júlí 15, 2002

Ég held að ég lykti illa?

Var að koma heim úr sumarbústaðaferð sem upprunalega átti að verða svaka partý. Ég tók tjald með svona til öryggis ef skyldi vera að svefnplássi skyldi verða áfátt. Þegar við vorum svo komin í bústaðinn þá voru nánast allir búnir að afboða sig sem ætluðu að koma með. Sumir héldu reyndar vonarneista í hjörtum okkar lifandi, um að þeir myndu nú hysja upp um sig brækurnar daginn eftir (laugardag) og bruna niðreftir. Þannig var fyrsta kvöldmáltíðin étin með hugann við hvað það yrði nú gaman þegar allir kæmu og þá yrði sko partý. Snemma fyrsta kvöldið var ég meira að segja byrjaður að hafa áhyggjur af því hvað ég hefði tekið lítið áfengi með, en Jósi, hvers foreldrar eiga bústaðinn, róaði mig niður með því að hafa samband við vin sinn og bað hann um að koma við í ríkinu áður en hann leggði af stað á laugardagsmorgun. Um tíuleytið áttuðum við okkur á því akkuru enginn væri kominn. Það var svo erfitt að ná í símana okkar, auðvitað. Þannig að við þeystum upp í skála þar sem sími þeirra var misnotaður í símtöl til fullra Reykvíkinga í Reykjavík til að útskýra fyrir þeim að við værum í Stuttarbotnum 17 ekki nítján eins og stæði á skiltinu. Skelltum okkur svo í pottinn og spiluðum Gettu betur heldur betur en Reynir Pétur. Ég vaknaði svangur og þyrstur á laugardagsmorgun og illur grunur læddist að mér, skyldi vinur hans Jósa hafa gleymt að ná í bús handa okkur? Við borðum morgunmat og hefjum síðan örvæntingarfulla tilraun til að sannfæra þau sem ekki höfðu komið á föstudaginn hversu vel við skemmtum okkur og að það væri allt í lagi að þau afboðuðu sig. Við vorum alveg fullfær um að skemmta okkur sjálf. Hver þarf svo sem á vinum að halda. Skemmtum okkur vel við að láta glyrnurnar stara á hraun frussa, kletta merja á og borga offjár til að skoða plaggöt í Reykholti (safn hvað?). Síðan lékum við okkur lömbin þrjú í hottinpottin og gerðum flöskur og dósir að fallegum og indælum sundlaugarleikföngum. Svengdin tróð sér inn á okkur um miðnætti og upphófst sú lengsta tilraun við grillskap sem ég hef tekið þátt í. Það var alltaf eitthvað að kolunum og síðan var olían ekkert að virka heldur. Til að gera langa sögu stutta borðuðum við kvöldmat klukkan hálf-fjögur um morguninn og fórum síðan að sofa. Þegar ég vaknaði var ég dauðslifandi feginn að þetta pakk hafði ekki komið með fleiri einingar af eldvatni því þá hefði ekki verið svona gott að vakna. Einnig var ágætt að við Kristjana sátum ein að öllu loftinu sem svefnstað, gott ef ég heyrði ekki bergmál hrota minna líða um loftin eins og þröstur í lautu. Eftir morgunmat áttaði ég mig á því að við værum ekki langt frá Surtshelli og heimtaði ég að fá að kíkja oní holuna og dró ég hin tvö með mér eins og lítill drengur í stórmarkaði sem hefur áttað sig á því hvað þarf til að næla sér í sleikjó. Surtshelli skoðuðum við og einnig íshelli sem er eins og dropasteinshellar, nema þessir dropasteinar voru gerðir úr klaka (meget sjovt). Eftir þessa ferð var kominn tími til að halda heim og sannfærði nánösin hann ég hitt fólkið að það væri náttúrulega rán að fara í gegnum göngin og borga að jafnvirði tveggja bjóra fyrir það. Miklu sniðugra væri að fara einhverja ófæra ófæru sem færi með bílinn minn eins og gamla konu í nuddpotti. Ég hef reyndar aldrei séð gamla konu missa auga úr tóftunum sem er það sem kom fyrir bílinn minn, hékk eitt ljósið út úr ljóstóftunum? hálfa leiðina þar til ég áttaði mig á því og leitaði um allan bíl að einhverju til að festa það með. Jósi lék í því efni bjargvættinn mikla og dró fram heftiplástur úr fyrstu hjálpar tösku frænku hans og þannig staulaðist Bíllinn minn í bæinn. Næst þá verður sko partý....plís.

Bragi reit 01:29 FH | Comments (1)