástæða til þess að bindast samtökum og mynda sameiginlegt ráð. Nefnilega að vernda og berjast fyrir hagsmunum og bættum kjörum nemenda. Það að vera talsmenn nemenda í eilífri baráttu fyrir sómasamlegum námslánum og bættri náms- og kennsluaðstöðu. Að hafa puttana í stúdentagörðum og leikskólum sem börn nemenda sækja. Sjá um að hægt sé að fá sér sómasamlega máltíð í skólanum. Fleiri hluti er hægt að nefna en við hljótum öll að sjá hversu gífurlega mikilvægt það er fyrir stúdenta að eiga sterka og góða baráttumenn og konur að í Stúdentaráði. Þá komum við að gagnrýni minni á núverandi fyrirkomulag. Að gefnum þeim sterku tengslum við fyrrnefnda stjórnmálaflokka, er hægt að hugsa sér þann möguleika að þeir sem vinna undir nafni þessara samtaka séu ekki að eingöngu vinna að hagsmunum stúdenta. Tengslin eru augljós og er í raun ástæðulaust fyrir mig að tilgreina hér með upptalningu hver fylgnin er við starfi í Röskvu og Vöku og framapoti í fyrrnefndum stjórnmálaflokkum, en hún er gríðarleg. Forsendur þess að vera í stúdentaráði og taka þátt í pólitík eiga eingöngu að vera þær er varða hagsmuni stúdenta. Við eigum að geta litið á þau sem okkar hagsmuni gæta sem traust og óbundin öðrum aðiljum sem annars konar hagmuni hafa sem gætu gengið beint gegn hagsmunum stúdenta. Slík er raunin í þessu tilfelli. Stúdentar geta ekki mikið lengur treyst þeim samtökum er nú sitja um stúdentaráð. Nýtt afl verður að koma fram. Afl sem hefur þá getu og þann vilja til að berjast af öllu afli fyrir réttindamálum og öllu því sem stúdentum er í hag.
Svar óskast.

Bragi reit 02:59 FH | Comments (1)

desember 09, 2002

Herra minn... já og frú.

Í dag er mánudagur og lítur út fyrir að verða góður dagur. Mánudagur er því ekki á leiðinni að verða jafn leiðinlegur dagur og sunnudagur var, en hann var ekki dagur til að hrópa húrra fyrir. Sunnudagar eiga það nefnilega til að verða frekar einhæfir og mollukenndir. Enginn nennir að elda almennilegan mat, fólk fer ekki í fötin heldur gengur um í sloppnum þar til sólin sest og sér þá ekki ástæðu til að klæða sig. Þó er eitt einkenni sunnudaga það að fjölskylduboð virðast eiga sunnudaginn frátekinn. Þetta virðist ekki vera tilviljun, ef litið er á þann fjölda fjölskylduboða sem farið er í, er hægt að sjá að eflaust yfir helmingur af þeim hafa verið haldin á sunnudögum. Sumum finnst gaman í fjölskylduboðum. Ég þekkti einu sinni strák sem elskaði fjölskylduboð. Mjög sjaldan voru fjölskylduboð í hans fjölskyldu. Alltaf þegar ekkert fjölskylduboð var í hans fjölskyldu á sunnudegi, þá hringdi hann í alla vini sína og kannaði hvar boðin væru. Hann fór síðan á staðina einn eftir annan og bað um að fá að leika við vin sinn. Ef foreldrarnir sögðu að vinurinn væri upptekinn í fjölskylduboði þá gerðist hann ennþá ágengari og fór stundum hús úr húsi til að leita að boði sem var tilbúið að hleypa honum inn. Ég velti því oft fyrir mér hvað það var sem dró hann að fjölskylduboðum. Var það hlýja og góðmennska ömmunar og afans. Var það glettin stríðni föðurbróðursins. Kannski líkaði honum og fannst gaman að sjá hvað fólkinu sem átti bágt var vel tekið í fjölskylduboðum. Feita stelpan með bólurnar naut jafnmikillar ástar í fjölskylduboði og frænka hennar sem söng í léttmjólkurauglýsingunni. Þær léku sér á jafningjagrundvelli í fjölskylduboðinu. Ég var forvitinn um það og ákvað að spyrja hann. Svarið var í raun loðið og hefði ég verið eldri hefði ég búist við þesskonar svari. Ástæðan var nefnilega sú að pabbi hans var venjulegast ekki kominn heim á sunnudögum. Ég vissi ekki að pabbi hans væri að vinna svona skrítna vinnu sem héldi honum alltaf frá því að halda fjölskylduboð á sunnudögum. Ég þekkti strákinn hvort sem er ekkert það mikið að ég vissi hvað pabbi hans var að vinna við. Mér var í rauninni alveg sama. Alltaf eftir þetta þá bauð ég honum í boðin heima hjá okkur. Við lékum okkur saman og mér fannst hann vera skemmtilegur leikfélagi. Hann hló á svo sérstakann hátt. Alveg eins og slanga. Hiss hiss hiss hló hann. Honum þótti ósköp vænt um að fá að koma í boðin heim til mín og ég var í raun feginn að fá leikfélaga. Mér þykja nefnilega fjölskylduboð ekkert skemmtileg. Ég þurfti alltaf að klæða mig í betri fötin og haga mér eins og ég vissi að fólk hagaði sér ekki neitt. Tala öðruvísi og hreyfa sig öðruvísi. Standa í röð þegar maturinn og kökurnar eru framreiddar. Iss, hvað halda menn að maður nenni þessu. En strákurinn virtist elska það. Þá meina ég líka elska að bíða aftast í röðinni og hleypa eldra fólki fram fyrir sig, sem þakkaði fyrir sig með orðunum, ,,mikið er hann kurteis, þessi elska, ja svei ef allir litlir strákar væru eins og þú". Hann elskaði að segja þakka þér í staðinn fyrir takk og hafið þér góðan dag í staðinn fyrir bless. Eftir að hann hafði farið í töluvert margar veislur heima hjá mér og við vorum orðnir mjög góðir vinir þá hringir hann einn daginn í mig. Hann sagðist ekki geta komið í fleiri fjölskylduboð, hann væri að flytja út á land og hann myndi örugglega hafa samband þaðan sem hann væri að fara. Þetta var það seinasta sem ég heyrði frá þessum strák þangað til fyrir tveimur árum. Þá birtist mynd af föður hans í dánarfregnum Morgunblaðsins. Ég ákvað að reyna að hafa upp á stráknum sem átt hafði með mér svo margar góðar stundir. Ég fann hann í fangelsi. Hann drap pabba sinn. Pabbi hans hafði aldrei verið í vinnu.

Þessi saga er ekki sönn. Hins vegar eru atburðir æsku oft skýrari og réttari löngu eftir að þeir hafa verið upplifðir. Suma hluti hafa foreldrar ykkar haldið frá ykkur til að hlífa ykkur og sumt áttuðuð þið ykkur ekki á fyrr en eftir lengri tíma. Er barnæskan tími sakleysis eða barnslegrar fávisku?

Bragi reit 06:30 FH | Comments (0)

desember 06, 2002

Ég er búinn að blogga

Ég er búinn að blogga í nokkur skipti síðan síðasta blogg kom á skjáinn en eitthvað faul í kerfinu hefur gert það að verkum að öll mín skrif eru fyrir bí. Nú auglýsi ég síðuna mína sem verður sett upp eftir nokkrar vikur á slóðinni www.hafduthetta.com mun hún verða ykkur til mikillar ánægju. Einnig vil ég benda ykkur á að sögugarpurinn hann Níels er við það að setja upp söguvef!!! Hamingja :)

Bragi reit 11:10 EH | Comments (1)